Þriðjudagur 26.05.2015 - 22:14 - 3 ummæli

Mikilvægur sigur

Nei, ég er ekki að tala um KR-leikinn á mánudaginn þótt sá sigur hafi verið bæði nauðsynlegur og mikilvægur — 😉 — heldur sigur sameinaðrar stjórnandstöðu á öfgaliði stjórnarflokkanna í rammaslagnum núna í kvöld.

Merkilegt. Einar K. Guðfinnsson virðist hafa tekið forystuna einmitt þegar allir voru hættir að hafa nokkra trú á atgervi hans sem þingforseta – og gerði það eina rétta í stöðunni: Henti tillögu Jóns Gunnarssonar og félaga í ruslatunnuna gegn því að fá hjálp stjórnarandstöðunnar við að ljúka þinginu.

Þetta á sér auðvitað forsögu í fundi atvinnuveganefndar þingsins í morgun – að frumkvæði Kristjáns Möllers – þar sem í ljós kom að verkefnisstjórnin hafnaði þrýstingi um óðagotsmeðferð Þjórsárvirkjana og Skrokköldu. Þar með var sá séns út úr kortinu – en áður höfðu lögfræðingar slegið niður aðrar undankomuleiðir stjórnarmeirihlutans sem lagalega ótækar. Eftir þetta var ekkert í spilunum fyrir B og D nema framhaldandi störukeppni – þar sem engin uppgjafarmerki sáust á stjórnarandstöðunni.

Og þar liggur sigurinn. Sameinaður frontur þar sem flokksmerkin skiptu ekki máli og persónumetnaður var settur til hliðar — í efnislegu andófi auðvitað gegn virkjanaþráhyggju Fram og Sjall, en umfram allt í baráttu fyrir því að lög skyldu halda og orð skyldu standa, að rammahugmyndin sjálf um skynsamlegar leikreglur yrði ekki eyðilögð með gamalkunnum yfirgangi freku kallanna sem öllu þykjast ráða.

Takk, góðu og duglegu 25 þingmenn frá Pírötum og Bjartri framtíð og Vinstrigrænum og Samfylkingunni. Vel að verki staðið.

Takk líka mótmælendur og almenningsálit — svona sigrar vinnast ekki nema þingmennirnir finni vindinn í bakið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Ef að stjórnarandstaðan er málssvari náttúrunnar og telur sig vera fulltrúa meirihluta þjóðarinnar í þeim málum hvers vegna sýna þá skoðanakannanir að þessi sama þjóð vill helst ekkert vita af þessum sömu flokkum?

  • Viskíprestur

    Það er samt eitthvað dapurlegt við það að skynsemin þarfnist aðstoðar maraþons sem alla klæja eyrun við til að vitleysan er sópuð af borðinu. Auk tímans sem fer í þetta. Málið er að hið sama gæti gerst ef skynsemin sæti hinum megin við borðið, þá koma þeir úr hinni áttinni með verri langhundana. — Annars held ég að þessi undarlegu útspil ríkisstjórnarinnar undarfarna mánuði hafi verið lítt úthugsuð, en það var einsog þeir hefðu óvart hitt á gullæð. Því meira kjaftæði og rugl og spilling, því minna er hægt að ræða málin í þaula. Svona nokkurskonar ,,shock and awe“-taktík. Blaðamenn hafa rétt náð að greina yfirborð nýjasta hneykslismálsins þegar það næsta ríður yfir. Og þannig gefast jafnvel bestu menn upp. Þetta er málþófið sem þjóðin fær yfir sig og hún hendir baráttuviljanum ,,í ruslatunnuna“ og skiptir yfir á knattspyrnuna. Í þeim leik eru að minnsta kosti skynsamar og skýrar reglur. En ég held samt að þótt þjóðin sé þreytt þá bíður hún eftir að losna við þessa þokumenn og hulduhrúta sem nú stjórna. Það er samt mjög mikilvægt að hún fari sem fyrst, því annars fellur næsta ríkisstjórn á því að hún ,,geri ekkert“ – vegna þess að hún verður á harðaspani að taka til eftir þá fyrri. Og þannig heldur vítahringur Íslands áfram að eilífu.

  • Raghildur H.

    Farðu rett með !,umræðu hefur aðeins verið frestað og engu hennt i ruslatunnu ..En af þvi stjórnarandstæðingar voru að verða viti sinu fjær ,sáu
    allir heibrigðir menn að þetta yrði að stoppa i bili til að vinna við önnur mál ….STjórnarandstaðan er buin að verða sjálfi ser .þingi og þjóð til stórskammar á opinberum vettvangi ….ÞAR KOM AÐ ÞVI AÐ HÚN AFREKAÐI EITTHVAÐ !!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur