Fimmtudagur 29.10.2015 - 14:14 - 1 ummæli

Engar nefndir, bara efndir

 

Það sem þarf að gerast til að Ríkisútvarpið haldi áfram að vera til næstu árin er fyrst og fremst þrennt:

1)   Alþingi gefi Ríkisútvarpinu ótvíræða heimild til að selja umdeildan part af Efstaleitislóðinni. Um þetta er fyrirvari í sölusamningnum sem RÚV landaði um daginn. Heimildin þarf að koma í fjáraukalögum fyrir áramót.

2)   Ríkisútvarpið fái allt útvarpsgjaldið – nefskattinn – sem ekki hefur verið frá því eftir hrun. Þetta gjald þarf auðvitað að vera í samræmi við verðlag á hverju ári – og nú þarf þingið að breyta lögum til að það lækki ekki um áramótin næstu og þarnæstu, einsog stjórnarmeirihlutinn var búinn að ákveða.

3)   Ríkið þarf að létta af Ríkisútvarpinu drápsklyfjum af gömlum lífeyrissjóðsskuldbindingum, sem hefur fyrir löngu verið létt af öllum öðrum ríkisstofnunum (nema ÁTVR?) og meira að segja nýverið af heilbrigðisstofnunum sem ríkið á ekkert í (Hrafnistu o.s.frv.). Allir menntamálaráðherrar – a.m.k. frá 2003 þegar ég byrjaði að spyrja um lífeyrisskuldina á þinginu – hafa viðurkennt að fyrr eða síðar verði að bæta hér úr.

Í nýju Eyþórsskýrslunni kemur þetta þrennt enn einusinni fram – þótt áherslur skýrsluhöfundanna og fyrirsagnir fjölmiðla séu settar á Vódafónsamning og hæpinn og villandi samanburð við almannaútvörp í miklu stærri löndum.

Hver eru viðbrögð Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra í þessari stöðu? Jú: Skipa enn einn starfshópinn. Þann þriðja á kjörtímabilinu hingað til. Hann á að skila af sér í vor, sem verður í sumar eða haust eða um áramót þarnæstu miðað við reynsluna af nefndum og starfshópum ráðherrans. Og eftir þann starfshóp er alltaf hægt að sjá til með nýjan starfshóp.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fékk ráðherrann á sig ályktun um „að selja RÚV“ – þvert á sjónarmið sem Illugi lýsti í nýlegum ræðum um Ríkisútvarpið (útvarpsþingi í september, aðalfundi Ríkisútvarpsins í janúar).

Ráðherrann virðist vera á stöðugum flótta undan erfiðum verkefnum. Hann telur sig líklega ekki hafa pólitískan styrk til að taka ákvörðun á eða af í málefnum RÚV.

Og þá skipar menntamálaráðherrann nýja nefnd.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Ríkisútvarpið er orðið eins og flísin í auga Kölska. Auðvaldið ræður yfir öllum helstu fjölmiðlum en ekki algerlega yfir rúv. Óðum styttist í næstu kosningar og útlitið svart. Því þarf að beita öllum ráðum til að komast yfir rúv og það sem fyrst.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur