Miðvikudagur 20.09.2023 - 19:53 - FB ummæli ()

Umræðan, gömul og ný um frjálsa sölu áfengis- til góðs eða ills?

Enn og aftur liggur fyrir frumvarp stjórnarþingmanna um frjálsa sölu áfengis, í matvöruverslunum og jafnvel heilsu- og blómabúðum, í nafni frjálshyggjunar. Skrifaði pistil um sama efni fyrir 8 árum um umræðan er ekki ný. Netsala áfengis hefur aukist gríðarlega sl. ár og áfengisneysla Íslendinga stóraukist, jafnhliða áfengistengdum sjúkdómum og vímuvanda. Áfengisbölið var þegar mikið í þjóðfélaginu 2015, oft tengt öðrum vímuefnum. Birti svo hér undir greinarkorn um fyrirséðan vanda og svipað umræðuefni fyrir meira en öld siðan og löngu áður en ÁTVR fékk loks einokunarstöðu fyrir sölu, í nafni lýðheilsuvarna. Segja má, engu að síður, að verstu spár hafi rættst.

Þótt flestir geta umgengist áfengið í hófi, verða stöðugt fleiri ofneyslunni að bráð og sem sést best í þeim löndum þar sem verslun með áfengi hefur verið gefin frjáls. Sérstaklega þó þar sem hún var ekki frjáls áður, en gefin frjáls á síðustu áratugum í nafni frjálshyggju og einstaklingsfrelsis. Einstaklingsfrelsis sem er hálfgert öfugmæli þegar fíknin og víman hefur tekið völdin og mikið meira er vitað um en áður og spilar með allt annan mann en þinn eigin, tengt erfðum og sérstökum áhrifum á miðtaugkerfið. Vil byrja hér samt á smá upprifjun úr pistli sem ég skrifaði 2011 (Gulu augun og lifrarbólgan) í tilefni mikillar aukningar á áfengisneyslu landans, mest vegna aukinnar sölu á léttvíni og bjór frá því hann var leyfður, tengt aukningu á beinum líkamsskaða og aukinni tíðni lifrarbólgu og skorpulifur. Menn og konur hljóta nú að sjá í hvað stefnir ef sala áfengis verður gefin frjáls í næstu kjörbúð, jafnhliða sælgætinu og gosinu, þar sem við erum margfaldir Norðurlandameistarar í neyslu. Eða jafnvel áfengis í stað vandaðra blómvanda í blómabúðunum. Kannski bara með einni sölnaðri rós á útsöluverði á flöskunni.

„En Adam var ekki lengi í paradís. Í stað þess að láta af helgarsiðum okkar, bættum við bara við okkur bjórinn og léttvínið. Hálft til eitt glas af léttvíni á dag átti svo sem ekki að vera svo óhollt og jafnvel hollt hvað æðasjúkdómana varðar. Nýjar rannsóknir benda hins vegar á að öll áfengisneysla getur verið varasöm, líka lítil, ekki síst er varðar hættu á myndun krabbameina, sérstaklega meðal kvenna. En hvað var það sem fór úr böndunum hjá okkur? Sennilega svipað og í öllu öðru, óhófið.“

„Alkóhól-lifrarbólga er almennt talin algengasta ástæða lifrarbólgu eins og áður sagði og sem er í réttu hlutfalli við magn áfengis sem er neytt í þjóðfélaginu, ekki síst sídrykkju flesta daga. Vaxandi bjórdrykkja og neysla léttvína á síðustu árum er því verulegt áhyggjuefni, þótt ennþá getum við ekki talist meðal mestu drykkjuþjóðum veraldar. Og auðvitað ber að fagna breyttu drykkjumynstri landans þar sem slysum og ofbeldisverkum tengt ölvun hefur ekki fjölgað í takt við aukna neyslu heildarmagns áfengis og sem nú nálgast að vera að meðaltali um 8 alkóhóllítrar á ári fyrir alla 15 ára og eldri. Nóg er nú vandmálið samt enda hafa um 7% fullorðinna lagst inn á Vog til áfengis- og vímuefnameðferðar (2010).“ Í dag er þessi tala um 10%.

Horfum nú mikið lengra aftur til fortíðar og eins og stundum áður hér á blogginu mínu, í alþýðutímaritið Eir um heilbrigðismál. Grípum hér niður í kafla úr ræðu Guðmundar Björnssonar, læknis (síðar landlæknis 1906–1931) sem þar var öll skrifuð og hann hafði haldið sunndaginn síðastan í sumri í húsi iðnaðarmanna í Reykjavík aldamótaárið 1900.

Heiðruðu tilheyrendur!

Margar skoðanir hafa staðið óhaggaðar í hugum manna þúsundir ára og verið taldar óhrekjandi – og þó fallið að lokum fyrir vopnum vísindanna. Það var um langan aldur talið óyggjandi, að jörðin væri flöt, og eins hitt, að hún stæði kyr og gengi sólin í kring um hana. Svo mikil fjarstæða þótti fyrst í stað kenningin um það, að jörðin snerist um sjálfa sig, að manninum, sem þau sannindi voru flutti, var hótað lífláti, ef hann tæki ekki orð sín aftur. Um langan aldur hefir það verið talið satt og óyggjandi að áfengi styrkti sál og líkama og „gleðji mannsins hjarta“ á saklausan hátt. Ef þessari kenningu verður hrundið, þá mun sú breyting hafa miklu meiri áhrif á framför mannkyns, en skoðanaskiptin á lögun jarðarinnar og staðháttum hennar.

Ykkur er vel kunnugt, að margir vilja nú hrinda þessari gömlu skoðun á áfenginu, segja að hún sé röng og reyna að koma því inn í almenning, að áfengisnautn sé jafnan skaðleg og eigi að afnemast. Lífláti hefir þeim ekki verið hótað þessum mönnum, því að tímarnir hafa breyst, en hitt hefir ekki á brostið, að þeir hafa verið sakaðir um öfgar og brugðið um kenningar og ófrægðir á margan hátt.

Hvað er þá rangt og hvað satt í öllu því, sem sagt er um áfengið? Ekki getur sami hlutur verið bæði flatur og hnöttóttur. Enginn hlutur getur verið bæði ómissandi og óhafandi. Allur þorri manna heldur enn að áfengið sé ómissandi. Hinir eru miklu færri, sem á móti rísa og segja að það sé óhafnadi. En aldrei hefur þessi deila verið eins hörð og almenn eins og nú um lok þessarar aldar, og af því hefir leitt, að fræðimenn hafa á síðari árum gefið áfenginu og áhrifum þess miklu meiri gaum, en nokkru sinni áður. Sannur vísindamaður hirðir ekki um óp lýðsins; hann hefir það eitt fyrir augunum, að leiða sannleikann í ljós, ryðja burtu hleypidómum og auka rétta þekkingu.

Allur þorri manna er þeirrar skoðunar, að hófleg inntaka af áfengi glæði skynjunargáfuna, skerpi vitið, veki saklausa gleði og örvi viljann. Menn fá sér eitt staup eða tvö og óðar finnst þeim hinn andlegi þróttur sinn aukast, en áhyggjurnar dofna og yfir öllu glaðna. „Guð lét fögur vínber vagsa, vildi gleðja dapran heim“ segir eitt af góðskáldum þjóðar vorrar. Guðs gjöf og guðaveig hefir vínið verið kallað öld eftir öld. Menn hafa að vísu ávalt bætt því við, að ofnautn áfengis valdi böli og bágindum, en sagt um leið, að áfengið eigi ekk sök á því, þó það sé vanbrúkað, og verði hver að gæta sín. Skádið, sem ég nefndi, segir í sama kvæði, að fyllisvínin smáni guðs gjöfina, engu síður en bindindismennirnir, og hann er í fullu samræmi við almenningsáliti, eins og það hefir verið.“

Snúið huganum að því, hvort þið viljið halda áfram að neyta áfengra drykkja, hvort sem það mun vera til hagsmuna eða tjóns fyrir þjóðina, að áfengir drykkir eru hafðir á boðstólnum í vörubúðum og gesthúsum handa hverjum sem hafa vill. Ef gagnsemi áfengis væri meira en tjónið, sem að því hlýst, þá væri það gott og blessað og þá ætti að hafa það til sölu í hverri sveit. En nú hefir því verið haldið fram hér á landi í mörg ár að aðalútkoman af áhrifum áfengis á þjóðina er annars vegar stóreflis bein fjáreyðsla, hins vegar líftjón margra manna og heilsuspjöll á sál og líkama.

Og allt stendur þetta óhrakið. við sjáum meinið. Við getum bætt úr því, bannað alla sölu áfengra drykkja. En við gerum það ekki. Hvað á þetta lengi að ganga? Er þjóðin of rík, eða of hraust og heilsugóð? Nei, en hún er svo óvön því, að vera á undan öðrum þjóðum, er oftast langt í humáttinni á eftir þeim. Aðrar þjóðir keppa hver við aðra að vera fremstar. Við viljum vera á eftir. – Það er ekki siður hér á landi að hugsa svo hátt, að við Íslendingar getum komist langt fram fyrir aðrar þjóðir í nokkurri breytingu til framfara. Við eigum miklu hægar með að afnema áfengisverzlun, en nokkur önnur þjóð í Norðurálfunni. En við gerum það ekki – til þess að verða ekki langt á undan nágranaþjóðunum. Þetta segjum við ekki upphátt. Við berum annað fyrir, segjum að þjóðin sé ekki fær um innflutningsbann á áfengi, eða algert sölubann, sé ekki undir það búin, að hagnýta sér slík laganýmæli.  Sama viðbáran er höfð á móti flestum öðrum tillögum til framfara hér á landi; en hún lítur illa út meðan þjóðin er að berjast af öllum sína veika mætti fyrir nýmælum í stjórnarskrá landsins, en játar þó á margna hátt að hún hefir illa hagnýtt sér stjórnarskrána, sem til er.“

http://www.visir.is/ekki-setja-afengisidnadinn-undir-styrid/article/2015703139999

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/06/09/gulu-augun/

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn