Sunnudagur 05.03.2017 - 17:33 - FB ummæli ()

Heilagri en sjálfur páfinn í forvörnunum

Á sunnudegi í blíðskapa veðri á vaktinni minni í byrjun mars á Ströndum er mér óljúft að þurfa að setjast við tölvuna og deila á kollega mína sem vinna fyrir Krabbameinsfélag Íslands í tilefni af áróðursherferðinni í ár gegn öllu nikótíni, ekki aðeins reyktóbakinu. Hjálparmeðulunum sérstaklega sem ekki eru seld sem nikótínlyf í apótekunum ef svo má segja og sem margur reykingamanninum hefur tekist að hætta með, nánar tiltekið munntóbaki sem er miklu skaðminna en reyktóbakið og nú nikótínveipum (rafrettur) sem innihalda ekkert tóbak. Jafnframt unnið að „frekari tóbaksvæðingu“ með því að setja veipurnar undir tóbaksvarnalög og sem selja þá má aðeins undir borði matvöruverslana og sjoppa og frumvarp heilbrigðisráðherra ber með sér. Að unga fólkinu standi þá til valkostur um að velja á milli reyktóbaks og veipa að jöfnu, ef hugur þess á annað borð býður. Í stað þess að selja veipur eins og önnur nikótínlyf til að mynda í apótekum (gæðastaðlað) og eins þar sem bestu forvarnirnar snúast miklu frekar um fræðslu, en ekki boð og bönn.

Vissulega er nikótínið ekki holt, en sem engu að síður hjálpar mörgum sem eiga við t.d. einbeitingaskort að stríða, sem aðeins róandi eða sem örvandi á mynni gamla fólksins. Gleymum t.d. ekki þeirri staðreynd að talið er að allt að 20% þjóðarinnar eigi við þunglyndi og kvíða að stríða og þar úrlausn flestra er m.a. lyfjameðferð, a.m.k. tímabundið með svokölluðum SSRI lyfjum sem náð hafa nýjum hæðum sl. ár. Eins í lyfjakostnaði þess opinbera. Sumir í dag hugga sig sjálfsagt við nikótínvörur í staðinn. Eins þar sem margur myndi e.t.v. annars borða bara meira og bæta á sig óhóflegri vigt ef ekkert löglegt níkótín stæði til boða. Heilbrigðisvanda sem Alþjóða heilbrigðisstofnunni (WHO) telur eina mestu heilsuvá samtímans, tengt offitusjúkdómunum og sykursýki, og sem út af fyrir sig eru stórir krabbameinsvaldar í þessu samhengi.

Áfengi er heldur ekki skilgreint sem eitur, en veldur engu að síður einum mesta félagslega skaða samtímans, auk þess sem það getur valdi lifrarbólgu og krabbameini í lifur sérstaklega. Ávanabindandi efni í eðli sínu sem stór hlut þingmanna keppir nú um að fá frjálsa sölu á í matvöruverslunum landsins!!

Það eru alltaf plúsar og mínusar í öllum áróðri og passa verður að fara ekki yfir strikið og misbjóða ekki siðferðisvitund einstaklingsins. Sennilega hafa fáir skrifað jafn mikið um forvarnir hverskonar og undirritaður. M.a. nokkrar greinar fyrir Mottumars gegnum árin og þar sem upphaflegt tilefni var að vekja karla til vitundar um einkenni sem þeir réðu ekki við og bent gætu til krabbameins (af-feimnisvæða umræðuna). Eins hvatningu til betri lífstíls og reykbindindi. Eins hefur verið um Bleika daginn, forvarnir gegn krabbameinum hjá konum og reyndar líka Blá deginum, baráttu gegn ristilkrabbameinum hjá báðum kynjum. Slík fræðsla með bestu vitund fagfólks að leiðarljósi skilar mestum árangri, en sem því miður er ekki veitt mikið fé til af hálfu stjórnvalda (um hálft prósent af heildarútgjöldum til heilbrigðismála og innan við 4% ef öll heilsugæslustarfsemi er meðtalin)!

Það er því ansi langsótt að Mottumarsinn í ár er ekki aðeins tileinkaður forvörnum gegn tóbaksreykingum, heldur öllu sem inniheldur nikótín. Áróðursherferð sem kostar tugi milljóna króna og sem ekki aðeins fær einhverja til að hætta tóbaksreykingum og mjög góður ávinningur hefur þegar unnist hingað til með (aðeins um 10% fullorðinna reykja nú, miðað við um helming áður), heldur einnig áróður nú gegn áhrifaríkum hjálparmeðulum þeirra sem þegar hafa hætt og rannsóknir ekki einu sinni til sem hafa sýnt með óyggjandi hætti að valdi mikilli krabbameinshættu. Miklu minni hættu en mörg þeirra efna sem við neytum í óhóflegu magni daglega og við vitum samt flest um skaðsemina af. Miklu sykuráti (þar á meðal gosdrykkju), reyktum mat, saltpéturssýru og áfengið svo eitthvað sé nefnt.

Of mikil söluskerðing á níkótínvörum öðrum en reyktóbaki og eins konar glæpavæðingarhugsunarháttur gagnvart þeim sem vilja neyta liggur mig við að segja og með því að setja nikótínveipur sem hafa ekkert með tóbak að gera undir tóbaksvarnarlög sem og áróðurinn hjá Mottumars í ár gegn þeim aðferðum sem reykingamanninum og öðrum hugnast best til að halda sig frá tóbaksreyk, er ekkert annað öfugsnúin forræðishyggja að mínu mati. Frá heilbrigðisstofnun sem við öll ættum að öllu jöfnu að geta treyst best (KÍ) og heilbrigðisyfirvöldum (nú nýjum heilbrigðisráðherra).

Tóbaksreykingar eru stórhættulegar og allt til vinnandi að fá þær sem mest niður. Um það eru allir sammála. Og því spyr maður sig í dag á þessum fallega degi þeirrar einföldu spurningar hvort einfaldlega sé verið að markaðsvæða forvarnir, sérhagsmunahópum til einhvers sérstaks ávinnings en hugsanlega gegn þeim sem hyggjast ætla að hætta að reykja eða eru hættir, með hjálp nikótínlyfja (hvað nöfnum sem þau heita). Álíka áróðurs- og söfnunarherferð og undanfarin ár og sem mér skilst að hafa skilað í fyrra um 60 milljónir króna, en þar sem meirihluti fjárins fór í markaðsöflin og auglýsingastofur. Aðeins nokkur prósent til sjálfrar rannsóknastarfseminnar. Í ár er forræðishyggjan a.m.k. í allt of miklu fyrirrúmi og heildarsannleikanum að mörgu leiti snúið á haus. Hann málaður svart-hvítur til að fanga athyglina og styrkja söfnunina. Komin út fyrir velsæmismörk og litaður hræðsluáróðri á lítt sönnuðum málum. Varasöm stefna hins vegar fyrir KÍ að feta ef samtökin ætla á annað borð að halda áfram að vinna með þjóðarsálinni og lýðheilsunni allri þegar upp er staðið og að við læknar missum ekki trúverðugleikann.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn