Fimmtudagur 16.07.2020 - 14:19 - FB ummæli ()

Brunavarnir okkar og ljósefnin góðu

Flestir líta á gott fæði fyrst og fremst út frá næringargildi og ferskleika. Það væri svo sem í lagi ef passað væri líka upp á fjölbreytileikann. Vítamín og alls konar lífræn bætiefni í grænmeti, ávöxtum og jurtum, sem líkaminn þarf til daglegrar viðgerða og enduruppbyggingar, í samspili við ónæmiskerfið. Eins gegn árásum óæskilegra örveira og mengunarefna sem við vitum ekki alltaf hvaðan eru upprunnin. Við reisum þannig okkur eigin eldveggi í nánum tengslum við næringuna og umhverfið.

Við þurfum ekki síður að hafa áhyggjur af ýmsum tilbúnum lífrænum efnum og sem við sjálf framleiðum í iðnaði, en sem safnast geta fyrir í okkur og umhverfinu. T.d. þrávirk lífræn efni eins og  PFC efnin og hormónalíku plastefnin (hormónahermar). Eins allskonar rykefni og örefnin (nano products) sem eru svo lítil að þau ná að smygla sér inn í frumurnar eins og Trójuhestar. Sama á við um skordýraeitur, sýklalyf, rotvarnarefni og ýmsa vaxtarhvetjandi hormóna í matvælum. Efni sem berast m.a. í okkur með kjöti, af  misvel þekktum uppruna erlendis frá. Þriðjungur krabbameina er auk þess talin tengjast slæmu fæðuvali eingöngu, of miklum hvítri sykri og fitu.

Uppsöfnun á ýmsum þrávirkum lífrænum efnum í náttúrunni er stöðugt að aukast. PFC efnin hafa verið mikið til umræðu undanfarið. Þau eru mikið notuð innan á skyndibitapakkningar allskonar og sem teflonhúð á eldhúsáhöldum vegna vatns- og fitufælinna eiginleika. Efni sem líklega geta bælt ónæmiskerfi barna og okkar sjálfra. Eins er um að ræða öll hormónalíku plastefnin (þalöt) sem líkt geta eftir hormónum í verkun (hormónahermar). Efni sem notuð eru sem mýkingarefni í allskonar leikföngum, plastumbúðum og áhöldum tengt matargerð, en borist geta auðveldlega í okkur gegnum húð, mat og drykk. Efni sem m.a. draga úr frjósemi dýra og manna, og flýtir kynþroska unglingsstúlkna. Verst hvað öll þessi þrávirku efni eru mörg og að þeim skuli alltaf vera að fjölga.

Fæði sem í daglegu tali hefur verið kallað erlendis „functional food“ inniheldur hins vegar meira af allskonar lífrænum efnum til verndar. Efni sem virka gegn oxun og þránun próteina í frumunum okkar og á erfðaefninu sem öllu stjórnar. Oxunin er nefnilega stöðugt að verki og óumflýjanleg, ekkert ólíkt og þegar fita þránar og járn ryðgar. Eins á heildrænt fæði að tryggja hagstæðari gerla fyrir flóruna okkar sem hafa skaddast einhverja hluta vegna, eins og t.d. við sýklalyfjainntöku. Gerla sem hægt er að taka inn sem „probiotics“ í stöðluðu magni. Allt til að bæta það sem á vantar í fæðunni okkar.

Ljósefni sem ég vil kalla (phytochemicals), eru sérstök náttúruefni úr jurtaríkinu og sem ekki eru skilgreind sem vítamín eða næringarefni til brennslu eða próteinuppbyggingar, en jafn mikilvæg fyrir okkur á allt annan hátt. Efni sem gefa jurtum sína einstöku eiginleika, tengt lit og lykt. Fyrir utan oft afoxandi eiginleika eru þau talin hafa hvert um sig sína sérstöku eiginleika m.a. til verndar skemmdum á erfðaefninu.

Vítamín, önnur afoxunarefni, steinefni og flóknir efnaferlar með ljósefnunum vernda okkur þannig gegn oxun, hrörnun og öldrun. Þegar alvarleg veikindi herja eða við höfum borðað skemmdan mat. T.d. brenndan/grillaðann og sem eykur þá myndun frírra stakeinda (radíkala) og oxun frumna. Sambærilegt og þegr járn ryðgar.

Íslensku tómatarnir eru hlaðnir æskilegum ljósefnum. Eins mætti telja gullinrót (curcumin öðru nafni turmeric), chilli pipar, engiferrót, hvítlauk, sojabaunir, brokkolí, jafnvel kál, vínber, hunang, grænt te og kaffi. Listinn er í raun miklu lengri. Einna mest vitum við um áhrif gullinrótarinnar. Hugsanlega sem vernd gegn elliglöpum og Alzheimer´s sjúkdómnum. Jafnvel sem hluta krabbameinsmeðferðar og þegar hvað mikilvægast er að byggja hratt upp, það sem rifið hefur verið niður.

Ljósefnin gætu þannig verið svarið til að styrkja ónæmiskerfið sem mest gegn sýkingum, hrörnun, krabbameinum og ófrjósemi. – mál málanna í dag á Covid-tímum, ásamt auðvitað almennt heilbrigðum lífstíl. (Styttri útgáfa af greininni var upphaflega birt í helgarblaði DV, 22.11.2013 og á blogginu mínu)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn