Þriðjudagur 22.12.2015 - 12:05 - Rita ummæli

Fiskur undir steini?

Sérkennilegt að vera persónulega orðinn skotskífa í þeim átökum sem staðið hafa undanfarnar vikur – og reyndar miklu lengur – um fjárhags- og tilverugrundvöll Ríkisútvarpsins. Í gær var samt byrjað að efast um að ég ætti seturétt í RÚV-stjórninni af því ég væri „kjörinn fulltrúi“

Ég hef síðan vorið 2013 verið annar varamaður Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, og komið tvisvar á þing sem slíkur. Svo varð ég stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu í janúar (alþingi) og febrúar (aðalfundur RÚV með eina hluthafanum, menntamálaráðherra). Ég hef ekki litið á mig sem „kjörinn fulltrúa“ eftir kosningarnar 2103 – en varamaður sem tekur sæti aðalmanns er vissulega „kjörinn fulltrúi“. Það var ég vissulega í júní leið þá viku sem ég sat á þingi í forföllum Helga Hjörvars, og hefði þá líklega átt að senda Ríkisútvarpinu bréf um að varamaður minn tæki við störfum sem stjórnarmaður á meðan – en gerði ekki, sem eru mistök. Mea maxima culpa – þótt málið snúist ekki um þetta.

Góður farvegur

Það er hinsvegar góð afgreiðsla hjá stjórn Ríkisútvarpsins í gær að biðja alþingi að fjalla um þetta mál, og að auki svipuð mála annarra stjórnarmanna, svo sem Kristins Dags Gissurarsonar sem er varabæjarfulltrúi í Kópavogi og sat þar bæjarstjórnarfund  í október, Friðriks Rafnssonar sem var fjórði maður á öðrum Reykjavíkurlista Bjartrar framtíðar en ehfru ekki sest á þing – ennþá. Og því ekki líka mál Úlfhildar Rögnvaldsdóttur, sem var í 30. sæti á B-listanum á Akureyri við bæjarstjórnarkosningarnar 2014 að loknum fulltrúastörfum á fyrra kjörtímabili.

Hæfi annarra stjórnarmanna í þessari pólitískt skipuðu stjórn þarf varla að kanna í þessu tilliti, ekki fyrrverandi stjórnarformanns Orkuveitunnar á vegum Framsóknarflokksins,  ekki núverandi sveitarstjóra í Vesturbyggð sem var ekki á lista síðast en á sínum tíma sveitarstjórakandídat D-listans, ekki framkvæmdastjóra VG-flokkanna í Norðurlandaráði, ekki fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði áður en hann fluttist í bæinn, hvað þá framkvæmdastjóra Landssambands Sjálfstæðiskvenna.

Endilega ekki þingmenn

Ég er hlynntur ákvæðinu um að kjörnir fulltrúar sitji ekki í stjórn RÚV. Það var sett inn þegar átti að draga úr flokkspólitískum áhrifum í stjórninni og hélst þegar Illugi breytti aftur í flokkspólitíska stjórn. En ég held með þessari grein, þarna eiga ekki vera þingmenn eða sveitarstjórnarmenn – og má auðvitað spyrja sig um annarskonar atvinnumenn í stjórnmálum.

Spurningin sem alþingi þarf nú að velta fyrir sér er áhugaverð: Hvenær er varamaður „kjörinn fulltrúi“? Eru allir á lista sem fékk mann kjörinn þá útilokaðir frá þessari stjórnarsetu? Eða bara þeir sem um hríð hafa verið kallaðir til starfa á þing eða sveitarstjórn? Skiptir máli að hafa fengið kjörbréf? Hvað þýðir kjörbréf varamanns? Á að túlka þetta ákvæði vítt, einsog manni sýnist um ákvæðið í lögum Katrínar Jak vor 2013, eða þröngt, einsog manni sýnist eðlilegt um póltísku stjórnina sem Illugi bjó til haust 2ö13?

Fiskur?

Ég er ekki maður samsæriskenninga. Skrýtið samt að málið skuli koma upp núna, í desember, og ekki í janúar-febrúar eða í júní – einmitt þegar yfir stendur þessi harða umræða um Ríkisútvarpið sem ég hef tekið talsverðan þátt í nauðugur viljugur.

Til að skýra málið ákvað ég að skrifa fjölmiðlanefnd og ráðherra fjölmiðlamála bréf sem er best að birtist hér opinberlega. Svo reynir yðar einlægur að brasa umræddum orðsendingum nefndarinnar og ráðuneytismannanna einhvernveginn hér inn líka.

Já – eitt gleymdist: Gleðileg jól!

 

Bréf til fjölmiðlanefndar:

Í framhaldi af tölvuskeyti sem stílað er á „Illuga og Magnús Geir“, þ.e. mennta- og menningarmálaráðherra og útvarpsstjóra, og sent þeim auk Ástu Magnúsdóttur, Jóns Vilbergs Guðnasonar, Þorgeirs Ólafssonar, Margrétar Magnúsdóttur, Sigríðar Hallgrímsdóttur, Heiðdísar Lilju Magnúsdóttur og Huldu Árnadóttur kl. 9.26 í gær með efnisheitinu „Athugasemd vegna skipan  [svo] stjórnar RÚV“, og ég fékk fréttir af í símtali sem hófst kl. 14.14. við Guðlaug Þ. Sverrisson starfandi formann stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., leyfi ég mér að biðja um svör fjölmiðlanefndar eða framkvæmdastjóra hennar eftir atvikum við þessum spurningum:

1. Á hvaða fundi sínum ákvað fjölmiðlanefnd að fela framkvæmdastjóra að senda ofantöldum umrædda athugasemd, þar sem sérstaklega er vitnað til afstöðu nefndarinnar í málinu? Afrit af viðeigandi færslu úr fundargerð óskast.

2. Hefur fjölmiðlanefnd rannsakað hæfi annarra stjórnarmanna en mín í þessu sambandi, svo sem þeirra sem sátu á framboðslistum við síðustu alþingis- og sveitarstjórnarkosningar? Ef ekki – hvers vegna beindist athugun fjölmiðlanefndar einungis að Merði Árnasyni?

3. Undirritaður hefur verið varaþingmaður frá vori 2013. Hann var tilnefndur á alþingi og kjörinn á aðalfundi stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu í janúar og febrúar á þessu ári, 2105, en kallaður á þing í júnímánuði. Hvenær frétti fjölmiðlanefnd að viðkomandi varaþingmaður hefði verið tilnefndur og kjörinn í stjórn Ríkisútvarpsins ohf.? Hvers vegna berast athugasemdir við „þessa skipan“ fyrst síðari hluta desembers, en ekki í janúar-febrúar eða í júní?

4. Hefur nefndin orðið ber að vanrækslu í störfum sínum með því að kanna ekki hæfi Marðar Árnasonar fyrr? Hafi nefndin ekki kannað hæfi annarra stjórnarmanna um leið og þetta mál kom upp – telur nefndin að hún hafi með því sýnt vanrækslu í störfum?

5. Komið hefur fram í fjölmiðlum að nefndin hafi „farið að skoða“ þetta mál „í síðustu viku“ en grípur ekki til aðgerða fyrr en á mánudagsmorgni, sama dag og haldinn er mikilvægur fundur í stjórn Ríkisútvarpsins. Tengist þessi tímasetning stjórnarfundinum?

6. Kom fjölmiðlanefnd eða framkvæmdastjóri hennar athugasemdum sínum á framfæri við fjölmiðla áður en tölvuskeytið var sent? – sbr. viðtal við Morgunblaðsins við undirritaðan síðdegis sunnudaginn 20. desember.

Svör óskast sem alla fyrst.

 

Svör frá framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri nefndarinnar, svaraði samdægurs, en jólahald tafði birtingu hér þar til nú, þriðja í jólum. Hugleiðingar um þessi svör má finna í nýjum bloggpistli.

  1. Í starfsreglum nefndarinnar er fjallað um meiri háttar efnislegar ákvarðanir sem bera skal undir fjölmiðlanefnd til samþykktar eða synjunar. Ábending til mennta- og menningarmálaráðuneytis um að taka til skoðunar hvort stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu uppfylli almennar hæfisreglur skv. 5. mgr. 9 laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 telst ekki til meiriháttar efnislegrar ákvörðunar. Málið var því ekki til umfjöllunar á fundi fjölmiðlanefndar.
  2. Fjölmiðlanefnd er ekki ætlað að hafa frumkvæðiseftirlit með því að þeir fulltrúar sem skipaðir eru í stjórn Ríkisútvarpsins og tilnefndir eru af Alþingi uppfylli almennt hæfi samkvæmt lögum. Fjölmiðlanefnd hefur því ekki skoðað hæfi allra stjórnarmanna í þessu sambandi, enda var aðeins um ábendingu að ræða sem send var í tölvupósti til ráðuneytisins. Þar var bent á að tilefni væri til þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið tæki málið til skoðunar. Í 5. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 segir að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna séu ekki kjörgengir í stjórn Ríkisútvarpsins. Á vef Alþingis kemur fram að aðalmaður í stjórn er jafnframt varaþingmaður Samfylkingarinnar og hafi hann setið á þingi í júní 2015.
  3. Vísað er til svars við 2. tl. Einnig er rétt að geta þess að hvorki var um tæmandi athugun að ræða að hálfu nefndarinnar né niðurstöðu fjölmiðlanefndar í málinu enda er það ekki hlutverk nefndarinnar að hafa eftirlit með skipun stjórnar Ríkisútvarpsins. Í tölvupóstinum var bent á almennar hæfisreglur laganna og að tilefni væri fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið til að skoða málið.
  4. Eins og áður segir sinnir fjölmiðlanefnd ekki frumkvæðiseftirliti með því að þeir fulltrúar sem skipaðir eru í stjórn Ríkisútvarpsins og tilnefndir eru af Alþingi uppfylli almennt hæfi samkvæmt lögum. Að öðru leyti er vísað til svars við 2. tl.
  5. Erindið tengist ekki á nokkurn hátt stjórnarfundi Ríkisútvarpsins. Þegar fjölmiðlanefnd spurðist fyrir um það hjá Ríkisútvarpinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu í síðustu viku hvort komið hefði til skoðunar hvort stjórnarmaðurinn uppfyllti almennar hæfisreglur í ljósi þess að hann er varaþingmaður kom í ljós að málið hafði farið fram hjá báðum aðilum. Í kjölfarið sendi fjölmiðlanefnd tölvupóst þar sem bent er á almennar hæfisreglur laga um Ríkisútvarpið og að í stjórn sitji varaþingmaður. Í tölvupóstinum kemur fram að fjölmiðlanefnd telur þessa skipun varla [leturbreyting] samræmast  5. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið og bendir ráðuneytinu á að taka málið til skoðunar. Nefndin fullyrðir þannig ekkert um málið en bendir á að ástæða sé að skoða það. Bent skal á að í samþykktum Ríkisútvarpsins stendur að ný stjórn skuli skipuð á aðalfundi sem halda skuli fyrir lok janúar ár hvert. Fjölmiðlanefnd taldi rétt að benda ráðuneytinu á að skoða málið, sérstaklega í ljósi þess að stjórn skal skipuð samkvæmt tilnefningu frá Alþingi á aðalfundi sem haldinn skal í næsta mánuði.
  6. Hvorki nefndin sjálf né framkvæmdastjóri nefndarinnar ræddi um málið við fjölmiðla áður en tölvupósturinn var sendur.

 

 

Bréf til mennta- og menningarmálaráðherra:

Í tilefni af bréfi sem Ásta Magnúsdóttir og Jón Vilberg Guðjónsson rituðu í gær Guðlaugi Sverrissyni starfandi formanni stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. „fyrir hönd ráðherra“ (MMR 15120197/2.1) og sendu í tölvupósti kl. 14.08, en mér bárust fréttir af í símtali skömmu síðar, óska ég eftir svörum við þessum spurningum:

1. Í bréfinu segir að fjölmiðlanefnd fari með „eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins“ skv. V. kafla útvarpslaga. Er það álit þitt að nefndinni sé þar með falið að kanna hæfi stjórnarmanna Ríkisútvarpsins ohf. þannig að aðrir aðilar séu undanþegnir slíkri könnun? Ef ekki – hvers vegna brást mennta- og menningarmálaráðuneytið ekki við þegar alþingi tilnefndi mig og m.a. Kristin Dag Gissurarson sem stjórnarmenn Ríkisútvarpsins í janúar sl.? Er eðlilegt að slíkt hæfismat skuli ekki hafa farið fram í ráðuneytinu undir þinni stjórn áður en handhafi hlutabréfsins, nefnilega mennta- og menningarmálaráðherra, kaus stjórnina á aðalfundi Ríkisútvarpsins 4. febrúar sl.?

2. Hvaðan kemur bréfriturum sú viska að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. beri að taka afstöðu til þess hvort einstakir stjórnarmenn séu vanhæfir? Í þeim lagagreinum sem vísað er til í bréfinu finnast engin rök fyrir þessu. Þvert á móti er gert ráð fyrir því í öðrum lagaákvæðum, 64. grein hlutafélaga, að „[s]á sem kjörið hefur eða tilnefnt stjórnarmann [geti] vikið honum frá störfum“ – og þá ekki aðrir nema í sérstökum undantekningartilvikum. Samþykkt um vanhæfi í þingtilnefndri stjórn á borð við stjórn Ríkisútvarpsins mundi gera þeim sem um ræðir nánast ókleift að sinna stjórnarstörfum – ef hér væri um almenna reglu að ræða gæti meirihluti stjórnar í hlutafélögum, þar á meðal pólitískt skipaðra stjórna í opinberum hlutafélögum, því í reynd haft í hendi sér hverjir skipa minnihlutann.

Óskað er skýringa á síðari efnisgrein bréfsins, einkum síðari málsgrein hennar, hvað þetta snertir, og upplýsinga um lagagrundvöll staðhæfinga sem þar koma fram. Vakin skal athygli á því að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. ákvað að fara ekki að þessum tilmælum í bréfi ráðuneytismanna f.h. ráðherra á fundi sínum í gær heldur vísaði málinu til umfjöllunar alþingis.

Þar sem það tók ráðherra og ráðuneytismenn aðeins dagpart (frá kl. 9.56 til kl. 14.08) að koma ábendingu framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar á framfæri við stjórnarformann Ríkisútvarpsins – sem er lofsverður málshraði – hlýt ég að vænta svipaðra vinnubragða við afgreiðslu erindis míns í þessu bréfi.

 

Svör menntamálaráðherra

Ráðherrann svaraði svona (með aðstoð starfsmannanna Ástu Magnúsdóttir og Jóns Vilbergs Guðjónssonar í bréfi sem dagsett er 4. janúar en barst 15. janúar):

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur borist bréf yðar, dags. 22. desember 2015, þar sem óskað er skýringa á tilteknum atriðum í bréfi ráðuneytisins til formanns stjórnar Ríkisútvarpsins, dags. 21. desember 2015, sem sent var í kjölfar ábendingar sem borist hafði frá fjölmiðlanefnd um ætlað vanhæfi stjórnarmanns í félaginu.

Hlutverk ráðuneytisins í framangreindu máli var einungis að taka við ábendingu fjölmiðlanefndar og koma henni til afgreiðslu hjá þar til bærum aðila, stjórn Ríkisútvarpsins. Að öðru leyti tekur ráðuneytið ekki afstöðu til efnisatriða málsins.

Sjá um þetta blogg 16. janúar.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur