Sunnudagur 12.2.2012 - 13:58 - FB ummæli ()

Áður

Allt er hverfult þessa daganna. Líka gullið okkar og skartgripir, kannski það eina sem við eigum í veraldlegum verðmætum. Sorg og reiði í bland við örvæntingafulla eftirvæntingu hvað framtíðin ber í skauti sér og hvort hún verði byggð á meiri sannleika og trausti en verið hefur. Á svindli og græðgi þar sem menn og konur svífast einskins til að hygla sjálfum sér og sínum. Hvort nýju kynslóðirnar geti nú tekið við af þeim gömlu í sátt og samlyndi, eins og hefur verið um aldir. Að við skiljum væntingar og vonir hvers annars og að við getum stutt hvort annað í gegnum lífið. Að við getum notið þess öll sameiginlega í þjóðfélaginu að vera til, í stað sífelldra réttlætingar á stöðunni eins og hún er í dag. Að við skulum yfir höfuð vera til. Að gildin sem kennd eru ennþá í leikskólum og grunnskólum landsins geti að minnsta kosti haldið síðar á lífsleiðinni, ef við fáum sálarró og tíma til að lifa. Að það sé ekki allt gull sem glóir, allra síst gulltennurnar úr okkur sjáfum og okkar nánustu. Jafnvel öfum okkar og ömmum sem nú má selja hæstbjóðendum.

Undanfarið hefur öll þjóðmálaumræða verið á hvolfi og að mörgu leiti ríkt hálfgert stríðsástand. Gallinn bara við þetta stríð er að þú veist ekki almennilega hver óvinurinn er og hann er jafnvel þú sjálfur. Eitt málið tekur við af öðru og stjórnmálamennirnir berjast á banaspjótum pólitíkurinnar, jafnvel innbyrðis og í sömu fylkingum. Góðar konur og mætir menn skyldi maður ætla. Ósamstaðan er allsráðandi og hver kennir hinum um allar ófarirnar og sem vissulega má rekja til vöggu nýfrjálshyggjunnar hér á landi. Þar sem menn og konur kunna þrátt fyrir allt ekki ennþá að skammast sín og viðurkenna strákapörin. Ekki síst þeir sem ennþá vilja stjórna fjölmiðlaumræðunni úti í móum og bak við tjöldin, undir nafnleysi meira eða minna. Sem vilja stjórna strengjabrúðunum sínum úr fjarlægð.

Í geðlæknisfræðinni er hugarástandi geðveikra, ekki síst kvíða- og þunglyndissjúklinga vel lýst. Þegar þeir hinu sömu hafa orðið fyrir alvarlegri áfallaröskun til margra ára og sem rýrir trúnaðarsambönd og traust til annarra. Þegar mannskepnan vill einangra sig sem mest og fá að vera í friði. Vill ekki taka ábyrga afstöðu til málanna og líður að því virðitst oft best í tómarúminu þar sem hún veslast upp, enda ekki að neinu að stefna. Eins þegar þú leggur ekkert til málanna sjálfur og lætur misvitra stjórnmálamenn stjórna lífinu þínu.

Áður mér brá. Nú vil ég skilja. Látum ekki gamla pólitík rugla okkur í rýminu. Treystum á unga fólkið og vonir þess. Hlustum og horfum í kringum okkur. Treystum á sameiginlega Evrópu og nýja framtíð á tækniöld. Treystum líka á gömlu gildin í þjóðarsálinni, áður en allt fór í vaskinn. Áður en við fórum að standa andspænis hvort öðru í stað þess að standa saman. Ósk eftir Samstöðu og Breiðfylkingu lýsir best þessari þrá.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 9.2.2012 - 12:15 - FB ummæli ()

Gúmíbirnir og „sæt brjóst“

Í fljótu bragði skyldi maður halda að þetta tvennt ætti ekkert sameiginlegt. Tengslin eru hins vegar þau að þetta er leið framleiðenda til að markaðssetja gervibrjóst í konur sem breyta mætti lögun að vild og gera þau um leið „sætari“ eftir tilefni og klæðnaði hverju sinni. Að minnsta kosti ef marka má auglýsingu framleiðenda sem kalla nýju brjóstapúðana Gummy Bear implants. Unnið er að markaðssetningunni og fá þá samþykkta, meðal annars í Bandaríkjunum. Framleiðendur lofa að þessar sílikonfyllingar leki minna en aðrar gerðir og mikið hefur verið fjallað um að undanförnu. Í allt að fjórðungi tilfella með tímanum og þá þúsundir tilfella hér á landi að öllu óbreyttu.  Að minni hætta sé á að innihald gúmibjarnanna fari þá á flakk um líkama kvennanna. Sykursjúk þjóð á að öllum líkindum eftir að falla fyrir þessum púðum, ekkert síður en sælgæti og öðrum brjóstapúðum, ef satt reynist.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 5.2.2012 - 17:00 - FB ummæli ()

Sólheimaljósin

Í allri ljósadýrðinni sem nýtur sín best nú í mesta skammdeginu veltir maður oft fyrir sér hvað ljós séu í raun fallegust og hvað birta gefi bestu jólastemmninguna. Sólin, ljós ljósanna er yfirleitt ekki meðtalin í ljósumskammdegisins nema þá jólasólin með dimmrauðu geislana sína og löngu skugganna í fjöllunum. Geislar sem gefa jörðinni okkar meiri vídd en bara þrívídd. Sannkallaðir Sólheimar.

Öll eru rafmagnsljósin ýkt afbrigði náttúrulegrar birtu. Jafnvel meira í líkingu við eldana sem brenna á jörðinni. Það sáum við best þegar við rifjum upp merkustu atburði ársins sem er að líða, þegar sjálfur Eyjafjallajökull gaus með eldrauðum hrauntungum í allar áttir og sem jafnvel mynduðu heilu hraunfossana. Eins alla ljósadýrðina sem fylgdi eldingunum í gosmekkinum og sást langar leiðir. Nú er það hins vegar sjálfur tunglskinsbjarminn sem skín á hvítann hjarann. Og norðurljósin, svo græn og lokkandi, eins og himingeimur í darraðardansi. Hvað er hægt að biðja um meira? Ef til vill bara lítið hvít rafmagnsljós mitt í öllu myrkrinu. Á Sólheimum.

Börnin hafa gaman af ljósum og ekki er alltaf hægt að láta sér nægja kertaljós og minningar. Um æskujólin og ljósin eins og þau voru í gamla daga. Fyrir allnokkru var ég farinn að leita aftur að því gamla og góða sem mér finnst í raun toppa það sem fæst í dag, þrátt fyrir alla tæknina. Sama hvort átt er við glitrandi regnflóðlýsingu eða falleg stjörnuhröp.

Bubluljósin fallegu sem voru svo vandmeðfarin og til vandræða horfði þegar ekki kviknaði á og loftbólurnar komu ekki. Sambland af sykursætri væmni og stemmningu sem bara tilheyra jólunum. Nú er rúmlega hálf öld liðin frá því ég sá þessi ljós síðast en sem eru mér ennþá svo kær. Óskiljanlegt tækniundur í þá daga, ljós í vatninu og loftbólurnar sem báru með sér líf og nýja vídd.

Annað ljós logar úti í sveit, nánar tiltekið á Sólheimum í Grímsnesi þar sem nú er blikur á lofti um reksturinn. Þar skín líka sólin í hjörtum þeirra sem þar búa og við höfum svo oft orðið vitni að. Nálægðin ein við staðinn staðfestir þá birtu og sem ég og fjölskylda mín varð aðnjótandi eina helgi í upphafi aðventu fyrir þremur árum. Í froststillu þegar hrím var á jörðu, nutum samverunnar, föndruðum jóladót og borðuðum góðan mat.

Ég hafði ekki komið áður að Sólheimum en barnshjartað tók kipp þegar keyrt var niður í Sólheimakvosina. Eitthvað svo kunnuglegt og vinalegt. Lítið þorp í sveit, svo framandi og öðruvísi. Á göngu um staðinn kynntist maður fljótt íbúunum sem allir tóku gestunum svo vel. Sund og samvera í veitingarsalnum til að gleðjast meira og síðan fallegir jólatónleikar í kirkjunni. Barnshjartað hélt takti sínum alla þá helgi.

Maður undrast fullkomleika sambýlisins og þeirrar fyrirmyndar sem staðurinn er fyrir fólk sem má sín lítils í höfuðborginni. Þetta er þeirra staður sem á sér stórmerkilega sögu. Í vetur fengum við að kynnast henni aðeins í sjónvarpsþætti og sagan er vel skráð m.a. af Jónínu Michaelsdóttur blaðamanni, ekki síst þætti Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur sem í reisti upp staðinn fyrir 80 árum, „Mér leggst alltaf eitthvað til“.

Annað ævintýri var að kynnast sjálfu Sesseljuhúsi sem er tileinkað Sesselju. Fyrir framsýni hennar og áræðni í málefnum þeirra sem þurfa annað form til að lifa hamingjusömu lífi. Í dag, á vissan hátt samsvarandi framsýni Sesselju í möguleikunum á allri þeirri sjálfbærni sem náttúran ein og tæknin býður upp á, ef við lítum okkur aðeins nær. Að koma á Sólheima er þannig eins og að koma á sjálfbæra plánetu, engri annarri líkri í sólkerfinu. Eins og ný og fullkomin veröld í ófullkomnum heimi okkur mannanna. Falið leyndarmál sem við þurfum að vera duglegri að bjóða bestu vinum okkar þegar við viljum kynna fyrir þeim möguleikum í sjálfbærni á auðlindum náttúrunnar og okkar sjálfra. Og þeim mun vel líka.

Það væri þjóðarskömm og mikill missir fyrir menningararfinn að leggja starfsemina á Sólheimum niður. Ljósið í sveitinni sem gefur svo ótrúlega mikið. Meiru meira en við gerum okkur grein fyrir fyrirfram en skynjum svo vel, þótt við aðeins komum í stutta heimsókn. Hvort heldur að skynja auðlegð náttúrunnar eða skilja mikilvægi góðrar umgengni við hana og skjólið sem hún þá veitir okkur mönnunum.

Hvergi er jólalegra um að litast og hvergi eru jólaljósin fallegri. Það veit ég í dag. Við þurfum öll að leggjast á eitt og sameinast um að tryggja áframhaldandi rekstur Sólheima. Ég skora á alla sem því ekki trúa og hina sem vilja endurnýja kynnin við Sólheima að skreppa austur í bíltúr og kaupa svo sem eitt heimatilbúið kerti. Til að kveikja á um jólin og njóta.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.2.2012 - 10:55 - FB ummæli ()

Skelfilegir þjóðvegatollar

Þjóðvegur hlýtur að vera vegur lands og þjóðar sem allir vilja standa vörð um og leiði okkur sem mest fram veginn. Líka um alla afkima landsins sem maður hugsar nú meira til þegar daginn er aðeins farið að lengja.

Athyglisverð grein er birt í nýjasta hefti Læknablaðsins eftir Þórodd Bjarnason félagsfræðing og Svein Arnarsson félagsfræðinema undir heitinu Slys á hættulegustu vegum landsins og sem fjallar um hvar flest alvarlegustu umferðarslysin verða, en rannsóknin var gerð á 4 ára tímabili, 2007-2010. Reiknuð var út tíðni slysa á mismunandi vegaköflum á landinu og eins miðað við ekna kílómetra. Tíðni slysa í dreifbýli var sérstaklega borin saman innbyrðis eftir staðsetningu á landinu og nálægð við mesta þéttbýlið.

Í niðurstöðunum segir síðan: „Flest slys á hvern kílometer vegar urðu á vegum til og frá höfuðborgarsvæðinu, en einnig austur að Hvolsvelli, norður til Akureyrar og á Mið-Austurlandi. Slysatíðni á hverja milljón ekna kílómerta var hins vegar hæst á norðausturhorni landsins, norðanverðu Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Neikvæð fylgni fannst milli fjölda og tíðni slysa. Hættulegustu vegarkaflar landsins með tilliti til beggja þátta voru á Mið-Austurlandi, norðanverðum Vestfjörðum, frá Blönduósi til Akureyrar og á norðanverðu Snæfellsnesi.“

Þannig að þótt flest umferðarslysin eigi sér stað í þéttbýlinu, að þá verða hlutfallslega miklu fleiri umferðarslys á hverja ekna km í mesta dreifbýlinu. Algengust reyndust umferðarslysin auðvitað vera í höfuðborginni og næst henni, enda bílaeign lang mest þar. Dánartíðnin í umferðarslysum úti á landi um var hins vegar tífalt hærri en í sjálfri höfuðborginni, eða um 0.7% af öllum slysum samanborið við 0.05%. Ef alvarleg meiðsl eru talin með þeim sem deyja er tíðnin 4.7% af öllum slysum í dreifbýli en 1.8% í höfuðborginni. En á hvaða vegaköflum úti á landi verða flest alvarlegustu slysin?

Í greininni kemur fram sú athyglisverða niðurstaða, að hlutfallslega verða flest alvarlegustu slysin á fáförnum, en nýjum vegaköflum þar sem akstursskilyrðin eru hvað best, en þar sem of hraður akstur kemur væntanlega oft við sögu. Nýjustu og beinustu vegakaflarnir á Suðurlandi og norðanverðu Snæfellsnesi eru dæmi um vegakafla þar sem flest alvarlegustu umferðarslysin verða miðað er við ekna kílómetra. Þar sem keyrt er allt of hratt á góðum vegum, en við séríslenskar aðstæður!

Tæplega eitt prósent tíðni dauðaslysa af öllum skráðum umferðarslysum í dreifbýli er allt of há tala, hvernig sem á hana er litið. Ef fækka ætti slysunum almennt í umferðinni, ætti samt að leggja meiri áherslu á að bæta og fjölga öruggum umferðarmannvirkjum í þéttbýlinu þar sem flest slysin verða en leggja megináherslu á umferðareftirlitið í dreifbýlinu þar sem hlutfallslega flest alvarlegustu umferðarslys verða tengt hraðakstri og reyndar slys almennt miðað við hverja ekna kílómetra. Það væri hægt t.d. með fjölgun umferðamyndavéla og breytingum á hönnun umferðarmannvirkja úti á landi til að halda hraðanum meira niðri. Eins þarf líka að laga einstaka mjög svo hættulega vegakafla víðs vegar um landið eins og önnur nýleg úttekt sýnir og nýlega var í fréttum.

Ekkert kemur samt í veg fyrir það sem mestu máli skiptir, sem er árveknin. Brotin hvít lína svo ekki sé talað um heila getur auðveldlega skilið milli lífs og dauða, ekki síst á hröðum vegum úti á landi. Þegar þyngd bílsins margfaldast með hraðanum sem þú keyrir á og bílnum sem á móti kemur ef árekstur verður. Staðreyndir sem allt of oft liggja fyrir varðandi íslensku þjóðvegina og slysin þar sem umferðareftirliti er oft ábótavant. Grípa þarf til aðgerða til að minnka tap þjóðfélgagsins sem mest vegna hundruða glataðra mannslífa og þúsunda örkumlaðra vegfarenda auk áþjánar tugþúsunda vina og fjölskyldumeðlima fórnalamba umferðarslysa hér á landi. Fyrst eftir að við minnkum aðeins hraðann, getum við farið að tala um betri og öruggari umferðarmannvirki sem vísar okkur veginn, hvar sem við búum á landinu.

Úttekt á hættulegustu vegum landsins, Ísland í dag. 19.1.2012

fyrri umfjöllun:

Þungaflutningar og ofsaakstur á vegum landsins

Umferðarhraðinn og slysin

Háleitisbrautin

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.2.2012 - 07:46 - FB ummæli ()

PFC iðnaðarefnin í sjónum kringum Norðurlöndin

Figure 18: Spatial distribution of PFAS residues (ng/L median concentrations) in  seawater from Nordic countries.

Figure 18: Spatial distribution of PFAS residues (ng/L median concentrations) in seawater from Nordic countries.

Rétt er að halda áfram umræðunni um perflúor-iðnaðarsamböndin og rannsóknina í JAMA í síðustu viku sem sýndi sterka fylgni á milli hárra gilda á svokölluðum PFC (perfluorinated compounds og sem líka kallast perfluorinated alkylated substances (PFAS)) í blóði verðandi færeyskra mæðra, og ónæmisbælingar hjá börnum þeirra síðar (5 og 7 ára) og sem héldu ekki mótefnamyndun gegn stífkrampa og barnaveiki þrátt fyrir endurteknar bólusetningar á fyrsta ári eins og lög gera ráð fyrir. Þar sem nú er mælt með endurbólusetningu hjá hátt í 10% barnanna og sem sýnir vel klínískan og lýðheilsulegan alvarleika málsins.

Um er að ræða fjölkeðja kolefnasameindir sem eru með flúorsameind bundna á flestum endum og sem gefur kolefnakeðjunni þann hæfileika að geta jafnt bundist fast á yfirborð náttúrulegra efna, jafnframt að fæla frá sér vatn og fitu. Efni sem aðeins eru tilkomin með iðnaðarframleiðslu til að nýta þennan hæfileika, aðallega fyrir matvælaiðnaðinn og til vatnsvarnar m.a. á skjólklæðnaði. Hins vegar eru efnin afskaplega sterk og brotna mjög seint niður í náttúrunni. Þau safnast hins vegar þar fyrir, mest í fiski og hvölum sem eru efstir í fæðukeðjunni, næstir á undan okkur mönnunum.

Samkvæmt ábendingu frá Umhverfisstofnun í gær eru PFC efnin frá áliðnaðinum ekki þau sömu og hér eru til umræðu, en sem fyrir misskilning tengdist umræðunni. PFC efnin frá áliðnaðinum (stutt flúorkolefni) valda engu að síður mikilli mengun sem mælist í gróðurhúsaáhrifum, margfalt á við útblástur alls bílaflotans okkar og fjallað var um í greininni á Vísindavefnum sem vitnað var í, en sem er samt allt önnur umræða.

Í gær fékk ég líka senda samnorræna skýrslu frá Umhverfisstofnun um mælingar á PFC efnum á Norðurlöndunum árið 2004 (Perfluorinated alkylated substances (PFAS) in the Nordic environment), og kann ég stofnuninni bestu þakkir fyrir. Myndin hér að ofan er úr þeirri skýrslu og sýnir magn hina ýmsu PFC efna í sjó sem ber að varast, en mælingar fóru fram víðar. Brýn þörf er á að endurtaka mælingarnar nú aftur, tæplega 10 árum síðar.

Rannsókn frá Færeyjum 2008 sem greint hefur verið frá í fyrri bloggum er hins vegar mjög áhugaverð. Hún skýrir vel uppsöfnun PFC efna hjá grindhvölum sem eru efstir í fæðupýramídanum enda rádýr og hræætur og síðar hjá mönnum sem borða mikinn grindhval. Nýja JAMA greinin sýnir svo sterka fylgni þessara háu gilda PFC í blóði verðandi mæðra við ónæmisbælingu barna þeirra síðar. Sennilga með próteinbindingu í frumum sem tilheyra ónæmiskerfinu. Það sem þarf að skoða betur eru önnur hugsanleg áhrif á ónæmiskerfi fósturs og síðar barns. Áhrifa þegar ónæmiskerfið verður til og er að þroskast, en helmingunartími þessara efna eru mörg ár. Auk þess sem fóstur eru e.t.v. líklegri en eldri mannverur að taka PFC efnin upp í nýju vefina sína. Þetta getur að hluta skýrt afgerandi og varanleg áhrif á börn samkvæmt niðurstöðum JAMA rannsóknarinnar.

Vitað að við erum líka mjög útsett fyrir allskonar PFC efni í matvörum sem mengaðar eru af pakkningum sem þaktar eru þessum efnum í ákveðnum tilgangi. Þegar hafa verið nefnd þekkt dæmi sem eru pokar utan um örbylgjupopp sem og teflonhúðaðar stálpönnur þar sem þessi efni geta losnað úr læðingi við steikingu og farið að einhverju leiti í matinn okkar. Vörurnar eru miklu fleiri og eldhúsáhöldin líka.

Full ástæða er að vera vel meðvitaður um hugsanlega hættu af PFC mengun, af völdum daglegra neysluvenja okkar. Ekki síst hjá verðandi mæðrum og meðal ungbarna. Eitthvað sem við getum sjálf ráðið einhverju um. Megin tilgangur rannsóknarinnar í JAMA var einmitt að benda á þessa hættu og vekja umræðu. Allra síst ættu verðandi mæður að borða hvalkjöt á meðgöngunni (sérstaklega grindhvali sem eru dýra- og hræætur) og mikið feitan fisk eins og vitneskjan er um þessi mál í dag. Vonandi fylgja nú fleiri rannsóknir á eftir til að sanna betur hugsanleg tengsl PFC og ýmissa þrávirka lífrænna efna sem safnast geta fyrir í náttúrunni, oft mest efst í fæðukeðjunni og valdið geta heilsuskaða.

Í bítið 3.2.2012- Hvað er PFC og af hverju ber að varast það?

Viðtal við Harald Briem, sóttvarnarlækni í Morgunútvarpi Rásar2, 13.2.2012

Landinn. Fréttamaður Leifur Hauksson, Umfjöllun um PFC 12.02.2012

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.1.2012 - 10:08 - FB ummæli ()

Fljótandi sofandi…?

Fátt hefur komið mér meira á óvart og áhugaleysi fjölmiðla hér á landi af fréttum af tengslum ónæmisskerðingar barna við háum gildum á flúorköfnunarefnum í blóði, svokölluðum PFC (perfluorinated compounds). Hjá allt að 40% verðandi mæðrum og nýfæddum börnum í Færeyjum upp úr síðusu aldarmótum eins og ný rannsókn sýnir og kynnt var í vísindatímariti amerísku læknasamtakanna, JAMA í síðust viku. Hvorki stafur né krókur þótt heimspressan hafi logað. Það skyldi þó aldrei eiga sér sínar séríslensku skýringar eins og svo margt annað, þar sem fjármagnið og pólitísk völd ráða mestu og mikið er í húfi?

Jafnvel RÚV, fjölmiðill allra landsmanna er þögull eins og gröfin. Svo ekki sé talað um gamla moggann sem muna má sinn fifil fegri, m.a. þegar hann birti fréttir af forkönnun þessarar rannsóknar í júlí 2008 sem sýndi hátt magn PFC meðal eyjaskeggja í Færeyjum sem neyttu grindhvalkjöts og vakti heimsathygli. Í kjöti og fiski, á lági og legi, á eyju þar sem PFC safnast mest saman hjá þeim sem eru efstir í fæðukeðjunni. Hugsanlega meira en hjá iðnaðarþjóðum sem eru ótengdari náttúrunni. Allt fjölmiðlar sem nú sofa á verðinum.

Jafnvel þótt áhrifin væru ekki nema brotabrot af því sem rannsóknin sýnir, er um stórfrétt að ræða og jafnvel þótt ein rannsókn, hversu sannfærandi hún er, sanni auðvitað ekkert í sjálfu sér. Rannsókninni hef ég reynt að gert aðeins skil í síðustu tveimur bloggum, enda tel ég mikilvægt að fá umræðu um málið og brugðist verði við niðurstöðunum strax með ábyrgum hætti. Sjaldan hefur mér reyndar brugðið jafn mikið sjálfum á árinu og þegar ég heyrði af niðurstöðum þessarar rannsóknarinnar. Á ári sem þótt ekki sé gamalt, hefur borið með sér ótrúlegar margar fréttir um allskonar mengun og spillingu í heilbrigðismálum frá árunum á undan.

Ýmislegt er hins vegar mikilvægt að árétta strax betur að mínu mati til að almenningur skilji alvöru málsins í PFC málinu. Ekkert síður stjórnvöld vegna sérstöðu Íslands og nálægðar við Færeyjar, og láti kanna málin hér betur. Ekki síst vegna álveranna sem við ráðum yfir fram yfir Færeyinga og menga margfalt meira en nokkuð annað mannanna verk hér á landi, margfalt meira en allur bílaflotinn og tengist gróðurhúsalofttegundum. Eins þess sem við ráðum ekki yfir og tengist eldfjöllunum okkar og flúormengun sem getur orðið til við eldgos.

Magar spurningar vakna auðvitað um önnur áhrif PFC efna sem hlaðast upp í náttúrunni, ekki síst tengt miklum áliðnaði hér á landi og sjónum í kringum landið. Sem snýr ekki bara að hvölunum okkar sem ekki má veiða í augnablikinu, heldur frekar öllum fiskinum og okkar helstu útflutningsvöru. Færingarnir virðast í það minnsta illa settir gagnvart sínum grindhvölum og fyrri rannsóknir sýna svo vel. Að öðru leit og ef til vill flestu leiti virðist sem Íslendingar séu í síst betri málum en frændir okkar Færeyingar, þaðan sem ógnvænlegu fréttirnar berast.

Bæði eru löndin ímynd hreinleikans, óspilltar náttúru hefðu einhverjir viljað segja. Og hvað þá með önnur lönd, þar sem allskonar mengun sem stuðlað getur að auknu PFC magni beint úr iðnaðarvörum og tilbúnum matvælum er miklu meiri og algengari, eða hvað? Lönd sem horfa með forundran á eyjarnar norður í Atlandshafi og reyna að ímynda sér ástandið í eigin landi.

Sannleikurinn um PFC mengun í hverjum og einum einstakling ræðst þó ekki síst á neysluvenjum hvers og eins, og mikilvægt er að allir foreldrar viti um í það minnsta. Vitað er um mikið magn PFC efna í ýmsu sem mengað getur fæðið auðveldlega og rétt er að átta sig á. Því þar má mikið bæta og fyrirbyggja, enda hafa heilbrigðisyfirvöld sumstaðar þegar eftir JAMA-greinina hvatt fólk til að kanna PFC í sínu nánasta umhverfi og athuga vel neysluvenjur.

Pakkningar ýmiskonar á tilbúinni matvöru eru oft húðaðar með vatnsfælnum PFC efnum sem hindra viðloðun við fitu og vatn. Pokar undir örbylgjupopp og pizzukassar eru fljótnefndustu dæmin, en sem á auðvitað við um flestar skyndibitavörur. Eldúsáhöld hverskonar, ekki síst teflonhúðaðar steikarpönnur innihalda líka mikið magn PFC og menga matinn við eldun með hugsanlega ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Því þarf þegar í dag að bregðast við og lágmarka notkun og neyslu þessara vara. Jafnvel líka vatnsvörðum skjólfatnaði ýmiskonar sem liggur í nánum tengslum við svitaholurnar okkar og PFC getur skriðið þaðan í vessana okkar. Áliðnaðurinn eins og hann leggur sig er auðvitað á ábyrgð stjórnvalda fyrst og fremst, nú ekkert síður heilbrigðisyfirvalda.

Setja þarf strax rannsóknarnefnd í málið og huga að næstu skrefum, því um alvarlega ógn er að ræða gagnvart lýðheilsu almennings. Mæla þarf PFC gildi í blóði íslenskra barna og fá samanburð við önnur börn á norðurlöndunum. Ekki síst vegna aukinnar hættu á alvarlegum smitsjúkdómum og sjálfsónæmissjúkdómum hverskonar í framtíðinni. Eins hugsanlegum óskildum en öðrum alvarlegum sjúkdómum eins og krabbameinum og blóðsjúkdómum hverskonar eftir sem árin líða. Vegna alvarlegra vísbendinga sem þegar liggja á borðinu á eyju norður í Atlantshafinu, við hlið annarrar, þar sem þjóðin sem þar býr vill líka veiða hval, auk þess að bræða ál og nútímavæðast eins og best hún getur.

Áður mér bara brá, ál og stál. PFC-fár, hvalir og börn nú fá. Bál í íslenskri sál.

Erlend frétt  í gær um PFC og viðtöl

TV2 DK
USA today

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.1.2012 - 08:27 - FB ummæli ()

Flúorbindiefni og mótefni barna

Niðurstöður athyglisverðar dansk/amerískrar rannsóknar eru nú birtar í nýjasta hefti vísindatímarits amerísku læknasamtakanna, JAMA, sem fjallar um samband algengs iðnaðarefnis sem notað er til að minnka viðloðun á heimilistækjum hverskonar og í pakningum ýmissa tilbúinna matvara og mótefnasvara barna við bólusetningu gegn barnaveiki og stífkrampa. Efnið er í flokki svokallaðra fluorcarbonefna (Perfluorinated compounds (PFC)) og finnast t.d. í teflonhúð stálpanna, innan á pizzukössum og í umbúðum örbylgjupopps og annarra skyndibita. Efni sem eiga ekkert skylt við iðnaðarsaltið „illræmda“ en sem mesta athyglina hefur þó fengið að undanförnu og sem er sennilega miklu saklausara.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna beint samband við magn þessara PFC-efna í blóði barna  og mótefna barna gegn algengustu bólusetningum barna. Rannsóknin var gerð á um 700 börnum frændþjóðar okkar Færeyinga, svo málið er okkur skyldar fyrir vikið enda neysluvenjur svipaðar. Mælt var magn PFC við fæðingu og sem móðir hafði þá verið útsett fyrir á meðgöngunni, og svo við 5 ára og 7 ára aldur barnanna. Rannsakendur telja nauðsynlegt að bólusetja börnin með lélegustu mótefnasvörunina upp á nýtt, auk þess sem þeir vilja kanna tengsl við léga svörun gegn öðrum bólusetningum barna. Lesa má um fréttina og horfa á vef TV2, DK .

Sjálfsagt er því að vera ávalt vel vakandi fyrir hvað við borðum og hvernig við eldum matinn okkar, ekki síst fyrir börnin okkar litlu.

Aðrir tenglar í gær og í dag:

http://www.foxnews.com/health/2012/01/25/pfc-chemicals-tied-to-immune-problems-in-kids/

http://www.inquisitr.com/186236/pfc-exposure-could-inhibit-kids-vaccine-response-data-shocks-researchers/

http://tucsoncitizen.com/usa-today-news/2012/01/24/pfc-exposure-may-limit-vaccines/

http://www.telegraph.co.uk/science/science-news/9036296/Vaccinations-could-be-less-effective-after-chemical-exposure.html

http://minnesota.publicradio.org/display/web/2012/01/26/pfc-study/

http://www.nature.com/news/manufacturing-chemicals-may-damage-the-immune-system-1.9877

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.1.2012 - 07:44 - FB ummæli ()

Erum við brjóstgóð þjóð?

Í framhaldi af umræðunni um PIP-brjóstapúðana og vilja ríkisins nú að hjálpa þeim konum sem þá bera undir húð og fjarlæga sem þegar eru farnir að leka, vakna fjölmargar spurningar. Ekki síst um mál er varðar gervibrjóstaígræðslur ungra kvenna almennt hér á landi. Er einhver sérstaða á þessum málum hér á landi og getur verið að vandinn sé meiri en hjá nágranaþjóðunum? Hvernig hafa brjóstastækkanir verið kynntar ungum konum á síðustu árum og hver er þáttur fjölmiðla í þeirri kynningu? Er um stórt tilbúið heilbrigðisvandamál að ræða? Eins, hvernig er eftirliti með aðgerðunum háttað og skráningu sem ekki hafa þó skilað sér þrátt fyrir lög þar að lútandi sl. ár. Eins kynningu heilbrigðisyfirvalda og Landlæknis sem þó gaf út fræðslubækling um brjóstastækkanir árið 2002. Allt í ljósi þess sem nú er vitað og hvaða heilsuógn getur stafað af þessum púðum sem leka yfir 1% á ári (allt að 20% á 10 árum). Ekki þó síst hjá þeim 450 konum sem bera PIP púðana (allt að 80% lekatíðni á 10 árum) sem sannarlega er svikin vara og beinlínis hættulegir, ekki síst vegna óljósra upplýsinga um innihaldið.

PIP púðarnir illræmdu eru í miklum minnihluta allra púða sem notaðir eru hér á landi, en sem eru um 50% allra púða á Englandi. Miðað við fólksfjölda er tíðni brjóstapúðanotkunar miklu meiri hér á landi. Áætlaður fjöldu er milli 3-4.000 kvenna sem samsvarar að allt að 5% ungra kvenna beri slíka púða og sem er fimmföld tíðninni á Bretlandi. Sennilega þarf nú allur þessi fjöldi að leita aðstoðar heilbrigðiskerfisins til að fylgjast með lekanum og láta fjarlægja þá alla fyrr eða síðar, fyrir utan fjölda kvenna sem bíður varanlegt heilsutjón af notkuninni.

Til að hægt sé að taka ákvörðun um næstu skref, þarf samt auðvitað að fá nákvæmar upplýsingar um notkunina almennt. Hvernig í ósköpunum má það vera, ef vandanum verður áfram haldið leyndum og hann látinn hlaðast upp með vaxandi þunga? Allskonar aðgerðir og úrræði sem verulega dregur þá úr möguleikum heilbrigðisþjónustunnar að veita ýmsa aðra hjálp vegna fjárskorts. Og hvað með lýðheilsusjónarmið almennt og lög og reglugerðir sem eiga að stuðla að bættri heilsu almennings og mengunarvörnum. Nákvæmar upplýsingar um heilsu eða heilsuleysis af okkar sjáfra völdum, samanber afleiðingar tóbaksreykinga, og sem er grundvöllur þess að við breytum lífhsáttum okkar og lífsstíl. Alveg eins og nauðsynlegt er að vita hvað við borðum og drekkum og könnun dagsins sýnir ágætlega.

Þar sem glöggt kemur í ljós að við erum of feit og neytum allt of mikils sykurs, ekki síst sykraðra gosdrykkja. Eins að okkar vantar meira D-vítamín í kroppinn. Að við megum drekka meira lýsi en éta minni fitu, þótt töluverður ávinningur hafi orðið með fræðslu og áróðri um þessi efni sl. ár. Á sama hátt verður að verða mikið meiri fræðsla fyrir ungar konur um brjóstastækkanir í framtíðinn, svo þær geti tekið upplýsta ákvörðun um slíkar aðgerðir og eins að þær geti valið að losna við þá púða sem þær er þegar með. Varla er þó spurning hvort á að fá að vega þyngra, lýðheilsan eða frjást val að fá að ógna líkama sínum með hjálp læknisfræðinar.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.1.2012 - 13:56 - FB ummæli ()

Svarturhvítur harmleikur?

sbarthvítutÞað er í raun í bakkarfulla lækinn að ræða meira um mengun allskonar og áhrif hennar hér á landi, svo mikið hefur verið fjallað um hana í allri merkingu þess orðs. Nýjar uggvænlegar upplýsingar á hverjum degi. En ég gerið það nú samt.

Olíumengun er líka raunverulegt vandamál á Íslandi, ekki síst dreifðustu byggðum landsins eins og fréttir dagsins bera með sér. Þar sem tugþúsundir lítra af bensíni ógna nú fiskeldi á einum ómengaðasta stað landsins hingað til, í sjálfu Ísafjarðardjúpinu.

Vegna olíuflutninga á vegum landsins sem þeir eru ekki byggðir fyrir. Allra síst á þessum árstíma og þegar tekið er tilliti til allrar almennrar umferðar á sama tíma. Þungaflutningar sem eiga að fara sem mest af þjóðvegunum, ekki síst til að lágmarka slys á fólki sem hefur ekkert annað val en keyra þá og ég hef áður nýlega fjallað um. Vöruflutningar eiga auðvitað mest heima með strandsiglingum, enda byggð landsins ótrúlega dreifð um alla strandlengju eyjunnar okkar fögru. Til að spara mengun, slit og slys hverskonar.

Til viðbótar mengunar- og umferðarslysins nú í Djúpinu, berast líka tilmæli í dag að spara megi mikið röntgengeisla til læknisgreininga. Ekki síst tölvusneiðmyndir svokallaðar sem orsaka margfalda geislun á við venjulegar röntgenmyndatökur og að nota eigi rannsóknirnar til að staðfesta klínískan grun en ekki öfugt. Sem rétt er líka að hafa í huga þar sem vitað er að sumir hnykkjarar eru með röntgentæki á stofunum hjá sér úti í bæ, til þess aðeins að staðfesta hryggskekkjur sem sjást oftast með berum augum.

Erum við raunverulega búin að missa litsjónina á náttúru landsins og á okkur sjálf eða er heimurinn virkilega að verða einn svarthvítur harmleikur?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.1.2012 - 13:19 - FB ummæli ()

Iðnaðarsalt í sárin okkar

Það svíður sáran ef salt er borið í sár. Ofan á allt annað sem misfarist hefur tengt heilsunni okkar um árabil hér á landi, bætist nú við umræðan um notkun iðnaðarsalts til matvælavinnslu í stað salts sem ætlað er til manneldis, sem blautt salt í blæðandi sár. Iðnaðarsalt sem flest stærri matvælafyrirtæki hafa nýtt sér til að spara kostnað, hugsanlega á kostnað heilsu almennings. Líka barnanna okkar sem borða brauðið sitt og ostinn,  til að verða stór og sterk. Salt sem er ekki ætlað til manneldis eins og stendur skýrum stöfum á plastsekkjunum sem það kemur innflutt í, heldur efnaiðnaðar hverskonar og sem saltvörn á götur og gangstíga borgarinnar sem sárlega hefur vantað, einhverja hluta vegna. Er hægt að svíða meira undan nokkri umræðu? Og maður hélt að salt til manneldis væri þó það eina sem við kæmum alltaf til með að hafa efni á, í grautinn okkar.

Hvað á þetta háttalag að þýða og skömm fyrirtækjanna og opinbera eftirlitsaðila hlýtur að vera einhver þessa daganna? Það er ekki nóg að heilbrigðisyfirvöld beini athyglinni á meinta díoxín mengun við ákveðna staði og veðurskilyrði, um áramót og sem mestu athyglina hefur fengið á síðustu árum, en skiptir í sjálfu sér minnstu þegar allt kemur til alls. Miklu frekar til kadmíns í áburði sem við notum til hálf-lífrænnar ræktunnar hér á landi. Enn frekar til mikillar sýklalyfjanotkunar gegnum árin í góðri trú, en sem er þegar búin að eyðileggja á vissan hátt sýklaflóruna okkar og gera helstu meinvaldana ónæmari fyrir sýklalyfjum þegar öflugra sýklalyfja er mest þörf. Nú á síðustu dögum líka iðnaðarsílikonsins sem lekur um líkama allt að 10% ungra kvenna að öllu óbreyttu með árunum. Öllu sýnilegra vandamál, enda tengist aukinni  líkamsþyngd kvennanna sem bera slíka púða, undir húð.

En ofan í öll sárin í þjóðfélaginu þessa daganna, svíður nú mest undan iðnaðarsaltinu. Við, sem í trúarlegum skilningi erum sjálf sögð vera salt jarðarinnar en sem margir eru nú hættir að trúa, enda saltið greinilega þrælmengað eins og svo margt annað í þessu margblessaða þjóðfélagi okkar. Í betur upplýstri almennri umræðu neytenda.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn