Laugardagur 16.01.2016 - 12:50 - Rita ummæli

Ráðuneyti á flótta

Fyrir áhugamenn um hæfi stjórnarmanna í Ríkisútvarpinu:

Menntamálaráðherra hefur látið ráðuneytisstarfsmenn sína svara spurningum mínum frá 22. desember, sem sannarlega skal þakkað. Svarið sýnir að ráðherrann og ráðuneytið hafa ákveðið að leggja á flótta frá þessu undarlega máli, og segjast bara hafa verið að sendast.

Í bréfi mínu fyrir jól (hér, neðarlega) var spurt tveggja spurninga. Annarsvegar var spurt hver ráðherrann teldi að ætti að kanna hæfi stjórnarmanna – þar á meðal að þeir séu ekki „kjörnir fulltrúar“ – fjölmiðlanefnd, hann sjálfur með ráðuneyti sínu eða aðrir. Hinsvegar var spurt hvaðan ráðherranum og hans  mönnum kæmi sú afstaða að hin þingtilnefnda stjórn Ríkisútvarpsins ætti sjálf að úrskurða um hæfi einstakra stjórnarmanna, óskað skýringa á þeim efnisatriðum  bréfsins – og „upplýsinga um lagagrundvöll staðhæfinga sem þar koma fram“.

Skemmst er frá að segja að svör ráðherrans eru engin. Hann var bara að æfa lögreglukórinn:

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur borist bréf yðar, dags. 22. desember 2015, þar sem óskað er skýringa á tilteknum atriðum í bréfi ráðuneytisins til formanns stjórnar Ríkisútvarpsins, dags. 21. desember 2015, sem sent var í kjölfar ábendingar sem borist hafði frá fjölmiðlanefnd um ætlað vanhæfi stjórnarmanns í félaginu.

Hlutverk ráðuneytisins í framangreindu máli var einungis að taka við ábendingu fjölmiðlanefndar og koma henni til afgreiðslu hjá þar til bærum aðila, stjórn Ríkisútvarpsins. Að öðru leyti tekur ráðuneytið ekki afstöðu til efnisatriða málsins.

Undir þetta rita einsog áður tveir starfsmenn „[f]yrir hönd ráðherra“ – þau Ásta Magnúsdóttir og Jón Vilberg Guðjónsson.

Nú er rétt að taka fram að síðan síðast hefur komið í ljós að umrædd „ábending“ kom ekki frá fjölmiðlanefnd heldur frá einstaklingnum Elfu Ýri Gylfadóttur, sem gegnir störfum framkvæmdastjóra nefndarinnar. Sú bending barst til „Illuga og Magnúsar“ – þ.e. útvarpsstjórans Magnúsar Geirs Þórðarsonar, framkvæmdastjóra sem starfar í umboði stjórnar Ríkisútvarpsins. Hafði erindi Elfu Ýrar því þegar borist Ríkisútvarpinu, óháð því hvort það svo er hinn „þar til bæri aðili“.

Þetta eru smáatriði. Aðalfréttin er sú að ráðherrann og ráðuneytið neita nú allri hlutdeild að málinu og hafa til þess enga afstöðu. Öðruvísi en fyrir jól. Batnandi mönnum et cetera.

Fréttaauki

Það er annars að frétta að yðar einlægur starfar í stjórninni sem aldrei fyrr og hyggst halda því áfram – meðan beðið er niðurstöðu alþingis, væntanlega forseta og forsætisnefndar. Af Ríkisútvarpinu sjálfu aðallega það að enn standa yfir viðræður við ráðherrann títtnefnda um nýjan þjónustusamning, og hafa dregist nokkuð á langinn miðað við vonir. Meðan samningaviðræðurnar standa yfir er niðurskurðarmálum frestað.

Maður mætir bara til vinnu einn dag í einu

sagði við mig reyndur Rúvari í gær.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur