Þriðjudagur 15.02.2011 - 12:28 - FB ummæli ()

D-vítamín og sterkar íslenskar konur

Um helgina þegar ég mætti til vinnu á Bráðamóttökunni snemma á sunnudagsmorgni var nýfallinn snjór yfir öllu, blankalogn og þrestirnir sungu af lífsins krafti í morgunkyrrðinni, í fyrsta skipti á þessu vori. Vorið kemur þá eftir allt saman. Undir nýföllnum snjónum var samt freðin jörð og það brakaði hressilega í frosnum pollunum undir. Einhvern veginn fékk þess stund mig til að hugsa um æskuna og bjart sumarið sem er væntanlegt, en einnig um það sem í væntum var þennan daginn. Öll hálkuslysin sem voru fyrirséð að yrðu og að margir myndu brotna. Þótt auðvitað bílslysin séu oftast alvarlegust, að þá eru flest brotin hjá eldri konum sem detta, eins og hendi sé veifað í hálkunni, og sem síðan koma illa niður á hendur, mjöðm eða bakið. Sumar úrkalkaðar í beinunum fyrir aldur fram og hefðu ekki þurft að brotna við byltuna, nema af því beinin þeirra eru orðin svo stökk. Beinin sem samt byrjuðu að vaxa og beingerast á unga aldri og ef aðstæður eru réttar, sem við vitum svo vel í dag hverjar eru, myndu endast lengur og betur. Beinin sem síðar liggja lengi í jörðinni, langt yfir mörk lífs og dauða. Eftir á að hyggja túlka ég þrastarsönginn frekar sem góðan fyrirboða fyrir komandi kynslóðir kvenna og að þær sýni nú fyrirhyggju og passi betur en í dag upp á beineign sína. Burðarvirki þeirra sem hlúa þarf að og rækta alla daga. En hvað segja vísindin?

Eðlilegir beinbjálkar í frauðbeini og úrkalkaðir vegna beinþynningar (osteophorosis)

Undanfarið hefur verið mikið spurt um D-vítamínmælingar í blóði í heilsugæslunni, í kjölfar ágætis greinar í síðasta tölublaði Læknablaðsins eftir þau Elínu I. Jacobsen lyfjafræðing og Einar S. Björnsson, lækni. Hvernig á að skammta D-vítamín við skorti hjá fullorðnum? Lengi hefur verið vitað að íslenskar konur eru fremur kalkrýrar í beinum og kemur þar ýmislegt til en sennilega mest D-vítamínskortur vegna sólarleysis yfir vetrarmánuðina. Eins og bent var á í greininni í Læknablaðinu að þá er meirihluti fullorðinna á Bretlandi með lágt D-vítamín í blóði og 16% höfðu alvarlegan skort yfir vetramánuðina. Nýleg finnsk rannsókn sýndi einnig að flest börn og unglingar þar í landi vantar D-vítamín í kroppinn. D-vítamínskortur er einnig mjög algengur hjá öldruðum sem komnir eru með beinþynningu (osteophorosis). Síðast en e.t.v. ekki síst, hafa verið leiddar að því líkum að lágt D-vítamín tengist mörgum algengum sjúkdómum svo sem fjölvöðvagigt og síþreytu. Sjúkdómar sem tengjast vöðvunum okkar, álagi í þjóðfélaginu og vöðvabólgum.

File:Calcium regulation.png

Kalkstjórnun og tengsl D-vítamíns

Framleiðsla D-vítamíns verður fyrst og fremst af völdum sólarljóss og aðeins lítill hluti kemur úr fæðu, aðallega feitum fiski og lýsi eins og segir í greininni í Læknablaðinu. Sólinni er ekki mikið fyrir að fara hér á landi á löngum vetrarmánuðum, en af fiski og lýsi höfum við þó nóg. D-vítamínið er nauðsynlegt fyrir eðlilegan kalkbúskap, upptöku á kalki úr meltingarveginum og til að bein geti kalkað eðlilega fyrir tilstuðlan klakhormóns (PTH) (sjá skýringarmynd til hliðar). Ungar stúlkur sem eru mjög grannar og sem hreyfa sig ekki nóg eru í mestri áhættu á að hlaða ekki nógu kalki í beinin fyrir fullorðinsárin. Grunnur að beinheilsunni er þannig þegar lagður í barnæskunni og konur hafa í raun bara tímann til tvítugs að byggja upp mest af sínum beinmassa, sem duga þarf út lífið. Þær geta þó aðeins bætt í búið fram undir tíðarhvörf. Eftir það fer beinmassinn hins vegar alltaf að minnka og hættan á beinþynningu eykst með hverju árinu sem líður, jafnvel þótt kalkneyslan sé góð. Dagleg D-vítamíninntaka og góð hreyfing með álag á beinin er nauðsynleg og besta fyrirbyggjandi aðgerðin sem völ er á. Verst er þó þegar konur liggja þegar lágt í beinmassa við tíðarhvörfin og tapa síðan hratt kalkinu sínu úr beinunum þegar kvenhormónarnir (eostrógen) vernda þær ekki lengur. Þá eru oft tíð beinbrot af litlu sem engu tilefni. Samfallsbrot í hrygg, jafnvel við að setjast harkalega, getur orðið afleiðingin. Þarna er oft reynt að gefa ákveðin lyf til að fyrirbyggja frekari beinþynningu en sem eru því miður gefa oft töluverðar aukaverkanir. Því er til alls að vinna að byggja upp sem mestan beinmassa til tvítugs og passa alltaf upp á góða kalneyslu, D-vítamíninntöku og hreyfingu. Konur sem fara snemma í tíðarhvörf eða vantar alveg oestrógen framleiðslu einhverja hluta vegna eins og t.d. eftir að eggjastokkar hafa verið fjarlægðir, eru í verulegri áhættu og þurfa strax á estrógen-uppbótameðferð að halda. Að passa upp á beinin sín strax frá unga aldri er sennilega ein besta bankainneign sem nokkur kona getur lagt fyrir til fullorðinsáranna og eini bankinn sem treysta má þessa daganna.

Röntgenmynd af sjúklingi með beinþynningu (osteophorosis) og margbrotinn hrygg

Konum á tíðarhvarfaaldri er oft ráðlagt að fara í beinþéttnimælingu (t.d Beinþéttnirannsóknarstofu LSH í Fossvogi) til að sjá hver þeirra inneign er í beinbankanum, beinmassanum er í lærleggjum og hrygg. Ekki síst til að þær geti gert viðeigandi ráðstafanir í tíma ef þær standa illa að vígi. Eins til endurmælingar eftir nokkur ár til að sjá hvort þær tilheyra þeim hópi kvenna sem missa hratt sinn beinmassa. Sú áhætta er mjög einstaklingsbundin og að hluta bundin í erfðir. Mjög feitar konur og eins grannar konur, sérstaklega sem reykja eru almennt í meiri áhættu. Þar sem nú má reikna með að margar konur liggja lágt í D-vítamínmælingum á Íslandi að þá ættu allar konur að taka inn nauðsynlegan skammt af D-vitamíni sem getur legið á bilinu 500-1000 einingar, jafnvel aðeins meira í byrjun og ef inntakan er stopul. Lítil hætta er á ofskömmtun eða eitrun en margar konur taka inn lýsi og fá þá omega 3 fitusýrur, jafnhliða nógu A og D vítamíni sem eru fituleysanlegu vítamínin sem við þörfnumst. Ef við værum duglegri að borða fisk, sérstaklega ungu stúlkurnar, væri vandinn lítill og því endurspeglar vandinn of litla fiskneyslu hjá þjóðinni og jafnvel ónóga inntöku á omega 3 fitusýrunum sem er til jafnvægis gegn óhollu fjölómettuðu fitusýrunum sem ég fjallaði um nýlega („Góðir“ Íslendingar ).

Hver mæling á D-vítamíni í blóði kostar um 2.500 kr. Ef kona hefur ekki tekið inn D-vítamín eða forðast lýsi og jafnvel fiskafurðir að þá má fyrirfram búast við að hún sé lág í D-vítamínmælingum. Niðurstaða mælingar er því oft fyrirséð og óþörf. Allir þurfa að taka inn D-vítamín yfir vetrarmánuðina, ekki síst stúlkur og konur. Allir sem vilja hugsa vel um heilsuna, borða fisk reglulega eða taka inn lýsi með omega 3 fitusýrum og hreyfa sig daglega. Svo einfalt er það. Helstu áhættuþættir okkar til að fá alvarlegustu sjúkdómana eru nefnilega oft fyrirséðir í lífsmáta okkar og athöfnum. Við þurfum ekki að mæla þá í blóði hjá hverjum og einum. Aðrir, en sem betur fer miklu sjalgæfari sjúkdómar eru því miður ekki eins fyrirséðir. Þeir eru þá heldur ekki á okkar valdi. Síðan eru enn aðrir sjúkdómar sem eru sjálfskapavíti eins og t.d. afleiðingar reykinga. Þitt er valið.

Í haust fjallaði ég um rannsókn Hannesar Hrafnkelssonar, heimilislæknis og félaga á beinheilsu ungra skólabarna á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við Vísindaþing heimilislækna. Í henni kom fram að inngrip kennara til að stuðla að reglubundinni hreyfingu á skólatíma, bætti marktækt þrek barnanna og beinheilsu á aðeins tveimur skólaárum. Ein klukkustund á dag var allt sem til þurfti. Tveir afskaplega mikilvægir þættir til að byggja upp góða heilsu til fullorðinsáranna. Rétt má ímynda sér hvað slík íhlutun gæti gert fyrir börnin ef inngripið ætti sér stað öll skólaárin. Kennsla í hreyfingu er ekki minna mikilvæg en bóklegt nám og tónmennt sem nú er mikið til umræðu og er fyrir allt lífið.

Hugsum um hvítu beinin okkar nú síðustu vetrardaganna, ekki síst þegar sólin fer að skína og fuglarnir að kvaka. Tími sem er ekki síst börnunum okkar mikilvægur og við fáum ef til vill einhverju að ráða um. Gefum öllum D-vítamín og lýsi, allt árið.

Sjá nýrri grein um D-vítamín á blogginu mínu, Allir þurfa „D-vítamín í stað sólar“

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn