Fimmtudagur 26.01.2023 - 22:23 - FB ummæli ()

Skálmöldin í íslenska heilbrigðiskerfinu

 
Samhverfu hagsmunapólitíkurinnar á Íslandi í fornöld og í dag má sjá víða. Hjá þjóð, með sömu gen að mestu leiti, en í öðru formi en landvinningum og í vígabrögðum beinna stríðsátaka. Í mannauðsstjórn heilbrigðiskerisins hins vegar sem litast hefur af sérhagsmunagæslu og allt að kúgun á starfsliði “á gólfinu”. Mikið með leppastjórn millistjórnenda stjórnvaldspýramídanum. Barátta hefur eins verið lengi um völd milli sérgreina læknisfræðinnar og jafnvel innan læknadeildar HÍ og þar sem stjórnendur hverskonar reyna gjarnan að þóknast sínum höfðingja. Ein myndbirtingin er með ákvörðunartöku staðarvals Nýja Landspítalans við Hringbraut, þrátt fyrir allar skynsemisraddir. Um allt þetta get ég sjálfur vitnað eftir rúmlega 4 áratuga starf í heilbrigðiskerfinu á fremstu víglínum, bæði í heilsugæslunni og á BMT LSH. Flest hef ég skrifað um áður á bloggini mínu sl. rúman áratug. Og því miður hafa verstu spár alltaf rættst.
Sumar sérgreinar börðust hreinlega fyrir tilverurétti sínum vegna skörunar við aðrar sérgreinalækningar eins og t.d. heimilislækningar og sem varð að sérfræðingsnámi fyrir aðeins um hálfri öld. Þannig eins og í baráttu um sjúklinginn og hvar hans málum er best fyrir komið hverju sinni. Tilvísunarstríðið svokallaða milli sérgreinalækna og heimilislækna fyrir tæpum fjórum áratugum var lýsandi um þetta ástand. Síðar var stefnt að sameiningu sem flestra stofnana og heilsugæslustöðva undir einn hatt sem og sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. T.d Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sameiginlegum Landspíta háskólasjúkrahúss. Lýðheilsustofnun Landlæknisembættisins jafnvel stofnuð og sem tók að eigin frumkvæði við fræðakeflinu um lýðheilsu. Allt að heilsugæslunni forspurðri sem þó annast sjálfa lýðheilsusjúkdómana. Haldin jafnvel lýðheilsuþing á vegum heilbrigðisráðuneytisins eins og sl. haust, án þáttöku heilsugæslunnar og fræðafélagi íslenskra heimilislækna (FÍH). Alltaf undir merkjum hagræðingar en sem síður en svo hefur orðið hvað gæði og aðgengi að þjónustunni varðar. Sjúkrarúmum jafnvel fækkað og vaktþjónustan miðstýrð á kostnað góðs og öruggs aðgengis.
Stöðug fjölgun millistjórnenda í hinu opinbera heilbrigðiskerfi með fjölgun yfirstarfssviða samkvæmt stöðugt uppfærðu nýju skipuriti er eins lýsandi dæmi um þróunina. Læknaráð fyrir lögð niður með lögum (2005 í heilsugæslunni og Læknaráð Landspítalans 2020), til að auðvelda miðstýringu að ofan. Þannig unnið að stórhöfðingjavaldi í stað bændalýðveldis sem verið hafði í ákveðnum skilningi. Þegar bændur og búalið urðu síðan jafnvel að þrælum.
Um 1000 íslenskir læknar eru nú búsettir erlendis, flestir sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum læknisfræðinnar. Margir hafa ekki fengið að komast að í íslenska heilbrigðiskerfinu sl. áratugi. Á sama tíma hefur stefnt í hraða öldrun sérfræðinga í flestum sérgreinum. Samt grátum við læknaskortinn í dag! Mannauðsstjórnun hvað? Hvað ábyrgð hvílir eins á öllum millistjórnendum um árabil, sem margir hafa mest passað upp á sig og sína? Hvað hafa æðstu ráðmenn og stjórnmálamenn verið að hugsa? Eða er ekki réttar að segja, ekki hugsað. Enn síður að hlustað sé á slátt þjóðarhjartans. Vandinn í dag lýsir sér einmitt mest í skorti á nýliðun starfsmanna, og þá sérstaklega lækna og hjúkrunarfræðinga á gólfinu.
Sérgreinalæknar hafa reyndar líka þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum innan sjúkrahúskerfisins og síðan með sinn stofurekstur. Ríkið skammtar hins vegar fjármagnið og setur leikreglur, oft með hápólítísku ívafi hverju sinni. Spurningin alltaf um einkarekstur eða opinberan rekstur. Heildarfjármögnun heilbrigðiskerfisins hefur samt verið undir meðaltali Evrópuþjóða sl. rúman áratug, þrátt fyrir, eðli málsins samkvæmt, þyrfti að vera hærri vegna lítillar þjóðar í strjálbýlu landi. Samt í gjöfulu landi og þar sem þjóðartekjur á mann eru óvíða hærri. Að stórum hluta í dag með fjármagni sem streymir inn í landið tengt túristaiðnaðinum og mikilli fjölgun nýbúa erlendis frá. Atvinnumöguleikar hverskonar enda óvíða meiri. Styrking innviða heilbrigðiskerfisins hins vegar alls ekki.
Áhrifamenn innan læknahópsins og annarra heilbrigðisstétta hafa spilað lykilhlutverk í skipulaginu og deilingu fjármagns til heilbrigðiskerfisins í samráði við ráðmenn stjórnsýslunnar hverju sinni. Spilað því miður stundum meira með en á móti, með stöðnun og niðurskurðaráformum í allskonar myndum. Heilsupólitíkin þar á bæ þá stundum meira í ætt við ættarveldin fornu og þar sem lepparnir voru margir til að hafa stjórn á lýðnum. Millistjórnendur í stjórnsýslupíramídanum lúta enda lögmálum íhaldsseminnar og er sjálfhverf í eðli sínu. Tengd pólitíkinni hverju sinni, í stað þess að vera framsýn og til hagsbóta fyrir almenning.
Starfsfólkið á gólfinu hefur haft minnst um þetta allt að segja og dæmin óteljandi. Þöggun á gagnrýna umræðu verið besta vopn stjórnvalda og þeir fari bara annað sem fara vilja. Fjölmiðlar því miður oft spilað með nema kannski sl. ár og allt að hruni komið. Starfsmannaflótti þannig látin viðgangast eins og ekkert væri sjálfsagðara. Grunngildum þjónustunnar breytt og margir þurft að upplifa kulnun í starfi af álagi og kvíða. Mest vegna mikils vinnuálags, óásættanlegum starfsaðstæðum, skort á framtíðarsýn og vöntun á tíma með sjúklingum. Stundum sem eru í mestu hremmingum lífs síns og á starfsmanna ábyrgð ef illa fer.
Ástandið á BMT háskólasjúkrahússins undanfarin misseri ber þessu öllu vel vitni. Mikill atgerfisflótti meðal lækna og hjúkrunarfræðinga sem jafnvel hafa unnið þar til áratuga og áunnið sér mikla reynslu og þykkan skráp. Lengi hefur verið varað við bæði aðflæðisvandanum vegna vanmáttugrar heilsugæsluþjónustu og eins fyrirséðum skorti á heilbrigðisþjónustu við aldraða. Safndeild vandamála heilbrigðiskerfisins orðið til á BMT LSH þar sem allt virðist eiga að flokka fyrir aðra, en fráflæðið lítið vegna vanbúnaðar á öðrum deildum háskólasjúkrahússins og skortu á langlegurýmum fyrir aldraða. Gömlu kjarnastarfseminni á Slysa- og bráðamóttökunni sem borgarbúar hafa þekkt af góðu til margra áratuga, jafnvel fórnað. Ástand nú oft á deild sem mætti aðeins búast við í hamfaraástandi, en sem ekkert er og þjóðarhagur reyndar aldrei betri.
Nú verða læknar í LÍ að fara standa saman við nauðsynlega uppbygging heilbrigðiskerfisins, úr rústum þess gamla. Láta af sérhagsmunagæslu sinnar sérgreinar og horfa á heildarmyndina, m.a. með öflugri heilsugæslu um land allt og uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða. Deila álaginu í bráðaþjónustunni til að byrja með milli deilda eins og áður var og styrkja vaktþjónustu heilsugæslunnar. Vottorðafargan og tilvísanaskylda hverskonar er síðan að sliga heilsugæsluna sem er ofhlaðin þegar verkefnum vegna oft geðrænna vanda skjólstæðinga og vegna rafræna samskipta við Pétur og Pál. Nýjasta hugmynd atvinnulífsins er síðan að nú þurfi væntanlega heilsufarsvottorð til að stunda sjómennsku við strendur landsins. Vitleysan ríður ekki lengur við einteyming, enda aðrir sem stjórna vinnulagi lækna, en læknarnir sjálfir á gólfinu.
Standa þarf vörð í kjarabaráttunni og skapa svigrúm fyrir þá sem koma vilja heim eftir langt sérnám og mikla reynslu. Ekki veitir af og Læknadeild HÍ þarf að kappkosta að koma fleiri nemum að í klínísku spítalanámi og í heilsugæslunni. Það göfugasta sem reyndur læknir fær tækifæri til að ástunda er kennsla. Á þennan þátt hefur mikið vantað vegna tímaskots og álags. Gamla Slysa- og bráðadeildin í Fossvoginum (Slysó) var til að mynda hér áður vinsælasta kennsludeildin, og sem hentaðu sérdeilis vel í heimilislæknaprógraminu og talinn nauðsynlegur undirbúningur fyrir vinnu læknanema og kandídata úti á landsbyggðinni. Þar sem læknaskorturinn er orðinn hvað sýnilegastur.
Stórefla verður strax þjónustu við aldraða og öryrkja og skapa meiri möguleika til viðunandi vistunarrýma. Stórefla þarf þjónustu við geðsjúka og veið greiningaferli barna og unglinga. Að öðrum kosti verður ekkert annað í boði enn að grafa sig enn dýpra í rústirnar. Engu breytir Nýjr Landspítali á Hringbraut og sem stefnir í að vera áratug á eftir áætlun. Stál og steinsteypa leysa auðvitað heldur ekki mannauðsvandann.
Það er á ábyrgð lækna að standa vaktina sína, deila verkefnum skynsamlega sín á milli, tryggja góða nýliðun með þrýstingi á stjórnvöld. Á lokametrum starfsferlis sér maður best breytingarnar sem orðið hafa í starfsumhverfi lækna í heilbrigðiskerfinu. Sumt má ætla að sé „eðlileg þróun“ og aðrir teknir við keflinu. Það er engu að síður skylda reynds læknis að benda á ágalla sem við honum blasa. Með það eina að markmiði að bæta heilbrigðiskerfið. Ekkert síður er það er skylda allra lækna samkvæmt læknaeið, að koma nauðstöddum til hjálpar. Sækja þarf augljóslega í miklu hærri árlega fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Ekkert síður til nýs stofnkostnaðar á því sem stjórnvöld hafa látið hrynja niður sl. áratug og sem tekur síðan mörg ár að byggja upp. Sú staðreynd ætti að blasa við öllum, almenningi jafnt sem stjórnmálamönnum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn