Sunnudagur 04.10.2020 - 19:02 - FB ummæli ()

Kortin hans Fúsa…

Í miðjum Covid-heimsfaraldri á Ströndum, staldrar maður auðvitað við. Sagan á Ströndum og upplýsingaflæðið úr fjölmiðlunum í þéttbýlinu vekur upp áður óþekktar tilfinningar og hugsanir. Í brothættri byggð vegna fráflæðis úr sveitum og sjávarplássum, í hina “eftirsóttu” menningu fyrir sunnan sl. áratugi. Heilu sveitirnar hafa tæmst, meðal annars vegna tilflutnings landbúnaðar- og sjávarauðlindakvóta. En auðvitað líka í kapphlaupinu um nútíma lífsgæði og menntun.

Hér á Stöndum voru fyrir ekki svo löngu síðan, rúmlega hálfri öld, þrjú læknishéruð. Í Árneshreppi, í Djúpinu og á Hólmavík. Ljósmæður og prestsetrin miklu fleiri og íbúafjöldinn margfaldur. Það þótti um margt gott og öruggt að búa í Strandasýslu og Djúpinu. Þótt fátækt í almennum skilningi þess orðs væri nokkur, komst fólk vel af og fáir sultu eða voru á vergangi. Hafði svo verið um aldir, en hvergi var mannfólkið hraustara og úræðabetra. Andlegt heilbrigði gott og mannkostir miklir. Farsóttir komu auðvitað og fóru, en a.m.k. einhver læknir í héraði sl. rúmlega tvær aldir.

Þegar ég byrjaði að leysa af sem héraðslæknir (í dag heitir það heilsugæslulæknir og á morgun kannski fjarlæknir) á Hólmavík fyrir tæpum aldarfjórðung, var þegar farið að gæta mikils landsflótta, aðallega í þéttbýlið fyrir sunnan. Togaraútgerðin við það að fara úr plássinu og fiskikvótinn seldur. Reglulega var þó farið í fámennið í Árneshrepp til að veita nauðsynlega fasta læknisþjónustu. Djúpið var nánast tómt að norðanverðu og aðeins búið á einstaka bæ. Í “suðursýslu” Vestfjarða eins og svæðið var stundum kallað og þar sem aldirnar áður hafði verið hvað blómlegasta byggð Íslands. Jafnvel sú fjölmennasta í upphafi landnáms eins og segir frá sagnaskáldsögu Bergsveins Birgissonar um Svarta víkinginn. Ein fegursta sveit Íslands að meðtöldum hrykalegum ströndum.

Víðátta læknishéraðsins náði í meira en hundrað kílómetra í norður, vestur og suður frá Hólmavík. Oft um ófæra eða illfæra vegi að fara á veturna. Nú liggur þjóðvegurinn til Ísafjarðasýslu gegnum héraðið um Steingrímsfjarðarheiði, niður í Djúp. Mikil bílaumferð er allt árið gegnum héraðið þótt íbúar svæðisins séu orðnir fáir. Meðalaldur íbúa þó hvað hæstur á landinu. Í læknabústaðnum á Hólmavík eru enn varðveitt gömlu landakortin hans Fúsa, Sigfúsar Ólafssonar, læknis (d. 2002) og sem hann eftirlét þeim sem eftir komu.

Kortin sjálf, kennileitin og öll gömlu sveitabýlin sem þar eru merkt, segja mikla sögu. Um hugsanlegar vitjanir gegnum tíðina vegna veikinda og slysa. Þegar skipuleggja þurfti sjúkraflutninga í þaula og hafa sem mest samráð í öllum aðgerðum. Enginn flugvöllur er nú eftir fyrir sjúkraflutninga nema á Gjögri í Árneshreppi. Einn sjúkrabíll og um tvöhundruð kílómetrar að keyra suður til Akranes sem er höfuðstaður heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE).

Ófáar vitjanir og sjúkraflutninga með sjúkraflutningsmönnunum góðu, hef ég sinnt frá Hólmavík, stundum við erfiðar aðstæður. Lánið samt oftast leikið við mann. Tilviljanir og stundum óskiljanleg forsjá, en alltaf í góðu samráði við alla. Oft hef ég skoðað kortin hans Fúsa og spurt mig, hvar og hvernig best er að bregðast við ef kall kemur. Einn sjúkrabíll, frábærir sjúkraflutningsmenn en oftast enginn hjúkrunarfræðingur lengur allri þessari brothættu og fámennu byggð. Stundum samt treyst á þyrluflug LHG.

Í Covidinu nú hugsar maður samt aðeins öðruvísi hér norður á Ströndum og þar sem ekkert smit hefur enn komið upp. Hvernig er best að verjast sóttinni og þar sem enginn vísindalega sannreynd lækning er til við. Ég hugsa til gömlu læknanna og hvernig hefðu þeir brugðist við stöðunni. Sennilega með einangrun héraðsins og öflugum smitvörnum með allskonar nálægðartakmörkunum eins og stundum áður. Hvíti dauði, berklarnir er nærtækasta fordæmið fyrir rúmri hálfri öld. Áður spænska veikin fyrir einni öld. Íslenskar lækningajurtir og þá sérstaklega fjallgrösin komu þar jafnvel við sögu og ég skrifaði nýlega um.

Ég hef verið fulltrúi Læknafélag Íslands í Sóttvarnaráði Íslands sl. 8 ár. Skipaður af heilbrigðisráðherra með bréfi til ráðgjafar honum og sóttvarnalækni, ef eftir er leitað. Ráð sem skipað er fulltrúum heilbrigðisstétta með sérþekkingu í smiti og smitvörnum. Ekki einn einasti fundur hefur samt verið haldinn með ráðherra sjálfum og eingin bein samskipti. Ráð sem hefur komið stöku sinnum saman til að samþykkja fyrirliggjandi sóttvarnastefnu stjórnvalda.

Gömlu kortin hans Fúsa hafa gefið mér góð hughrif hér á Hólmavík. Maður þekkir líka orðið betur aðstæður og er reynslunni ríkari. Öryggið, ef undan er skilinn malbikaði þjóðvegurinn, þó sjaldan minna.  Samráð í héraði, samstaðan og minni ferðamannastraumur er helsta vonin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn