Sunnudagur 23.12.2018 - 11:55 - FB ummæli ()

Íslendingasagan lifandi á Ströndum

Kálfanesborgir, 22. desember 2018

Sennilega má segja að ég sé í lúxus aðstöðu sem höfuðborgarbúi og starfsmaður á einum annasamasta vinnustað landsins, bráðadeild LSH, að geta skroppið í aðra náskilda en miklu rólegri vinnu, nokkrar vikur í senn, norður á Strandir. Burt frá öllu ráðaleysinu og skipulagsmistökunum. Fengið um leið að njóta þess besta sem slíkir staðir hafa upp á að bjóða um jólin. Allt öðruvísi vinnuálag og þar sem heimilislækningar eru stundaðar í sinnu tærustu og bestu mynd. Reyndar notið þess í heil 20 ár, á öllum árstíðum, m.a. yfir jól og áramót.

Starfsliðið á heilsugæslunni og á hjúkrunarheimilinu er meira og minna það sama og sjúklingarnir margir orðnir góðir kunningjar. Samfélagið reyndar allt eins og stór fjölskylda, allt tengist einhvern veginn og nógur tími til alls. Hvorki aðflæðisvandi né fráflæðisvandi og gamla fólkið hefur það gott. Reyndar hæsti meðalaldur sveitafélags á öllu landinu á Ströndum.

Hverju er verið að fórna ef heilu byggðalögin leggjast í eyði vegna áskapaðra ytri aðstæðna, nauðþurftarbúskaps, ónógrar atvinnu og samgönguleysis? Skiptir sagan okkar um búsetuhættina gegnum aldirnar og öðruvísi menningu til sveitar og sjávar ekki máli? Skiptir sjálfbærni og nýting jarða á afskekktari stöðum ekki líka máli tengt umræðunni um öll óheillvænlegu kolefnissporin í dag? Síðan er það nýútsprungna hagsældarrúsínan, allt erlenda ferðafólkið sem vill sjá landið okkar og kynnast ólíkri menningu. Það þarf líka þjónustu og samfélagsöryggi á vissan hátt.

Sennilega hef ég alltaf verið sveitadrengur í mér og þar sem genin voru fljót að opna gluggana sína þegar þau fengu tækifæri til þess. Ég óska öllum höfuðborgarbúum að fá álíka tækifæri og að tækifærin sjálf hverfi nú ekki endanlega frá okkur fyrir efnahagslegar hagræðingarkröfur í svokallaðri nútímavæðingu. Með mörgum kostum, en líka ókostum, spennu og tímaleysi. Mannlífið þarf að fá að dafna áfram vel á Ströndum, sem og í flestum öðrum fámennum byggðum landsins sem eiga nú undir mikið högg að sækja. Möguleikar á áframhaldi lifandi Íslendingasagna í öllum myndum er auðvitað stærsta gjöfin fyrir þjóðina.

Gleðileg jól.

Hólmavík

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn