Mánudagur 26.10.2020 - 17:54 - FB ummæli ()

Covid og nándin

Allar líkur eru á langvarandi samfélagsbreytingum á Íslandi, sem og annars staðar í heiminum vegna Covid19 faraldursins nú. Faraldur sem hefur haft meiri áhrif samfélagshegðun okkar en nokkur annar faraldur í sögunni. Ekki með tilliti til alvarleika eða dauðsfalla, heldur félagslegra viðhorfa. Nándina hvort við annað, jafnvel til lengri framtíðar, atvinnumöguleika, menningaviðburða og annarra tækifæra í lífinu. Smitsjúkdómur sem líka um margt hegðar sér ólíkt öllum öðrum smitsjúkdómum og sem við skilum enn ekki enn til fulls.

Sennilega höfum við lengi lifað í óraunhæfri gerviveröld öryggis, tilbúinni bublu ef svo má segja og þar sem jafnvel náttúrulögmálin hafa verið látin víkja. Treyst á mátt vísindanna og tækniframfarir, en “náttúrleg” nándarmörk landfræðinnar sniðgengin með auðveldum samgöngum, jafnvel heimálfa á milli. Ofhitnun jarðar og mengun hverskonar ógna lífríkinu víða um heim og þar mörg landsvæði stefna í að verða óbyggileg. Baráttu við smitsjúkdómana töldum við samt okkur nokkuð örugg með, eða hvað?

Lífsgæðakapphlaupið hefur ráðið för í hinum vestræna og tæknivædda heimi og allt talið mögulegt. Þar til nú. Framfarir í læknavísindum hafa verið gríðarmiklar sl. öld. Bóluefni framleidd gegn sífellt fleiri örveirum og jafnvel sýklum þar sem sýklalyfin duga ekki, eða eru hætt að virka, mikið til vegna ofnotkunar. Nærflóran (microbiom) okkar sem er samansett úr miklu fleiri eindum örveira en líkamsfrumurnar, er í nánu samspili við ónæmiskerfið og nánasta nærumhverfi. Smit flórunnar  á milli og úr nærumhverfinu er þannig náttúrulegt og eðlilegt. Sennilega ekkert ósvipað og félagslegu tengslin og nánd hvort við annað sem samfélagsverur. Ónæmiskerfið, það frumubundna og líka fjarlæga með frumum sem framleiða sérhæfð mótefni fyrir okkur, skilar okkur enn betra jafnvægi. Allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Skil, sem nú eru sett vegna Covid-smitáhættu, fjarlægðamörkin sérstaklega, maskar og sprittun endalaust, spila inn á þetta jafnvægi. Skammtímaráðstafanir sem eru taldar nauðsynlegar og meðan við sjáum ekki fyrir enda mesta Covidstormsins. Engu að síður varasamari varúðaráðstafanir á margan hátt eftir því sem lengra dregur. Langtímalögmál smitsjúkdómanna í lífríkinu fer sínu fram.

Hef sjálfur helgað stórum hluta af starfsæfi minni í rannsóknum á samspili oft óþarfa úrræða eins og sýklalyfjameðferða og áhrifa lyfjanna á nærflóruna okkar. Með faraldsfræðirannsóknum á sýklalyfjaónæmum flórubakteríum um landið og sem jafnframt geta verið okkar algengustu sýkingarvaldar. Eins með rannsóknum á bóluefnum gegn þessum m.a. sýklalyfjaónæmu stofnum. Bóluefni sem gagnast hafa vel íslenskum börnum, en þar sem jafnframt er hætta á að aðrir stofnar en bóluefnin virka á, fylli í skarðið. Sérstaklega sýklalyfjaónæmir stofnar og ef sýklalyfjaþrýstingur frá okkur sjálfum minnkar ekki vegna óþarfa ávísana eða ef álíka stofnar eru beinlínis fluttir til okkar með hrávöru erlendis frá. Þannig eltum við stundum skottið á okkur í hringdansi firringar og því sem hentar ekki hverju sinni og margir vilja ekki sjá vegna sérhagsmuna.

Umbreyting og skerðing áunninna lífsgæða síðustu aldar, blasir nú við hinum vestræna heimi. E.t.v. líka vegna ofsahræðsluviðbragða við því óþekkta og smitsjúkdómafaraldri sem þó er ekki skaðlegri en margir aðrir sem gengið hafa sl. öld. Úræði læknisfræðinnar líka miklu meiri, ef vel er staðið að málum og þótt við stöndum á gati í öllum fréttaflutninginum. Þjóðaröryggisráð jafnvel skipað af ríkisstjórn til að fylgja fréttaflutningi eftir, sjálfskipað jafnvel af blaðamönnunum einum! Spurningar um stríðsaðgerðirnar hljóta að snúa að fórnarkostnaði. Varðandi almenna heilsuvernd í náinni framtíð og félagslegt öryggi og lýðræði. Spurningar sem verða áleitnari eftir sem tíminn líður, mánuðir, ár? Staður og stund a.m.k. að spá í næstu skref. Sóknamöguleika hugsanlega með breyttu hugafari og þar sem tekið er tillit til allra þátta og lífslögmálanna.

Ekki má fórna nálægðinni milli okkar um of. Með samt skynsamlegri nálgun á hreinlæti og sóttvörnum. Það verður að tryggja mannkyninu öllu sem bestan tilverurétt. Við höfum viljað getað nálgast allt í hvelli. Internetið í samskiptum og í ferðalögum til ólíkra heimsálfa. Stórar samkomur, því stærri, því betri. Veraldlegum gæðum sjaldan jafn misskipt milli jarðarbúa. Sjaldan hefur skilið meira á milli feigs og ófeigs með nándarhugtakinu. Meira landfræðilega en í okkar nánast umhverfi. Vonandi alls ekki á nándinni í daglegum samskiptum okkar á milli og sem oft mættu vera miklu meiri. Þar sem rafræna nándin hefur hins vegar oft verið látin duga og skilið eftir einmannaleikann hjá allt of mörgum. Bráðar aðgerðir gegn pestinni mega alls ekki verða til að eyðileggja það sem er okkur kærast. Við herðum frekar aðeins á ólunum, en göngum síðan til baka í normið, reynslunni ríkari, vonandi.

Vonandi stefnum við í lygnari sjó. Tæklum veiruna með öllum hugsanlegum góðum ráðum. Einhvernvegin verðum hins vegar að ná að skapa hjarðónæmi fyrir þessari veiru. Eins og gegn öllum öðrum slæmum pestum. Vonandi sem fyrst m.a. með hjálp bóluefna og án of mikils lýðheilsuskaða. Við megum samt aldrei missa sýn á okkar mikilvægustu félagslegu gildum og á mikilvægi nándarinnar hvort við annað. Við verðum að getað lifað með augljósum framtíðaráhættum smitsjúkdómanna. Varnirnar eru í okkar höndum og vísindanna. Eins augljósar nauðsynlegar bráðaaðgerðir gegn röskun lífríkis jarðar sem rekja má til lifnaðarhátta mannsins. Þar sem nándarmörkin hafa svo sannarlega verið troðin niður á mörgum sviðum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn