Laugardagur 28.11.2020 - 11:05 - FB ummæli ()

Ákvörðun strax í dag, besta jólagjöfin í ár

Svartur föstudagur á Hólmavík , 27.11.2020

Uppahaf fjórðu bylgju Covid19 faraldursins hér á landi eru mikil vonbrigði og þegar loks eygir í bólusetningu eftir jafnvel mánuð. Íslendingum hefur tekist með smitvörnum, samstöðu og smitrakningu að sýna meiri mótspyrnu gegn veirunni en flestar aðrar þjóðir frá upphafi faraldursins og smit í lok þriðju bylgju faraldursins með því minnsta í allri Evrópu og þar sem faraldurinn er enn í miklum vexti. Aðstæður í síðustu viku gætu varla hafa verið betri og margir farnir að hlakka til jólanna í smitlitlu landi. Nú í jólaundirbúningi þjóðarinnar er aftur mikil ógn framundan. Aðstæður og fyrirsjáanleiki afleiðinga eru hins vegar mjög ólík á höfuðborgarsvæðinu, þar sem öll smit sl. viku hafa greinst og síðan víða í dreifbýli landsins. Varnarmöguleikar gegn veirunni líka.

Ég var hér á Stöndum um páskana og þá enn smitlaust í héraðinu. Svo er enn, ekki eitt einasta smit sem rakið er til Stranda og aðeins einn sem var greindur fyrir sunnan en sem fór í einangrun á Hólmavík og viðeigandi sóttkví ákveðin fyrir nákominna og þar sem síðar ekkert smit varð úr (fyrir nokkum vikum). Sennilega eina héraðið á landinu þar sem ekker smit hefur komið upp. Þakka hefur mátt aðgæslu þennan árangur og tillitsemi ættingja og vina heimamanna að takmarka eins og kostur hefur verið ferðalög norður og eins ferðir heimamanna í smitaða landshluta hverju sinni.

Læknishéraðið á Stöndum er stórt, en íbúar fáir. Tveir þéttbýliskjarnar á Hólmavík og Drangsnesi. Mjög strjálbýl byggð í sveitinni sem teygir sig norður í Árneshrepp og Innra-Djúp og suður strandir við vestanverðan Húnaflóa. Almannavarnasvæðið og gangvart slysum og bráðauppákomum jafnvel líka til Austur-Baðarastrandasýslu og Reykhólahrepps í Dalasýslu, í góðri samvinnu við Heilsugæsluna í Búðardal og sem allt heyrir í dag undir Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE).

Á Hólmavík hefur hins vegar ekki verið fastur hjúkrunarfræðingur síðan í apríl. Sjúkrahúsið yfirleitt fullt og aðeins einn sjúkraflutningsbíll fyrir héraðið. Oft langir sjúkraflutningar og erfið færð á veturna eins og t.d. síðast nú um helgina. Enginn flugvöllur til taks nema norður í Árneshreppi á Gjögri. Meðalaldur íbúa héraðsins er hvað hæstur á öllu landinu, en innviðirnir samfélagsins hvergi veikari og þegar mest liggur við.

Margir staðir á landinu eru þó svipaðir í sveit settir hvað aðgengi að nauðsynlegri bráðaþjónustu varðar og sem var ein ástæða til lagasetningar á verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar í gær. Ástand sem annanars ógnaði almannaheill, einkum á landsbyggðinni og á miðunum. Þjónusta sem er álíka nauðsynleg og flestir neyðarflutningar með sjúkrabílum á höfuðborgarsvæðinu. Auðvelt er líka að sjá hvað gerist ef hópsmit kemur upp í slíku dreifbýlissamfélagi og þar sem gæta þarf auk þess mikillar aðgæslu í nánd við þann sjúka. Hið sorglega Landakotsmál sýnir vel hvað gerst getur jafnvel innan háskólasjúkrahúss og teljast má mikil heppni að fleiri alvarlegar hópsýkingar hafi ekki komið upp á fleiri deildum spítalans og öðrum heilbrigðisstofnunum. Reynsla af slíkum uppákomum er reyndar þegar á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Bolungarvík fyrir páska. Þar sem þurfti svo að kalla til bakvarðasveit að sunnan og aðrir komu úr nærliggjandi sveitum, m.a. heðan af Ströndum.

Smit á sjúkrastofnuninni á Hólmavík gæti þýtt að meirihluti stafsmanna yrði að fara í sóttkví. Gamla fólkið stæði afar illa að vígi, á hjúkrunar- og elliheimilinu og úti í samfélaginu. Erfitt gæti verið með sjúkraflutninga suður á covid-deildir um hávetur. Eins að koma bara sýnum suður á LSH til greiningar. Bjargir gætu þanninig verið fáar og erfiðar ef Covid19- hópsýking brytist hér út. Í héraði sem hefur á allt að ótrúlegan hátt sloppið hingað til við einn hættulegasta veirufaraldur aldarinnar, eða allt frá Spænsku-veikinni 1918-1919. Frá þeim tíma og síðast var beitt ákvæðum um afkvíun til að verjast faraldri fyrir sunnan og sem heppnaðist vel fyrir Norð-vesturland og Vestfirði í fyrstu bylgju faraldursins. Afkvíun sem var af frumkvæði heimamanna fyrst og fremst með samgöngubanni og ferðatakmörkunum og þar sem þrátt fyrir allt fáir landsmenn höfðu smitast.

Mjög vel tókst til um páskana með tilmælum sóttvarnayfirvalda og almannavarna að ferðast ekki á milli landshluta nema brýn nauðsyn sé til. Tilmælum var einkum beint til þeirra sem kæmu frá smituðum svæðum, en einnig til heimamanna að sækja ekki ónauðsynlega þjónustu inn á sýkt svæði og mikil hætta gæti þá verið á að fólk bæri með sér jafnvel einkennalaust/lítið smit í heimabyggð. Þetta tókst mjög vel á Ströndum.

Nú eru jólin framundan og margir heimamenn á Ströndum sennilega hugsandi yfir jólagjöfunum og sem á eftir að kaupa fyrir sunnan. Eins slík ferð gæti hins vegar valdið hópsýkingu heima síðar, enda mikið um óvenju dreifð greind smit í höfuðborginni sl. 2 vikur, og þó sérstaklega allra síðustu daga. Smit kom upp á norðanverðum Vestfjörðum í gær eftir slíka ferð og 20 nú þar í sóttkví. Afkvíun strax og vonandi með með ávkveðnum tilmælum yfirvalda til almennings, gæti komið í veg fyrir að smit bærist nú á Strandir og auðvitað víðar um land, fram yfir hátíðarnar og þangað til við öll komumst í gott var með bóluefnum. Betri jólagjöf væri ekki hægt að hugsa sér fyrir samfélagið okkar. Jólin í ár að við sitjum meira saman í heimabyggð og nýtum okkur áfram netsambandið við fjarstadda fjölskyldumeðlimi og vini. Og kannski að við frestum í vissum skilningi þá bara jólunum og stór-fjölskylduhátíðinni fram á Þorrann.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn