Sunnudagur 27.12.2015 - 16:17 - Rita ummæli

Elfa Ýr sjálf og ein

Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri sendi ein og sjálf athugasemdir í nafni fjölmiðlanefndar um vanhæfi Marðar Árnasonar í RÚV-stjórninni (21. des.) og studdist ekki við neinskonar ákvörðun nefndarinnar á fundi. Hvorki nefndin né framkvæmdastjórinn könnuðu hæfi annarra stjórnarmanna, enda er slík athugun ekki á verksviði nefndarinnar (né framkvæmdastjórans). – Þetta kemur fram í svörum Elfu Ýrar við spurningum mínum frá því á þriðjudaginn. Framkvæmdastjórinn svaraði strax þann dag, og ég þakka fyrir þann viðbragðsflýti. Spurningar og svör er að finna í upphafsblogginu en hér er svolítil hugleiðing í tilefni af þessu viðbragði Elfu Ýrar.

Í svari við fyrstu spurningu kemur í ljós að fjölmiðlanefnd hefur ekki tekið málið – vanhæfi stjórnarmanns í Ríkisútvarpinu – fyrir á fundi. Þetta er skýrt þannig að ekki sé um „meiriháttar efnislega ákvörðun að ræða“ og vísað í starfsreglur nefndarinnar. Þegar þær eru skoðaðar kemur í ljós að framkvæmdastjórinn á að „koma fram fyrir hönd“ nefndarinnar og „tekur þær ákvarðanir fyrir hönd hennar sem ekki heyra undir nefndina sjálfa“. Soldið skrýtið orðalag en varla hægt að lesa úr þessu annað en að framkvæmdastjórinn, Elfa Ýr Gylfadóttir, hafi ákveðið fyrir hönd nefndarinnar að „koma fram“ og taka fyrir nefndina þá ákvörðun að færa ráðherra og útvarpsstjóra (en af hverju honum og ekki alþingi?) ábendinguna góðu um vanhæfi stjórnarmannsins.

Ekki er ljóst hvort „fjölmiðlanefnd“ í eiginlegum skilningi – nefndarmennirnir Karl Axelsson, Hulda Árnadóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson (eldri), Arna Schram og Salvör Nordal, eða viðkomandi varamenn, samankomnir á nefndarfundi – þekkti til málsins, og einnig óljóst hvort nefndarmennirnir þekktu það hver og einn. Ég hef þegar óskað þess við framkvæmdastjórann að fá afrit af öllum gögnum málsins – en þegar er ljóst að framkvæmdastjórinn notar orðið „fjölmiðlanefnd“ um sjálfa sig og ekki endilega nefndina (úr tölvuskeytinu 21.12.): „Fjölmiðlanefnd telur rétt að benda á …“ – „Fjölmiðlanefnd telur þessa skipun varla samræmast …“

Það er eitthvað skrýtið við svona vinnubrögð – sem leiða svo til frétta um að fjölmiðlanefnd hafi komist að tiltekinni niðurstöðu um hæfi þessa blessaða einstaklings.

Í svari við annarri spurningu kemur fram að hvorki fjölmiðlanefnd né framkvæmdastjóranum kemur málið formlega við. Þess vegna var í bréfinu góða bara minnst á einn af stjórnarmönnunum. Engin athugun fór fram um hæfi hinna stjórnarmannanna – svo sem Kristins Dags Gissurarsonar, Friðriks Rafnssonar eða Úlfhildar Rögnvaldsdóttur. Þetta hefur verið bara svona af því bara. Hvað finnst nú lögmönnunum Karli,  Huldu og Vilhjálmi um slíkan málatilbúnað? Örnu, fyrrverandi formanni Blaðamannafélags Íslands? Salvöru siðfræðingi?

Um önnur svör Elfu Ýrar verður ekki fjallað hér, enda byggjast þau að mestu á fyrstu tveimur svörunum. Skylt er þó að geta þess að Elfa Ýr segir að „hvorki framkvæmdastjórinn né nefndin sjálf“ (ath.: þarna er allt í einu greinarmunur, og mætti halda að „nefndin sjálf“ hafi vitað um þetta, þá utan fundar?) hafi rætt um málið við fjölmiðla áður en bréfið var sent. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Elfa Ýr kom ábendingu sinni um meiningar fjölmiðlanefndar „óformlega“ á framfæri við forystumenn í Ríkisútvarpinu og í mennta- og menningarmálaráðuneytinu vikunni áður en bréfið var sent. Ég hef spurst fyrir í Ríkisútvarpinu – þar kannast tiltekinn starfsmaður við að hafa setið með Elfu Ýri á fundi þar sem sú síðarnefnda spurði hann afar óformlega um málið. Starfsmaðurinn ræddi það ekki frekar fyrr en bréfið barst, og alls ekki við fjölmiðla. Um ráðuneytið veit ég svo ekkert nema það fornkveðna, að milli Morgunblaðs, ráðuneyta og ráðherra liggur leyniþráður.

Mennta- og menningarmálaráðherra á nú eftir að svara spurningum mínum til hans frá 22. desember – þau svör verða líka birt í upphafsblogginu þegar þau berast. Á meðan bíðum við svo úrskurðar alþingis í þessu einkennilega máli.

———————

Viðauki, á þrettándanum: Mánudaginn 4. janúar svaraði Elfa Ýr óskum mínum um að fá afrit af öllum gögnum málsins hjá fjölmiðlanefnd eða framkvæmdastjóra hennar. Töluskeytið var svona: „Sæll vertu, / Ekki er um nein gögn að ræða þar sem aðeins var um ábendingu í tölvupósti að ræða. / Að öðru leyti er vísað til fyrri svara. / Kveðja, Elfa“.

Í svarbréfi við svarbréfinu þakkaði ég Elfu Ýri fyrir og bætti við: „Ég dreg þá ályktun að málið hafi aldrei verið rætt á
vettvangi nefndarinnar. Þér hafi hinsvegar dottið í hug þessi „ábending“ nú í desember og dreift henni, munnlega og í tölvupósti, í nafni nefndarinnar. Ég beini því til nefndarmanna að skoða hvort slík stjórnsýsla stenst almennar reglur en þakka þér fyrir greið svör. // Mörður Árnason“.

Þar með er að sinni lokið samskiptum mínum við framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar. Ekkert hefur á hinn bóginn heyrst frá menntamálaráðherra og starfsmönnum hans ennþá, enda í mörgu að snúast og ekki einusinni búin jólin.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Íþróttir

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur