Sunnudagur 06.10.2024 - 15:59 - FB ummæli ()

Rafhlöðurnar okkar og gönguleiðin besta

Engin lýsing til

Kirkjuklukkuturninn (ófrágengni) á Hólmavík

Fá vestræn ríki hafa eytt jafn litlu til forvarna og heilsugæslu sl. áratug og Ísland. Heildræna stefnu vantar nema í pólitískum ræðum á hátíðisdögum og heilsugæslan er á fallandi fæti. Reiknað hefur verið út að vel yfir þúsund góð æviár gætu verið glötuð í dag vegna aðgerðarleysis heilbrigðisyfirvalda kom m.a. fram í úttekt hjá Guðmundi Löve, framkvæmdastjóra SÍBS fyrir tæpum áratug.

Rannsóknir fyrir áratug sýndu að Íslendingar voru þá þegar þyngstir V-Evrópuþjóða (BMI >25), ungar konur í fyrsta sæti (60.9%) og karlarnir í því öðru (73.6%). Íslendingar fylgdu þar fast á hæla Bandaríkjamanna hvað varðar hraða þróun í ofþyngd og offituÞriðjungur Bandaríkjamanna var þá haldinn mikilli offitu (þyngdarstuðull, BMI > 30%) og 17% barna. Á sl. þremur áratugum hefur feitum í Bandaríkjunum fjölgað um 100%, og þeim sem eru með þyngdarstuðulinn >40, um 400%. Er þetta það sem koma skal hér á landi innan fárra ára? Hér á landi sést vaxandi tíðni offitu (BMI ≥ 30 kg/m2) en árið 2022 voru um 28% fullorðinna (20% 2014) og 7% barna. Hverju eiga ný þyngdarstjórnunarlyfin eftir að breyta í framtíðinni (Wegovy og Ozempic) en sem sannarlega hjálpa mörgum í dag.

Flestir vita samt hvað gerist ef vitlaust eldsneyti er sett á vélar. Eins er með næringuna okkar og okkur sjálf. Ofneysla af hvítum sykri, ásamt fínum kolvetnum og fitu í stað grófra kolvetna, er aðal ástæða offituvandans í dag. Færri gera sér hins vegar grein fyrir hvaða vöðvarnir þjóna miklu hlutverki til að stjórna brunanum og í svengdarstjórn almennt séð. Vöðvar sem eru þjálfaðir með stórum og litlum skerfum alla daga, gera miklu meira en að koma okkur bara á milli staða eða lyfta lóðum. Rannsóknir sýna að hreyfingin sjálf skiptir jafnvel meiru máli en sjálf þyngdin hvað lífslíkur varðar. Hreyfing eins og bara stuttir göngutúrar kvölds og morgna.

Með skilaboðum til heilans gegnum miðtaugakerfið, vilja vöðvar hámarka orkunýtinguna og losna við óþarfa þyngd og helst að fá eldsneyti sem endist vel. Eins og öll önnur sjálfbær lífræn kerfi sem stöðugt leita leiðréttinga á sér, en hér með hjálp taugakerfisins og fjölgun orkukorna í vöðvafrumunum með hreyfingu. Í myndlíkingu ekkert ósvipuð áhrif og þegar við fáum nýjar endurhlaðanlegar rafhlöður í símana okkar þegar þeir eru orðnir ansi daprir. Matvöruverslanir og gos- og sælgætisframleiðendur treysta hins vegar á önnur skilaboð. Skilaboð til frumhvatar mannsins og græðginnar og áður en skynsemin nær yfirhöndinni með allskonar girnilegum auglýsingum og uppstillingum. Vandasamur heimur að búa í og þar sem markaðslögmálin stöðugt rugla í fólki og sem við sjáum besti í dag og sumar verslanir berjast fyrir aðgengi að vínsölu í matvörubúðum.

feitastirRannsóknir sýna almennt að yfir 90% offitusjúklinga ná ekki að léttast þrátt fyrir oft óteljandi tískukúra sem vinsælastir eru í dag og það sem verra er, halda jafnvel áfram að fitna. Sjúkdómur sem á nær eingöngu rætur að rekja til rangra lífstílsvenja okkar, rangs mataræðis og lítillar hreyfingar. Ástand og venjur þar sem góð heilsugæsla ætti að geta gegnt mikilvægu hlutverki í að breyta.

Margir stjórnmálamenn forðast hins vegar að ræða lýðheilsuvandann. Þeir einblína oft á önnur mál, meira út frá ásýnd lands og húsa. Fegurðardýrkun og útlitsbreytingar hvers konar á mannslíkamanum eru óvíða jafn algeng og á Íslandi. Góður árangur gegn offitunni hins vegar næst ekki fyrr en við látum af öllum öfgum, tengt útlitsdýrkun og staðalímyndinni í tískublöðunum., því öll erum við mismunandi. Að við förum að líta á málin meira út frá rökhyggju heilsunnar, með sálarlega vellíðan og félagslegt öryggi að leiðarljósi. Hvatningu til meiri hreyfingar og skynsamlegri neysluvenja.

Villurnar eru samt víða. Sextíu og fimm sjúkdómar hafa verið tengdir offitu eingöngu, t.d. sykursýki, hjarta- og lungnasjúkdómar, gigtarsjúkdómar, ótímabærir hrörnunarsjúkdómar, krabbamein og geðsjúkdómar. Allt alvarlegir sjúkdómar og sem gefa skýrar vísbendingar um hina nýju heilbrigðisógn sem offitan er og vandamálum sem tengd er henni. Offitufaraldurinn hefur engan veginn hefur náð hámarki og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur nú eina mestu heilbrigðisógn 21. aldarinnar í hinum vestræna heimi. Heimsfaraldur sem stefnir að verða flestum heilbrigðiskerfum þjóða ofviða vegna kostnaðar og sem leiðir að óbreyttu til heilsuhruns þjóðar. Covid-19 heimsfaraldurinn var bara aðvörun fyrir okkur.

Engin lýsing til

Menningar- og íþróttamannvirkið besta á Hólmavík – göngulstígurinn um Kálfanesborgir

Algengasta efnaskiptavillan tengt offitunni er skert sykurþol og sykursýki. Þá vantar insúlín miðað við þyngdina og síðar í alvarlegasta formi sykursýkinnar, alveg, og þegar briskirtilinn hefur gefist upp. Sykursýkisfaraldur er þegar farinn að skella á þjóðinni og allt að fjórðungur 65 ára og eldri stefna í að fá fullorðinssykursýki ef þróunin helst óbreytt. Hátt í 10% þungaðra kvenna eru í dag með meðgöngusykursýki (flestar of þungar), þróun sem hefur gengið hratt fyrir sig síðasta áratug.  Hættulegt ástand sem gefur sterkar vísbendingar um framhaldið. Ástand sem getur líka valdið fósturskemmdum og eykur líkur á ofþyngd fósturs og sykursýki hjá nýfæddu barni. Arfleif móður án gena til komandi kynslóðar.

Sjúkleg fíkn í hvítan sykur, er oftast undirrót offitunnar í byrjun og síðan þannig hinnar eiginlegu sykursýki. Íslendingar neyta meira af sykri en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir segja hættulegt fíkniefni og sem finnst í miklu magni í sykruðum drykkjum í dag og unnum matvælum og sem skýrir  20% af allri sykurneyslu landans. Kenningar eru einnig um að sykurinn plati stöðugt heilann og auki á aðra matarfíkn. Jafnvel gervisykurinn einnig. Skerðing á óhóflegri sykurneyslu landans og sem er fimmföld miðað við ráðleggingar manneldisráða, ætti auðvitað að vera forgangsmál, ekki síst sem snýr að heilbrigði barna og unglinga. Markmiðið er auðvitað að unga fólkið fái ekki sjúkdóma gamla fólksins fyrir aldur fram.

Ofþungir ættu auðvitað að getað leitað eftir hjálp og stuðningi heilbrigðisstarfsfólks, því enginn er eins og samverkandi sálrænir erfiðleikar oft miklir. Líkamleg færni til hreyfingar er eins oft skert, en sem er lykilatriðið í þessu öllu saman. Um leið og „gengur“ aðeins betur, verður hugarfarið skýrara, lífsmeðvitundin betri og þyngdin minnkar. Lífsstílsbreyting sem síðan virkar samtímis jákvæð fyrir sálina, mataræðið og líkamann.

(byggt á eldri grein á blogginu mínu 2015 – Litlu skrefin telja mest)

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn