Þriðjudagur 08.06.2021 - 12:46 - FB ummæli ()

Safndeild vandamála heilbrigðiskerfisins á höfuðborgarsvæðinu eða bráðamóttaka LSH?

mynd frá mbl.is

Ekki spurning, mikil krísa er í uppsiglingu í sumar á Slysa- og bráðamóttöku LSH og sem mikið hefur verið mikið í fréttum að undanförnu og þar sem vaktalínum sérfræðinga hefur nú fækkað úr 8 í 5. Fimm sérfræðilæknar eru hættir störfum frá áramótum eða um þriðjungur! Það vantar auk þess að mann yfir 400 vaktir hjúkrunarfræðinga í sumar.

Forgangur verður auðvitað áfram á bráðveika og óstabíla sjúklinga, sem jafnvel eru við dauðans dyr. En í stað tveggja sérfræðinga á neðri hæðinni verður nú aðeins einn til staðar á daginn og á kvöldin og þar sem sjúklingafjöldinn sem hann getur þurft að sinna á hverri vakt er um 50, auk sjúklinga sem liggja á göngum og bíða innlagnar á öðrum sérhæfðum deildum spítalans. Um mikilvægi sérmenntaðs bráðalæknis í fyrstu aðkomu að alvarlega veikum eða slösuðum þarf auðvitað ekkert að fjölyrða.
Hvert er annað hlutverk BMT LSH í dag en að bjarga mannslífum?
Vinna þarf þegar í stað að endurskilgreiningu á verksviði efri hæðarinnar, svokallaðrar göngudeildar G3 sem er hluti bráðadeildarinnar og margir koma líka illa haldnir með sjúkrabílum. Sjúklingafjöldi þar stundum líka yfir hundrað á hverjum sólarhring. Vandamál sem eru lítil og stór, bland í poka frá A-Ö. Allskonar áverkar eftir slys og líkamsárásir, bráð veikindi, lungnablóðtappar, blóðeitranir, alvarlegar sýkingar, hrörnunarsjúkdómar, liðsjúkdómar og heilsufarsvandamál tengt fíkni- og geðsjúkdómum svo dæmi séu nefnd. Frá nokkra vikna aldri til lífsloka gamalmenna. Sumum sem hægt væri undir “eðlilegum aðstæðum” að sinna hjá heilsugæslunni til að byrja með, en sem er til að mynda lokuð öllum aðgangi þriðjung sólarhringsins á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni og landbyggðin gjarnan sinnir!!
Á sumrin snarfjölgar síðan slysum hverskonar tengt útivist og ferðalögum. Fjöldi erlendra ferðamanna leitar á deildina eftir þjónustu. Faraldur hjóla- og rafhlaupahjólaslysa er staðreynd og sem nálgast tuginn á hverjum sólarhring. Hópslys og rútuslys eru handan við hornið.
Bráð veikindi og áverkar eftir slys sem bráðalæknar sinna án aðkomu annarra sérgreinalækna þurfa eftirfylgd meðferðaraðilanna á BMT. Ekki þýðir að hefja hálfnað verk og sem við sérfræðingar á BMT höfum tekið að okkur, stundum reyndar með ráðgjöf annarra sérgreinalækna eins og t.d bæklunarlækna. Slík aðkoma bráðalækna er eins mjög mikilvæg í kennsluhlutverki deildarinnar gagnvart læknanemum/unglæknum og mönnun síðar á landsbyggðinni sem og kennslu lækna í heimilislækningum. Í sumar hefur nú verið ákveðið að bráðalæknir afleggi niður ráðgerðar endurkomur á deildina (20-30 sjúklinga á dag) og önnur úrræði með eftirfylgd slasaðra sjúklinga í brotameðferð ekki eins vel tryggð.
Grunnurinn, gamla góða slysó – gerum þetta saman.
Ég vil hinsvegar koma hér með smá sögutengt innlegg í umræðuna um starfið okkar og álagið, áður og nú. Fyrir 30 árum var ég ráðinn fyrst sem sérfræðingur á Slysa-og bráðamóttöku Borgarspítalans og þegar Tryggvi Þorsteinsson, bæklunarlæknir lét af störfum vegna aldurs. Á þeim tíma hafði forræði deildarinnar verið á höndum bæklunarlækna en var að breytast í nútíma almenna bráðadeild. Áður höfðu allar deildir hjálpast að á bráðamóttökunni og innlangavandi var óþekktur. Sjúklingar gjarnan lagðir jafnvel beint inn á deild án aðkomu bráðalækna. Allir sjúklingar með bráðan vanda skyldu nú metnir af bráðalæknum á deildinni og bíða þar innlagnar á aðrar deildir. Eins sameiginleg göngudeild annarra deilda fyrir sjúklinga með bráðan vanda eða vegna fylgikvilla meðferða og aðgerða. Í upphafi var meginhlutverk sérfræðings á gólfinu að líta yfir axlirnar á deildar- og aðstoðarlæknum og sinna faglegri ráðgjöf. Fyrst og fremst eftirlit með grunnvinnunni, en sem er nú orðið hlutverk sérfræðingsins sjálfs oft á tíðum.
Kaup og kjör, tengt álagi. Vinna meira , hlaupa hraðar og meiri ábyrgð.
Túlka hefur mátt orð æðstu stjórnenda svo að sérfræðingar á BMT séum “ofhaldnir” af sérkjörum og þá sérstaklega í tengslum við mönnunarvanda á vaktir vegna áunninna staðarvaktafría. Viðbótarálag vegna skyldumætingar á aukavaktir eru ekki í boði.
Sérfræðingur á BMT er almennt með 2 launaflokkum undir föstum launum heilsugæslulækna og sem var á sínum tíma réttlætt sem umbun fyrir undirmönnun í heilsugæslunni og fyrir mikilvægi kennslu læknanema. Hvortveggja er miklu sýnilegra og meiri skylda á BMT LSH og því þetta afar furðuleg staðreynd. Stjórnvöld hafa vitað af þessum mun og sem ég hef rætt við fyrri yfirlækna BMT og við launadeildina, án þess að leiðrétting fengist, enda þetta meðvituð ákvörðun spítalans sjálfs. Launamismunur er þarna upp á nokkra tugir þúsunda á mánuði!
Ég skrifa undir yfir 40-50 læknabréf eftir hverja vakt, meira en helmingi fleiri en ég gæti séð í vinnu á heilsugæslustöð. Ca 7000 -8000 sjúklinga á ári hverju í fullri vinnu. Hver og einn má reikna út líkur á einhverjum mistökum miðað við þann fjölda á ári hverju.
Að lokum
Skrifa þetta til upprifjunar á mínum 40 ára starfsferli ef gagnast getur umræðunni um þróun, álag og framtíðarsýn á starfsemi á BMT LSH. Starf sem í raun byrjaði 1981 á eldgömlu slysó (þar sem CT herbergið er nú) og hefur meira eða minna staðið allt til dagsins í dag. Nú er sennilega nóg komið, ég orðinn 65 ára og þótt ég haldi fullri og góðri heilsu. Starfsánægjan undir venjulegum kringumstæðum reyndar aldrei meiri. Allt vegna þróunar starfseminnar, yfirkeyrslu á álagi og fyrirséðri hættu á alvarlegum læknisfræðilegum mistökum því tengdu. Mest vegna þess að stjórnvöld hafa ekki viljað hlusta eða skilja. Kosið þöggun og afskiptaleysi, í stað ábyrgðar. Yfirflæði sjúklinga sem bíða innlagnar á yfirfullar sjúkradeildir og þar sem hjúkrunarrými sárlega vantar fyrir aldraða. Uppsafnaður vandi stjórnvalda, safndeild nu að hluta alls heilbrigðiskerfisins í stað bráðamóttökuhlutverks og upphaflegar áætlanir voru um. Tækifæri sem nú þá skapast fyrir þá sem kjósa einkarekstur á slysa- og bráðmóttöku víða um bæ, í stað opinbers reksturs og sem flestir hafa hingað til treyst á og sem eru einkunnarorð núverandi heilbrigðisráðherra1
Allt á sinn tíma og betra að kveðja heill og glaður sitt heimaland, en særður og reiður, sem á vígvelli væri, eftir tapaða orrustu! Deild sem ég hef oft skrifað um áður, Háaleitisbrautina mína og kirkju þann daginn sem ég tek vaktina mína. Lengi má samt vona að deildinni farnist betur í framtíðinni með sitt veigamikla hlutverk og gegni áfram einni þýðingamestu kennslu unglækna, ekki síst fyrir heilsugæsluna í landinu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn