Þriðjudagur 20.4.2010 - 13:35 - FB ummæli ()

Áhyggjur formanns Læknafélags Íslands

doctor overloadVerulega ber að hafa áhyggjur af atgerfisflótta  íslenskra lækna ef marka má áhuga þeirra á að vinna erlendis í fríum, til lengri eða skemmri tíma. Þetta kom meðal annars fram í hádegisðviðtali við Birnu Jónsdóttur, formanns Læknafélag Íslands í fréttatíma RÚV í gær. Uppsöfnuð frí, m.a. vegna mikillar vinnu á vöktum eru ætluð til að taka sér frí og hvílast en ekki til að vinna erlendis þar sem þó nóga atvinnu er að fá fyrir allt að helmingi hærri laun. Umræða um mikið vinnuálag á Slysa- og bráðamóttöku LSH hefur einnig verið til umræðu hér á Eyjunni nýlega. Með mikilli vinnu til lengdar er hætta á ofþreytu og útbruna auk þess sem aukin hætta er á mistökum í stafi. Mikið vinnuálag unglækna sem hafa sett fjölskyldugildin ofar launakjörum eru samt eftirtektarverð, ekki síst fyrir eldri lækna sem hafa aldrei gert neitt annað en að vinna. En við hverju er að búast þegar menn koma seint inn á vinnumarkaðinn, jafnvel á miðjum starfsaldri, með andvirði allt að húseignar á bakinu í námslánum en án nokkra eigna. Þá er auðvitað ljóst að menn verða að vinna þótt kaupið sé lágt. Reikna má með, jafnvel í kreppu, að fáir háskólamenntaðir með allt að 12 ára sérnám að baki séu tilbúnir að vinna þungt og ábyrgðarmikið starf  þar sem mannlífin geta verið í húfi fyrir 2000 kr á tímann eftir skatta á kvöldin, um helgar og á nóttunni. Þá væri tímanum e.t.v. betur varið í annað, nema af því skuldarbirgðin kallar. Yngri læknar einfaldlega verða að vinna mikið m.a. til að borga námslánin. Stjórnvöld hafa gegnið á lagið og nýtt sér þess eymd lækna og ódýrt vinnuafl þeirra á kvöldin og um helgar um árabil. Stýringin er og hefur verið í ólestri um árabil þar sem höfuðáherslan hefur verið á vaktþjónustuna þar sem jafnvel sérgreinum er att saman í samkeppni um sjúklinga á kvöldin og um helgar. Þetta er gert til að fá þjónustuna sem ódýrasta en því miður með skammtímasjónarmið í huga. Í staðinn ætti auðvitað að byggja upp öfluga heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu á daginn eins og erlendar klínískar leiðbeiningar gera ráð fyrir, ekki síst með langtímasparnaðog hagræðingu í huga fyrir allt þjóðfélagið. Á þetta hefur verið bent í mörgum færslum á blogginu mínu. Reyndar getur fjölbreytni í starfi læknis svo sem vinna á ólíkum stöðum komið að einhverju leiti í veg fyrir kulnun en fjölskyldutengslin verður samt rækta til lengdar.

Þótt stjórnvöld vilja meina að læknar á Íslandi séu í dag nokkuð margir miðað við mörg önnur lönd að þá vantar mikið upp á að fjöldi þeirra í ákveðnum sérgreinum svo sem í heimilislækningum standist samanburð við t.d. Norðurlöndin. Mikil eftirspurn er t.d. á sérmenntuðum heimilislæknum erlendis á miklu betri kjörum en þekkist hér á landi enda um dýrmæta sérþekkingu að ræða. Stofnuð hefur verið ráðningarskrifstofa, Hvítir sloppar til að hafa milligöngu og auðvelda ráðningu lækna erlendis. Nú er svo komið að sumar heilsugæslustöðvar eru komnar með héruð í fóstur erlendis ef svo má segja enda hafa heimilislæknar jafnvel verið hvattir til að taka sér launalaus leyfi til að spara í launakostnaði Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Kjör heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu hafa enda verið skorin niður um fimmtung  frá því sl. vor og frekari niðurskurður verður í sumar þegar síðdegismóttökur heilsugæslustöðvanna loka og sjúklingum verður bent á að leita í vaxandi mæli á Læknavaktina, Barnalæknavaktina og Slysa- og bráðamóttöku LSH með bráð erindi. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Læknafélag Íslands, Gunnar Ármannson bent einnig á fyrir ári síðan á þá hættu sem felst í landsflótta íslenskra lækna en sem stjórnvöld hafa viljað þráast að viðurkenna. Löngu er tímabært að höfuðborgarbúar spyrji sig hvaða og hvernig læknaþjónustu þeir vilja í framtíðinni og hvernig þeir vilja hlúa að þeirri þjónustu sem þegar er?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.4.2010 - 10:30 - FB ummæli ()

Þegar flugið bregst heiminum

noahs-ark4Endalausar fréttir eru nú á erlendum fréttastöðvum hvernig Ísland heldur Evrópu í heljargreipum eftir dómsdaginn fræga í síðustu viku.  Ástandið hefur ekki verið alvarlegra á friðartímum hvað samgöngur snertir. „Og himnarnir urðu dökkir sem nótt á miðjum degi“. Reiði guðs hefði verið sagt á tímum gamla testamentisins eins og þegar syndarflóðið varð. Eins og þá er aðeins hægt að treysta á sjóleiðina til að bjarga sér. En það er gaman að velta fyrir sér hverjir gætu hafa átt heima í Örkinni hans Nóa frá hinu synduga Íslandi.

Auðvitað vitum við betur Íslendingar. Þótt við kunnum ekki að fara með peninganna okkar og verulega vanti upp á siðferðið að þá erum við nú einu sinni komnir af víkingum sem sigldu óhræddir yfir hafið í opnum bátum. Það var örugglega ekki tilviljun að Ísland varð fyrir valinu þegar menn flúðu Evrópu fyrir rúml. 1000 árum. Síðan hafa sennilega verið 5 gos í Eyjafjallajökli. Við hræðumst ekkert og viljum sjá öfgar. Við vitum ekki heldur hvort við eigum að hofa til vesturs eða austurs. Samkvæmt landrekskenningunni (sjá kort að neðan-óstöðugasta svæði jarðar) rekur okkur í báðar áttir og við erum jú mitt á milli. En okkar er valið. Sjálfur hef ég af veikum mætti verið að reyna að skýra frá hættunni sem kann að hljótast af því að við notum ekki sýklalyfin skynsamlega. Tími kraftaverkalyfjanna kann að vera að líða, miklu hraðar en hjá öðrum. Heilsu barna stendur ógn af og við höfum ekki efni á að taka upp nauðsynlegar bólusetningar til varnar. En við hlustum ekki á þær aðvaranir frekar en ýmsar aðrar eða vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga. Við erum svo sérstakir, Íslendingar. Á meðan höldum við heiminum í heljagreipum eins og sjá má á öllum sjónvarpsrásum nema hér heima enda vitum við betur að það er ekkert að hræðast.Spread template

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt

Mánudagur 12.4.2010 - 13:58 - FB ummæli ()

Litla gula hænan

Það er alveg ljóst að við Íslendingar vorum ílla lesnir í viðskiptafræðum og siðfræðinni og ætlum okkur um of úti í hinum stóra heimi.  Eftirlitsstofnanir brugðust og almenningur nennti ekki að hugsa. Allt þetta kemur fram í „svörtu“ rannsóknarskýrslu Alþingis um íslenska efnahagsundrið og hrunið sem lögð var fram í dag. Sennilega hefur eitthvað vantað á grunnfræðin og siðfræðikennsluna hjá landanum sl. áratugi. Ýmsar góðar dæmisögur rifjast nú upp frá barnæsku (nánast gleymdar) en væri gott að rifja upp á þessum tímamótum í Íslandsögunni. Græðgi var hvöt sem aldrei talin vísa á neitt gott. „Sá aflar sem rær“ eða „þú uppskerð eins og þú sáir“ voru góðir íslenskir málshættir sem rétt væri að taka upp á nýtt. Það er aldrei of seint að byrja nýtt líf á „Nýja Íslandi“ en spurningin er bara, hvar á að byrja?  Ég sting upp á að þjóðin öll byrji á því að rifja upp og lesi söguna af Litlu gulu hænunni og íhugi boðskapinn sem sú saga flutti og reyndar fleiri sögur í samnefndu lestrarhefti. Síðan væri ágætt að lesa Grímsævintýrin öll. Í endurupptökunni í framtíðinni (ef við fáum séns) tökum við þetta svo með trompi og stæl.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 6.4.2010 - 19:24 - FB ummæli ()

Hærri kostnaður vegna geðlyfja

untitledKvíði og þunglyndi virðist einkennandi hjá þjóðinni á tafla lyfinþeim ögurtímum sem við nú lifum á ef marka má nýjar upplýsingar frá Lyfjadeild Sjúkratrygginga Íslands í morgun (Lyfjakostnaður sjúkratrygginga 2007-2009) og sjá má á meðfylgjandi mynd og töflu.  Áður hef  ég fjallað um þunglyndislyfin og aðrar meðferðir við kvíða og þunglyndi hér á blogginu mínu en nýjar upplýsingar nú um kostnað vegna lyfja eru mjög áhugaverðar. Á myndinni er auðvelt að glöggva sig á samanburði milli ára og milli lyfjaflokka hvað kostnað varðar fyrir ríkið. Þunglyndislyfin hafa þar „yfirburðarstöðu“. Aukning í magni, sem einnig er gerð grein fyrir í skýrslunni, er samt ekki jafn áberandi og ætti því að kalla á róttækar breytingar í lyfjavali þ.e. hvaða sambærileg lyf væri hægt að nota hverju sinni en margfaldur verðmunur getur verið á því einu hver framleiðandinn er. Þarna má örugglega spara eins og í blóðfitulækkandi lyfjum og magalyfjum á sl. árum eins og einnig er gerð glögglega grein fyrir í skýrslunni.

Flokkar: Óflokkað · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.4.2010 - 22:55 - FB ummæli ()

Ungur nemur, gamall temur

Það eru váleg tíðindi þegar fréttir berast af því að unglæknar sjá sér ekki lengur fært að vinna á háskólasjúkrahúsi landsins. Slegið hefur verið upp eftir forsvarsmönnum LSH staðhæfingunni „Getum þolað þetta lengi“ í ríkisfjölmiðlinum, RÚV. Stétt gegn sömu stétt sem verður að heyra fátítt í kjaradeilum hér á landi. Má ætla af þessum orðum að mæta eigi kröfum unglækna af fullri hörku. En eru þetta kjaradeilur eða eru þetta deilur um vinnufyrirkomulag, deilur um félagsleg réttindi, réttindi samkvæmt almennum vinnurétti, alþjóðlegum vinnuverndarákvæðum eða einfaldlega íslenskri fjölskyldustefnu? Talað er um að aðgerðirnar séu lögbrot en unglæknar vísa til þess að breytingar á ráðningarkjörum sem voru tilkynntar bréflega um áramót megi líta á sem ígildi uppsagnar, kjósi menn að líta svo á. Þeirra er því valið að þeirra mati og telja þeir sig í rétti með að ganga út, líki þeim ekki við afarkostina og ný ráðningarkjör.

Lengi hefur viðgengist mikil vinna unglækna fyrir lélegt kaup. Vinnan og fórnfýsi unglæknanna hefur markast af því að um nám sé að ræða og mikilvægt sé að ná í sem mesta reynslu á sem skemmstum tíma. Þannig hefur þetta alltaf verið. Í seinni tíð hafa unglæknar hins vegar látið fjölskyldugildin ráða meiru og reynt að styðja mál sitt með alþjóðlegum vinnuverndarákvæðum. En lítum aðeins á rök stjórenda spítalans.

Nýtt vaktakerfi styttir vinnulotur úr 16 klukkustundum í 13 klukkustundir þannig að þær falli betur að alþjóðlegum tilskipunum um vinnutíma, sem gera ráð fyrir 11 klukkustunda hvíldartíma á sólarhring. Dagvinnustundum unglækna fjölgar lítillega en á móti halda þeir óskertum launum. Eins telja stjórnendur LSH að  aðgerðir unglækna stofna í hættu áralangri uppbyggingu framhaldsmenntunar í læknisfræði á LSH og er ljóst að endurskoða þyrfti þau mál frá grunni ef kröfur unglækna nái fram að ganga.

Niðurskurðurinn nú í kreppunni gerir Landspítalanum auðvitað erfitt fyrir og allir hafa orðið að taka á sig launaskerðingu um leið og krafist er meiri afkasta starfsmanna. Þessi staða endurspeglast nú í deilunni við unglækna. Deiluna verður að leysa sem fyrst á almennum réttlætisgrundvelli. E.t.v. væri rétt að fá utanaðkomandi aðila, sérfróða í almennum vinnurétti til að líta á málin. Ungur nemur, gamall temur er hins vegar óbrigðult lögmál og málsháttur sem sumir ættu að íhuga um þessa páska. Hvorugur getur án hins verið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.3.2010 - 15:48 - FB ummæli ()

Hvað skal barnið heita?

Ótrúlega lítið hefur verið rætt um hvað nýju gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi eiga að heita. Sumir vilja bíða og vilja sjá hversu stórt gosfjallið verður að lokum. Stungið hefur verið upp á heitinu Skjaldborg sem mér finnst gott nafn og nafn við hæfi á miklum tímamótum í Íslandssögunni. Fátt hefur verið meira rætt sl. misseri en hvernig koma megi heimilunum í landinu til hjálpar. „Skjaldborg um heimilin“ er slagorð sem allir koma til að muna eftir og skráð verður í sögubækur framtíðarinnar. Líkt og með gosinu sem átti sér nokkurn aðdraganda en sem kom samt á óvart, að þá gerðist hrunið í mannheimum óvænt,  þótt fyrirsjáanlegt væri!  En ólíkt því sem nú er að gerast á gosstöðvunum hins vegar og ótrúlegu sjónarspili náttúruaflanna sem e.t.v. vilja segja okkur eitthvað, að þá eru mannanna verk því miður ekki jafn stórkostleg.

Áður hef ég stungið upp á að hrauntungan sem hér sést á mynd sem  Christopher Lund tók (birt á heimasíðu hans sem allir verða að heimsækja og skoða) og sem leggst yfir gömlu gönguleiðina niður Bröttufönn gæti heitið Kreppuhæll eða Krepputá en Leggjarbrjótur hefði annars getað átt vel við ef það nafn lægi á lausu.  Fall er fararheill. Gleðilega páska!

Efnið var til umfjöllunar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · útivist

Þriðjudagur 30.3.2010 - 16:19 - FB ummæli ()

Tugþúsundir barna fá eyrnabólgu á hverju ári

vitahringur

Tengsl ofnotkunar sýklalyfja við miðeyrnabólgu, auknu sýklalyfjaónæmi og hættu á endurteknum sýkingum "eyrnabólgubörnin" sem þurfa að fá rör. Mynd birt með doktorsritgerð minni 2006. Nálgast má ritgerðina með því að smella á myndina sjálfa.

Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem Siv Friðleifsdóttir alþingiskona ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu um að tekin verði upp pneumókokkabólusetning fyrir ungbörn á Íslandi. Vandamálið sem þetta tengist er mjög stórt og skýrir t.d. meirihluta af öllum komum barna til lækna. Oft hefur mér verið tíðrætt um heilsu barna hér á blogginu mínu. Nægir þar að nefna umfjöllun um kvíða barna í góðæri og kreppu, sýkingar barna,  tannheilsu og offitu. Eins mikilvægi jafns aðgangs barna að nauðsynlegri næringu, ekki síst ávöxtum og grænmeti. Eins læknishjálp, lyfjum og bólusetningum. Sennilega er þó ekkert sem ógnar heilsu þeirra meira í dag en mikið sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda og sem valda t.d. flestum eyrnabólgum og lungnasýkingum meðal þeirra. Vandamálið hefur að hluta verið sjálfskapað með grátandibarn2ómarkvissri notkun sýklalyfja um árabil. Vandamálið endurspeglast einnig í þeirri staðreynd að við höfum notað mikið meira af sýklalyfjum en nágranaþjóðir okkar, sérstaklega meðal barna og vandamál tengt sýklalyfjaónæmi er miklu meira hér á landi en í þeim löndum sem við viljum gjarnan getað borið okkur saman við. Samt hefur verið vitað um þróunina og varað við henni um árabil en lítið aðhafst, eins og í svo mörgu öðru. Nú eru þó komnar nýjar klínískar leiðbeiningar sem sniðnar eru að erlendri fyrirmynd þar sem hvatt er til íhaldssemi á sýklalyfjaávísanir og að sýklalyf séu þannig aðeins notuð þegar þeirra er þörf. Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd að þá hafa verið færð rök fyrir að há tíðni eyrnabólgu og há tíðni barna sem þurfa að fá hljóðhimnurör á  Íslandi (allt að helmingur barna á sumum stöðum) sé vegna ofnotkunar sýklalyfja á undanförnum árum. Nú er svo komið að leggja þarf í vaxandi mæli börn inn á sjúkrahús til sýklalyfjagjafar í æð eða vöðva til að ráða við erfiðustu sýkingarnar þar sem venjuleg lyf duga ekki lengur. Tími kraftaverkalyfjanna virðist þannig vera að líða!

Það sem þarf að gera:

1) Draga þarf úr ómarkvissri notkun sýklalyfja og fara þarf eftir klínískum leiðbeiningum í þeim efnum. Flestar vægar miðeyrnabólgur lagast af sjálfu sér. Leggja meira upp úr verkjalyfjameðferð eingöngu til að byrja með ef einkenni eru ekki alvarleg. Leggja meira upp úr ráðgjöf og eftirliti en sýklalyfjgjöf af minnsta tilefni. Kvef og veirusýkingar á ekki að meðhöndla með sýklalyfjum sem virka hvort sem er aldrei á þær sýkingar.

2) Gæta þarf sérstaklega að eyrnabólgusýkingum barna sem ekki lagast af sjálfu sér, sérstaklega ef þau svara ekki sýklalyfjameðferð sem kann að vera nauðsynleg. Bæta má greininguna og eftirlit með rafrænni myndatöku á heilsugæslustöðvunum og á læknavöktunum

3) Taka þarf upp pneumokokkabólusetningu í ungbarnaheilsuverndinni sem fyrst sem veitir góða vörn gegn alvarlegustu sýkingunum af völdum pneumókokka og getur dregið úr tíðni miðeyrnabólgu um allt að 40%. Þörfin á þessari ráðstöfun er meiri hér á landi en í nágranalöndunum þar sem eyrnbólguvandamálin eru tíðari hér á landi, fjöldi hljóðhimnurörísetninga meiri og sýklalyfjaónæmi vegna mikillar sýklalyfjanotkunar miklu meira.  Ákvörðun hefur samt þegar verið tekin um bólusetninguna á hinum Norðurlöndunum. Eins má ekki gleyma því að börnin er einn helsti smitvaldur pneumókokka svo áhrif á sýkingar þeirra sem eldri eru getur verið umtalsverð. Með upptöku bóluefnisins má ætla að þjóðhagslegur sparnaður geti orðið mikill, sérstaklega ef vinnutap foreldra og álag á heilbrigðisþjónustuna í dag er tekið með í reikninginn. Ekki má þó gleyma bættum lífsgæðum barnanna sjálfra og fjölskyldna þeirra.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.3.2010 - 17:35 - FB ummæli ()

Ávaxta og grænmetisverslun Ríkisins (ÁGVR)

Strawberry_1024x768[1]Um daginn ætlaði ég að kaupa jarðaber fyrir konuna mína til að skreyta afmælistertu. Sex jarðarber í bakka kostuð 800 kr. Ég lét þau eiga sig og konan sleppti að skreyta marenskökuna en sem því miður jafnframt dró þá úr hollustu hennar og fegurð.

Rétt og gott mataræði er einn mikilvægasti þátturinn í að viðhalda góðri heilsu. Þarna erum við jafnframt að tala um aðal áhrifavalda á algengustu dánarsjúkdómana,  hjarta- og æðasjúkdóma og flest krabbamein, auk meltingarfærasjúkdóma, stoð- og gigtarsjúkdóma og jafnvel geðsjúkdóma.

Á hverju ári niðurgreiðir Sjúkratryggingar Íslands milljarði króna í kostnaði sjúklinga á blóðfitulækkandi lyfjum en há blóðfita er ein af megin ástæðum fyrir þróun æðakölkunar og tilurð kransæðasjúkdóma. Margir sem taka blóðfitulækkandi lyf í dag gætu þó lækkað sínar blóðfitur nægjanlega með breyttu mataræði einu saman, með minni neyslu á fitu, meiri neyslu á grænmeti og mikið meiri hreyfingu. Afleiðuáhrifin tengt róttækum lífstílsbreytingum eru auðvitað miklu meiri en sem mælist eingöngu í lágu kólesteróli. Því miður lifa samt margir í þeirri trú að það sé nóg að taka blóðfitulækkandi lyf og fá kólesterólgildið niður. Eins trúa margir á reglubundna rútínuskoðun á hjarta og æðakerfinu og fá því til staðfestingar stimpil á að allt sé í lagi með útskrift á mæligildum hverskonar. Saga sjúklings segir samt oft allt sem segja þarf og mælingar eru oft aðeins til frekari stuðnings, ekki sannleikinn. Alveg eins og með röntgenmyndina og æxli í lunga að þá er sannleikurinn ekki svarthvítur.

Málefni Áfengis og tóbaksverslunar Ríkisins (ÁTVR) hefur oft verið til umfjöllunar vegna einokunar í ríkisrekstri og vegna tvíræðna auglýsinga þar sem í raun er verið að auglýsa áfenga drykki og sem er bannað með lögum. Nýlegt frumvarp til laga gerir t.d. ráð fyrir að koma eigi í veg fyrir dulbúnar áfengisauglýsingar. Deila má auðvitað líka á að ríkið standi að og hagnist af sölu heilsuspillandi efna sem áfengi oft er auk þess að vera vímuefni sem veldur oft miklum félagslegum vandræðum og er þjóðfélaginu öllu mjög dýrkeypt. En að ríkið skuli síðan standa fyrir sölu á eitri sem tóbakið er, er í raun óskiljanlegt með öllu. En e.t.v. eru þó rök fyrir því að betra sé að hafa miðstýrða stjórn á þessu en enga stjórn. Þá er erfitt að banna sölu tóbaks hér á landi ef hún er leyfð í nágranlöndunum. Hvað sem þessu öllu líður virðist ÁTVR hafa staðið sig vel hvað sölutakmarkanir varðar vegna ungs aldurs. Eins er boðið upp á gott úrval vína og góða og betri þjónustu en þekkist þar sem áfengissalan er frjáls í matvörumörkuðum erlendis. Ekki má heldur gleyma því að góð borðvín geta verið bæði holl og menningarauðgandi sé þeirra neytt í hófi. Auglýsingar hvetja hins vegar alltaf til meiri neyslu en hollt getur talist og því mikil þörf á aðhaldi og takmörkunum hvað þessi mál varðar.

Til þess að almenningur geti neytt ávaxta og grænmetis í því mæli sem manneldisráð mælir fyrir og aðrar þjóðir gera sem við viljum bera okkur saman við, þarf hins vegar eitthvað róttækt að gerast hér á landi. Almenningur hefur einfaldlega ekki orðið efni á að kaupa þessa nauðsynjavöru dagsdaglega eins og mælt er fyrir um út frá hollustusjónarmiðum. Skyndibiti og ruslfæði svo ekki sé talað um sætindi er bæði miklu aðgengilegri og ódýrara en holt og gott fæði hér á landi. En hvað þá ef við tækjum upp hugmyndafræði og sölutækni ÁTVR til fyrirmyndar. Hvað með þá hugmynd að sala á ávöxtum og grænmeti  hér á landi verði stunduð af ríkinu til að tryggja gæðin og ásættanlegt verð til neytenda. Samkeppnisráð gæti skilgreint ríkissöluna sem nauðsynlega út frá mannverndarsjónarmiðum og leyft einokun. Sem stór innflytjandi væri örugglega hægt að fá hana miklu ódýrari til landsins og tryggja þannig lægra söluverð til neytenda. Eins mætti niðurgreiða hana að einhverju marki til að örva söluna enn frekar og ekkert síður en gert er með aðrar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi. Styrkja ætti innlenda framleiðendur á gæðagrænmeti og lækka raforkukostnað til framleiðslu yfir vetrartímann. Hluti af niðurgreiðslum gæti verið mögulegur þar sem lægri þörf yrði væntanlega á niðurgreiðslum á lyfjakostnaði á blóðfitulækkandi lyfjum.

Fyrst ríkið getur og kemst upp með einokun á innflutning á áfengi sem síður telst til nauðsynjavöru af hverju þá ekki á nauðsynlegri heilsuvöru og þegar jafnvel heilsa þjóðarinnar sjálfrar er í húfi á krepputímum. Góð næring er ekkert síður mikilvæg en lyf og í raun miklu mikilvægari og minnkar líkur á ofnotkun. Í sumu verður ríkisrekstur að vera forgangsatriði, einfaldlega vegna þess að hinum frjálsa markaði er ekki lengur treystandi og þegar okrað er á nauðsynjavörum. Áður hef ég lagt til að Lyfjastofnun Ríkisins verði endurreist vegna þess glundroða sem hefur ríkt um árabil í innflutningi lyfja. Þar sem  það er nær daglegt brauð að nauðsynleg lyf séu ekki lengur til. Vísað er til hins frjálsa markaðar í því sambandi.

Ekkert væri betra fyrir líkamlega heilsu þjóðarinnar en gott aðgengi að góðu og ódýru grænmeti og ávöxtum. Þannig gætum við gengið betur í gegnum þær þrengingar sem fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum. Eins til fyrirbyggjandi ráðstafana gegn helstu faraldssjúkdómunum, offiitunni sem er óumdeilanleg staðreynd hér á landi. Ekki er síður mikilvægt að börnum landsins verði ekki mismunað í heilsu hvað lífsnauðsynleg næringarefni á grundvelli efnahag foreldra. Meiri neysla grænmetis og ávaxta barna í stað sælgætis dregur jafnframt úr tannskemmdum þeirra sem líka er mikið vandamál hér á landi.  Verði ykkur að góðu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.3.2010 - 11:56 - FB ummæli ()

Til hamingju með daginn

Nú á 250 ára afmæli Landlæknisembættisins sem haldið var upp á í gær, er rétt að minnast á það brautryðjendastarf sem það var, að gera læknisþjónustuna í fytsta skipti aðgengilega á Íslandi. Fyrsti landlæknirinn, Bjarni Pálsson læknir tók til starfa 1760 og var jafnframt eini læknirinn á landinu til að byrja með. Læknisfræðin var auðvitað frumstæð miðað við í dag, og þó ekki. Sóttum var helst reynt að halda niðri með því að taka af mönnum blóð, en útbúin voru lyf úr grösum og jurtum, sem jafnvel voru flutt inn til landsins. Ýmiss inngrip var hægt að gera á áhrifaríkann hátt með aðstoð skurðlækninganna, sérstaklega inngrip sem sneru að fæðingahjálp og aðgerðir vegna ígerða. Tæki og tól frá þessum tíma bera þessu starfi glöggt vitni, t.d. fæðingatangir og legvatnsástungurör svo og önnur ástungutæki úr kopari og gleri.

Forfaðir minn, Ari Arason (1763-1840) fjórðungslæknir á Flugumýri í Skagafirði var einn 10 lækna sem útskrifaðist fyrst til læknisstarfa hér á landi úr Læknaskólanum í Nesi sem þá var jafnframt aðsetur Landlæknis. Meðal þess sem hann lagði mesta áherslu á í sínu starfi sem fyrsti læknislærði læknirinn í héraðinu, voru ýmiss úrræði gegn háum ungbarnadauða m.a. með kennslu í fæðingarhjálp og með því að leggja áherslu á menntun ljósmæðra til starfa í héruðum landsins. Annað sem var afar merkilegt á þeim tíma og er enn, var þegar hann ásamt fleirum læknum byrjaði að bólusetja gegn bólusótt upp úr aldamótunum 1800 með því að nota kúabólusmitefni.

Þannig að frá því fyrsta bólusetningin uppgötvaðist í heiminum gegn bólusóttinni, 1798, liðu ekki nema örfá ár (1805), þar til byrjað var að bólusetja alþýðu manna hér á landi með góðum árangri. Þá voru kirkjubækur notaðar sem sjúkradagbækur og til að halda utan um bólusetningarnar og prestar landsins sáu jafnvel um aðgerðina. Tveimur öldum síðar tókst loks að útrýma sóttinni. Bólusetning hefur síðan viðhaldist sem heiti á öllum ónæmisaðgerðum með smitefni og ekkert annað gott heiti er til yfir á íslensku. Vaccination er enska heitið yfir aðgerðina og sem á við allar tegundir „bóluefna“. Við Íslendingar erum hins vegar alltaf jafn þjóðlegir í hugsun og heitið „bólusetning“ mun minna um ókomna tíð á eitt fyrsta lýðheilsuverkefnið sem Landlæknir stóð fyrir, stuttu eftir að það var stofnsett fyrir 250 árum síðan. Til hamingju með daginn.

 

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Menning og listir

Fimmtudagur 18.3.2010 - 13:16 - FB ummæli ()

Lyf eða ekki lyf við þunglyndi

lyfjaheiliÞunglyndi og kvíði fullorðinna hefur einnig verið mikið til umræðu eins og hjá börnum, ekki síst síðustu misseri tengt fjárhagsáhyggjum hverskonar. Oft er um að ræða tvær hliðar af sama vandamáli og þá stundum kallað kvíðaþunglyndi. Aðrir geta verið með afmarkaðri kvíðavandamál, t.d. fælni.

Fyrir utan þjóðfélagsleg úrræði sem nú er loks að glytta í hefur læknisfræðin upp á ýmislegt að bjóða. Tengt fjárhagsáhyggjum eingöngu koma lyf auðvitað síður að gagni. Ráðast þarf að rót vandans og gefa viðkomandi og jafnvel fjölskyldu stuðning og ráð.  Áður hefur verið fjallað um hugræna atferlismeðferð (Cognitive and Behavioral Therapies) blogginu mínu sem eru þær aðferðir sem geðlæknisfræðin ásamt íhugun eða gjörhygli (mindfulness) leggur hvað mest upp úr samhliðahliða stuðningsviðtölum við lækna, sálfræðinga, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga. Jafnvel stuðningur vina og vandamanna getur skipt sköpum. Aðal atriðið er að enginn þurfi að vera einn.

Velferðarþjóðfélagið verður að taka á þessum málum og allir í vanda eiga að eiga sér einhverja bandmenn. Þunglyndi hefur hingað til talið leggjast á allt að 20% manna á einhverju tímabili á lífsævinni. Lyf við þunglyndi (antidepressants) getur verið góður kostur þegar  þunglyndi og oft kvíði áður hefur verið langvarandi eða ef einkennin eru alvarleg. Lyfjanotkun við þunglyndi er meira hér á landi en í nágranalöndunum og hefur svo verið um langt skeið. Heldur dregur þó saman með löndunum en margir hafa viljað meina að Íslendingar hafi verið á undan öðrum þjóðum að notfæra sér lyfin og er það vel.  Á sl. ári hefur verð lækkað mikið á algengustu og ódýrustu þunglyndislyfjunum og eins hluti sjúklings sem ætti ekki að þurfa vera neinum ofviða.  Á þeim tíma sem viðkomandi er á meðferð gefst oft betra ráðrúm til að byrja á að takast á við þunglyndið, en eitt af algengustu einkennum þunglyndis er einmitt framtaksleysi og vanmáttarkennd sem verður til að ógerðir hlutir hlaðast upp og virðast óyfirstíganlegir. Jafnvel að leita eftir hjálp er mörgum erfið skref, sérstaklega karlmönnum. Verstu afleiðingarnar eru síðan sjálfsvígin.

RÚV sýndi nýlega frábæra kandadíska mynd undir heitinu „With and Without You“ sem ég skora á Sjónvarpið að sýna aftur því mjög góð fræðsla kom þar fram um einkenni þunglyndis karla, m.a. í viðtölum við geðlækna og sálfræðinga svo og vini og vandamenn. Aðalatrið er að koma í veg fyrir slíka harmleiki og skilja sjúkdóminn betur sem að baki liggur. Sjúklingurinn er oft sokkin niður í djúpan vítahring og þarf mikla hjálp til að rífa sig upp. Þarna geta lyfin og stuðningur hjálpað og unnið gegn einkennunum eða þar til sjúklingurinn er farinn að vinna meira í sínum málum. Þá er hann líklegri til að fá varanlegri lækningu með sálfræðimeðferð til að byggja sig upp sálarlega og/eða með íhugun eða gjörhygli til að dýpka skilning á sjálfum sér og skapa meiri sálarró. Sumir eru þó móti lyfjunum og vilja meina að þau komi að takmörkuðu gagni en hinir eru miklu fleiri sem telja að þessi meðferð gagnist ágætlega, sérstaklega tímabundið fyrstu mánuðina/árið og aukaverkanir eru ekki miklar eða alvarlegar. Enginn sjúklingur með viðvarandi  þunglyndi eða mikinn kvíða á að þurfa að fara á mis við að líða aðeins betur og það vel til að geta unnið betur í sínum, málum með hjálp annarra og varnalegri aðferða síðar.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn