Fimmtudagur 21.01.2016 - 23:00 - 1 ummæli

Vanhæfisdellunni lokið

Mörður Árnason er ekki vanhæfur til starfa í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta er niðurstaða forseta alþingis og forsætisnefndar á grunni lögfræðiathugunar frá þartilgerðum embættismönnum. Þar með er sú saga úti sem hófst rétt fyrir jól með tölvuskeyti Elfu Ýrar Gylfadóttur og erindi menntamálaráðuneytisins til stjórnarformanns Ríkisútvarpsins. Sjálfur frétti ég fyrst af þessu kvöldið áður en bréfin fóru af stað, þegar blaðamaður á Morgunblaðinu spurði út í viðkomandi lagagrein.

Rök þingforseta eru einföld. Hann segir réttilega að alþingi hafi ekkert úrskurðarvald um túlkun laga – til þess eru dómstólarnir – en bendir á að

í merkingu stjórnarskrárinnar, laga um kosningar til Alþingis eða þingskapa Alþingis

séu kjörnir þingmenn eitt og varaþingmenn allt annað. Bréfinu fylgir allnokkurt og fróðlegt minnisblað frá lagaskrifstofu þingsins. Sjá bréf og fylgiskjal hér: Bréf forseta alþingis til stjórnar Ríkisútvarpsins.

Þetta eru í sjálfu sér sömu rök og mér fannst eiga við í upphafi máls – einfaldlega þau að frambjóðandi sé ekki kjörinn nema hann sé kjörinn – eða gegni i forföllum störfum kjörins fulltrúa.

Af hverju þetta fór af stað í kringum mína persónu, tíu mánuðum eftir að ég tók sæti í RÚV-stjórninni, hálfu ári eftir að ég fór á þing eina viku í júní,  á því skeiði að Ríkisútvarpið, fjárhagur þess, ráðherrann, tilteknir þingmenn og stjórn Ríkisútvarpsins voru mjög í fréttum – það hreinlega veit ég ekki. Ekki heldur afhverju framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar lét líta út fyrir að „ábending“ hennar væri komin frá fjölmiðlanefndinni eða af hverju starfsmenn menntamálaráðherra sögðu útvarpsstjórninni að dæma sjálf um vanhæfið þótt engin lög styddu það, og heldur ekki hversvegna blaðamaður á Mogga hafði haft veður af þessu áður en bréfaskiptin hófust. Fréttatíminn spurði mig um þetta áðan,og ég svaraði að hér væri líklega fiskur undir steini. Ég nenni ekki að leita að fiskinum, en steinninn er væntanlega úr pólitískri bergtegund.

Hafi þeir af maklegan heiður sem málið hófu – en ég þakka öðrum ýmsan stuðning og ráðgjöf í þessu bírókrató-pólitíska dellumakeríi. Og held svo áfram að vinna í þágu almennings og almannaútvarpsins.

 

(Fyrri Eyjupistlar um málið: Hér, hér og hér.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Athyglisvert. Er ekki rétt að fá amk afsökunarbeiðni frá Fjölmiðlanefnd? Það er pólitísk spillingar-fýla af þessari Elfu Ýr og „Píparinn“, formaður útvarpsráðs, ja hann angar nú langar leiðir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur