Föstudagur 17.06.2016 - 11:18 - 10 ummæli

Efi: Forsetakosningarnar og Ríkisútvarpið

Mér finnst Ríkisútvarpið hafa staðið sig vel hingað til í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar. Þessvegna er leiðinlegt að þurfa að gera þessa athugasemd:

Fram er komið að Ríkisútvarpið ætlar ‒  í fyrsta sinn ‒  að láta skoðanakönnun ráða umfjöllun um kosningar, með því að skipta frambjóðendum í 1. og 2. deild í umræðum kvöldið fyrir kjördag eftir úrslitum könnunar sem á að gera, 4 fylgismestu í könnuninni í fyrri þætti og restin, 5, í síðari þætti. Ég hef um þetta efasemdir og vil gera grein fyrir þeim af því að ég er einn af fulltrúum almennings í stjórn Útvarpsins.

Ríkisútvarpið hefur sem almannaútvarp ákveðnar lýðræðislegar skyldur. Það má meðal annars ekki gera frambjóðendum mishátt undir höfði en það á líka að gera áhorfendum og hlustendum grein fyrir framboðunum, því sem er í húfi og gangi mála í kosningabaráttunni.

Þetta hyggst kosningaritstjórnin nú leysa með því að fyrst séu allir frambjóðendur jafnir fram á síðasta dag. Kvöldið fyrir kosningar á svo að skipta –undir gunnfánum djúprar og innihaldsríkrar umræðu og  betri þjónustu við almenning,. Sem ekki yrði af ef allir níu væru saman í lokaþætti ‒  eða ef skipting þeirra væri með öðru móti en eftir skoðanakönnun.

Þótt í litlu sé (eða hvað?) eru skoðanakannanir hér með farnar að ráða vinnubrögðum Ríkisútvarpsins kringum kosningar.

Rök forsvarsmanna í Efstaleitinu eru þau að með þessu sé stuðlað að áðurnefndri dýpt og innihaldi og gætt upplýsingaréttar almennings. Vísað er til ábendinga ÖSE sem þótti skorta á slíka dýpt í síðustu kosningum, án þess þó að nefna skoðanakannanir sem bjargráð. Það var hinsvegar gert í almennri skýrslu frá Evrópuráðinu ásamt fleiri atriðum ‒  en bakgrunnur þeirrar skýrslu var stjórnmálaástandið í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu þar  sem allt að 25‒30 framboð hafa komið fram í  þingkosningum opg hvorki almannaútvarp né aðrir þokkalega ,frjálsir’ fjölmiðlar ráða neitt við neitt.

Hugmynd af þessu tagi var send frambjóðendum og sett á vefinn í apríl, og kynnt fyrir stjórn Ríkisútvarpsins í maílok. Þá komu fram efasemdir innan stjórnarinnar og einnig á síðari stjórnarfundi, sem sjá má í bókun okkar Friðriks Rafnssonar á þeim fundinum. Sjónarmið okkar, og fleiri fundarmanna, var að hér gæti vissulega verið vandi á ferð, en þegar menn væru búnir að bjóða sig fram í kosningum ætti almenningur kröfu á að kynnast þeim. Ef það ætti að skerða framboðsmöguleika yrði að stemma á að ósi ‒ breyta lögunum en ekki beita ad hoc-reglum á Ríkisútvarpinu.

Breytingar í nútímaátt?

Stóra málið er náttúrlega hvort á að gefa könnunum svona mikið áhrifavald. Ég er ekki hrifinn af því flat- og plat-lýðræði sem kemur út úr fullkomnu sekúndujafnrétti allskyns framboða. Hinsvegar er að míknu viti óeðlilegt að einhver staða í fylgi ráði því hver fær að tala hvenær og við hvern kvöldið fyrir kjördag. Og mér leiðist að Efstaleitisfólk skuli ekki hafa reynt að finna aðrar leiðir – tala við alla einsog gafst ágætlega um daginn, draga í 2 til 3 þætti, eða hafa keðjusamtal einsog stundum hefur verið reynt í prófkjarakynningum – fyrst tali saman þrír, svo fari einn og annar tekur við, eða eitthvað enn annað.

Smærri mál eru auðvitað ábyrgð á afli könnunarinnar, spurningin um það af hverju nú þegar er búið að ákveða skiptinguna 4 og 5 (en ekki 5 og 4 – eða eitthvað allt annað …). Og í tilkynningunni frá í gær segir heldur ekkert um vikmörk, sem öllu máli geta skipt, hverty sem útlitið er núna. Þetta sýnir auðvitað að Ríkisútvarpið er í raun búið að ákveða að í efstudeildarþættinum verði Andri Snær, Davíð, Guðni og Halla. Ruslframbjóðendurnir fá svo að rugla eitthvað á eftir.

Hvernig verður þetta svo næst ‒  í þingkosningunum í haust? Einsog staðan er núna er útlit fyrir einmitt níu til tíu framboð: Þingflokkarnir eru fimm, við bætast líklega Viðreisn, Dögun, Alþýðufylkingin og Þjóðfylkingin … hvernig á að skipta þarna kvöldið fyrir kjördag? Hafa Framsókn með Albaníu-Valda af því hún fékk 9,9% og varð númer fimm á eftir Viðreisn með 10?

Ætli það þurfi ekki annars að endurskoða alla umfjöllun um kosningar í Útvarpinu? Þannig að annarsvegar sé formleg kynning sem fer fram með margvíslegum hætti, en byggist á sem fullkomnustu jafnræði framboða þannig að kjósendur-áhorfendur-hlustendur fái allar upplýsingar og fylgist með í rökræðunni. Hinsvegar sé fréttastofa og fréttatengd dagskrá þar sem kalt fréttamat er í fyrsta sæti. Þetta gerir að vísu miklar kröfur til frétta- og dagskrárgerðarmanna ‒  en mín trú er sú að frábært starfslið í Efstaleitinu standist slíkar kröfur.

Lýðræðishlutverk forsetans ‒ og frambjóðendanna?

Skrýtið að forsetaframbjóðendurnir skuli ekki hafa gert athugasemd við þessi áform. Hvorki þeir sem þetta bitnar helst á, þeir sem undanfarið hafa vermt sætin 5, og niðrúr ‒  og ekki síður þeir sem líklega verða í fjórum efri sætunum í könnuninni góðu. Það er einmitt einhver þeirra sem líklegast verður næsti forseti, og á meðal annars að vera helsti gæslumaður okkar um lýðræði og mannréttindi í landinu.

Fyrirgefið: Ástþór kærði náttúrlega, til fjölmiðlanefndar sem taldi engin lög brotin. En það hélt enginn að málið varðaði beinlínis við lög,  nema Ástþór, því þetta snýst ekki um lagakróka heldur um lýðræðishlutverk almannaútvarpsins. Fjölmiðlanefnd bæti svo við hugleiðingum frá eigin brjósti, sem sjá má í tilkynningunni að neðan. Þær útrýma ekki mínum efasemdum.

 

Tilkynningin til forsetaframbjóðenda, send í gær, 16. júní:

Góðan dag,

Í næstu viku eru tveir umræðuþættir á dagskrá RÚV. Sá fyrri verður í útvarpinu mánudaginn 20. júní kl 18‒ 19:15 og gert er ráð fyrir öllum frambjóðendum í þættinum.

Seinni umræðuþátturinn verður í sjónvarpinu föstudaginn 24. júní

  • Þátturinn hefst kl 19:55 og lýkur klukkan 21:45 (110 mínútur)
  • Umsjónarmenn verða Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Einar Þorsteinsson
  • Settið verður það sama og í fyrri sjónvarpsumræðunum
  • Öllum frambjóðendum er boðið í þáttinn
  • Þættinum verður skipt í tvennt, helmingur frambjóðenda stendur fyrir svörum í hvorum hluta.

Eins og kynnt var í bréfi til frambjóðenda þann 22.apríl verður hópnum skipt eftir stöðu í könnun frá Gallup sem RÚV kaupir og birtir þennan sama dag.

  • Þeir 4 frambjóðendur sem njóta mest fylgis í könnuninni verða teknir tali í fyrri hluta þáttar (ca 45 mínútur)
  • Þeir 5 frambjóðendur sem njóta minna fylgis í könnuninni verða teknir tali í seinni hluta þáttar (ca 55 mínútur)
  • Seinni hlutinn verður lengri enda fleiri frambjóðendur

Þar sem ekki liggur fyrir hverjir verða í fyrri hlutanum og hverjir í þeim seinni fyrr en samdægurs er ekki hægt að gefa út tíma í förðun strax. Gert er ráð fyrir að frambjóðendur verði farðaðir milli klukkan 19 og 20.

Rétt er að taka fram að Fjölmiðlanefnd hefur ákveðið að ekki sé tilefni til að taka til efnislegrar meðferðar kvörtun sem barst nefndinni vegna þeirra áforma að skipta þættinum í tvennt með þessum hætti. Niðurlag fjölmiðlanefndar hljómar svo: „Í ljósi alls framangreinds telur fjölmiðlanenfd að fyrirhuguð tilhögun kosningaumfjöllunar Ríkisútvarpsins og framkvæmd þeirrar skoðanakönnunar, sem hér hefur verið vísað til, fái samræmst ákvæðum laga um Ríkisútvarpið um hlutlægni, jafnræði og fagleg vinnubrögð. Þá sé tilhögun kosningaumfjöllunarinnar í samræmi við framangreindar ábendingar ÖSE og Evrópuráðsins, með  þeim hætti að hún geti stuðlað að dýpri og innihaldsríkari umræðu og taki þannig hliðsjón af upplýsingarétti almennings.“

Með góðri kveðju, / Heiðar Sigurfinnsson / Kosningaritstjórn RÚV

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Eiður Svanberg Guðnason

    Ríkisútvarpið á ekki að vera með svona þàtt kvöldið fyrir kjördag. Svo er það rétt hjà Merði, að skoðanakannanir eiga ekki að stjórna dagskránni.

  • Baldur Ás

    Skoðanakannanir eiga ekki að ráða hver situr hvar. Hlutkesti á að ráða.

  • Þetta er nýtt að svona margir bjóði sig fram og við því þarf að bregðast. Hafa þarf forkostningu og verða þeir sem skipa 3 efstu sætin kosin til áframhaldandi kjörs. Eins og þetta er nú eru aðilar með lítið sem ekkert fylgi hafa vonlausir frambjóðendur.

  • Katrín Linda Óskarsdóttir

    Skoðanakönnun á ekki að ráða því hverjir „veljast“ saman í slíkum þætti. Það á hreinlega að draga um það

  • Sæll Mörður, sammála þér. Að skipta í 1. og 2. deild gefur viss skilaboð til kjósenda og það á RÚV ekki að gera. Tel að RUV sé þá orðin gerandi og það hugnast PR meisturunum sem öllu vilja stjórna. Nei við verðum að fá nýja lagasetningu um skoðanakannanir, þó það væri ekki fyrir annað en að öll umfjöllun „blaðamanna“ þegar kjósendur eru að velja sér mismunandi stjórnmálaskoðun til að stjórna fyrir sig næstu fjögur árin, mest öll sú umræða snýst um um skoðanakannanir en ekki stjórnmál.

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Ég öfunda ráðamenn sjónvarps ekki við að reyna að gera sitt besta. Þarna er um tvennskonar frambjóðendur að ræða. Þeir sem segja frá sínum viðhorfum til embættisisns og láta þar við sitja og svo þeir sem eyða tímanum í skítkast á þá frambjóðendur sem standa í vegi fyrir framgangi þeirra. Skítkastararnir skemma fyrir þeim sem eru að stjórna þessum þáttu en sem betur fer sjálfum sér.

  • Elín Sigurðardóttir

    Fá kjósendur í 2. deild ekki afslátt af nefskatti? Má skoðun þeirra ekki ráða því hvort þeir yfirhöfuð borgi þennan nefskatt?

  • Reynir Vilhjálmsson

    Ég er sammála Merði. Málið er mjög alvarlegt og varðar grundvallaratriði lýðræðis. Grundvallaratriði er að hver maður hafi eitt atkvæði í kosningum og kosningar eru ekki það sama og skoðanakannanir. Ef við byrjum á því að láta skoðanakannanir ráða forgangi frétta erum við komin á hættulega braut. En kynning frambjóðenda hlýtur að teljast til frétta því að ég get ekki séð annan tilgang í að birta þessar kynningar. RÚV er hér að nota skoðanakönnun til að ákvarða að framboð Guðna sé meiri frétt en framboð t. d. Hildar Þórðardóttur. Ef við spinnum þráðinn lengra má ímynda sér að í framtíðinni telji menn kosningar ekki lengur nauðsynlegar þar sem skoðanakannanir geti komið í staðinn fyrir þær. Skoðanakannanir eru varasamar vegna þess að þær hafa sennilega sjálfstyrkjandi eiginleika. Ef frambjóðandi X vinnur í skoðanakönnun aukast líkurnar á að hann auki enn á fylgi sitt í næstu skoðanakönnun. Þannig býr röð af skoðanakönnunum til sigurvegara en eyðir minnihlutaskoðunum.

  • Pétur Örn Björnsson

    Enn eina ferðina setur RÚV ohf. niður. Að gera slíkan mannamun á ekki að líðast hja „útvarpi allra landsmanna“ … en það hefur orðið æ augljósara hin síðari árin, því miður, að RÚV ohf. gætir alls ekki lengur hlutleysis síns heldur magnar upp það sem þeim líkar best og matreiða samkæmt því.

  • Guðbjörg H. Kolbeins

    Mikið er ég sammála þér. Ég sé í sjálfu sér ekkert að því að frambjóðendum sé skipt í viðráðanlega stóra hópa (það hefði t.d. mátt skipta þeim í 3×3), en skoðanakannanir eiga aldrei að stjórna framsetningu RÚV á kosningaefni. Lýðræðislegra hefði verið að draga um hverjir kæmu fram í hverjum þætti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur