Miðvikudagur 16.12.2015 - 20:14 - 3 ummæli

Öll völd til Vigdísar

Í ágúst 2103 gerði fréttastofu Ríkisútvarpsins þau mistök að hafa eftir Vigdísi Hauksdóttur að IPA-styrkirnir frá Evrópusambandinu væru „illa fengið glópagull“. Eftir að þingmaðurinn hafði kvartað yfir þessu leiðrétti fréttastofan frétt sína og baðst afsökunar, Vigdís hefði aðeins sagt „glópagull“.

Samdægurs sagði Vigdís í viðtali að Ríkisútvarpið fengi alltof mikla peninga og fréttastofan væri bæði vinstrisinnuð og höll undir Evrópusambandið. En „ég er náttúrlega í hagræðingarnefndinni“. Sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en sem hótun um niðurskurð fjár til RÚV.

Það var varla að menn tækju mark á þessu – hálfgerð skrípóútgáfa af þeirri hryllingsmynd að pólitíkusar skrúfuðu fyrir hina fjárhagslegu líflínu ef eitthvað kæmi þeim illa í fréttum eða dagskrá almannafjölmiðilsins. Þetta væri bara venjulegur kjaftagangur og rugl í þingmanninum.

En nú hefur Vigdís náð fram hefndum – og lagt í leiðinni hinn svokallaða mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarsson, þannig að enginn getur lengur tekið mark á því sem hann segir. Ekki síður er mikils um vert að Vigdís og félagar sneru niður bæði forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann, sem létu þau boð berast fyrir átta mánuðum – í apríl – að Illugi nyti stuðnings þeirra í málinu.

Vigdís Hauksdóttir er orðin valdamesti þingmaðurinn á Alþingi.

Til hamingju, Ísland.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Geri orð Hr. Haarde að mínum ;“Guð blessi Ísland“….

  • Magnús Bjarnason

    Ath.: Halli á fjárlögum er óháður hvaða upphæð er innheimt fyrir útvarpið, ef innheimtumennirnir skila henni óskertu til RÚV. Engum dylst að lækkun á útvarpsgjaldinu er til þess gerð að búa í haginn fyrir einkageirann, þ.e. fjárfestana, sem ætla að ná í hagnað. Hagnað, sem annað hvort er peningalegur eða hagstæðari umfjöllun um þá (sem er líklegra).

  • Erlingur Þorsteinsson

    Ég er talsvert hugsi yfir Samfylkingunni. Margt ágætisfólk, með jafnaðarsjónarmið, kvennabaráttu og hugsjónafólk. Hvers vegna styður S fasísk trúarbrögð, sem eru andstæð stefnu flokksins á allan hátt. Hvers vegna fórna öllu til að fara inn í ESB, þó að ljóst sé að engar undanþágur séu veittar þar? Icesave, sem hefði kostað íslendinga sennilega 5-6000 milljarða ef upphaflegi samningur Geirs Haarde og Davíðs Oddsonar hefði verið óbreyttur. Svavar Gestsson samningurinn var miklu betri, en sú óværa. Tekin er samt meðvituð ákvörðun um að láta óminnishegra japla á fyrsta afleiknum. Framsókn stóð helst gegn Icesave (ég hef ekki ennþá kosið Framsókn) Síðan var ekki farið í að afhjúpa mafíóska spillingu innan Sjálfstæðisflokksins. Nei hvert skal stefna Facebook og fjölmiðlaárásinni sem alltaf er ófagleg og á persónulegu nótunum. ? Jú gegn Framsókn, sem vogaði sér að halda því fram að hægt væri að fá 100-300 milljarða út úr þrotabúum föllnu bankanna. Framsókn hafði líka verið með þann fyrirvara aðs tuðningi ríkisstjórnar VG og S nefnilega að kaupa kröfur föllnu bankanna á 4%, það hefði sparað þjóðinni 2-3000 milljarða króna. Hvers vegna að samþykkja leyndarhjúp yfir verk Steingríms J, en viðurkennt er að aðkoma VG og S var fordæmalaus. Hvers vegna styður S þann leyndarhjúp 110 ára, þó að það muni kosta þjóðina stórar upphæðir? Við erum að tala um c.a. 1000 milljarða til þrotabúa föllnu bankanna, en vitað hefur verið lengi að ef farið er að lögum, þá er ekki eitt einasta lán föllnu bankanna, sem stendur undir því að teljast löglegt. Það ætti að fella þau öll niður ef farið er að neytendalögum. Vigdísi Hauks þykir þetta ekki við hæfi. Þú mælir hins vegar með því að öll völd séu færð til hennar, á skoplegan hátt, ekki er ég sammála Vigdísi í öllu, hefði t.d. viljað samþykkja afturvirka hækkun til öryrkja og aldraðra eins og til annarra. Núverandi stjórn hefur sveifu upp á 1500-2500 milljarða í jákvæða átt. Öll völd til Vigdísar, Nei en það er samt mun vitlegra en stefna S í peningamálum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur