Miðvikudagur 27.10.2010 - 15:19 - FB ummæli ()

Hættuleg blanda

Lágt testósterón og hátt kólesteról virðist geta verið hættuleg blanda. Ný rannsókn um efnið  sýnir verndandi þátt testósteróns (karlkynshormónsins) gagnvart kransæðadauða hjá karlmönnum sem eru með staðfestan kransæðasjúkdóm. Um 20% karlmanna yfir 60 ára hafa lækkað frítt testósterón í  blóði svo niðurstöðurnar vekja að vonum mikla athygli.

Greint var frá niðurstöðunum í nýjasta hefti læknatímaritsins HEART í vikunni. Niðurstöðurnar vekja upp spurningar hvort í framtíðinni ætti að kanna blóðgildi testósteróns hjá karlmönnum sem eru í aukinni áhættu á að vera með kransæðsjúkdóm, ekkert síður en að mæla kólesterólið sem er vel þekktur áhættuþáttur. Hugsanlega mætti  þá gefa þeim kost á „uppbótarmeðferð“ sem eru með lágt frítt testósterón í blóði. Þannig mætti minnka dánarlíkur þessara karlmanna um allt að helming. Rannsóknin náði til um 1000 manna sem var fylgt eftir í 7 ár. Dánartíðni þeirra sem voru með lækkað frítt testósterón var um 21% á móti 12% hjá þeim sem voru með eðlilegt frítt testósterón, leiðrétt fyrir öðrum áhættuþáttum með fjölþáttagreiningu m.a. hvað varðaði blóðfitulækkandi meðferð.

Höfundar rannsóknarinnar mæla þó með að áður en ráðleggingar verði settar fram varðandi uppbótameðferðina, að þá verði fyrst gerðar framvirkar rannsóknir á gagnsemi meðferðar og hugsanlegar aukaverkanir betur kannaðar. Aðrar rannsóknir hafa ekki verið framkvæmdar með þessum hætti en rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum á uppbótameðferð á testósteróni hjá eldri karlmönnum (>65 ára) í öðrum tilgangi og niðurstöður kynntar fyrr á þessu ári í NEJM var hætt vegna aukinnar dánartíðni af völdum hjartasjúkdóma. Rannsóknin var hins vegar lítil og orsakaþættir of óljósir til að dregnar væru öruggar ályktanir um dánartíðnina. Vöðvakraftur og færni til daglegs lífs jókst hins vegar og sem var megin tilgangur rannsóknarinnar að sýna fram á.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Þriðjudagur 26.10.2010 - 17:50 - FB ummæli ()

Íslendingar og heimurinn allur

Hvert okkar er einstakt en við myndum fjölskyldur sem ganga saman gegnum sætt og súrt. Í andlit hvers okkar er greypt saga sem fylgir okkur alla ævi, oft saga sem er aldrei sögð en mótar okkur samt og þroskar fyrir lífstíð. Samspilið innan fjölskyldunnar skipir okkur þannig mestu máli. Lífskjör okkar og menntun er að lokum síðasta tækifærið út í lífið sem einstaklingar. Líf meðal annarra fjölskyldna sem við stofnum.  Allt þetta má lesa í meðfylgjandi mynd af íslenskri nútímafjölskyldu ásamt mörgum öðrum sem sjá má í frábærri ljósmyndabók Sigurgeirs Sigurjónsson og Unnar Jökulsdóttur. Bók sem var gefin út í góðærinu (2004) en var þá að manni fannst hálfgerð tímaskekkja og sýndi ekki þá Íslendinga sem við töldu okkur vera en sem við vorum engu að síður. Góðar ljósmynd af andliti og höndum fólks segir þannig merkilega sögu og sem verður áhugaverðari eftir sem árin líða. Myndir af okkur ungum sagði allt aðra sögu, ekki síst um þær væntingar og vonir sem búa innra með okkur. Fjölskyldualbúmið er þannig mesti dýrgripur hverrar fjölskyldu.

Lýðveldið er ungt og við höfum augljóslega ekki kunnað fótum okkar forráð. Við erum eins og unglingur sem hefur farið í gegnum mótþróaröskun unglingsáranna og sem hefur brennt sig aðeins á ýmsum staðreyndum lífsins eins og gengur. Samt hraustur og efnilegur.  Allir vita hvað bíður unglingsins ef hann fær ekki tækifæri til að blómstra, menntast eða bara hafa nóg fyrir stafni og sinna sínum áhugamálum. Svipað er nú komið fyrir okkur sem þjóð. Við þurfum að fara að axla ábyrgð og sá tími er liðinn að við getum verið endalaust í fýlu út í umheiminn, lokað okkur af og skellt hurðum. Við verðum að standast kröfur um bestu menntun sem völ er á og það gerum við ekki nema í nánu samstarfi við aðrar þjóðir og að unga fólkið fá bestu grunnmenntun sem völ er á. Tenging við gamla tímann, þann nýja og fjölmenningarlegt samfélag.

Heimurinn er alltaf að minnka og sífellt meiri áhersla er lögð á samstöðu meðal þjóða, rétt eins og hjá fjölskyldumeðlimum í stórri fjölskyldu. Ekki síst til að halda friðinn. Ábyrgðin á vansæld annarra þjóða er oft mikil og í vaxandi mæli ættum við sem þjóð að kannast við vandann og söguna og leggjast á árar með örðrum frjálsum þjóðum. Við hljótum að vilja vera með í samfélagi þjóðanna og láta til okkar heyra. Ekki síst viljum að börnin okkar fái tækifæri til að taka þátt.

Nú eru blikur á lofti  með nánustu framtíð okkar en við stöndum á ótrúlega sterkum grunni hvað varðar hlunnindi landsins og grunnmenntun þjóðarinnar. Tækninýjungarnar höfum við heldur ekki látið fram hjá okkur fara og á sumum sviðum í tækniþekkingu stöndum við fremstir meðal þjóða. Í þessu liggur okkar styrkur, við eigum að vera órög að takast á við ný og ögrandi verkefni, sú náttúra liggur einfaldlega í blóðinu okkar.

Ljósmynd eins og að ofan er rétt eins og heimskort þar sem þjóðirnar bíða þess eins að fá að tala saman og fá að vera með hvor annarri, gegnum súrt og sætt. Höldum nú áfram af krafti með aðildarviðræðurnar um mögulega ESB inngöngu fyrir Ísland. Látum ekki „unglinginn“ í okkur eyðileggja það tækifæri líka.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.10.2010 - 22:30 - FB ummæli ()

Konur til alls vísar

Fyrst kynin eru tvö, karl og kona, hljóta þau að eiga bæta hvort annað upp. Hlutverkaskiptingin hefur bara ekki alltaf verið á hreinu. En eitt er alveg ljóst að hvorugt kynið getur án hins verið.

Holl eru kvennaráð og það er betra að hafa ykkur með en á móti. Konur axla að öllum jafnaði miklu meiri ábyrgð á heimilislífinu og sennilega þjóðfélaginu öllu. Mér segir svo hugur um að samviskusemin sé ykkur betur ásköpuð en hjá okkur körlunum. Það er verkefni okkar karlana á komandi árum að deila meira með ykkur ábyrgðinni og jafna völdin og kjörin.

Ykkar barátta, sem vinna oftar en ekki með manneskjuna sjálfa, er barátta okkar allra að lokum…

Til hamingju með daginn.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.10.2010 - 15:11 - FB ummæli ()

Vantrú eða trú

Ég ætlaði upphaflega að blogga einhver góð hvatningarorð til kvenna í tilefni að deginum í dag en varð „kjaftstopp“ eftir að hafa heyrt úr predikun biskups, Hr. Karls Sigurbjörnssonar í gær og eftir að hafa séð viðtal við hann í fréttum á Stöð 2. Er maðurinn veruleikafyrtur eða er ég svona blindur að sjá ekki ljósið. Hver er í hlutverki páfans í dag og hver er í hlutverki Dante. Er við hæfi að reiða  svona hátt til höggs, næstum því eins og að slá fulltrúa almennings, „þeirra sanntrúuðu“ utan undir, í þeirri varnarstöðu sem biskupinn er í og Þjóðkirkjan öll, málstaðurinn klisjukenndur og  fordómafullur. Allt að  því hatursfullur. Kirkju sem hefur brugðist í tvennum skilningi.  Annars vegar sem stofnum sem átti að standa vörð um grunngildin og hófsemina í stað þess að taka þátt í hlaupinu kringum gullkálfinn. Nokkuð sem hefur komið okkur í þá stöðu sem við erum í dag, í andlegu sem veraldlegu gjaldþroti. Hitt er að gæta ekki að velsæmi og trúverðugleika á innri málefnum þjóðkirkjunnar.  

Miðað við hvað mikið hefur verð lagt í Þjóðkirkjuna okkar sem stofnun á liðinni öld er fallið í almenningsálitinu þeim mun meira. Hér er ekki átt við kristna trú sem slíka heldur aðeins trúverðugleika og heilindi kirkjunnar sjálfrar gagnvart almenningi. Hún getur ekki einu sinni tekist á í rökræðu um nútímalegar þarfir barnanna okkar. Rætt um kristaltæran sannleikann og ábyrgð. Á sama hátt og stjórnkerfið þarf allt af fara í gegnum hreinsunareld þessa daganna að þá þarf þjóðkirkjan ekki síður á þeirri hreingerningu á eigin sál að halda. Hún á að sjá sóma sinn í að vera lítillát, biðjast fyrirgefningar og reyna að byrja að vinna traust fólks aftur með því að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni í stað þess að loka sig af en brjótast síðan út með gífuryrði og allt að því menningarfyrirlitningu. Þetta á ekki síst við gagvart börnunum okkar sem við kappkostum að undirbúa sem best við getum fyrir framtíðina á viðsjárverðum tímum.

Upplýst samfélag og vel menntað er það þjóðfélag sem við stefnum að og mistök gærdagsins mega ekki endurtaka sig aftur. Við ætlum að reyna að læra af reynslunni og reyna að snúa neikvæðri reynslu á jákvæðan hátt eins og við frekast getum. Þjóðkirkan brást þegar við þörfnuðumst hennar mest. Nú viljum við valfrelsi og nýja kirkju með nútímalegum viðhorfum á gömlum rótum. Við viljum nálgast trúmálin eftir okkar eigin þörfum en ekki að hún sé á borð borin eins og hver önnur máltíð.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.10.2010 - 13:23 - FB ummæli ()

Heilsugæsla með sálina að veði

sálinMikið er rætt um veikburða ríkisstofnanir þessa daganna. Þær eiga undir högg að sækja enda hefur stjórnunin ekki alltaf verið eins og best verður á kosið og oft vaknað upp spurningar hvaða hagsmuni er verið að verja. Þróun opinberrar þjónustu hefur liðið fyrir vöntun á forgangsröðun en sjónarmið vina og stjórnmálamanna látin ráða í stað bestu fagþekkingar á hverjum tíma. Oft er líka leitað langt langt yfir skammt og sérfræðingar fengnir utan að þegar besta nálgunin liggur hjá okkur sjálfum.

Gæðaþróun hefur þannig átt erfitt uppdráttar víðs vegar í heilbrigðiskerfinu, ekki síst í heilsugæslunni sjálfri. Skilaboðin um það sem vel er gert nær oft ekki upp í toppinn og sjálfur heilbrigðisráðherra og hans nánust samstarfsmenn oft illa upplýstir um gang mála á gólfinu. En það eru undantekningar og nú hefur t.d. verið stofnuð Þróunarstofa heilsugæslunnar til gæta betur að grasróttinni. Vonast er til að hún efli rannsóknir og vísindi í heilsugæslunni og stuðli að vaxandi gæðaþróunarstarfi sem skili árangri.

Sálfræðihjálp í heilsugæslunni er dæmi um þjónustu sem sárlega hefur vantað í seinni tíð, ekki síst á tímum örra og erfiðra þjóðfélagsbreytinga en sem betur fer á sama tíma og við erumbetur varin fyrir mörgum líkamlegum kvillum. Heilsugæslan byggist í eðli sínu á þverfaglegri vinnu ólíkra heilbrigðisstétta þar sem heimilislæknirinn sjálfur hefur yfirsýn með vandamálunum, eðli starfs hans vegna. Heilsugæslan er miðstöð heimahjúkrunar og öldrunarþjónustu og snertir á margan hátt félagsþjónustuna líka. Vandamálin hafa verið mörg og mikil. Gjörsamlega ómögulegt hefur verið að komast yfir öll verkefnin sem heilsugæslu er ætlað að sinna, ekki síst höfuðborgarsvæðinu þar sem undirmönnunin er hvað mest og upp undir 50 heimilislækna vantar miðað við staðla í nágranlöndum okkar.

Búnar hafa hins vegar verið til stofnanir til að annast ráðgjöf í lýðheilsu (Lýðheilsustofnun) sem auðvitað á heima innan heilsugæslunnar sjálfrar, enda fræðsluhlutverkið ekki síst hlutverk heilbrigðisstarfsfólks eins og nýjustu erlendu klínísku leiðbeiningar gera ráð fyrir. Þjónusta við veik börn fer þess í stað að mestu fram á skyndivöktum. Skortur á þjónustu hefur ekki síst verið gagnvart börnum og unglingum sem hafa átt við geðraskanir að stríða og fjölskyldna þeirra.

Ofvirkni og athyglisbrestur er mjög algengur í okkar þjóðfélagi, ekki síst hjá börnum sem gengur illa í skóla og sem aðlagast samfélaginu oft illa. Skólasálfræðingar hafa engan veginn annað álaginu og skortur á nauðsynlegri þjónutu er orðin mjög áberandi. Mjög erfitt er svo að koma börnum að hjá barnageðlæknum eða á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar LSH (BUGL) sem er undir miklu álagi. Mjög knýjandi þörf er orðin á að heilsugæslan mæti álaginu á einhvern hátt auk þess sem hún þarf að sinna vaxandi kvíða- og þunglyndisröskunum fullorðinna á erfiðum tímum. Á sama tíma er sálfræðiþjónusta sjálfstætt starfandi sálfræðinga á stofu dýr enda eru þeir ekki samningsbundnir við Sjúkratryggingar ríkisins og þannig ekki „hluti af heilbrigðiskerfinu“. Lyfjakostnaður geðlyfja, ekki síst ofvirknislyfja er á sama tíma allt að tvöfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum og segir sína sögu.

Sl. ár hafa nokkrir sálfræðingar verið ráðnir við nokkrar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu til að geta sinnt börnum til 18 ár aldurs og ungum mæðrum sem eiga við geðraskanir að stíða ekki síst þunglyndi og aukin hætta er þá á truflun tengslamyndunar við ungbörnin. Truflun sem getur leitt af sér geðraskanir hjá börnunum síðar og kvíða. Um reynsluverkefni er að ræða sem lofar mjög góðu.

Á heilsugæslustöðinni sem ég starfa í Firði er þjónustan þegar ómissandi þáttur í starfsemi stöðvarinnar. Margra vikna biðtími eftir tíma hjá sálfræðinginum segir stóran hluta af sögunni, en árangurinn af starfinu þó enn meira. Atferlismeðferð við geðröskunum svo sem hegðunarerfiðleikum og ofvirkni og meðferð við kvíðaröskunum og þunglyndi sem ekki fékkst viðhlýtandi meðferð við áður. Varanlegri árangur en með lyfjameðferð og styrking sálar við líkamann. Maður hefur spurt sig, hvernig fórum við að áður og hvaða þjónustu á heilsugæslan að veita ef ekki sálfræðiþjónustu jafnhliða annarri nauðsynlegri læknishjálp. Heilbrigð sál í hraustum líkama.

Önnur tilraunaverkefni hafa verið í gagni með þverfaglega vinnuhópa á heilsugæslustöðvunum. Fyrir nokkrum árum reið Heilsugæslan í Grafarvogi á vaðið með verkefni sem var kennt við fjölskylduna og litla barnið, verkefni sem áður hafði verið hleypt af stokkunum á Heilsugæslunni á Akureyri undir heitinu Nýja barnið. Hjálmar Freysteinsson heilsugæslulæknir var einn að frumkvöðlum verkefnisins þar ásamt fleirum. Markmiðið var að hjálpa ungum mæðrum að bæta tengsl við barnið sitt. Einnig að hlúa að vandmálum verðandi mæðra. Jafnframt að sigta út lítil börn með þroska- og hegðunarvandamál og koma þeim í þverfaglegt meðferðarteymi félagsráðgjafa, sálfræðings og heimilislæknis. Verkefnið hefur verið unnið að í samvinnu við BUGL. Mjög góður árangur hefur verið af þessari vinnu sl. ár fyrir norðan og stefnt er að því að rágjöfin verður fastur liður í starfsemi stöðvarinnar.

Annað nýtt verkefni var kynnt á nýyfirstöðnu Vísindaþingi íslenskra heimilislækna 8-9. okt. sl. Þar kynnti Kristján G. Guðmundsson heilsugæslulæknir verkefnið, Fjölskylduteymið í Glæsibæ. Markmiðið var að sinna á þverfaglegan hátt börnum sem áttu í við andlega vanlíðan eða erfiðleika að stríða, m.a. grunnskólunum í hverfinu. Gerður var samstarfssamningur við Velferðarsvið Reykjavíkur og BUGL. Kallaðir voru til sérkennarar og skólastjórnendur eftir því sem við átti og mál tekin upp í nemendaverndarráði. Meðalaldurinn var 11 ár þegar börnin komu í teymið og aðal ástæðurnar geðlægð, kvíði og hegðunarröskun. 70% foreldra reyndust síðan ánægðir eða mjög ánægðir með árangur teymisins strax eftir fyrsta veturinn (2009-2010) og töldu að börnin og fjölskyldurnar hefðu fengið góða hjálp við vandanum.

Á fræðadögum heilsugæslunnar í næsta mánuði munu sálfræðingar heilsugæslunnar kynna verkefni sín betur með öðru starfsfólki. Þjónustan er vonandi komin til að vera og þá á öllum heilsugæslustöðvum ásamt vonandi þjónustu félagsráðgjafa í samvinnu við félagsmálayfirvöld á hverjum stað. Heilsugæslulæknar ná þá vonandi aftur að vinna meira þverfaglega sem heimilislæknar og nálgast grasrótina í sjálfum sér.

Gleymum því ekki að yngsta kynslóðin fór verst út úr kreppunni í Finnlandi á áttunda áratug síðustu aldar sem kom best í ljós í geðröskunum hverskonar síðar. Kvíði, spenna og vöntun á hamingju á heimilum var stærsti áhættuþátturinn og vandamálið kom ekki augljóslega fram fyrr löngu eftir kreppuna þeirra og þá hjá heilli kynslóð ungs fólks. Fólksins sem átti að erfa landið og hefur stundum verið kölluð týnda kynslóðin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.10.2010 - 21:55 - FB ummæli ()

Kanntu brauð að baka?

Öll mál eiga sér tvær hliðar. Sérstaklega gildir þetta þegar við deilum hvort við annað. Oft komumst við að einhverri niðurstöðu. Stundum höfum við haft rangt fyrir okkur en erum þá reynslunni ríkari á eftir. Stundum vitum við betur en látum í minni pokann. Allt of oft bökum við samt vandræði eða látum gabba okkur.

Ég verð að viðurkenna að mér leið einkennilega fyrir hrun. Ekki það að ég yrði áskynja um yfirvofandi hættu, reyndar alveg grunlaus eins og flestir aðrir Íslendingar. Það var bara svo margt sem ég skildi ekki og sumt skil ég reyndar ekki ennþá daginn í dag. Það sem mér fannst einkennilegast var sú upplifun að einhvers staðar á lífsleiðinni var eins ég  hafði misst af stóra tækifærinu. Ég skildi t.d. aldrei hvað margir gátu orðið ofboðslega ríkir á stuttum tíma. Ekki það að ég öfundaði þá svo mikið enda hafði ég nóg fyrir mig og mína, heldur meira tilfinningin að ég væri eftirbátur skólabræðra minna, skussi á vissan hátt og kynni ekki að ávaxta peningana mína. Oft var samanburðurinn við menn og konur sem voru töluvert yngri en ég var sjálfur og sem tengdust því miður fjármálaheiminum, á einn eða annan hátt í svokallaðri útrás.

Gildismatið á venjulegri vinnu í þjóðfélaginu var orðið furðulegt. Ég notaði það sem afsökun fyrir mig að ég væri aðeins að sinna því sem ég hafði lært og sem skapaði mér mikla starfsánægju. Margir virtust bara svo ofboðslega klárir og voru alltaf að koma fram á opinberum vettvangi til að minna á sig og sín gildi.

Stofnanir eins og bankinn minn Landsbankinn, sem ég taldi algerlega óskeikula stofnun og sem maður trúði í blindni að stundaði fjármálstarfsemi undir ríkiseftirliti. Hann er nú kominn til sérstakrar rannsóknar hjá Ríkissaksóknara. Ég var meira að segja grunlaus hvert stefndi þegar bankinn minn gat ekki lánað mér eina litla milljón króna haustið 2007 vegna skorts á lausafé, eða svo sagði útbússtjórinn. En þetta var mín tilfinning þá, slíkur var heilaþvotturinn búin að vera enda fjölmiðlar og stjórnmálamennirnir duglegir að spila hann upp.

Gæði vísindanna í landinu var mælt í peningalegum ávinningi. Genarannsóknir þóttu hvað fínastar og sem áttu að skaffa tugmilljarða króna verðmæti síðar. Menn voru tilbúnir til að selja sálir almennings og ríkistryggja framkvæmdirnar í þessu sjónarmiði. Smjaðrað var fyrir stjórnendum mennta- og heilbrigðistofnana og allskonar samningar gerðir sem tryggja átti framúrskarandi árangur okkar í vísindaheiminum. Hagnýtar rannsóknir í heilsugæslunni og lýðheilsurannsóknir skiptu engu máli. Allir aðrir sem ekki meikuðu það vel fjárhagslega með einum eða öðrum hætti voru álitnir „lúserar“ í kapphlaupinu og máttu ekki haft hátt. Ýmsir menntamenn í opinberri þjónustu m.a. læknar voru smá saman rændir sjálfstæði sínu á vinnustöðunum með millistjórnendum hverskonar. Þeir voru ekki lengur áhrifamenn í þjóðfélaginu sem hlustað var á. Og það var skortur á að heilbrigðis- og menntastofnanir þjónuðu samfélaginu sjálfu.

Margur læknirinn treysti hins vegar kollegum sínum úr háskólanum að vita betur hvað fjármálin varðaði og að þeim væri að takast að breyta lögmálum fjármálaheimsins. Það var huggun í harmi að breytingarnar um eilífða hagsæld síðar kæmi þá að minnsta kosti börnunum okkar og barnabörnum til góða. Annað kom á daginn. Og sem betur fer kom hrunið fyrr en síðar enda innistæðan engin í þjóðarbúinu og ég gat farið að skilja hlutina aftur. Ég fagna því að minnsta kosti nú að fá að vera aftur með.

Ég lærði að baka brauð og margt fleira í sveitinni. Í raun gekk maður í felst störf úti sem inni. Ef veðrið var vont fór maður í inniverkin í útihúsunum, þvoði þvotta, skúraði gólf og eldaði ásamt því að passa yngstu börnin. Jafnvel í girðingarvinnu úti í haga. Alla góðviðrisdaga var það útivinnan sem kallaði enda nóg að gera hjá ungum hjónum sem voru að byrja sinn búskap með takmörkuð fjárráð. Frá níu ára aldri fannst manni þetta sjálfsagt. Lestur með olíulampa seint á kvöldin á haustin þegar mogginn var það eina sem kom með mjólkurbílnum tvisvar í viku og var lesinn upp til agna. Leikur og búrekstur í eigin búi með leggi og skeljar þegar tími gafst. Sauðburður, heyskapur, fjárréttir og hrossagöngur á haustin en alla daga mjaltir og kúarekstur upp í fjalli. Hvað gat gefið ungum dreng meira veganesti út í lífið?

Tímarnir í dag eru breyttir nú tveimur árum eftir hrun. En hvað hafa foreldrar kennt börnunum sínum til að standa á eigin fótum í framtíðinni og sem nú er fyrirsjáanlegt að þau verða að gera? Skemmtun og afþreying flesta daga og krakkar mega ekki vinna. Varla unglingar heldur og vinnuverndarákvæði um hvað má leggja á þau mikið líkamlegt erfiði. Hvaða skilaboð skyldu þau hafa fengið sl. áratugi í góðærinu? Efnileg, það vantar ekki. En á hvað grunni byggja þau og kunna þau brauð að baka?

Nú má vel halda að ég sé afskaplega sjálflægur einstaklingur, sem ég reyndar er, og ég miði allt út frá mínum þrönga sjónarhorni. Það breytir þó ekki umræðunni í daga um mikilvægi fjölmenningarsamfélags, ekki síst að sjóndeildarhringur okkar Íslendingar hefur verið afskaplega takmarkaður og þröngur, þrátt fyrir allar útrásirnar. Okkur hefur þrátt fyrir allt sjálfshólið vantað umtalsverða þekkingu og víðsýni, ekki síst í því að geta verið til á sjálfbjargan hátt sem þjóð. Varnaglar eins og menntastofnanir og jafnvel kirkjan hefðu auðvitað átt að vera búnar að bregðast við og vara við stefnu þjóðarskútunnar á sínum tíma, en þær gerðu það ekki. Enn og aftur erum við þannig minnt á þá þröngsýni sem fellst í því að treysta kirkjunni okkar of mikið fyrir samfélagsmenntun barnanna okkar eins og umræðan snýst um í dag. Við þurfum að vera mikið betur upplýst og ábyrg sem þjóð meðal þjóða. Nú þurfum við fyrir alvöru nýja útrás, réttara sagt innrás fjölþjóðlega strauma með nýja þekkingu og viðhorfum, til landsins en ekki frá. Sennilega verður ekki hjá því komist að leita ásjár og eftir samvinnu við vini okkar í Evrópu til að það takmark náist. Aðeins þannig förum við að hegða okkur á ábyrgari hátt.

Okkur vantar nýtt blóð og meiri þekkingu, meiri víðsýni, meira þolgæði og meiri þroska. Við sem þjóð erum sem unglingarnir okkar í dag. Þeirra er líka framtíðin. Við höfum undirbúið hana afar illa. Við skuldum líka gamla fólkinu afsökunarbeðni. Samt átti mín kynslóð að kunna allt og geta allt. Kynslóðin sem er nú eins og milli steins og sleggju. Svo kom næsta kynslóð sem fór auðveldu leiðina. Hún er núna undir hamrinum. Þetta er allt hryllileg blanda af góðu og slæmu, nýju blóði og gömlu, nýja tímanum og gamla. Í dag vantar okkur jafnvel sjálf grunngildin til að standa á. Allar stjórnarstofnanir veikburða. Enginn góður leiðtogi. En okkur verður að takast það samt, með einum eða öðrum hætti.

Kanntu brauð að baka?
Já, það kann ég.
Svo úr því verði kaka?
Já, það kann ég.
Ertu nú alveg viss um?
Já, það er ég.
Eða ertu ef til vill að gabba mig?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.10.2010 - 13:59 - FB ummæli ()

Svartari en hrafninn

Við vitum flest að jólasveinninn eins og við þekkjum hann er ekki til og að ímyndinn er kaþólskari en sjálfur páfinn. Íslenski jólasveininn er ekki eins helgur enda fábrotnari og treystir minna á skrautið og brosið. En hvað skyldi liggja þarna að baki og við skulum ekki láta glepjast af góðlátlegu yfirbragðinu. Í dag er jólasveinninn fyrst og fremst manngerfingur verslunarinnar sem hefur lítið með anda jólanna að gera, eins og við öll vitum, og eins og reyndar sjálfir prestarnir eru duglegastir að minnast á fyrir jólin, börnum til mikillar armæðu.

Mikil umræða er nú aftur sprottin upp vegna tillagna fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn, Besta flokksins um að leggja skuli alla kristinfræði niður í leik- og grunnskólunum Reykjavíkur og að banna skuli sálmasöngva. Hætt er við að með tilmælunum sé verið að fara öfganna á milli ef boðin koma án annars samhengis og sem hluti í viðameiri atburðarrás svo sem í fyrsta lagi aðskilnaðs ríkis og kirkju. Nú er tækifærið með nýrri stjórnarskrá Íslands á komandi stjórnlagaþingi svo hvernig væri að byrja þar? En skoðum aðeins málið betur og könnum forsendurnar.

Samviska þjóðkirkjunnar er svartari en hrafnsins þessa daganna og hún hefur sýnt það vel sl. misseri að hún er fyrst og fremst stofnun sem vill varðveita sjálfa sig, hvað sem það kostar. Almenningur hefur ekki afkristnast, það þarf meir til, heldur aðeins misst trúna á kirkjuna sína vegna viðbragða hennar sjálfrar á ögurstundu á verstu tímum í sögu þjóðarinnar í seinni tíð. Vonbrigðin eru svipuð og þegar barn hættir að trúa á jólasveininn en tekur samt þátt í jólahaldinu til að fá gjafir. Og hrafninn er lúmskur þótt hann sé oftast vinarlegur. Og hann er meinstríðinn og á það til að ráðast á börn.

Við höfum flest alist upp í kristni og siðferðisvitundin tekur mið af þeim lærdóm hvort sem okkur líkar betur eða verr. Um það eru flestir sammála en mikið álitamál er samt hvort við séum jafn siðuð og flestar aðrar þjóðir. Flestum er þó löngu orðið ljóst að kirkjan er aðeins hús og prestarnir manneskjur sem messa yfir öðrum manneskjum. Prestar hafa lært með predikunum sínum að höfða til samvisku fólks, fólks sem var innrætt í æsku barnstrú. Og barnstrúna upplifir maður alltaf sem sanna og hreina. Það er þó alltaf manninum eiginlegt að leita til sjálfsins sem býr innra með okkur. Barnssálin sjálf er þannig sönn og hrein og sem við meigum ekki rugla saman við barnstrúnna í trúarlegu samhengi heldur meira þá upplifun og reynslu sem barnæskan sjálf skapaði. En með því að halda í „barnstrúna“ að þá höldum við í sakleysið og þá einfeldni að við getum alltaf verið góð hvert við annað. Á sama máta og við slöppum af í heitu vatni, leitum við upprunans allt til móðurkviðar þegar við höfðum það svo gott. Síðan eldumst við og förum ýmsar leiðir.

Mannlegt eðli er flókið eðli og margþætt. Uppeldið hefur mest að segja ásamt erfðaþáttunum. Við erum að mörgu leiti sem ómótaður leir. Skelin harðnar síðan með tímanum en jafnframt verðum við brothættari. Í seinni tíð hefur komið í ljós að kirkjan er skeikul og hún býr við mikinn mannlegan beiskleika og er ekki síður brothætt en við sjálf. Við því er ekkert að segja. Umræða hefur t.d. verið í áratugi um hættu á kynferðislegri misbeitingu kirkjunnar á skjólstæðingum sínum, ekki síst gagnvart börnum. Þetta ættu allir að hafa vitað. Síðan kemur hluti af sannleikanum í ljós hér á landi eins og skellur.

Áfallið er hins vegar ekki að slíkir hlutir gátu gerst heldur meðhöndlun kirkjunnar sjálfrar á vandamálum sínum og með yfirhylmingu æðstu manna fram á þennan dag, vitandi að sóknarbörnin yrðu að fara með sannleikan í gröfina. Sjálfur biskupinn getur ekki einu sinni svarað til saka fyrir embættismisferli sitt og kirkjunnar sem stofnunar og sú hegðun látin líðast. Samsæri margra presta sem neituðu sannleikanum og fyrirgerðu um leið trúverðugleikanum hjá hinum almenna safnaðarmanni. Þeim hinum sömu sem þó sóttu sína barnaguðsmessur á sínum tíma í góðri trú og öðluðust sína barnstrú. Trú sem einfaldlega byggðist á trausti og góðri tilfinningu fyrir manninum. Þessa tilfinningu þarf ekki að kenna í skólunum og auk þess stefnum við á fjölmenningarsamfélag þar sem jafnrétti verður í hávegum haft. Börnin trúa á jólasveininn að því það hentar okkur fullorðnum .

Sjálfur fékk ég mína trúarfræðslu frá æskulýðssamtökum KFUM og KFUK sem séra Friðrik Friðriksson stofnsetti hér á landi. Innrætið sem mér hlotnaðist þar hefur dugað mér ágætlega enda fór saman starf og leikur, útivera og ævintýri. Seinna og á sama tíma var eini ávinningurinn að fara í barnamessur til að fá biblíumyndir til að geta fyllt í myndabókina góðu.

Stofnsettur var fyrri um þremur áratugum síðan leikskóli hér á landi sem hefur verið undir stjórn samtaka sem kennir sig við  hugmyndafræði Ananda Marga sem byggir á ný-mannúðarstefnu (Sælukot).  Börnunum er kennt að umgangast hvert annað sem og plöntur og dýr af virðingu og með kærleikann að leiðarljósi. Á hverjum degi hreiðra börnin um sig í Hringnum þar sem þau gera jógaæfingar, syngja og leggjast niður um stund með lokuð augun í hugleiðsluæfingum. Á undan og á eftir æfingunum er farið með svokölluð möntu-vers á sanskrít máli til að öðlast ró og jafnvægi. Og það gera þau svo sannarlega. Hvað er börnum mikilvægara í dag?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.10.2010 - 01:29 - FB ummæli ()

Fljúgum hærra

Nýlega var ég á ferðalagi í Bandaríkjunum. Á langri flugferð með ókunnugu fólki verður maður oft hugsi um nútíðina og hvað augnablikið getur verið afstætt. Til dæmis að líf manns skuli geta verið komið undir góðum flugstjóra og góðri flugvél. Maður verður samt að vera svolítið kærulaus og ef eitthvað gerist að þá tekur þetta allt fljótt af. Vandamál dagsins virðist þannig ómerkilegilegri í fluginu. Við erum þarna algjörlega varnarlaus og öll á sama báti, í vélinni.

Á heimleiðinni með United Airlines á leið til Boston bilaði flugvélin þegar hún var að fara að hefja sig til flugs á brautarenda og varða að snúa við, heim í hlið. Ég hafði sérstaklega tekið eftir viðbrögðum farþeganna þegar þeir voru að koma sér fyrir í vélinni flestir Bandaríkjamenn á mismunandi aldri og í öllum þyngdarflokkum. Offituvandamál Íslendinga fékk líka á sig hjákátlega mynd. Allt samt ósköp venjulegt fólk, bara misjafnlega vel á sig komið eins og gengur og mis þreytt og stressað. Bara að koma farangrinum sínum fyrir í hillurnar fyrir ofan sætin var mikið álag fyrir marga. Maður veltir fyrir sér tilgangi ferðarinnar hjá öðrum og fjölskyldunum sem standa þeim að baki. Það er mikið á sig lagt. Fólk sem sat hjá hvort öðru heilsaðist varfærnislega, sumir glaðir í bragði, öðrum virtist líða eitthvað illa. Sætin voru heldur ekkert of stór fyrir suma svo allir urðu að koma sér hvað best fyrir eins og þeir gátu og gera gott úr aðstæðunum. Þegar allt umstangið var yfirstaðið og komið að flugtaki var skyndilega hætt við á miðri braut. Flugvélin snarbremsaði og það var snúið við heim að flugstöðvarbyggingunni. Allt til einskins. Flugstjórinn tilkynnti að viðvörunarljós hefðu blikkað í stjórnklefanum sem gaf til kynna um einhverja bilun.

Í sjálfu sér var sérstakt hvað allir virtust fljótir að kveikja á perunni í eigin höfði og að þeir væru ekkert að fara meira með þessari flugvél. Áætlun margra farþega rann þegar út í sandinn og semja varð nýja ferðaáætlun upp á nýtt í huganum. Allt gekk á hraða snigilsins þar til flugstjórinn tilkynnti að við mættum ganga frá borði og beðist var velvirðingar á biluninni. Jafnframt var tilkynnt að farþegar ættu að bíða við hliðið meðan kannaðir voru möguleikar á nýju flugi síðar um daginn. Margir voru reiðir og kröfðust þess að flugfélagið gerði strax viðeigandi ráðstafanir sem hentaði þeim best, úr því sem komið var.

En viti menn. Strax eftir að búið var að tæma vélina og allir komnir frá borði var tilkynnt að við hliðið beint á móti stæði önnur flugvél tilbúin til flugtaks klukkustund síðar. Um var að ræða nákvæmlega eins vél svo sætaröðin hélt sér algjörlega óbreytt. Nú var bara að byrja upp á nýtt og þegar vélin var tilbúin gengu farþegarnir aftur um borð. En eitt var frábrugðið. Nú þekktust allir og fólk kinkaði kankvíslega kolli til hvors annars með bros á vör. Allir voru helmingi ánægðari en í fyrri ferðinni og gömlu vonbrigðin löngu gleymd og grafin. Nú var heldur ekkert stress, allir gátu gengið að því vísu að koma dótinu sínu fyrir eins og því hafði verið komið fyrir áður í hillunum og allir þekktu sinn sætisfélaga og gerðu sér engar grillur um sambandið. Nú tekst það og vélin hóf sig til lofts. Andrúmsloftið var óvenju þægilegt alla leiðina og allir reynslunni ríkari og sérstaklega þakklátir að hægt hafði verið að snúa fyrri vélinn við áður en hún fór í loftið. Á leiðinni tilkynnti flugstjórinn jafnframt að flogið yrði hærra en áður var áætlað til að spara tíma auk þess sem meðvindurinn var meiri en áætlað hafði verið svo helmingur af töfinni vannst upp aftur.

Ef við bara færum eftir viðvörunarljósunum, þá væri okkur örugglega betur borgið á Íslandi en raun ber vitni. Og rauðu ljósin blikka víða. Stjórnsýslan hefur víða brugðist og ekki er farið eftir bestu þekkingu í mörgum málaflokkum. Flugið sjálft yfir Atlantshafið gekk samt tíðindalaust fyrir sig, enda íslensku flugstjóranrnir góðir og fylgdust greinilega vel með öllum sínum viðvörunarljósum. Auðvitað. Getum við því ekki tekið öll nýtt flug saman, reynslunni ríkari?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.10.2010 - 11:05 - FB ummæli ()

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

hospital-helipadÞað er vægt til orða tekið þegar maður segir að það séu blikur á lofti með sama aðgang að heilbrigðisþjónustu hér á landi í náinni framtíð eins og við þekkjum hana í dag. Ógnvænlegur niðurskurður er þegar orðinn og afleiðingarnar er að mörgu leiti duldar. Það sem almenningur sér eða fær að vita er aðeins toppurinn á ísjakanum. Meiri niðurskurður er síðan framundan bæði hvað varðar spítalaþjónustu og þjónustu heilsugæslunnar á landinu öllu. Sérstaklega hefur niðurskurðurinn hingað til bitnað á höfuðborgarsvæðinu, Landspítalanum og heilsugæslunni, en mikið minna úti á landi.

Núna fyrst er talað um niðurskurð á minni sjúkrahúsum úti á landi sem margar hverjar eru mjög dýrar einingar og fá sjúkrarúm á hverjum stað. Ekki er óalgengt að kostnaðurinn geti verið hátt í eina milljón króna á ári á hvern íbúa í fámennustu sveitafélögunum. Allir sjá að slík þjónusta er dýru verði keypt á tímum sem við lifum nú á og á sama tíma og hátæknisjúkrahúsinu í höfuðborginni fyrir landið allt blæðir, sjúkrahúsi sem allir treysta á þegar mest á reynir. Fyrr í vikunni fjallaði ég sem oftar um áhrif niðurskurðar í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins umfram aðrar sambærilegar stofnanir í nágranasveitafélögunum og hættunni á að slík þjónusta verði lögð í rúst með óskynsamlegum og ómarkvissum ráðagerðum stjórnvalda eins og dæmin sanna.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur segir máltækið. Íslendingar voru farnir að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu eins og best gerist í heiminum, ekki síst sérfræðiþjónustu og spítalaþjónustu í lok góðærisins svokallaðs þótt heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sæti á margan hátt eftir enda var seint og illa brugðist við nauðsynlegri uppbyggingu hennar í Reykjavík og sérgreinin er auk þess tiltölulega ung hér á landi. Slysa- og bráðadeild LSH hefur fyrst og fremt haldið upp þjónustu við bráðveika og slasaða og gert það vel. Landspítalinn býður auk þess upp á úrvals þjónustu í flestum sérgreinum læknavísindanna og biðtími fyrir meðferð og aðgerðir sem verður að framkvæma á spítala alltaf að styttast. Ýmislegt hefði þó mátt byggja mikið betur upp eins og göngudeildarþjónustuna. Læknaráð Landspítala taldi enda í vikunni skynsamlega framtíðarstefnu, sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu nú, að draga úr sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, en efla þess í stað starfsemi Landspítalans, heilsugæslu, aðra grunnþjónustu.

Nú er skarð fyrir skildi og ljóst að ekki verður hægt að halda upp óbreyttu þjónustustigi. Laun starfsfólks ekki síst lækna standast ekki lengur neinn samanburð við hinn alþjóðlega atvinnumarkað sem í boði er. Allt að þrefalt lægri laun, hækkandi skattar og vaxandi vinnuálag hefur orðið til þess að margir eru flúnir land eða eru að undirbúa flutning erlendis. Ekki það að flestir vildu og hafa lagt fram sinn ýtrasta vilja til að vinna hér áfram. Dæmið gengur einfaldlega ekki upp og margir vinna ekki lengur fyrir skuldunum sínum. Auk venjulegra lána að þá eru margir læknar með námslán sem samsvarar íbúðaláni á bakinu auk þess að hafa komist seint inn á vinnumarkaðinn. Það sér það hver maður að slíkt getur ekki gegnið upp til lengdar og hlýtur að enda með skynsamlegri ákvörðun að flytjast frekar úr landi til að afla tekna en lenda í gjaldþroti hér heima eins og margir aðrir t.d. iðnverkamenn hafa orðið að gera.

Það alvarlegasta er að vandinn er dulinn eins og áður segir og of seint verður að bregðast við þegar fólki og heilbrigðisyfirvöldum verða staðreyndirnar ljósar og skaðinn skeður. Tölurnar tala þó sínu máli, ekki síst um nýliðunina og margir hafa hætt við að koma heim úr sérnámi erlendis frá. Fram kom á fundi í fyrradag á Landspítala og í viðtali við forstjórann, Björn Zoeca að sú hætta sé raunveruleg að enn meiri atgerfisflótti skelli á í náinni framtíð og lami þá spítalaþjónustuna enn frekar. Jafnvel þjónustu sem við teljum lífsnauðsynlega og sem mikið hefur verið lagt í að byggja upp sl. áratugi. Hjarta- og lungnaskurðlækningar eru dæmi um slíka þjónustu sem ekki má mikið út af bregða að leggist niður í dag. Þjónustu og lækningar verður þá að leita til útlanda eins og var hér áður. Kransæðaaðgerðir og aðrar hjartaaðgerðir voru t.d. framkvæmdar í Englandi fyrir um 3 áratugum síðan og við unglæknarnir fórum tíðar ferðir með fárveika sjúklinga, aldna sem unga í sjúkraflugi erlendis til að leita læknishjálpar. Svipað má segja um mörg önnur svið læknisþjónustunnar. Allir sjá hvað slík þjónusta myndi kosta í dag fyrri utan tíð sjúkraflug. Er þetta það sem við viljum, vitandi að það tekur áratugi að þróa þjónustuna á sama stig og hún var orðin?

Og væri ekki skynsamlegra að reyna að að halda í mannauðinn og verja þjónustuna sem þegar er fyrir hendi heldur en t.d. halda áfram með tugmilljarða króna byggingaráform nýs Landspítala sem lífeyrissjóðirnir eru búnir að lofa að fjármagna á næstu árum, hátæknispítala sem stæði þá tómur um ókomin ár. Samgöngukerfið byggjum við upp til framtíðar með miklum kostnaði og borum jafnvel jarðgöng gegnum fjöll fyrir fáfarna vegaslóða úti á landi, landsbyggðarfólki til heilla. Heilbrigðisþjónustuna hefur tekið langan tíma að byggja upp, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu með sjálfan Landspítlann Háskólasjúkrahús í fararbroddi þangað sem samt allar leiðir liggja. Fátt er okkur mikilvægara í mestri neyð lífsins.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.10.2010 - 17:04 - FB ummæli ()

Að bjóða framtíðinni birginn

Oft gleymum við því að við getum sýnt fyrirhyggju í lífinu og gert varúðarráðstafanir til að forðast skakkaföll. Margir bíta samt bara í skjaldarrendurnar og bjóða framtíðinni birginn eins og sönnum víkingum sæmir. Þetta þekkjum við Íslendingar vel sem og afleiðingarnar.

Nú er byrjað að bólusetja gegn árlegri Inflúensu á flestum heilsugæslustöðvum og stærri vinnustöðum sem talin er gefa 60-90% vörn gegn þeim stofnum sem bólusett er gegn. Notað er nýtt bóluefni (Fluarix) sem inniheldur þá 3 stofna sem gengið hafa í sumar á suðurhveli jarðar og koma nú til okkar á norðurhvelið auk bóluefnis gegn svínaflensunni (H1N1). Búist er við að svínaflensan komi aftur í vetur og geti þá smitað þá einstaklinga sem enn eru óvarðir. Viljum við verja okkur, börnin okkar og gamla fólkið í vetur? Bólusetning er nefnilega ekki lækning heldur fyrirbyggjandi ráðstöfun til að forðast alvarlega sjúkdóma og þannig til að viðhalda heilbrigði, ekki síst hjá þeim sem mest þurfa á því að halda. 

Útiveru þarf að stunda allt árið um kring, ekkert síður á veturna. Við Íslendingar erum svo heppnir að hafa aðgang að bestu sundstöðum í heimi. Í sundi erum við vel varin að okkur finnst. Heitt vatnið í lauginni og þú getur synt eins og selur eða slakað á í heita pottinum. Við komumst jafnvel í beina tengingu við frumþættina í okkur sjálfum, allt vatnið sem er okkur svo kært. Vinin í eyðimörkinni þessa daganna. En eitt þolum við illa, a.m.k. hvað augun okkar varðar og það er klórinn. Þess vegna verjum við okkur, notum sundgleraugu til að synda með og skolum síðan vel af okkur í sturtunni á eftir. Þetta þykir okkur öllum sjálfsagður hlutur.

Sundið í lífsins ólgusjó er ekki jafn auðvelt. Spjótin standa á okkur úr öllum áttum. Öruggasta heilsutrygging sem nokkur getur fengið fyrir veturinn er flensubólusetning, sérstaklega ef viðkomandi er veikur fyrir og telst í meiri áhættu á að fá fylgisýkingar eftir flensu. Búist er við eftirskjálfta af svínaflensu í vetur og ennþá eru margir óvarðir í þjóðfélaginu, ekki síst börnin. Ekki er hægt að byrja bólusetja ungbörn fyrr en um 6. mánaða aldur en það er hægt að bólusetja verðandi mæður til að verja síðar kornabörnin þeirra.

Það er alltaf leiðinglegt að liggja heima í 1-2 vikur með flensu en það er margfalt leiðinlegra að fá fylgisýkingar svo sem lungnabólgu eða eyrnabólgu sem talið er að allt upp undir helmingur barna fær eftir Inflúensu. Sérstaklega á þetta við eins og staðan er í dag þar sem ekki er hægt að treysta sýklalyfjunum nógu vel vegna sýklalyfjaónæmis og ekki verður farið að bólusetja yngstu börnin í ungbarnaheilsuverndinni geng algengustu meinvöldum fylgisýkinga flensu, pneumókokkunum, fyrr en á næsta ári.

Fullorðnu fólki, 60 ára og eldra og sjúklingum með langvinna sjúkdóma stendur í dag til boða að fá bólusetningu gegn árelegri Inflúensu á næstu heilsugæslustöð ókeypis, aðeins þarf að borga komugjaldið. Sóttvarnarlæknir mælir með að sem flestir í þessum hópi láti bólusetja sig. Eins gegn algengustu gerðum af pneumókokkum með svokallaðri lungnabólgubólusetningu sem á að endurtakast á 5-10 ára fresti og sem hægt væri að framkvæma í leiðinni. Vinnustaðir hafa verið „frekir“ á Inflúensubóluefnið sl. ár svo hér gildir lögmálið fyrstur kemur, fyrstur fær, eða meðan birgðar endast.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn