Fimmtudagur 19.11.2020 - 10:54 - FB ummæli ()

Enn og aftur – bólusetning kemur okkur til bjargar

Ari Arason (1763-1840) fjórðungslæknir á Flugumýri í Skagafirði https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/03/19/til-hamingju/

Bólusetning gegn Covid19 er mál málanna í dag og sem allir treysta á. Mikill lærdómur og vinna liggur að baki þeim árangri að geta ráðið við smitsjúkdóma sem stundum voru drepsóttir á öldum áður og lagt gátu heilu þjóðfélögin í rúst. Ekki bara með hjálp vísindanna að finna bóluefnin og framleiða réttu sýkla- og veirulyfin, heldur einnig hvernig við getum farið rétt og jafnvel betur með þessi lyf og viðhaldið því hjarðónæmi sem þarf til að halda smitvöldunum utan girðingar. Eins með stöðugri vinnu heilbrigðisyfirvalda og vísindasamfélagsins alls og benda á þau forgangsmál sem skiptir heilsu okkar og langlífi hvað mestu máli í dag. Jafn aðgangur að góðum og nauðsynlegum bólusetningum fyrir unga sem aldna.

Bólusetning er samt einstakt orð í íslenskri tungu og sem höfðar beint til sögunnar og bólusóttar, ólíkt öðrum tungumálum og þar sem aðgerðin vísar meira bara til ónæmingar (immunization) eða kúabólunnar (vaccination). Í eðli sínu er bólusetning aðeins smá kynning á veirum og bakteríum sem getað herjað á okkur og sem gerir ónæmiskerfinu kleyft að bregðast hratt við og ef við verðum útsett fyrir smiti. Með ræsingu á eigin mótefnum sem gerir smitefnið óvirkt og áður en það nær að vinna á okkur mein.

En hver er saga bólusetninga almennt talað og hvernig hugsuðu menn hana. Hverjir tóku þátt í átakinu og hvernig var skráningu háttað? Hverjir nutu forgangs og fyrir hverja?

https://blog.dv.is/…/ef-bolan-tekur-hann-ekki-eir-ix…/

Bólusóttin (sérstaklega stóra-bóla 1706-1709) hafði gríðarlega mikil áhrif mannfjölda íslensku þjóðarinnar gengum aldirnar. Án hennar væru Íslendingar í dag sennilega vel yfir milljón manns. Leitt hefur verið að því líkum að bólusóttin hafi átt ríkan þátt í endalokum þjóðveldisins á þrettándu öld, með því að draga svo úr viðnámsþrótti þjóðarinnar að henni var nauðsynlegt að ganga erlendu valdi á hönd. Áhrif hennar á 18 öldina er sennilega líka vanmetin í Íslandssögunni. Að tilstuðlan Danakonungs sem sá aumur á þjóðinni og hve illa hún hafði farið út úr bólusótt í upphafi 18. aldar, miklu verr en aðrar Evrópuþjóðir að viðbættum móðuharðindunum, var kúabóluefni útvegað til Íslands, einna fyrst þjóða. Frá því fyrsta bólusetningin uppgötvaðist í heiminum gegn bólusóttinni, 1796-98, liðu þannig ekki nema örfá ár þar til byrjað var að bólusetja alþýðuna hér á landi (1805). Í þá daga voru kirkjubækurnar einar nothæfar til að halda utan um bólusetningarnar og prestar landsins sáu jafnvel um aðgerðina, enda aðeins 6 héraðslæknar starfandi á landinu og Landlæknisembættið nýstofanð (1760). Tveimur öldum síðar tókst loks að útrýma sóttinni. En gefum Guðmundi Björnssyni, lækni áfram orðið í alþýðutímaritinu Eir um heilbrigðismál frá árinu 1899, um stórubólu og „bólusetningu“ í framhaldi af síðasta pistli.:

„Löngu fyrir Krist burð var Indverjum kunnugt, að færa má með nál bóluvessa úr bólusjúkum manni inn í hörund heilbrigðs manns, og fær þá bólusótt, þá er oftast er vægari, en ella gerist. Þessi aðferð köllum vér mannabólusetning(variolation) og tíðkaðist hún um langan aldur á Indlandi. Prestar þeirra Indverja (Bramínar) höfðu þessa bólusetningu á hendi; þeir geymdu bóluefnið á þann hátt, að þeir vættu línþræði í bóluvessa þeirra manna, sem þeir höfðu bólusett, þurkuðu þræðina og bleyttu þá upp aftur að ári, þá er bólusetja skyldi aftur að nýju. Þannig héldu þeir bóluefninu við ár eftir ár, enda vörðust þeir að taka blóðvessa úr mönnum, er fengið höfðu bóluna sjálfkrafa. Á 18 öldinni barst þessi aðferð hingað vestur til álfunnar og var talsvert tíðkuð, einkum á Englandi. Sá ókostur fylgdi mannabólusetningunni, að margir af þeim, sem bólusettir vóru, fengu allsvæsna bólusótt og nokkrir biðu bana af. Þá var það annað ekki betra, að þessi setta bóla var næm, eins og vanaleg bólusótt, og þá er hún barst á heilbrigt fólk af hinum bólusettu, kom hún aftur fram í almætti sínu, engu vægari en áður hafði gerst. Er það álit manna, að þessar mannabólusetningar hafi orðið til þess, að greiða bólusóttinni götu og auka útbreiðslu hennar á 18. öldinni.

Í litlum bæ á Englandi gerðist í kyrþay 14. dag Maím. 1796 sá atburður í sögu mannkyns, að fáir eða engir hafa merkari orðið á síðari öldum, ef litið er á afleiðingarnar. Það var þá, að læknirinn Edward Jenner tók bóluefni úr mjaltastúlku og sett í dreng, 8 vetra gamlan, en stúlkan hafði fengið bólur sínar ekki af mönnum, heldur af kú, er hún hafði mjaltað. Hálfum mánuði síðar, 1. dag Júním., tók Jenner bóluvessa úr bólusjúkum manni og setti í sama drenginn og varð brátt þess vísari, að vessinn hreif ekki á hann; bólan beit ekki á drenginn. Tveimur árum síðar ritaði Jenner bækling um þessar kúabólusetningar sínar (vaccination, vacca á latinu = kú). Á fáum árum barst orðstír hans um alla Norðurálfuna og alstaðar var kúabólusetningin tekin upp og henni fagnað frekara en frá verður skýrt. Bólan var unnin! Hugsum oss að einhver fyndi ráð til þess að verja menn berklasótt – hvílíkur fögnuður þá mundi óma um allan heim, en ekki mundi hann meiri, en fögnuður þeirra manna, sem uppi voru um síðustu aldarmót og sáu bólusóttina brotna á bak aftur. Jenner hugði að bólan mundi deyja út. Hún hefir ekki gert það: hún lifir enn, þótt víðast sé við veikan mátt. En það er ekki Jenner að kenna, heldur heimsku og þrá mannanna, þessum tveimur torfærum á vegi alls þess, sem nýtt er og satt og gott.“

„Því er oft hreyft, að bólusetning getur gert börnum mein. Í Englandi er uppi stór flokkur manna, þeirra er berjast gegn allri bólusetningu með hnúum og hnefum. Engin sannindi eru allra eign.“ Látum þetta vera lokaorð Guðmundar Björnssonar í bili úr tímaritinu Eir rétt fyrir aldarmótin 1900, um leið og við hugsum til þeirra sem setja sig gegn ungbarnabólusetningum eins og mislingum í dag.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn