Miðvikudagur 08.08.2012 - 12:59 - 13 ummæli

Harpa og attitjúdið

Hallatölurnar og úttektarskýrslan um Hörpu hafa – loksins – hrist upp í undarlegum málatilbúnaði í kringum tónlistarhúsið sem svo marga dreymdi um svo lengi. Fréttir eru sagðar af furðulegri stjórnskipan, sem þó hefur viðgengist síðan ákveðið var að bjarga Hörpu uppúr hruninu. Aðrar fréttir nýrri eru auðvitað um fjárhagsáætlun sem ekki hefur staðist og virðist aldrei hafa átt að standast.

Það þarf ekki að endurtaka oft að þetta hús er misskilningur – sem sést ágætlega af grein Hjörleifs Stefánssonar í Fréttablaðinu í dag – en við sitjum uppi með það og þá er að nýta það einsog hægt er. Nú er kominn forstjóri sem hefur þann mikla kost að bera enga ábyrgð á Hörpusögunni hingað til. Og tilkynnt er að eigendur, ríki og borg, hafi ákveðið að sameina öll félögin, kynna í haust eigendastefnu og leggja fram rekstraráætlun.

Í henni þarf að vera ljóst hver er áætlaður stuðningur af hálfu almennings við fyrirtækið í framtíðinni, fyrir utan byggingarmilljarðana. Nú er talað um „sjálfbæran“ rekstur. Það merkir væntanlega ekki hallarekstur. Við vonumst til að hugmyndir um þetta verði settar fram í alvöru, ekki með fiffum. Það er eðlilegt að Sinfónían og Óperan borgi leigu en sú upphæð verður að vera sanngjörn þannig að hallinn af Hörpu sé ekki færður úr einum vasa ríkis og Reykjavíkur í annan, og niðurstaðan verður líka að mótast af því að húsið var í upphafi reist til þess einmitt að smíða þak yfir höfuð Sinfóníuhljómsveitinni. Það er ekki henni að kenna að húsið fór í vitleysu.

Maður fagnar forstjóranum, stjórnskipunareinföldun, væntanlegri eigendastefnu og hinni sjálfbæru rekstraráætlun. Sama þótt sumt af þessu hafi verið tæpt ár á leiðinni. Mér sýnist hinsvegar að það þurfi meira til að geta byrjað upp á nýtt í Hörpu. Heiðarleik og einlægni af hálfu forráðamanna í staðinn fyrir PR-glamur, og kannski ákveðna auðmýkt gagnvart greiðandi almenningi og fulltrúum hans á stjórnmálavettvangi og í fjölmiðlum.

„Ertu með attitjúd?“ stóð uppúr áhrifamanni innanþings þegar ég byrjaði að spyrja um Hörpumál á alþingi, í febrúar 2011 (hér, og svo aftur hér). Þetta var á kaffistofunni, en lýsir ágætlega almennum varnarviðbrögðum fólksins í kringum Hörpu – bæði þeirra sem þangað höfðu plaserast fyrir hrun og þeirra sem nauðugir viljugir fengu þetta upp í hendurnar þegar búið var að grafa holuna og afskrifa fyrsta milljarðatuginn. Á kostnað erlendra kröfuhafa og íslenskra skattgreiðenda.

Já, kannski var ég með attitjúd – og miklu fleiri. En var það ekki bara sjálfsagt mál? Og höfðum við ekki bara rétt fyrir okkur, gagnvart talna- og staðreyndaspunanum sem fyrr og síðar vall upp úr forráðamönnum Harpa house?

Sem hljóta nú að vera að leita sér að atvinnu og bitlingum anderswo.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Pétur Örn Björnsson

    Við erum mörg sem höfum gagnrýnt Hörpu geggjunina lengi. Já, við vorum bara með attitjúd, eins og Mörður orðar það. Og það var miklu meira en sjálfsagt mál að vera með það. Öll spillingin og geggjunin átti að vera öllum ljós, sem vildu sjá, en alltof margir tóku bara strútinn á málið.

    Held að flestir geti nú tekið undir pistil Marðar í heild sinni. Og það lofar amk. góðu, að sá vandaði maður Halldór Guðmundsson skuli vera nýráðinn forstjóri koafans, en ekki Þorgerður kúla.

    Einu vil ég bæta við og það varðar galla hússins, líkt og Örnólfur Hall hefur marg bent á og sent okkur nokkrum myndir og Hörpuannál sinn, sem hann uppfærir reglulega. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því þegar kínverski glerhjúpurinn byrjar að leka. En það er víst framtíðarmúsik sem engir nema nokkrir með attitjúd heyra og þora að sjá.

  • Pétur Örn Björnsson

    Í guðanna bænum stoppum alla vega Hátækni-monsterið við Hringbrautina af í tíma. Stoppum geggjun spunaliða fínu nefndanna af, í tíma. Alfredo er þar einhver formaður, þarf að segja meira?

  • Aldrei þessu vant er ég sammála síðuhaldara, ágætum.

    Jú, við höfðum rétt fyrir okkur.

    Húsið er hins vegar tæpast „misskilningur“.

    Af grein nHjörleifs má ráða að það sé miklu fremur „samsæri“ stjórnmálamanna og hagsmunaaðila gegn skattpíndum almenningi.

    Þetta hús hefur frá upphafi haft vont „karma“.

    Eins og nú er að sannast.

  • Pétur Örn Björnsson

    Svei mér þá, ég ætla að vera með smá meira attitjúd:

    Teljast það vönduð og góð vinnubrögð á þingi, að samþykkja að hafa ríkisábyrgð á Vaðlaheiðar göngunum, sem framkvæmdir eru nú hafnar við.

    Hvenær ætlar þessari andskotans samansúrrun einkaframkvæmdar og ríkisábyrgðar að linna? Endalaust skulu skattborgarar borga fyrir óráðsíu, að lokum.

    Tekið skal fram að ég er hlynntur bæði einkaframkvæmdum og einnig ríkisframkvæmdum … en alls ekki samansúrrun þeirra í pilsfalda-makki.

  • Eyjólfur Kristjánsson

    Eitt sem ég hef aldrei séð svo svo ég muni. Nú er talað um að byggingarkostnaður Hörpunnar hafi verið 28 miljarðar. Hve stór hluti þess „hvarf“ í gjaldþroti Portusar, og hver stór hluti hans verður greiddur af ríki og borg, + væntanlega vexti af þeirri upphæð.
    En má svo ekki gleyma því sú ákvörðun að halda áfram með framkvæmdina var verulega hugsuð sem „atvinnubótavinna“ var það ekki.

  • Pétur Örn Björnsson

    Eyjólfur, ertu að meina „atvinnubótavinnu“ fyrir kínverska verkamenn?
    Eða ertu að meina „atvinnubótavinnu“ fyrir allar silkihúfurnar og nefndirnar?

    Einhverjir íslenskir iðnaðarmenn unnu þarna jú undir hrammi stórverktaka, en margt hefði verið betra fyrir íslenskan byggingariðnað; að sinna hinu marga og smáa, svo sem viðhaldi, breytingum og endurbótum gamalla opinberra bygginga, sem margar eru farnar að láta verulega á sjá, bæði í borg og út um allt land.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég ætla ekki að tjá mig hér meira um málið, en langar að lokum að benda fólki á að lesa pistil Hilmars Þórs …

    og sérstaklega athugasemdir Tryggva Tryggvasonar og Örnólfs Hall. Þær eru mjög upplýsandi og er að finna undir lok athugasemda við pistil Hilmars:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/

  • ÓTRÚLEGT að lesa athugasemdir Tryggva og Örnólfs Hall.

    Hvet fólk til að missa ekki af þeim.

    Þarna kemur þetta allt fram – klikkaðar áætlanir, oflátungshátturinn – samsærið gegn skattgreiðendum.

    12.000 króna miði ætti með réttu að kosta 24.000 kr.

    Hvers vegna í ósköpunum eigum við, skattgreiðendur að borga þetta?

    Kannski að Mörður Árnason beiti sér fyrir því að innleidd verði sú regla að þeir borgi sem njóta?

    Það væri kærkomin breyting.

    Aðalatriðið er að almenningur sættir sig ekki við þetta lengur.

    Þessi yfirgengilegu vinnubrögð eru komin á endastöð.

    Þetta hryllilega hús verður sem myllusteinn um háls almennings um fyrirsjáanlega framtíð.

    Draga þarf stjórnmálamenn til ábyrgðar fyrir þetta óhæfuverk.

  • Þetta fólk sem tekur ákvarðanir um mál eins og byggingu Hörpunar er ávallt kynnt til sögunar sem hæfasta fólkið og virðist ganga inn í hvaða vinnu sem er. Þetta er hins vegar algerlega ábyrgðarlaust fólk sem vasast með fé almennings.
    Allir sem kunna prósentureikning vissu að þetta gengi ekki upp. Harpan þarf að leggja til 7-8 milljónir á hverjum einasta degi allan ársins hring næstu 40 árin , aðeins til að borga af fjárfestingunni og þá á eftir að borga allan annan rekstrarkostnað af ferlíkinu. Tekjur af starfsseminni virðast ekki einu sinni geta staðið undir rekstri án fjármagnskostnaðar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Bara þetta mitt al-síðasta innlegg um málið.

    Ég bið þingmenn og ráðherra og forstjórana hjá Framkvæmdasýslu ríkisins og Ríkiskaupum einnig að taka til sín orð Tryggva Tryggvasonar um „flækjustig“ -þar sem arkitektum er ítrekað mismunað, þannig að einyrkjar og litlar arkitektastofur komast aldrei að samningaborðinu hjá ríkinu og er beinlínis markvisst haldið utangarðs, alveg sama þó verkið sé lítið eða stórt. Í nafni sérframleiddra „hæfisreglna“ er þar markvisst rekinn ríkisaðlagaður corporativismi, með tilheyrandi klíkubandalagi og samansúrrun með hinum stóru markaðsráðandi risa-verkfræðistofum og aldrei meiri en hin síðustu ár.

    Tryggvi segir ma. svo í athugasemd sinni 17.5.2012 kl.00:40:

    „Hæfisskilyrði og útboðsskilmálar voru í reynd það strangir að engir aðilar aðrir en stórar erlendar arkitektastofur höfðu möguleika til að komast að samningaborðunum. Aðrir íslenskir arkitektar voru þátttakendur í leiknum á sömu forsendum og við (Att Arkitektar/Batteríið) í fyrrnefndu samningskaupaferli þar sem fjórar samsteypur reyndust hæfar til að skila inn tilboði. Flækjustig samningskaupaferils einkaframkvæmdar reyndist gríðarlega krefjandi og langdregið. Þrjár áfangaafhendingar, hver með einkunnagjöf og samningum tóku samtals 18 mánuði. Við íslensku arkitektarnir höfðum aldrei kynnst öðru eins pappírsbruðli og smásmygli en gátum huggað okkur við að keppnisteymi HLT hafði heldur aldrei reynt annað eins. Þetta tel ég rétt að rifja upp t.d. til að það megi nota reynsluna af þessu samningskaupaferli til að meta hvort svo langdregið og strangt samningsferli skili sér í raun í betri byggingum. Hæfisreglur eru t.d. svo strangar að arkitektar með góða þekkingu á staðháttum séu í raun útilokaðir. Þannig geta ströng hæfisskilyrði unnið á móti tilgangi sínum og útiloki staðgóða og fengna reynslu inn í verkið.“

  • Benedikt

    Aldrei skal ég fara inn í þetta hús.
    Hús afskrifta róna Íslands.

  • Guðný Ármannsdóttir

    Margt hefur þessi ríkisstjórn gert gott en ég á aldrei eftir að skilja hvers vegna ákveðið var að halda áfram að byggja Hörpuna og hátæknisjúkrahúsið þegar við höfðum ekki einu sinni efni á að reka það sem við áttum. M.a.s. grunnskólabarn sér að dæmið verður bara fjárhagslegur baggi á þjóðinni. Hvað var málið? Þjónkun við einhverjar klíkur eða elítur?

    Svipað og atvinnulaus fjölskylda sem ekki hefur efn á að kynda og reka 3ja herb. íbúð færi úti að byggja 300 ferm. einbýlishús „til að hafa eitthvað að gera“ og af því það er svo gaman að eiga fallegt hús til að vera stoltur af.

    Bara ábyrgðarleysi og flottræfilsháttur.

    Og hvað ætli kosti að kynda ferlíkið?

  • Halldór Björnsson

    Það er hryggilegt að ráðstefnutekjur skuli ekki skila sér, en kemur ekki á óvart. Það vantar sali af réttri stærð. Ég tók þátt í ráðstefnu þar í janúar. Þetta var frábær ráðstefna, en Harpan réði varla við hana. Vandinn er nefnilega sá að flestar ráðstefnur þurfa 1 – 2 stóra sali (og þá hefur Harpan) og svo þurfa þær marga litla sali, svona litlar upp í stórar kennslustofur. Stórar ráðstefnur eru oftast með marga þræði í gangi samtímis, fjöldinn sem fylgist með hverjum er kannski 10 – 100 manns. Til að vera gott ráðstefnuhús þyrfti Harpan að hafa amk. 10 – 20 sali af mismunandi stærðum. Ég hef heyrt um að í stórum ráðstefnum í Hörpunni hafi menn verið að leigja sali víðsvegar um miðbæinn.

    Í minni ráðstefnu var fyrirtæki ráðið til að halda utan um skráningu, greiðslu, hótel, ferðir og allt slíkt. Þeir unnu það mjög vel, og sýndu að á Íslandi eru þegar aðilar sem ráða mjög við að annast stóra alþjóðlega ráðstefnu með því flækjustigi sem þar fylgir. Ég ræddi aðeins við þau um að sumstaðar væri verið að stappa 50 manns inn í 30 manna herbergi, og þau sögðu mér Harpan hefði ekki nóg af litlum sölum. Það væru stórir salir, eða fundarherbergi. Þegar mér fannst það skrítið sögðu þau að ekkert samráð hafi verið við haft við vana ráðstefnuhaldara þegar húsið var hannað. Ég sagðist vona að hótelið sem byggt verður við hliðina á Hörpunni myndi hafa fleiri litla sali. Þau sögðu mér að þar væri sama sagan, ekkert væri rætt við fagaðila í ráðstefnuhaldi, svo það væri allsendis óvíst að hótelið myndi redda Hörpunni.

    Mér fannst skrítið að svona lítið samhengi væri milli þess sem menn segðu tilgang hússins og hönnunar þess, en það kemur þá ekki á óvart að áætlanir um ráðstefnutekjur gangi ekki upp.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur