Þriðjudagur 20.04.2010 - 14:01 - 10 ummæli

Einræðisstjórnskipulag

Það er alltaf að koma betur í ljós hvers konar einræðisstjórnskipulag Ísland býr við.  Foringjar stjórnarflokkanna eru eins konar einræðistvíburar.  Oftast eru þetta „góðkynja“ stjórnir en með Davíð Oddsyni virðist kerfið hafa orðið illkynja, með hræðilegum afleiðingum sem eru gerð ýtarleg skil í Skýrslunni.

Spurning er hvað vannst með sjálfstæðisbaráttu Íslendinga?  Innleiddum við hér opið og rökrétt lýðræði byggt á stjórnarskrá saminni af íslensku þjóðinni fyrir íslensku þjóðina?  Svarið er nei.

Stjórnmálaflokkar og hagsmunahópar sáu sér færi að misnota gallaða stjórnarskrá Danakonungs sem var samin fyrir konungsveldi en ekki lýðveldi, til að koma sér og sínum í  yfirburða áhrifastöður.  Ráðherraveldið Ísland á sér enga lýðræðislega fyrirmynd en samt er það það eina sem kynslóðir Íslendinga þekkja.

Stjórnlagaþingi verður ekki lengur skotið á frest.  Þetta er brýnasta verkið sem okkar bíður til að koma Íslandi loksins í hóp siðmenntaðra lýðræðisþjóðfélaga.  Stjórnlagaþing þarf að vera skipað af þversniði þjóðarinnar, þar mega alls ekki sitja varðhundar spilltrar stjórnmálastéttar landsins.

Flokkar: Óflokkað

»

Ummæli (10)

  • Andri Haraldsson

    Fyrirmyndirnar af íslenskum stjórnarháttum má sjá í mörgum fyrrum nýlendum evrópskra þjóða.

    Þegar að nýlenduherrarnir fóru, eða voru hraktir, burt, þá sat eftir smár hópur menntaðra og eilítið efnaðra fólks sem fljótlega tók undir sig töglin og haldirnar. Margar, ef ekki flestar, nýlendur heimsins hafa liðið fyrir valdabaráttu slíkra klíka, sem voru fyrst og fremst að reyna að tryggja sér hluta af kökunni, frekar en reyna að tryggja að kakan stækkaði.

    Íslenskir stjórnarhættir hafa verið mjög með þessum hætti. Innvígðir fengu aðgang að fé í bönkum til að kaupa skip, reka kaupfélög, tryggingafélög, osfrv. Útvaldir fengu að byggja fyrir herinn og maka krókinn á því.

    Það sem hefur falið þetta ástand fyrir bæði íslendingum og útlendingum, er að landið bjó yfir gífurlegum ónýttum auðævum. Lífskjör gátu því aukist hratt, jafnvel þó að rentan sem greidd var fyrir slæma stjórnarhætti og óhagkvæma uppbyggingu væri há.

    Það sem hrunið hefur leitt í ljós er að með vaxandi samskiptum við útlönd, sérstaklega þátttöku í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, þá er Ísland bæði of lítil stjórnarfarsleg eining til að geta sinnt öllu sem sinna þarf, og eins að óformlegir duttlungar þeirra sem komast í valdastöður eru ekki nægilega traustur grunnur til að byggja nútíma réttarríki á.

    Þó að hluti af enduruppbyggingu þjóðarinnar sé að bæta grundvallar stjórnskipulag, þá er mörgum spurningum enn ósvarað. T.d., hvernig er hægt að draga úr þeim ókostum sem fylgja smáu þjóðfélagi þar sem allir þekkja alla. Og eins, getur Ísland haldið áfram á þeirri braut sem fyrstu 60 ár lýðveldisins vörðuðu, þar sem lang mest af verðmætasköpuninni kom af því að nýta takmarkaðar auðlindir?

    Áður en þessum þáttum er svarað, er líklegt að breytingar á stjórnarskrá breyti einungis nöfnum á hlutunum, en auki ekki í nokkru virkni þeirra.

  • Kristján Gunnarsson

    Til hamingju med nýja bloggsetrið.

    Stjórnlagaþing er tilgangslaust nema góðar úthugsaðar rökræddar tillögur liggi fyrir áður en til þings er haldið. Við þurfum alls ekki þversnið þjóðarinnar á slíku þingi; við þurfum valda fulltrúa okkar bestu og gáfuðustu manna og kvenna til að sætta okkar bestu hugmyndir.

    Eina þing slíkrar tegundar sem ég veit um að var árangursríkt og farsælt var þegar fulltrúar bandarísku þjóðarinnar mættust í Philadelphia 1787 á „Constitutional Convention.“ En sú samkunda fór fram eftir að hugmyndir um stjórnskipun höfu verið rækilega settar fram í máli og riti og rökræddar af færustu og gáfuðustu mönnum um margra ára skeið.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Vertu hjartanlega velkominn hingað á Eyjuna!

    Síðan er því við að bæta að ég er auðvitað algjörlega sammála pistli þínum.

  • Sammála að þetta er mjög mikilvægt, og sérstaklega að þetta verði ekki enn eitt áratuga nefndarferlið – eða stjórnlagaþing stjórnmálaflokkanna.

    Það var reyndar vinnufundur á laugardag þar sem fólk úr öllum áttum kom að hugmyndum um hvernig mætti vinna nýja stjórnarskrá, hvað ætti að vera í henni og hvaða spurningum þarf að svara.

    Í framhaldinu er hugmyndin að setja upp opna fundi þar sem umræður um innihaldið fara fram, bæði í „kjöt“ og „net“ heimum.

    Það er verið að vinna þá punkta sem fram komu á fundinum og þeir verða aðgengilegir fljótlega, hef ekki vefsíðuna enn…

  • Kristján,
    Það er margt rétt sem þú segir, vandamálið er að velja þetta „úrvals“ fólk á nýtt stjórnlagaþing. Við erum ekki á 18. öld og því er erfitt að fara í elítu val. Á okkar tímum er varla annað hægt en að láta þjóðskrá velja þetta af handahófi innan ákveðinna marka.

  • Þá er bara að krossleggja fingur og vona að ákveðnir öfgamenn hér í bæ lendi ekki í úrtakinu. 🙂

  • Peacedust Rockyfriendsson

    Stjórnlagaþing er ekki bara eina leiðin Persónukjör er það sem þarf að innleiða og þá ekki með hólfum eða kvótum. Tillit tekið til þessa hóps og hins hópsins það er einfalt að þeir sem taldir eru vera frambærilegir taka þátt í kosningunni aðrir ekki, niðurstaðan gildir og ekki meira um það að segja í sjálfu sér.
    Stjórnlagaþingið má ekki vera smitað af flokkablokkinni því þá kemur út úr henni þversnið af hagsmunum þeirra, það er ekki það sem við þurfum sjónarmið gjaldþrota humyndarfræðilegs hóps sem getur ekki séð hluti nem frá einni hlið, þ.e.a.s. flokksins. Þetta sjónarmið hefur komið fram nú að undanförnu hjá nokkrum aðilum sem hafa verið að reyna að taka einhverja ábyrgð á gjörðum eða ógjörðum hlutum sem hefðu getað minnkað eða dregið verulega úr því innlenda áfalli sem þjóðin er komin í.
    Stórnarskránna er sjálfsagt að endurskoða en hana á ekki að endurskoða frá sjónarmiði núverandi stjórnmálaflokka, það gengur ekki, því eins og almenningur í landinu hefur séð á síðustu misserum eru þeir gjörsamlega háðir því að verja sína hagsmuni fram í hið óendanlega.
    Hagsmunir flokksins síðan heimilsbókhaldið og almenningur tekur það sem á vanntar á sig. Þetta er einfaldlega það sem við okkur blasir.
    Ég get ekki betur séð en að þessir tveir fagráðherrar komi bara þokkalega út í núverandi stjórn. Þarna eru alla vega einstaklingar sem hafa þekkingu á þessu sviði þ.e.a.s. ráðherraembætissviðinu sem þeir gegna.
    Ég bjóst við að Persjónukjörið yrði komi á fyrir Sveitarstjórnarkosninga en þá fór kvennakvótinn allt í einu að skipta svo miklu máli, geta þá ekki konur séð um að konur kjósi konur og karlar kjósi karla? þannig að konur kjósi alls ekki karla og karlar alls ekki konur? Ég bara spyr.
    Persónukjör kemur í stað prófkjara sem eru bara bull því þar getur einn einstaklingur kosið í jafnvel 4 prófkjörum án þess að vera skuldbundinn að því að kjósa nokkurn þeirra og jafnvel sleppt því að kjósa eða skilað auðu.
    Í stað þess að ef einhver ætlar að velja einstakling á lista í stafrófsröð gefur hann honum sitt atkvæði í stað þess að kjósa heila flokksmafíu sem hefur bara ekkert með það að gera að vera bakhjarllar kjörina fulltrúa, nema til að segja þeim hvað og hvernig þeir eiga að greiða atkvæði og hverju þeir eiga að vara á móti, það er ekki lýðræði það er flokkseinveldi sem við getum ekki þolað lengur, við hljótum að vera búin að sjá það, ég trú ekki öðru.
    Þetta umboðsbrot Hreifingarinnar var algjör hneysa eftir allt sem á undan var gengið, mér var misboðið í enn eitt skiptið, þau áttu einfaldlega að segja af sér og stíga til hliðar því það var flokkurinn sem fékk fylgið en ekki þau ein og sér, eru menn ekki búnir að átta sig á þessu enn, hvað þarf marga umboðslausa alþingismenn á þingi til að fólk átti sig á þessu.
    Ég gæti vel hugsað mér að taka þátt í þessu Stjórnlagaþingi og láta það ganga fljótt fyrir sig, því ég hef ekki áhuga á að vera í nefndarstarfi sem tekur marga mánuði að ákveða hvað á að tala um eða hvernig það á að tala um það. Verkefnið er þetta og það þarf að koma því sem fyrst af stað og það þarf ekki að bíða eftir Icesave til að fara í þetta verkefni.
    Til hamingju með blogg plássið og gangi þér vel í framtíðinn.

  • Benedikt Jónsson

    Ég er sammála þér, Andri Geir, um að varla kemur annað til greina í þessu rótgróna og smáa þjóðfélagi ættingja og vina en að velja fulltrúa á stjórnlagaþing með hlutkesti eða einhvers konar slembiúrtaki. Annars verða stjórnmálaflokkarnir og hagsmunasamtökin komin með puttana í þetta áður en við er litið og þá er til lítils barist.

  • Ásgeir Sigurvaldason

    Það er bara ekkert að stjórnarskránni, en það er ekki nóg að hafa reglur ef ekki er farið eftir þeim. Það þarf bara að virkja forsetavaldið. Það er áróður sem ber vald forseta saman við vald kóngs. Þar er grundvallar eðlis munur. Forseti hefur engin eiginleg völd, hann getur bara beint hlutum til þings og þjóðar, skipað embættismenn (ráðherra), og sett þá af. Hann leggur verk sín reglulega í dóm þjóðarinnar og í dóm þingsins. Það er áróður hræddra valdaafla sem fær okkur til að trúað því að forseti eigi að vera brúða og sitja á friðarstóli sem sameiningartákn. Hann sameinar þjóðina í persónukjöri þvert á flokka. Einmitt það sem við þurfum. Treystum stjórnarskránni. Notum hana. Virkjum hana. Setjum pressu á embættið. Eins og nú er látum við valdastéttina hafa okkur að fíflum.

  • Sveinn í Felli

    Flest lönd sem ég veit til þess að hafi persónukjör í embætti (t.d. forseta og stundum til þings líka) láta kosningar fara fram í tveimur umferðum, nema ef einhver frambjóðandinn nær hreinum meirihluta. Þetta er til að uppfylla það skilyrði lýðræðis að fulltrúinn (forsetinn) sé kjörinn af meirihluta atkvæðisbærra manna (ekki 30+% eins og hér).

    Ef kosningar eru dýrar (~200M), þá er vissulega hér um að ræða ákveðinn viðbótarkostnað. Kannski ætti fyrri umferð slíkra kosninga hér að fara fram á netinu, og sú síðari á alvöru kjörstað?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur