Þriðjudagur 13.07.2010 - 12:17 - 31 ummæli

Bretar leggja niður ríkisspítala

Breska ríkisstjórnin hefur tilkynnt einhverjar róttækustu breytingar á ríkisrekna heilbrigðiskerfinu (NHS) í Englandi frá upphafi.  Ríkisspítölum á að breyta í sjálfseignarstofnanir, óháðar pólitískri afskiptasemi.  Heilsugæslustöðvar og heimilislæknar munu bera ábyrgð á stærsta hluta útgjalda ríkisins til heilbrigðismála.  Ákvarðanataka og ábyrgð er hér með flutt frá nefndum og stofnunum til þeirra sem þekkja og standa sjúklingum næst.

Heilsugæslustöðvar munu kaupa þjónustu fyrir sína sjúklinga á „opnum“ markaði og á það við jafnt um sérfræðiþjónustu, spítalavist eða lyf.  Sjúklingar fá að velja hvaða heilsugæslustöð þeir vilja tilheyra.

Þannig þurfa heilsugæslustöðvar að keppa um sjúklinga og spítalar og sérfræðingar þurfa að „selja“ sína þjónustu til heilsugæslustöðva.

Í þessu nýja kerfi geta heilsugæslustöðvar keypt þjónustu af prívatspítölum og gömlu ríkisreknu spítalarnir geta boðið sína þjónustu til sjúklinga með prívattryggingar.

Til að tryggja gæði þjónustunnar verður sett upp ný óháð eftirlitsstofnun sem mun fylgjast með störfum aðila á þessum nýja markaði.

Þessar breytingar marka mikil tímamót í hinu einhliða ríkisrekna heilbrigðiskerfi enda var breska (NHS) kerfið upprunaleg fyrirmynd hins  norrænna heilbrigðiskerfis.

Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum við þessari frétt.  Eitt er víst, ríkisrekið heilbrigðiskerfi eins og við þekkjum það í dag er á undanhaldi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (31)

  • Þetta mun væntanlega ekki fara vel í breta að mínu mati. Þegar þessar áætlanir verða augljósari.

  • Hægri ríkisstjórnir er samar við sig- þegar að velferð almennings kemur.
    Bandaríska „heilbrigðiskerfið“ er lýsandi dæmi.

  • Andri Haraldsson

    Þetta er athyglisvert. Það er löngu vitað að einhvers konar samkeppni er mjög mikilvæg til að fá það bestu gæðin út úr heilbrigðisþjónustunni. Hins vegar eru fá samkeppnismódel sem ekki snúast upp í andhverfu sína, þar sem samkeppnin fer að snúast um að losa sig við veikustu/dýrustu sjúklingana (amk. þá sem ekki hafa bestu trygginguna).

    Vandamálið sem öll heilbrigðiskerfi vesturlanda standa frammi fyrir eru samt helst þessi:
    1. Hærri meðalaldur þegnanna og dýr meðferð langvarandi sjúkdóma.
    2. Offramboð af lækningartækni og meðölum, mörg hver sem hafa litla virkni og eru ekki í raun notuð af sjúklingunum.
    3. Heilbrigðisþjónusta við einstaklinga sem vegna algers heilsubrests njóta ekki aukinna lífsgæða fyrir þjónustuna.

    Það er mjög erfitt að ákveða hvernig bregðast skuli við ofangreindum atriðum, og ólíklegt að samkeppni sem slík sé svarið. Þetta eru grundvallar spurningar um sjálfsákvörðunarrétt, endimörk og getu þjóðfélagsins til samneyslu, og ekki síst hvernig á að velja (eða hafna) lækningaraðferðir sem þjóðfélagið telur sanngjarnt að veita öllum.

  • Valur B (áður Valsól)

    Í Bandaríkjunum eru allt að 50 miljónir manna sem ekki eru sjúkratryggðir og hafa þar af leiðandi ekki eins góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og þeir sem hafa góðar tryggingar. Innan við 20% Bandaríkjamanna telja að heilbrigðiskerfið þeirra sé gott (Cutler, M, 2004). Commonwealth Fund gerði rannsókn á heilbrigðiskerfum sjö vestrænna ríkja, Ástralíu, Kanada, Þýskalands, Hollands, Nýa Sjálands, Bretlands og Bandaríkjanna. Heildar úrtakið var 12,000 manns. Þar kom í ljós að Bandaríkjamenn voru þeir sem helst voru án sjúkra og heilsu tryggingar vegna kostnaðar. 37% þeirra sögðust ekki leita læknis þó svo þeir væru veikir og sama hlutfall slepptu ráðleggingum læknis sökum kostnaðar. Þetta er langt fyrir ofan það sem kom fram í hinum löndunum. Sömuleiðis má nefna það að mistök í heilbrigðiskerfinu voru hvergi eins mörg og í Bandaríkjunum samkvæmt fyrrgreindri rannsókn (The Commonwealth fund, 2007).
    Að öllu þessu sögðu um bandaríska heilbrigðiskerfið má leiða að því líkum að sá munur sem er á ævilíkum og ungbarnadauða milli Íslands og Bandaríkjanna, megi að hluta til rekja til þessa einkarekna heilbrigðiskerfis sem Bandaríkjamenn búa við. Þó má nefna það að rannsóknir benda til að ójafnræði sé varðandi heilsufar á Íslandi. Heilbrigðiskerfi bæði Íslands og Bandaríkjanna hafa sjálfsagt bæði kosti og galla (Heilbrigðisráðuneytið, 2001).

    Lífskjaravísitala Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna 2005 er samansett úr þremur þáttum. (1) Vísitölu langlífs, þ.e. aldur sem börn geta vænst þess að ná. (2 )Vísitala menntunar, sem ræðast af fullorðinslæsi og samanlagðri skólagöngu. (3) Vísitala kaupmáttar á hvern einstakling. Ísland er í fremstu röð hvað meðaltal þessara þriggja þátta varðar. Bandaríkin eru í 11. sæti á þessum sama lista sem er kannski ekki svo ýkja langt á eftir. Erfitt er að gera samanburð á heilsufari í vestrænum ríkjum og finna þar mikinn mun. Munurinn á milli þessara þjóða liggur í innri strúktúr eins og lýst hefur verið í sambandi við heilbrigðiskerfi þjóðanna. Heilbrigðiskerfin eru ólík og sitt sýnist hverjum um ágæti þeirra og uppsetningu. Í byrjun 20. aldarinnar voru

  • Stéttskiptingin í Bretlandi verður senn orðin snyrtilega hellulögð í heilbrigðiskerfinu þeirra. Fyrst klúðra kratarnir heilbrigðisþjónustunni og svo leggja hægrimenn hana undir sig. Stefnir í þetta hér?

  • Valur B (áður Valsól)

    lífslíkur 47 ár í Bandaríkjunum og milli 45-50 í Evrópu ( Population Reference Bureau, 1999). Á þessum tölum sést að mikið hefur breyst hvað varðar heilbrigði og heilsufar almennt. Eins og fyrr segir er eldra fólki að fjölga mikið og þá ekki síst í þessum tveimur löndum sem hér hafa verið til umfjöllunar, en það sama má reyndar segja um ungt fólk. En það má til gamans nefna að árið 1995 voru 6,6% íbúa heimsins eldri en 65 ára, en árið 2005 voru þeir sem voru 65 ára og eldri orðnir 10,4% af jarðarbúum. (Sama heimild). Þó fólk lifi lengur í dag en það gerði áður fyrr, telja margir að einungis sé hægt að þakka framförum í læknisfræði og forvarnaraðgerðum 5-7 ár af þeim árum sem áunnist hafa síðustu áratugina. Vill fólk virkilega skipta upp á þessi býtti, fá einkarekstur og alla þessa vankosti með í kaupunum? Ekki ég, ég vill áfram hafa gott heilbrigðiskerfi fyrir mig og mína.

  • Það eru til fleiri módel í heilbrigðisþjónustu en á Íslandi og Bandaríkjunum. Allir eru tryggðir í Bretlandi, þetta snýst um að færa ákvörðunarvaldið nær sjúklingnum og auka samkeppni hjá þeim sem veita þjónustuna.

    Hversu margir Íslendingar vita hvaða nefnd og á hvaða grundvelli hún ákveður hvaða sjúklingar fá nýjustu krabbameinslyfin á Íslandi?

  • Valur B (áður Valsól)

    Andri Geir, er frjálshyggjan svo mikilvæg að það er í lægi að fórna fyrsta sætinu í lífslíkum og hvað fá ungbörn deyja hér á landi miðað við annars staðar fyrir frjálshyggjuna þína. Er öllu fórnandi fyrir þessa ömulegu mannvonsku hugsun? Alveg með ólíkindum að viðurkenna bara ekki að þessi hugmynd er dauð. Það er ekkert slæmt við það að ríkið reki hluti, þetta er bara mýta sem hefur verið logið að fólki, af bissnismönnum og öllu trúandi jáfólki þeirra. Frjálshyggjan er að fara virkilega illa með margar þjóðir. Í Venusuela var vatnsveitan einkavædd með frjálshyggjuhugmyndum AGS með þeim afleiðingum að reikningurinn sem almenningur fékk frá vatnsveitunni eftir einkavæðingu, hækkaði um 300%. Þá tók fólk upp á því að safna regnvatni en ríkisstjórnin bannaði það með lögum. Nú setti ég hérna inn staðreyndir um Bandaríska heilbrigðiskerfið og þú kemur með þau rök að það séu til mörg módel af einkarekstri. Ég er handviss að þó svo ég hefði komið með 100% staðreyndir um að einkarekstur í hvaða módeli sem er væri slæmur, þú myndir samt segja að einkarekstur væri góður, frjálshyggjan er trúmál hjá þér og rök þar af leiðandi til einskis.

  • Andri Haraldsson

    Valur B-

    Með fyllstu virðingu, þá held ég að upplýsingarnar sem þú gafts um heilbrigðiskerfið í BNA segi ekki mjög mikið um hvort einkarekstur eigi rétt á sér í heilbrigðiskerfinu. Og segi ekkert um hvort að hann sem slíkur valdi verri niðurstöðum.

    Margt af því sem gerir heildar kostnað af heilbrigðiskerfinu í BNA eins háan og hann er, er ekki endilega vegna einkareksturs, heldur af ýmsum öðrum sökum. Þó kann að vera að einkarekstur eigi þar einhverja sök. En þessir aðrir þættir eru meðal annars:
    1. flókið reglukerfi þar sem heilsutryggingum er stýrt í hverju fylki
    2. hærri kostnaður af rannsóknum og þróun færist út í kerfið þar sem meiri rannsóknir og þróun eiga sér stað í BNA en annars staðar
    3. lögvarin réttindi hafa mjög dregið úr framboði lækna
    4. réttarkerfið í BNA stuðlar að ýmis konar sóun þar sem læknar, spítalar og aðrir í geiranum þurfa að stofna miklu til að forðast lögsókn fyrir læknamistök
    5. í BNA eru miklu hærra hlutfall af þjónustu veitt þeim sem eru í raun á dánarbeðinu, heldur en gerist í Evrópu. Þetta á bæði við um ríkistryggða sjúklinga og sjúklinga í einkatryggða kerfinu
    6. lyfjafyrirtæki hafa gert mikið til að tryggja að nýjustu og dýrustu lyf þeirra séu ekki takmörkuð í notkun, líkt og gert í Evrópu. Þetta er lagasetningaratriði, en ekki einka vs. ríkis atriði.
    7. í BNA eru um 20+ milljónir óskráðra innflytjenda. Margir af þessum einstaklingum borga ekki skatta og eru utanmáls í þjóðfélaginu, þar sem þeir leita einungis til neyðarþjónustu þá er kostnaður af þjónustu við þetta fólk hár. En þetta er ekki heilbrigðiskerfinu „að kenna“ heldur hliðarverkun af því hversu slæglega gengur að leysa innflytjendamál í BNA.
    8. í BNA er ekki skylda að vera með heilsutryggingar. Þetta þýðir að ungt fólk sleppir því oft að kaupa tryggingar og leitar ekki til læknis fyrr en það er orðið veikt. Þeas. nýtir ekki almenna heilsugæslu. Þetta er ekki vegna einkareksturs sem slíks, heldur vegna þess að ríkið hefur ekki gert það að skyldu að heilsutryggja allan landslýð.
    9. í BNA hefur til langs tíma verið mjög erfitt að safna persónulegum sjúkraupplýsingum og endurnýta þær. Þess vegna er mjög oft verið að endurtaka sömu lækningarpróf á sama fólkinu (the chronically ill), þegar það fer á nýjan spítala. Þessu hefur nýverið breytt.

    En ekki misskilja mig, ég er ekki að mæla kerfinu bót eins og það er í BNA. Bara að benda á að upplýsingar þínar segja ekkert um hvort að kostnaður og gæði séu lág vegna þess hvernig eignarhald er.

    Vandamálin sem ég setti inn í færslu minni fyrir ofan eru hin raunverulegu vandamál varðandi kostnað í heilbrigðiskerfinu. Eignarhald hefur þar miklu minna að segja en aðrir þættir.

    Nenni samt ekki að rífast um frjálshyggju sem slíka. Það eru allt of fáir sem hafa eytt nægum tíma í að skilja hvernig ríki og einkaaðilar geta unnið saman báðum til góða, en þó sérstaklega neytendum til góða. Það er bull að halda að hlutir séu betri eða verri fyrir það eitt hvert eignarhaldið er. Hvort heldur er ríkis eða einkarekstur, þá er vandamálið í útfærslunni og hvernig hægt sé að launa rekstraraðilum fyrir að hafa vakandi auga yfir starfsemi. Það á bæði við að leyfa einkaðilum ekki að stunda arðrán í skjóli vanhæfra stjórnmálamanna, eða leyfa ríkisfyrirtækjum að láta hlutina drabbast af því að neytendur geta ekki leitað annað. En ofurtrú á að allt sé gott öðrum hvorum megin við línuna er held ég bara ein tegund af þröngsýni.

  • Fólk borgar skatta og í hvað eru þeir peningar að fara ?

    Jú, einkarekna skóla, einka rekin sjúkrahús, einka rekin samgöngu fyrirtæki og einka rekna þingmenn !

    Eigum við þá ekki að lækka alla skatta á venjulegt fólk ?

  • Þarna finnst mér vakna spurningar um kostnaðarhlutdeild þeirra sem nota þjónustuna, þeirra sem koma á heilsugælustöðvar og þeirra sem leggast inn á sjúkrahúsin. Hér erum við með ríkisrekið heilbrigðiskerfi, en kostnaðarhlutdeild neytenda hefur aukist jafnt og þétt. Hagkvæmni í rekstri þeirra er mjög mismunandi eftir því hverjir stjórna þeim og á hvaða póstum er tekið í sparnaði/niðurskurði. Þjónustustig sjúkrahúsa hér er mismunandi milli stofnana. Við hér í Hvammstangalæknishéraði erum komin í eina sæng með sjúkrastofnunum á Vesturlandi og er Sjúkrahús Akraness móðurstöðin. Ég sem neytandi vel að leggjast inn á það sjúkrahús ef ég hef þörf fyrir og Sjúkrahús Akraness getur sinnt mínu veikindum. Ég mun velja allt annað en Landspítalann, ef þess er nokkur kostur í framtíðinni. Þar hef ég fundir greinilega fyrir sparnaðaraðgerðum sem að mínu áliti hafa komið niður á þjónustu við mig.

    Verða verulegar breytingar á kostnaðarhlutdeild neytenda í Bretlandi við þessa breytingu.

  • lydurarnason

    Vandi heilbrigðiskerfisins er kerfið sjálft sem gerir allt til eigin viðhalds. Heilbrigðiskerfið er farið að búa til fleiri sjúkdóma en leysa, það er vettvangur sjálftöku og skjólshús stjórnsýslu sem gín yfir eins og krabbamein. Við þurfum miklu meiri sjálfsbyrgð, kostnaðarvitund og fjölbreytni en nú er. Og umfram allt: Flytja þjónustuna til sjúklinga en ekki öfugt.
    Lýður Árnason, heimilislæknir.

  • Guðrún Bryndís

    Stefna heilbrigðisyfirvalda virðist vera nokkuð skýr (eins og fram kemur í frétt: http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/3282). Í stuttu máli er markmiðið að innan nokkura ára (2015) verði tvö sjúkrahús á landinu sem ‘standa undir nafni’, annað við Hringbraut, hitt á Akureyri – bæði skilgreind háskólasjúkrahús skv. lögum. Á landsbyggðinni er markmiðið að efla heilsugæsluna og sjúkrahúsin veiti heilgugæslutengda þjónustu (öldrun og legudeildir fyrir sjúklinga eftir aðgerðir á FSA og LSH). Sjúkraflutningar á landsbyggðinni verða að auki stórefldir (nú fer allt sjúkraflug um Akureyri).

    Í desember sl. kom út skýrsla ráðuneytisins sem fjallaði um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu. Þar var gerð kostnaðarábatagreining, sem fólst í því að leggja af alla þjónustu vegna skurð- og kvensjúkdómalækninga auk fæðinga og flytja á LSH, en sjúklinga á legudeildir umdæmissjúkrahúsanna að bráðafasa loknum. Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu að þannig mætti spara 1.400 milljónir.

    Ég gerði minnisblað um skýrsluna (sjá sass.is), ég fékk ekki betur séð en að það gæti ýmsa þversagna í útreikningum, að forsendur eru sem liggja að baki sparnaðar eru óljósar og að það felist ansi mikil fjárhagsleg áhætta í því að leggja þjónustu Kragasjúkrahúsanna af. En það kom skýrt fram í skýrslu ráðuneytisins að þjónusta Kragasjúkrahúsanna er umtalsvert ódýrari en á LSH, því vekur það furðu að það megi spara með því að flytja þjónustu úr ódýrari umhverfi í það dýrara.

    Guðrún Bryndís, sjúkraliði með BSc í Byggingaverkfræði

  • Stefán Snævarr

    Hvar hefur þú verið á síðustu árum, A ndri? Bandaríkjamenn eru búnir að fá nóg af einhliða einkareknu heilbrigðiskerfi sem er mun dýrara í rekstri en velferðarkerfi Vestur-Evrópu og er samt mun óskilvirkara.

  • Ragnheiður Kristjánsdóttir

    Stærsti áhættuþáttur við einkavæðingu sjúkrahúsa er ekki sá að fólk geti valið sér sjúkrahús heldur sá að sjúkrahús geti valið sér sjúklinga. Þegar t.d aðgerðir eru framkvæmdar er oft hægt að sjá með nokkurri vissu hverjir munu „fljúga í gegn“ og hverjir munu eiga erfiðara að komast á fætur og heim. Yngra og hraustara fólk kemst oftast auðveldrar í gegnum aðgerðir en fólk með aðra undiliggjandi sjúkdóma, fólk sem reykir, eldra fólk og fólk í yfirvikt. Til dæmis í sambandi við hjartaaðgerðir í bandaríkjunum þar sem fólk getur valið úr sjúkrahúsum skiptir tölfræðin miklu máli þegar sjúkrahús eru borin saman. Til að ná góðri tölfræði er ekki bara að leggja sig fram í starfinu heldur einnig að hafna réttu sjúklingunum sem gætu eyðilagt tölfræðina.

    Það er hætta á að í þessu kerfi verði þeir veikustu hornreka.

  • Stefán Snævarr

    Ég var að flýta mér ögn þegar ég skrifaði um „einhliða einkarekstur“ í heilbrigðisgeiranum ameríska, í færslu minni um málið nefni ég Medicare og gott ef ekki Medicaid.
    Andri Geir talar í frjálshyggju-rómantískum tóni um að sjúklingar fái að velja um sjúkrahús osfrv í kerfi með meiri einkarekstri en eins og kemur fram í ummælum Ragnheiðar Kristjáns er hættan sú að sjúkrahúsin velji sjúklinga. Í færslu minni bendi ég á hvernig amerísk einkatrygginarfélög velji sjúklinga, kerfi þar sem einkatryggingar eru ríkjandi eykur ekki valfrelsi sjúklingins.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Stefán,
    Í þessari færslu er ég að segja frá breytingum sem Bretar eru að innleiða hjá sér. Ég er ekki að leggja mat á hvað er gott eða slæmt í þessu. Þetta á að vera innlegg inn í umræðu um heilbrigðismál.

    Ekkert heilbrigðiskerfi er fullkomið. Það er hins vegar hætta á að ef við neitum að sjá galla í okkar kerfi og horfum eingöngu á galla hjá öðrum að okkar kerfi staðni og dragist aftur úr.

    Svo má spyrja sig hvar koma mestu framfarir í læknavísindum? Ætli einkageirinn eigi ekki einhvern þátt í að þróa lyf og nýjar aðferðir og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Kerfið þar er því ekki alslæmt þó það þurfi mikilla endurbóta sem Obama er að reyna að keyra í gegn.

    Aðeins þeir sem hafa efni á að borga sjálfir hafa raunverulegt val um sjúkrahús, lækna og lyf. Þannig er það í öllum löndum, líka á Íslandi þó fæstir vilji viðurkenna það. Af hverju er ekki haldin tölfræði um heilbrigðiskostnað Íslendinga sem fara erlendis til að leita sér lækninga og borga úr eigin vasa? Þessi kostnaður er ekki núll!

  • Stefán Snævarr

    Gott Anbdri Geir þá erum við að miklu leyti sammála. Það er út af fyrir sig rétt að einkageirinn gegnir bráðnauðsynlegu hlutverki í þróun lyfja en grunnrannsóknir sem lyfjarannsóknir hafa að bakhjarla verða ekki framkvæmdar að neinu viti án ríkisstyrkja.

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Það tekur sig alltaf upp sami söngurinn um USA kerfið þegar einkarekstur er nefndur í heilbrigðiskerfinu. USA kerfið er almennt viðurkennt sem versta heilbrigðiskerfi í heiminum. Það er dýrast sem hlutfall af þjóðartekjum og nýtist illa öllum þegnunum. Það sem gleymist þegar verið er að ræða þessi heilbrigðiskerfi er að langbestu, réttlátustu og afkastamestu kerfin eru líka einkarekin. Þetta fer allt eftir skipulagi þeirra og hönnun. Aðalatriðið í vel reknu kerfi er að ríkið hafi forgang að þjónustu á lítið meira en kostnaðarverði. Einkaaðilum hefur tekist betur að veita slíka þjónustu á heimsmælikvarða og bestur árangur er þar sem sömu lög og reglur gilda um opinberar stofnanir og einkareknar og þær eru í samkeppni.

  • Pétur Maack

    Lýður Árnason nefnir sjálftöku í heilbrigðiskerfinu.

    Ég er sammála honum að hún er vandamál. Hún birtist þó mun frekar í einkarekna hlutanum, t.d. með verktöku svæfingarlækna, margra ára niðurgreiddum „meðferðum“ geðlækna á stofum og fleiri dæmi þekkjast.

    Eftir að einkarekstur varð almennari í menntakerfinu sjáum við sama fenómen þar (lesist: íslensku menntasamtökin og menntaskólinn Hraðbraut).

    Það er lapþunnt ef einhverjir halda að einkarekstur sem slíkur leysi allan vanda. Virkt eftirlit verður að vera hluti af blönduðu kerfi og ef Íslendingar eiga að geta dregið einhvern lærdóm af atburðum síðustu ára þá er hann ekki síst sá að við þurfum betra eftirlit, hvort sem það er með bönkum, skólum eða heilbrigðisstarfsemi.

    Pétur Maack Þorsteinsson
    sálfræðingur

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Pétur, einkareksturinn á Íslandi hefur hingað til orðið til mun lægri útgjalda en sami rekstur opinberra aðila. Vandamálið er að verktakar mega annaðhvort bara vera á samning við Ríkið eða ekki. Þegar Ríkið dregur sig saman um 30% í einkarekstri en 10% í opinberum verður til umframgeta sem einkaaðilar mega ekki selja nema ríkinu. Ella verða þeir að segja sig af samning. Þetta er vandamálið því að þessir aðilar þurfa áfram að greiða laun og leigu og rekstrarkostnaður þeirra hefur hækkað eins og annarra fyrirtækja. Heilbrigðisfagfólki er haldið í gíslingu. Þessir aðilar sem Lýður og þú nefnir halda sig í tekjum með sífellt meiri vinnu eins og hamstrar á hjóli í fyrirtækjum sem ella bera sig ekki. Ég er mjög ósammála Lýði Árnasyni og bendi á að erlendar rannsóknir sýna að fólk getur hrökklast úr vinnu við „vöðvabólgu“ sem oft er svo í raun hálsbrjósklos eða annað vandamál.

  • Guðrún Bryndís

    Stefnumótunin í heilbrigðiskerfinu á Íslandi á sér enga hliðstæðu í vestrænu samfélagi – tveir spítalar fyrir allt landið í framtíðinni og ráðuneytið ákveður með samningum hvaða þjónusta verður veitt annarsstaðar en á FSA og við Hringbraut.
    Með því að skerða þjónustuna eins mikið og stefnumótun í heilbrigðiskerfinu gerir ráð fyrir, eykst kostnaðurinn mjög líklega vegna aukinna sjúkraflutninga og þar sem þjónustan sem verður í boði er í dýrustu einingum heilbrigðiskerfisins í þágu vísinda og þekkingar.

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Hárrétt Bryndís, allt stefnir í að bjóða of fáum og dýra þjónustu.

  • Guðrún Bryndís

    Mismununin felst í búsetu, aukin greiðsluþáttaka vegna sjúkraflutninga nægir til að mismuna íbúum.

    Almennt er talið að um og yfir 30% af kostnaði háskólasjúkrahúsa sé vegna kennslu og vísinda – veit einhver hver hann er hér ? (Þess má geta að LSH og FSA fá um 70% af útgjöldum til heilbrigðismála). Minnstu háskólasjúkrahúsin eru með um milljón manna þjónustusvæði (upptökusvæði) – við erum með þriðjunginn af því, sem þýðir að háskólasjúkrahús þarf þrisvar sinnum fleirri íbúa til þess að geta haldið uppi kennslu í sérgreinum og þjálfun sérfræðinga sem skýrir væntanlega að hluta til hvers vegna kostnaðurinn vegna þjónustu virðist vera margfalt hærri á LSH en á minni sjúkrahúsunum. Hver græðir á því að leggja þau niður?

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Kreppan er stórhættuleg fyrir landsbyggðina því nú í samdrættinum munu stóru sjúkrahúsin reyna að sölsa undir sig alla þjónustuna og það mun kalla á meiri kostnað fyrir fólk á landsbyggðinni og óþægindi og óöryggi eftir því.

  • Guðrún Bryndís

    Adda, undir formerkjum kreppunnar er verið að skerða/loka á þjónustu á landsbyggðinni, nefnd á vegum ráðuneytisins sýndi fram á ‘kostnaðarábata’ sem felst í því að loka skurðstofum á suðvesturhorninu, en það er svæði sem þjónustar um 80.000 manns nærri sinni heimabyggð og í um 30 mínútna akstursfjarlægð. Þessi sjúkrahús sem verið er að loka, veita þjónustu á mun lægra verði en á LSH eins og skýrsla ráðuneytisins sem kom út í des. sl. Það sem vekur aftur á móti athygli er að það var hægt að reikna út hagræði með því að flytja alla þjónustu á LSH.

    Í kreppunni hefði ég haldið að það væri mikilvægt að þjónusta verði til staðar, þar sem Kragasjúkrahúsin geta veitt þjónustu á umtalsvert lægra verði en LSH þá má spara með því að auka þjónustuna þar, enda eru mikill hluti þeirra aðgerða sem framkvæmdar eru þar á sjúklingum frá höfuðborgarsvæðisins.

    Ég bendi á minnisblað um skýrsluna, sem finna má á hlekk á heimasíðu sunnlenskra sveitafélaga http://sass.is/

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Það er mjög mikilvægt að við seljum umframgetu í lækningatengdri ferðaþjónustu og best að nota þá aðstöðu sem við höfum. Þannig höldum við mannskap og öflum tekna.
    Nú um stundir eru um 3.6 á vinnumarkaði fyrir hvern eldri en 65 ára. Eftir örfáa áratugi verðum við 2.2 og kerfið þá mun dýrara og mannfrekara.
    Við verðum að fara að líta á tekjumöguleika okkar í heilbrigðiskerfinu til hagsbóta fyrir kerfið í heild.

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Takk fyrir þetta Guðrún, greinargerð þín nýtist mér vel.
    Ég er sammála þér að heildarmyndin er ekki skoðuð. Horfum td á fæðingarþjónustuna, hún er engin á Húsavík. Kona austan Húsavíkur þarf þá líklega að dveljast vikum saman á Akureyri ef hún á að fæða á vetri til til þess að vera viss um að fært sé. Ef Húsavík gæti laðað að sér erlenda sjúklinga í heilbrigðisþjónustu gæti skapast nægar tekjur og nógur mannskapur til þess að halda þjónustunni þar.
    Af hverju erum við að loka fullkomnum nýjum stofum í Keflavík og 7 á Landspítalanum þegar við höfum fín tækifæri í þessari nýju þjónustugrein?

  • Gott innlegg hjá þér Andri inn í steingelda umræðu um heilbrigðismál. Mjög margar stjórnvaldsákvarðanir í heilbrigðismálum eru krampakenndar og miðast við peningaleg skammtímamarkmið. Í kreppunni er kjörið að fara í gegnum alla þætti heilbrigðis- og félagsþjónustu. Fyrsta spurningin hlýtur að vera hvernig þjónustu viljum við fá og hvað erum við tilbúin að borga fyrir það.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Við verðu að fara að gera greinarmun á þjónustuþættinum og tryggingarþættinum.

    Frökkum hryllir við ríkisreknum spítölum og telja breska kerfið ömurlegt þar sem ríkið veitir þjónustuna. Nú er heilbrigðisþjónusta mjög góð í Frakklandi, hvernig má það vera þegar ríkið er ekki með puttana ofaní þjónustunni?

    Breski verkamannaflokkurinn setti ríkisrekið heilbrigðiskerfi (NHS) á laggirnar 1948 sem varð fyrimynd á Norðurlöndunum. Önnur Evrópulönd tóku upp blandað kerfi þar sem tryggingin og þjónustan eru aðskilin. Ríkið veitir öllu tryggingu en þjónustan er yfirleitt veitt af góðgerðarstofnunum eða einkaaðilum.

    Það sem Bretar eru núna að gera er að færa sig nær franska kerfinu. En einhvern veginn er ekki hægt að ræða svona mál á Íslandi. Um leið og farið er að ræða breytingar á heilbrigðiskerfinu, er strax bent á bandaríska kerfið og hversu hættulegt það er. Af hverju má ekki ræða franska, þýska eða svissneska kerfið?

  • Guðbjörn

    Andri á þakkir skildar fyrir að taka þessa umræðu upp.
    Einhver vitrænasta orðræða um heilbrigðismál sem farið hefur fram á Íslandi frá landnámi.
    Stefán ætti manna best að sjá hvaða einkaframtakið er mikill bjargvættur fyrir norska heilbrigðiskerfið og þá eru upplönd Noregs, þar sem hann sjálfur þiggur þjónustu ekki undaskilin.
    Einu sinni enn: Við erum að tala um einkarekstur og þjónustusamninga við hið opinbera ekki einkavæðingu allrar heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur