Sunnudagur 18.07.2010 - 08:33 - 54 ummæli

Hin norræna fyrirmynd

Ísland er hluti af Norðurlöndunum og þangað höfum við sótt hugmyndir og ráð í gegnum aldirnar, mest af því hefur orðið okkur til góðs þó við höfum ekki alltaf gert okkur grein fyrir því.  Því er eðlilegt að við lítum til okkar nágranna í okkar neyð.

Hin Norðurlöndin hafa alltaf verið reiðubúin til að hjálpa okkur og svo er einnig nú.  Við tökum fegins hendi við þeirra lánum en við ættum einnig að hlusta á þeirra ráð og leita fyrirmynda hjá þeim.

Í grunninn bjóða nágrannalöndin upp á þrjár fyrirmyndir:

 1. Sjálfstætt og fullvalda ríki utan ESB með eigin gjaldmiðil og sterkt alþjóðlegt lánstraust – Noregur
 2. Sjálfstætt og fullvalda ríki innan ESB en með eigin alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil – Svíþjóð og Danmörk
 3. Sjálfstætt of fullvalda ríki innan ESB með evru – Finnland

Áður en við veljum okkur fyrirmynd, skoðum aðeins stöðu Íslands í dag.

Við erum ein skuldugasta þjóð í Evrópu með gjaldmiðil og lánstraust sem er ekki viðurkennt erlendis.  Við erum í gjörgæslu AGS, fjármögnuð af hinum Norðurlöndunum.   Okkar efnahagslega sjálfstæði er í höndum útlendinga.  Við eigum nóg af endurnýjanlegri orku sem aðrir öfunda okkur af en til að nýta hana þurfum við fjármagn og stöðuleika.

Hvernig endurheimtum við okkar efnahagslega sjálfstæði til að geta nýtt auðlindir okkar og skapað grunn fyrir betri lífskjör handa næstu kynslóð?  Hvaða norræna fyrirmynd er raunhæfust, áhættuminnst og skynsamlegust?

Er Noregur raunhæf fyrirmynd?  Getum við breytt okkar brunarústa hagkerfi í sterkt, óháð og sjálfstætt hagkerfi með eigin gjaldmiðil og viðurkennt lánstraust?  Hversu langan tíma tekur það og hver er áhættan við þessa leið?

Er Danmörk eða Svíþjóð betri fyrirmynd.  Eigum við sjálfstæðan seðlabanka sem nýtur trausts og virðingar erlendis?

Eða eigum við að velja Finnland og stefna á evru?

Við verðum að fara að ræða þessar leiðir, kosti þeirra og galla.  Það er ekki nóg að haga sér eins og frekur krakki og heimta leikfang sem maður hefur tapað sama hvað það kostar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (54)

 • Budduhagfræðingurinn

  Ef það eru peningar sem er upphafið og endirinn á ESB umræðunni þá er ekkert frekar að ræða.

  Við höfum það besta frá ESB með EES samningnum þar sem okkur tókst að undanskilja fiskveiðar, þjóðin á framtíð fyrir sér en sú framtíð er ekki falin í budduhagfræði ESB sinna.

 • Budduhagfræðingur,
  Þetta svarar ekki spurningunni hvernig við ætlum að endurheimta okkar efnahagslega sjálfstæði. Hvort sem okkur líkar betur eða verr lifum við í kapítalísku hagkerfi sem gengur á peningum.

  Er þjóð sem er undir AGS komin sjálfstæð? Hvernig ætlum við að losna við AGS án þess að ganga inn í ESB. Það er spurning sem þarf að svara.

 • „Budduhagfræðingurinn“ virðist ekki skilja áhættuna sem felst í því að hafa fljótandi smámynt á stóru markaðssvæði eins og evrópska efnahagssvæðinu. Það er ekki að ástæðulausu sem Evrópuríkin tóku upp sameiginlega mynt.

  Annars þarf ESB umræðan ekki bara að snúast um peninga og stöðugleika, þótt vissulega sé það mikilvægur hluti nú þegar Íslendingar eiga að vera að velta fyrir sér hvaða efnahagslega umhverfi þeir vilja búa næstu kynslóðum sínum.

  Það má benda á að ESB er eitt stærsta friðarbandalag heims, þetta er bandalag sem vinnur með mannréttindi að leiðarljósi og berst fyrir ýmsum réttindum borgara meðlimaríkjanna, t.d. neytendavernd, lýðræði og stöðugleika auk þess sem gríðarlegt fé er sett í ýmis konar rannsóknastörf.

  Þetta er alls ekki jafnslæmt bandalag og sægreifarnir vilja telja okkur trú um.

 • Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að innganga inn í ESB sé besta leiðin til að standa vörð um sjálfstæði okkar, menningu og tungu.

  Hvernig fór ekki fyrir Nýfundnalandi og Cook eyjum þegar þessi smáríki lentu í skuldavanda. Stöðnun, landflótti og sjálfstæðismissir. Þessi lönd áttu ekki val á að ganga í bandalag sjálfstæðra ríkja.

  Áður en við segjum „nei“ við ESB er gott að líta á málin frá öllum hliðum og vega og meta áhættuþætti. Það er nefnilega ekki gefið að gjaldeyrismálin og fjármögnunin reddis bara við það að segja „nei“.

 • Svartálfur

  Reyndar er danska krónan ekki sjálfstæð mynt heldur tengd evrunni. Veit ekki hvort sama gildir um þá sænsku. Það er mikilvægt að klára aðildarviðræður og greiða síðan atkvæði um samninginn.

 • Ég vel Finnsku leiðina einfalt mál.

 • María Kristjánsdóttir

  Ýmislegt má ágætt finna í lögum og reglum ESB. En að halda því fram að ESB sé stærsta friðarbandalag í heimi eins og lesandi gerir er beinlínis rangt. Aðildarlönd berjast að vísu ekki innbyrðis en þau fara allmörg með ófriði á hendur austurlanda. ESB gerir nákvæmlega eins og USA segir þeim í málefnum Palestínu. Og rányrkja bandalagsins á auðlindum Afríku er einnig mál sem þarf að ræða. Þá er líka vafasamt að fullyrða að stefna bandalagsins í mannréttindamálum sé lofsverð. Til dæmis eru margir Svíar mjög óhressir með þær breytingar sem nú er lagt til að gerðar verði þar í landi á lögum um tjáningarfrelsi í samræmi við Evrópureglur. Og er það ekki rétt munað hjá mér að mannréttindadómstóllinn hafi ítrekað dæmt atvinnurekendum í vil en gegn hagsmunum launamanna? Það er margt sem þarf að ræða annað en fiskveiðar.

 • Margeir G

  Afhverju þurfum við alltaf að hafa aðra til fyrirmyndar. Afhverju getum við ekki bara þróað okkar leið og komið okkur út úr þessum ógöngum eftir okkar eigin leiðum? Vandamálið sem við glímum við er að við erum alltaf á toppnum eða á botninum – við vorum naflar alheimsins fyrir hrun, en afhverju þurfum við að vera rottur alheimsins eftir hrun og allir tala um að við verðum að fá hjálp frá ESB, frá Norðurlöndunum og ég veit ekki hvað. Afhverju sjáum við ekki þessa hjálparólar sem við höfum í dag – bara sem hjálparólar – síðan erum við komin upp á þurrt, og þá höldum við áfram en með margfaldan reynslupakka á bakinu til að taka upplýstari og betri ákvarðanir í framtíðinni. Afhverju dettur fólki það yfirhöfuð í hug að einhverjir stráklingar í Brussel eða öðrum stöðum ættu að hafa eitthvað með rekstur íslensk smáríkis efst á N-Atlandshafinu að gera.

 • Björn Kristinsson

  Góðir vinklar Andri. Það sem er áhugavert er hvers vegna Svíar tóku ekki upp evru á sínum tíma á meðan Finnar gerður slíkt. Danska krónan er nánast geirnegld evrunni þannig að það má í reynd líta á DKR sem „danska evru“. Andri veist þú eitthvað um ástæðu þess að Svíar og Finnar fóru þessar ólíku leiðir.

  Annað varðandi að ESB sé friðarbandalag eins og „Lesandinn“ bendir á. Jú rétt það er ekki stríð innbyrgðis á milli aðildarþjóðanna eins þær eiga hver um sig í stríði utan bandalagsins. Það leitast flest ef ekki öll vestræn samfélög að vernda rétt borgara sinna. Það er ekki aðeins bundið við ESB eða Evrópu. Samfélög virka einfaldlega ekki ef réttar- og stjórnkerfið virkar er ekki en það er svo annað mál hvort það sem notað er sé hið besta.

 • Sveinbjörn

  Sæl
  Ég er sammála því að við ættum að klára viðræðurnar og kjósa um samning. Ég persónulega er á þeirri skoðun að við eigum frekar að vinna með EES samninginn en að fara inn á ESB. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú stærsta er að evran er ekki gjaldmiðill sem hentar öllum löndum innan ESB og hefur Merkel opnað á þá umræðu. Einn gjaldmiðill fyrir svæði virkar ekki nema um t.t. einsleitt svæði sé að ræða og er það ekki í ESB og ekki einu sinni á evrusvæðinu. Frjálst flæði vinnuafls er ekki til staðar nema í orði því menntunarstig þjóðanna er mjög misjafnt og Grikki í ´Svíþjóð þarf mikla aðlögun til að komast á vinnumarkað þó hann hafi til þess réttindi. Þetta er bara staðreynd. Einnig tel ég einsýnt að við munum tapa fiskinum ef við förum inn. Ekki vegna þess að erlendum útgerðum verði úthlutað kvótanum heldur með því að þau muni kaupa upp íslensk útgerðarfélög, svipað og gerðist í UK. Það hefur engin þjóð fengið undanþágur varðandi kaup ESB fyrirtækja á ESB fyrirtækjum. Það er bara staðreynd. Spánverjar hafa þurrkað út sjávarútveg í Skotlandi með uppkaupum á fyrirtækjum og aldagamlir fiskveiðibæjir eru að deyja eða eru dánir. Einnig er hægt að benda á að við ættum ekki möguleika á viðræðum varðandi makrílgöngurnar hér við land, fyrr en eftir nokkur ár ef við værum komin inn í ESB. Þatta eru sum af þeim atriðum sem ég set fyrir mig varðandi inngöngu.
  Virðingarfyllst, með von um upplýsta ummræðu án upphrópana Jóns Frímanns,
  SVeinbjörn

 • María, ef þú skoðar sögu ESB þá sérðu að tilgangur þess frá upphafi var að tryggja frið í Evrópu. Hugmyndin var sú að með því að gera löndin að einu markaðssvæði og þar með háð hvort öðru væri hægt að tryggja friðinn. Það hefur tekist frábærlega hvað aðildarríki ESB snertir, það hefur einfaldlega ekki verið eitt einasta stríð milli aðildarríkja sambandsins frá stofnun þess. Það er þetta sem ég átti við með að ESB væri stærsta friðarsamband heims – það er algjörlega óumdeilanlegt að það hefur aldrei ríkt svo langur friður í Evrópusambandslöndunum og núna.
  ESB hefur mjög takmörkuð völd þegar kemur að utanríkismálum, sambandið endurspeglar einfaldlega vilja aðildarríkjanna á því sviði. Þetta ættirðu að kynna þér áður en þú ferð að gaspra um að ESB sé vont við Palestínu eða að ESB stundi „rányrkju“ á auðlindum Afríku, eins og þú orðar þetta. Hér er við einstök aðildarríki að sakast, ekki ESB, sem hefur engin völd á þessum sviðum.
  Mannréttindadómstóll Evrópu („hafi ítrekað dæmt atvinnurekendum í vil“ eins og þú orðar þetta) er á vegum Evrópuráðsins, ekki Evrópusambandsins. Ef þú veist ekki muninn á þessum tveimur stofnunum bendi ég þér á að kynna þér málin betur áður en þú ferð að gagnrýna ESB á netinu.
  Aldrei heyrt um að Svíar séu óánægðir með breytingar á „lögum um tjáningarfrelsi“ (hvaða lög eru það nú?), því síður að ESB sé að leggja slíkt til. Raunar eru Svíar nú afskaplega sáttir við veru sína í ESB þrátt fyrir að stór hluti Svía hafi lagst gegn inngöngu á sínum tíma (46,8% greiddi atkvæði gegn aðild í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar). Hér má benda á könnun sem gerð var síðasta haust, þar sem Svíar voru spurðir „“Almennt séð, telurður að aðild Svíþjóðar að Evrópusambandinu sé a) góður hlutur b) slæmur hlutur c) hvorki góður né slæmur hlutur d) veit ekki“ 57% Svía töldu aðild að Evrópusambandinu góðan hlut, 27% hvorki góðan né slæman en einungis 17% töldu aðildina slæman hlut. (sjá: http://ec.europa.eu/public_opinion/archives/eb/eb72/eb72_fact_se_en.pdf )

 • Adda Sigurjónsdóttir

  Ég er sammála Sveinbirni. Ég held að EES dugi okkur. Ég sé ekki að leið Finnlands sé eitthvað einfaldari en stefna í sömu átt og Noregur þar sem við fáum ekki Evru fyrr en við uppfyllum Maastrict skilyrðin. Ef við náum því þá þurfum við ekki Evru því þá erum við komin með stöðugleika.

  Við erum sárafá og ættum að hafa meiri möguleika á fríverslunarbandalögum við fleiri lönd utan ESB heldur en ef við færum þar inn. Það er ekkert mál að hleypa viðskiptum við 300 þús manna þjóð gegnum tollamúra t.d. í USA, Kanada, Kína og. fl en útilokað að ESB fái slíka samninga. Við getum orðið nokkurskonar fríríki, umskipunarland og höfum mjög góða landfræðilega staðsetningu. Við höfum sérstöðu mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna og nú opnast Norður íshafið.

 • „Til að fá Evru þurfum við að uppfylla Maastrict skilyrðin, ef við náum því þurfum við ekki Evru því þá erum við kominn með stöðugleika“

  Þegar rignir þá er ekki hægt að gera við gatið á þakinu, þegar ekki rignir þarf þess ekki.
  Ég held það sé bæði skynsamlegt að gera við gatið á þakinu og ganga í ESB.

 • Sveinbjörn

  Sæll Bobbi viðgerðamaður
  Hvers vegna þurfum við evruna? Af hverju semjum við ekki við ESB um að krónan verði bundin evru með vikmörkum? Af hverju þurfum við að binda okkur inni í tollmúrum evrópu? Hvað er gott við það?
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Af hverju heldur fólk að EES samningurinn sé eilífur?

 • Sveinbjörn

  Sæl Gina
  Hann er ekki eilífur frekar en ESB og evra en hvert er markmið spurningarinnar?
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Sveinbjörn.

  Það þarf að hella úr dollunum sem við setjum undir lekann á þakinu. Eins þarf erlendan gjaldeyrisforða til að halda krónunni innan vikmarka ef við bindum krónuna við Evruna.

  Kv.
  Bobbi á þakinu

 • Sveinbjörn.
  Þú ert væntanlega að vísa í EMR-II sáttmálann, sem gengur út á að gjaldmiðill þeirra ESB ríkja sem enn eru ekki með evruna verði bundin við evruna með 15% vikmörkum (geta verið lægri, t.d. 2,25% fyrir dönsku krónuna).

  Þessi samningur er eingöngu fyrir ESB ríki og er hugsaður sem bráðabirgðalausn fyrir þessi ESB ríki þar til þau taka upp evruna.

  ESB hefur aldrei gert svipaðan samning við ríki utan ESB. Þessar hugmyndir voru viðraðar við sambandið af hálfu Íslendinga á vormánuðum 2009 og fengu þær þá engar undirtektir, sbr. mikla fjölmiðlaumfjöllun um málið á þeim tíma sem virðist alveg hafa farið framhjá þér.

  Málið er einfalt þegar kemur að gjaldeyrismálum: Ekkert ESB og króna, eða ESB og evra.

  Það er rétt að við munum ekki standast Maastricht-skilyrðin næstu 10-15 árin. En á meðan við bíðum eftir henni munum við hafa við Evrópska seðlabankann sem mun verja gengi krónunnar samkvæmt EMR-2 samningnum. Þetta snýst líka um að horfa til langs tíma; til langs tíma er stöðugleiki og evra betri fyrir íslenskan almenning heldur en krónan og óstöðugleiki.

  Tek hjartanlega undir með Bobba hér að ofan; þegar allt gekk vel vildu Íslendingar ekki sjá ESB af því þeir töldu sig geta gert betur en ESB (reyndist heldur betur rangt!) og nú þegar illa gengur viljum við ekki fara í ESB af því að við höldum að við séum betri en ESB.

 • Sveinbjörn

  Sæll Bobbi
  Þar komum við að kjarna málsins. Ef ekki er innistæða fyrir genginu þá hellum við úr . Það kallast gengisfelling. Þetta er eitt sterkasta tól í efnahagsstjórn sem til er, þó við hér á Íslandi lítum það öðrum augum vegna gengistryggingar. Grikkir geta það ekki og ekki Írar. Spánn mun ekki geta það né Ítalía. Þjóðverjar stýra genginu. Þannig er bara staðan í dag. Einnig er það þannig að þótt það komist upp að Frakkar falsi rekstur síns ríkis og efnahag þá er ekkert gert en ef Grikkir gera það er öllu snúið á haus – ekki satt? Staða smárra ríkja í ESB er að standa og sitja eins og þau stærri vilja, því miður.
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Sveinbjörn

  Sæll Lesandi
  Hver heldur þú að ástæðan sé fyrir því að ESB gangi fram með þessari hörku og neiti að breyta samningum um krónuna úr flotkrónu yfir í krónu bundinni okkar helstu viðskiptalöndum og þá með vikmörkum?
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Sveinbjörn

  Sæll Lesandi
  Þetta vantaði: Nema að við göngum í ESB og tökum upp ERM II?
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Uni Gíslason

  Það kallast gengisfelling. Þetta er eitt sterkasta tól í efnahagsstjórn sem til er,

  Nei. Nei. Nei.

  Það er ekki tól, það er neyðarúrræði þegar allt annað hefur brugðist og efnahagur í tómu tjóni.

  Það bjargar Grikklandi eða nokkur öðru landi að fella gengið, ef það væri yfirleitt hægt, þegar allar skuldir landsins eru í Evrum eða USD.

  Tilgangur gengisfellingar er sem sagt neyðarúrræði, viðurkenning á fullkomnum ósigri og efnahagslegu klúðri.

  Á Íslandi hefur þetta reyndar verið notað (á tímum fastgengisstefnu) sem kjaraskerðandi ‘tól’, en það gerði það að verkum að íslenska krónan varð aldrei nothæf sem annað en Matador-mynt og þurfti annað hvort að skammta lánsfé beint frá ríkinu eða vera með verðtryggingu til eilífðar.

  Það er frekar blessun fyrir Grikkland að hafa Evru eftir allt saman, því þrátt fyrir erfiða skuldastöðu ríkisins þá hefur enginn þurft að óttast hrun gjaldmiðilsins og fjárfestingar og sparifé í öruggu skjóli frá öðrum efnahagsvandræðum.

  Með öðrum orðum: vegna Evrunnar geta pólitíkusarnir sem klúðruðu málunum í Grikklandi ekki bjargað sér með bjána-aðgerðum eins og gengisfellingu – og það á kostnað almennings.

  En það telur þú vera ‘sterkt tól’ í efnahagsstjórn. Þegar það er í raun ekkert annað en neyðarhnappur fyrir vanhæfar ríkisstjórnir.

 • Sveinbjörn

  Sæll Uni
  Þetta er rangt hjá þér. Bæði ESB, í krafti Þjóðverja, og USA hafa fellt sitt gengi töluvert á mismunandi tímum núna undanfarið. Þau gera það bara á annan hátt. Það er flot á gjaldmiðlunum og þau prenta peninga og þannig hefur gengi evru lækkað til hagsbóta fyrir þjóðverja og frakka undanfarið ár. Þetta eru tvö stærstu útflutningslön (út fyrir evrusvæðið) innan evrópu. Þetta er gengisfelling og það væri flott ef þú hringdir í þa´og segðir þeim hvaða vitleysu þeir eru að gera. Þetta eru algjörlega óhæfar ríkisstjórnir. Svo má líka benda á fréttir núna undanfarið um að kostnaður ESB er að hækka verulega á meðan að allar ríkisstjórnir innan ESB eru að draga saman í útgjöldum.
  Svo er líka gaman að sjá hvað mikil hugsun er lögð í að verja erlenda fjárfesta innan ESB frekar en að hugsa um fólkið í stökum löndum.
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Sveinbjörn. Þú virðist gera ráð fyrir því að það sé einhvers konar réttur sem við höfum til þess að taka þátt í EMR II. Svo er þó ekki, þetta samkomulag gildir eingöngu fyrir ESB ríki. Bara af því að við erum Íslendingar getum við ekki farið fram með einhverri frekju og heimtað eitthvað sem við eigum engan rétt á. Þetta snýst um að taka allan pakkann (ESB) eða ekki. Við getum ekki bara valið úr það sem okkur hentar eins og þú virðist vera að stinga upp á.

  Tek annars undir með Uni Gíslasyni hér að ofan og vil bæta því við að ef Grikkir hefðu verið með eigin mynt og fellt gengið um helming væri skuldastaða ríkisins enn verri, enda eru ríkisskuldir yfirleitt í alvöru myntum á borð við t.d. evru. Gengisfelling er fyrir skussa, fyrirhyggið fólk veit að til lengri tíma er stöðugleiki það sem við þurfum.

 • Sveinbjörn

  Sæll Lesandi
  Af hverju svarið þið ekki þessu:

  Hver heldur þú að ástæðan sé fyrir því að ESB gangi fram með þessari hörku og neiti að breyta samningum um krónuna úr flotkrónu yfir í krónu bundinni okkar helstu viðskiptalöndum og þá með vikmörkum?

  Af hverju veljið þið Uni bara að svara sumum spurningum? Það er engin frekja að fara fram á að binda gengi við myntir eða mynkörfur og er alþekkt í heiminum í dag og hefur verið í áratugi. Það eina sem hindrar þetta er að vegna EES samningsins, þar sem er ákvæði um flot gjaldmiðla, og þvermóðsku ESB getum við það ekki. Þetta hefur ekkert að gera með ERM II.
  Það sem er skynsamlegast við það sem þú segir er að þetta snýst um allan pakkan eða ekki. Samningar hvað?
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Þakka innlitið.

  Praktíska leiðin er, eins og hér hefur komið fram, að fara dönsku leiðina. Ganga inn í ESB og fá Seðlabanka Evrópu til að styðja við krónuna innan ákveðinna vikmarka sbr. EMR 2. Til lengri tíma yrði stefnt á evru þ.e. finnska leiðin.

  Þetta yrði auðsótt mál því við hefðum stuðning allra helstu banka Evrópu sem eru kröfuhafar í gömlu bönkunum. Þar með myndi fjármálamarkaðurinn róast þar sem þeir myndu sjá að Íslendingar yrðu síður uppiskroppa með gjaldeyri og gætu borgað erlend lán sín til baka.

  Þetta yrði til þess að lánamarkaðir myndu opnast og lánstraust aukast.

  Án ESB aðildar, fáum við ekki stuðning frá Evrópska Seðlabankanum sem er lykillinn að lausn okkar gjaldeyrismála.

  Björn,
  Mig minnir að Finnar hafi áveðið að taka upp evruna til að auka stöðuleika hjá sér og til að binda sig tryggilega í vestur Evrópu. Á þeim tíma var mikil óvissa um framtíð Rússlands en fall gömlu Sovét hafði slæm áhrif á efnahaginn í Finnlandi. Evran gerir Finna óháðari risanu í austri.

 • Sveinbjörn

  Sæll Andri
  Finnar hefðu ekki getað brugðist við lækkun tekna um 30% (þegar Sovét liðaðist í sundur) nema með eigin gjaldmiðli. Hvað hefðu þeir átt að gera með evru? Finnland var í sárum og það er ástæðan fyrir þeirra viðbrögðum. Ég er ekki að segja að þau hefðu verið önnur nú á tímum en aðstæður voru svæsnar í Finnlandi á þeim tíma.
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Uni Gíslason

  Sælirnú Sveinbjörn!

  Þetta er rangt hjá þér. Bæði ESB, í krafti Þjóðverja, og USA hafa fellt sitt gengi töluvert á mismunandi tímum núna undanfarið. Þau gera það bara á annan hátt.

  http://image.guim.co.uk/sys-images/Business/Pix/pictures/2008/04/10/euroa.jpg

  Þarna kemur fram graf sem sýnir Evru á móti GBP á tímabilinu 1999-2008 og auðvelt að sjá að Evran nálgast pundið 1 á móti 1 yfir allt tímabilið.

  Það er ekki gengisfelling. Raunar ef um aukningu á framboði Evru væri að ræða, þá væri það heldur ekki gengisfelling – enda um mjög hægfara aðgerð að ræða.

  Að fella gengi er eins og gert var við krónuna eftir Hrun.

  Sjá 5 ára tímabil hér:

  http://www.m5.is/?gluggi=gjaldmidill&gjaldmidill=22

  Fellingin felst ekki bara í mikilli aukningu á gengisvísitölunni, heldur að sett voru á gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir eðlileg og frjáls viðskipti með íslensku krónuna og er hún þannig fest við tilbúið gengi Seðlabanka Íslands.

  Í fjármálakreppunni 2008 finnst varla sá gjaldmiðill sem ekki jók gengisvísitölu sína umtalsvert, en það var ekki gengisfelling, heldur áhrif markaðarins og aukin lántaka hinna ýmissu ríkja.

  Að kalla verðbólgu gengisfellingu er að misskilja þetta virka inngrip stjórnvalda sem raunveruleg gengisfelling er. Stöðugleiki gengis Evrunnar er, var og verður alltaf grundvallarmarkmið og miðað við stærð hennar og mikilvægis í viðskiptum í heiminum gjörvöllum þá er það raunhæft markmið.

  Annars er ég hjartanlega sammála Andra Geir að skynsamlegasta leið Íslands er ‘danska leiðin’ þar sem gengið er í ESB og íslenska krónan sett í ERM II og bundin Evrunni þangað til möguleiki verður að taka upp Evruna.

 • Margeir G

  Andri og Uni – eru þið að fá borgað frá ESB fyrir öll þessi skrif ykkar – það er varla að maður hafi undan að lesa þetta allt. Serstaklega fra Una hér og á öðru miðlum – ekki getið þið unnið með öllum þessum skrifum líka?

 • Sveinbjörn

  ESB hefur einfaldlega ekkert með það að gera að binda Íslensku krónuna við aðra gjaldmiðla, við erum jú ekki í ESB.
  Á meðan við erum utan ESB er það algjörlega mál okkar Íslendinga ef við viljum gera þetta og kostnaðurinn við það er því algjörlega okkar.

 • Flott blogg hjá þér Andri. Ég hef sjálfur oft hugsað þetta svona.

  Atkvæðaseðillinn í þjóðaratkvæðisgreiðslu ætti hreinlega að líta svona út, þ.e. norksa-finnska-danska-sænsku – leiðina, kjósandi góður hvað vilt þú ?

  Engir nema fámennur hópur útgerðarmanna og L(júg)ÍÚ-pennar þeirra heimta norsku leiðina. Ástæðan fyrir því að Norðmenn vilja vera í EES en ekki ESB er sú að þeir eiga olíu-gullið og verða því ekki blankir á meðan.

  Noregur er líka miklu hagkvæmari rekstrareining sem ríki heldur en Ísland. En sjáið áherslur Norðmanna í efnahagsmálum.

  Í stað þess að eyða olíugróðanum og hafa 4-7% hagvöxt á ári heima fyrir (sem endar allt eins og Ísland) þá safna þeir gróðanum upp og hleypa honum aldrei inn í kerfið hjá sér nema litlu í einu. Þetta þýðir það að hin s.k. hollenskaveiki hrjári útflutningsgreinarnar miklu minna en ella. Áhersla Norðmanna á framleiðslu er svo einnig eftirtektarverð og aðdáunarverð í raun. Norskir hafa 1) Olíuna sem ábyggilega guð gaf þeim 2) Hreina raforku eins og íslensdingar, en þó ekki jarðhita, 3) Álframleiðslu í miklu stærramæli en Ísland (eðlilega 15 sinnum fjölmennari) 4) Fiskeldi sem framleiðir meira verðmæti en allur íslenski sjávarútvegurinn, 5) Fiskveiðar eins og Íslendingar stunda þær nema þeir veiða c.a. 3-sinnum meira !

  Noregur er m.ö.o. mun gjöfulla og betra land en Ísland og hefur alla tíð verið, þess vegna ætti ESB að vera léttara á metunum en hjá Íslendingum sem það er.

 • Uni Gíslason

  Sælirnú Margeir G og vertu margblessaður!

  Það gleður mig að þú hafir það af að lesa þetta allt, það er ekki lítið stundum sem þarf að leiðrétta and-ESB áróðurinn!

  Allt hefst þetta með þolinmæði og rólegheitum, en ég er annars í 110% vinnu, vinn 12 tíma á dag til að hafa í mig og á. En ekki vinn ég hjá eða fyrir ESB, en þau samtök lyfta ekki litla fingri til að hvetja lönd eða fólk sér til liðs.

  Það er nefnilega frjáls meðlimskapur í ESB og enginn hvattur eða neyddur í félagið. Hins vegar eru það sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland sem meðlimsland EES og í því ástandi sem það er nú í og blasir við að það verði í, að það skoði með fullri alvöru aðild að ESB.

  Það er ekki bara miklvægt skref fyrir fyrirtæki og einstaklinga á Íslandi, heldur líka mikilvægt til að vera með á virkann hátt í því evrópska samstarfi sem Ísland finnur sig í nú þegar í dag gegnum EES.

  Fullveldi landsins er innan sviga eins og stendur og ennþá eru umtalsverð höft milli Íslands og annarra landa EES/ESB.

  Það er kominn tími á að vera með, vera virkur þáttakandi og endurheimta það fullveldi sem var sett í uppnám með samning um EES. Það er einnig kominn tími til að skilja við efnahagsstefnu Íslands á 20. öldinni og taka þátt í stöðugu og fyrirsjáanlegu efnahagskerfi, með stöðugum gjaldmiðli, lágum vöxtum og minni áhættu.

  Þess vegna skrifa ég. Vegna þess að mér er hlýtt til lands og þjóðar. Launalaust.

 • Margeir G

  Þetta er hroðalegt – skyldi vera möguleiki á að það sé hægt að gera hlutina rétt á Íslandi án þess að við séum í ESB, Hmm er Írland ekki í ESB – hmmm: http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2010/07/18/irar_laera_af_islendingum/ – en náttúrlega getur þetta ekki staðist ef þessi frétt er ekki búin til af ESB-miðlum landsins. Hroðaleg niðurstaða fyrir þá sem halda að allt grænt og fallegt sé tengt ESB.

 • Uni Gíslason

  Sæll á ný Margeir!

  Írski stjórnmálamaðurinn Bernard Allen segir að Írar ættu að líta til Íslands við rannsókn á efnahagshruni ársins 2008.

  Þetta kemur ESB við hvernig? Þú skilur að ESB er samband fullvalda ríkja sem ákveða sjálf sín örlög? Þú skilur að ESB er ekki yfirvald sem stýrir meðlimsríkjum í einhverjum smáatriðum?

  Það er ekki hægt að tengja allt við ESB eða þras and-ESB sinna. Þetta snýst ekki um gras, hvernig það er á litin eða neitt slíkt.

  Þetta snýst um framtíðarsýn, stefnu og stjórnskipan. Þetta snýst um efnahag og atvinnutækifæri. Þetta snýst um stöðugleika og þróun.

  Nú er það svo að margt gott er gert á Íslandi, enda markmið að nýta það góða sem hér er gert í samstarfi við hin lönd EES/ESB. Þar á meðal reynslu Íslendinga af rannsókn efnahagshrunsins.

  Vonandi horfa Írar til Íslendinga hvað varðar rannsókn á efnahagshruninu og vonandi horfa Íslendingar til Íra þegar kemur að aðild að ESB og hvernig hægt sé að vinna sig upp úr skuldum, efnahagslægðum og ótryggri framtíð.

 • María Kristjánsdóttir

  Lesandi, áður en þú talar oftar niður til annarra, ætturðu að byrja á að lesa þetta:

  På direktiv av regeringen Reinfeldt arbetar nu en utredning , Yttrandefrihetskommittén , för att se om Tryckfrihetsförordningen (TF) och Yttrandefrihetsgrundlagen (YGL) kan ersättas med en ny „mediegrundlag“.
  Regeringen har i direktiven bl a pekat på att våra TF och YGL inte riktigt passar ihop med vad som annars gäller i EU och vill att utredningen ser om vi kan anpassa oss bättre. Yttrandefrihetskommittén som är sammansatt av riksdagsledamöter från alla partier leds av förre JK Göran Lambertz.

  fib.se/yttrande-och-tryck/item/96-regeringen-vill-avskaffa-tryckfrihetsforordningen

  Ég vona að þú lesir sænsku. Legg ekki meira á þig í bili.

 • Uni Gíslason

  Nei hæ María Kristjánsdóttir!!

  Til dæmis eru margir Svíar mjög óhressir með þær breytingar sem nú er lagt til að gerðar verði þar í landi á lögum um tjáningarfrelsi í samræmi við Evrópureglur.

  Svíar hljóta að ráða því hvort þeir breyti grundvallarlögum sínum, en þessi grein prentfrelsis og grein tjáningarfrelsis eru hluti af hæstu lögum landsins – rétt eins og á Íslandi og víðar.

  Það er fyndið að þetta stalínistarit (Folket i Bild/Kulturfront) sem þú bendir á reynir að klína þessu á Reinfeldt ríkisstjórnina, en vinna við þessa grunndvallarlagabreytingu hófst árið tvöþúsundog……þrjú.

  Þá var einmitt Göran Persson (SD) forsætisráðherra Svíþjóðar. En jæja, látum það liggja á milli hluta.

  Greinin um breytingar á umræddum grundvallarlögum Svíþjóðar er byggð á ágiskunum (sbr. «Sannolikt kommer tre modeller att beskrivas […]») og þetta kemur ekki úr nefnd fyrr en í sept/okt.

  En það er ekki kjarni málsins, heldur að þetta sé enn eitt ESB samsærið.

  Tjáningarfrelsi er meðal grundvallarréttinda allra ESB landa og grundvallarsáttmála ESB. Breytingar á lögum Svía hafa ekkert með ESB sérstaklega að gera, heldur samvinnu milli landa á tímum internetsins.

  Svíar eru hvort eð er 100% undir Mannréttindadómstól Evrópu (ekkert tengt ESB) sbr. http://www.brusselsjournal.com/node/538

 • Margeir G

  „Þú skilur að ESB er samband fullvalda ríkja sem ákveða sjálf sín örlög? Þú skilur að ESB er ekki yfirvald sem stýrir meðlimsríkjum í einhverjum smáatriðum?“ – Uni – það er ágætt að þú skilur þetta, því að ESB mun einmitt taka ákvarðanir í flestum þeim málum er skipta máli, láta smáatriðin sem skipta litlu máli í hendur aðildarríkjanna. Það er nákvæmlega þetta sem 2/3 hluti þjóðarinnar hefur engan áhuga á. Enda ekki skrítið eftir að landinn sá hvernig stórþjóðir komu fram við Ísland í seinasta hruni. Stórgallað regluverk þeirra átti stóran þátt í hruninu – og svo vilja þeir ekkert hafa með þann óskapnað sinn þegar á reyndi. Í raun þá verðum eins og lítill maur út í horni sem getur hugsanlega rekið við ef við fáum lítinn rúgbrauðsmola af hlaðborði háu herranna í Brussel. Sjálfur myndi ég frekar vilja búa í moldarkofa alla mína ævi og éta lýsislyktandi sauðskinsskóna mína í forrét, aðalrétt og eftirrétt en vera undir einhverju yfirvaldi í Brussel um flest stærstu málin á Íslandi. Ef þú vilt sleikja tærnar á þeim þá geturðu bara flutt til Brussel og farið í öll kók-tei-boðin þeirra sjálfviljugur – endilega láttu okkur hin sem viljum ennþá vera sjálfstæð þjóð án afskipta einhverja kónga í Brussel í friði – og fáðu þér svo kannski alvöru vinnu en að vinna við allan daginn en að stunda róghersferðir á atvinnuleysisbótum eða sem leigupenni.

 • Sveinbjörn

  Sæll Bobbi
  Þetta er eins fullkomlega rangt hjá þér eins og hugsast getur. EES samningurinn sem við gerðum við ESB leyfir ekki annað en flotkrónu. Það kemur að meira segja fram hér að undan annað hvort hjá þér eða vini þínum. Því kemur þetta ESB algjörlega við því þeir leyfa okkur ekki að framkvæma þetta. Ég veit að fórnarkostnaðurinn er okkar. Ég legg til að þú lesir samræðurnar hér á þessari síðu áður en þú svarar. Það einfaldar skrif okkar og gerir umræðurnar markvissari.
  En svaraðu nú þessu:

  Hver heldur þú að ástæðan sé fyrir því að ESB gangi fram með þessari hörku og neiti að breyta samningum um krónuna úr flotkrónu yfir í krónu bundinni okkar helstu viðskiptalöndum og þá með vikmörkum

  Kv.
  Sveinbjörn

 • Uni Gíslason

  Sælirnú Margeir G!

  það er ágætt að þú skilur þetta, því að ESB mun einmitt taka ákvarðanir í flestum þeim málum er skipta máli,

  Haha rannsókn fjármálahrunsins er þannig smáatriði? Ekki stenst þessi hundalógík þín Margeir, frekar en áður.

  Enn fremur er skrýtið að þú skiljir ekki að ESB er ekki neitt út af fyrir sig og getur þannig ekki ákveðið neitt upp á eigin spýtur. ESB er lítið annað en samkomuvettvangur þeirra fullvalda ríkja sem það mynda.

  Að tala um að ESB geri hitt og ESB geri þetta er ekkert annað en sýning á því að viðkomandi skilji ekki hvað hann mælir um.

  Með bestu kveðjum sem ávallt úr Árnesþingi! /

 • María.
  a) Í greininni sem þú vísar til segir ekki að ESB sé að krefjast þessara breytinga, það segir eingöngu að ríkisstjórn Reinfeldts sé að vísa í allar áttir með þessa breytingu, m.a. til ESB.
  b) Þessi grein er nú vægast sagt hin furðulegasta, eins og Uni Gíslason hefur reyndar þegar bent á. Fyrirsögnin í þessu sænska blaði, sem er reyndar ekki gefið út nema í 2500 eintaka upplagi í hverjum mánuði, er „RÍKISSTJÓRNIN ÆTLAR AÐ AFNEMA PRENTFRELSIГ. Held við getum verið sammála um að það ætlar sænska ríkisstjórnin ekki að gera.
  c) Hvert land ESB ræður yfir eigin stjórnarskrá, ESB getur ekki breytt stjórnarskrám ríkja ef þú ert að gefa það í skyn.

  Ég vona að ég hafi ekki verið of harðorður í svari mínu við innleggi þínu áðan – það var svo sannarlega ekki ætlunin að tala niður til þín, eins og þú ásakar mig núna um. Ætlunin var ekki að ráðast á þig heldur rökleysuna sem þú bauðst lesendum þessa bloggs upp á – og hún lá nú heldur betur vel við höggi 😉

 • Uni Gíslason

  Nei hæ Sveinbjörn!

  Hver heldur þú að ástæðan sé fyrir því að ESB gangi fram með þessari hörku og neiti að breyta samningum um krónuna úr flotkrónu yfir í krónu bundinni okkar helstu viðskiptalöndum og þá með vikmörkum

  Gengur verslunareigandinn með hörku þegar hann krefst þess að þú borgir fyrir brjóstsykurinn? Gengur stjórnsýslan fram með hörku þegar hún krefst þess að þú hafir réttindi til að aka bíl? Gengur skólinn fram með hörku þegar hann krefst þess að þú fáir amk. 5 í einkunn til að standast próf?

  Að sjálfsögðu ekki. Svoleiðis tal er bara þvæla. Eins gengur ESB ekki með hörku fram við Ísland þegar það krefst þess að landið gerist meðlimsland til að fá að taka þátt í myntsamstarfi – en skv. reglum þeim er ESB hefur samþykkt sem sínar eigin, þá ber ríki að vera meðlimsland ESB fyrr en það getur tekið þátt í myntsamstarfi.

  En nú vill ESB heldur ekki að Ísland taki upp Evru einhliða, en fyrir utan það að vera hið mesta glapræði að taka upp gjaldmiðil einhliða og tapa þannig endanlega fullveldi því er snýr að lögeyri, þá er Ísland nú þegar auka-aðili að ESB með samning um EES.

  Nú þegar er Ísland þannig í nánu samstarfi við allar þjóðir ESB og þær líta svo á að til að Evran sé trúverðugur og traustur gjaldmiðill þurfi að setja henni ákveðnar skorður.

  Evran er þannig lögeyrir innan þeirra landa sem:
  a) Eru 100% meðlimslönd ESB og sameiginlegs markaðs.
  b) Hafa ákveðið að taka upp Evru
  c) Hafa efnahagslega burði til þess að taka upp Evru

  Þetta eru þeirra reglur og Ísland hefur enga kröfu á að fá sérmeðferð. Hvernig dettur þér það í hug Margeir G?

  Keyrir þú um án ökuréttinda? Tekur þú sælgæti úr búðum án þess að greiða fyrir það?

  Ætlastu til þess að fá það bara vegna þess að þér finnst þú eiga það skilið?

  Með kveðjum úr Árnesþingi sem og áður! /

 • Uni Gíslason

  Í raun þá verðum eins og lítill maur út í horni sem getur hugsanlega rekið við ef við fáum lítinn rúgbrauðsmola af hlaðborði háu herranna í Brussel. Sjálfur myndi ég frekar vilja búa í moldarkofa alla mína ævi og éta lýsislyktandi sauðskinsskóna mína í forrét, aðalrétt og eftirrétt en vera undir einhverju yfirvaldi í Brussel um flest stærstu málin á Íslandi. Ef þú vilt sleikja tærnar á þeim þá geturðu bara flutt til Brussel og farið í öll kók-tei-boðin þeirra sjálfviljugur – endilega láttu okkur hin sem viljum ennþá vera sjálfstæð þjóð án afskipta einhverja kónga í Brussel í friði – og fáðu þér svo kannski alvöru vinnu en að vinna við allan daginn en að stunda róghersferðir á atvinnuleysisbótum eða sem leigupenni.

  Ah mig langaði bara að ramma þetta inn, en það þarf einmitt and-ESB sinna til að fá svona bilað flottan texta, gegnsýrður af heift, minnimáttarkennd, útlendingafóbíu, ofsóknarbrjálæði, persónuníð og vænisýki.

  Vá. Bara.. vá.

 • P. G. Geirsson

  Ég vel leið Noregs.

  Hér ættum við að nýta gæði landsins og byggja upp sterkan efnahag sem leiðir til sterkrar og stöðugrar krónu.
  M.ö.o. efnahagur Ísland á að vera framleiðsludrifinn“ en ekki drifinn áfram á draumum og góðærum sem fengin eru að láni.

  Ef við förum í ESB á þeim forsendum sem ríkisstjórn Jóhönnu vill, verðum við aldrei annað en veikt land líkt og gömlu Austantjaldslöndin sem eru nú í ESB.

  Fari Ísland í ESB, munu ráðamenn í Brussel stjórna nýtingu fiskimiða við Ísland, og sú stjórnun yrði ekki með hagsmuni Íslands í huga, heldur hagsmuni ESB.

  Ríkisstjórn Jóhönnum hefur engan áhuga á að byggja hér upp sterkt framleiðsludrifið efnahagskerfi, heldur gerir hið gagnstæða, að hafa efnahagskerfið veikt sem hún geti „sannað“ það að við verðum að ganga í ESB.
  M.ö.o. það á að svelta landsmenn inn í ESB og til að jástast Evrunni.

  Hvað er t.d. að gerast í olíuleitarmálum út af N/A-strönd landsins? Ekkert. Því var klúðrað af núverandi stjórnvöldum með allt of háum skattaþröskuldum.
  M.ö.o. ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að nýta þennan möguleika til farsældar fyrir landið.

  Norska leiðin er klárlega sú leið sem Ísland á að fara í sínum efnahagsmálum.

 • Margeir G

  „Haha rannsókn fjármálahrunsins er þannig smáatriði? Ekki stenst þessi hundalógík þín Margeir, frekar en áður.“ – já rannsókn fjármálahrunsins er ein lítil aðgerð, sem er smá miðað við t.d. yfirráðarétt fiskmiða – þar er verið að tala um stórar ákvarðanir. Ótrúlegt að þurfa að vera að útskýra svona einfalda hluti fyrir þér og segir meira um þig en annað – bara verið að rífa kjaft á móti sama hvað sagt er. Alltaf hægt að finna einhver rök á móti svo lengi sem þú vilt.

  „Að tala um að ESB geri hitt og ESB geri þetta er ekkert annað en sýning á því að viðkomandi skilji ekki hvað hann mælir um.“ – á það ekki við um allt sem hreyfist í heiminum. Allt er þetta samkomur og teymi af mismunandi stærðum ekki satt. Lika á Íslandi ekki satt. ESB hefur ákvörðunarvald og beitir því ekki satt – og er ekki nokkuð ljóst að við munum lítið sem ekkert um það að segja hvaða meta-ákvarðanir verða teknar. Snilld ekki satt.

 • Uni Gíslason

  Alltaf hægt að finna einhver rök á móti svo lengi sem þú vilt.

  Nei Margeir G, það sem þú kallar rök eru ekki rök. En þú getur vel mokað þeim upp eins og þér sýnist.

  Þegar ég skrifaði að ESB væri ekki að vasast á nokkurn hátt í smáatriðum, þá þýðir það ekki að ESB sé þá að vasast í stórum atriðum.

  Slík ‘lógík’ eða ‘rök’ er auðvitað fáránleg. S.k. hundalógík.

  ESB hefur ákvörðunarvald..

  Nei, en ríki ESB hafa ákvörðunarvald. ESB getur ekkert gert upp á eigin spýtur. Dæmi um stóra ákvörðun: viðurkenna ‘ríkið’ Kosovo. Mörg lönd ESB vildu gera það, en sum ekki.

  Þannig gat ESB ekkert gert og hefur ekki viðurkennt Kosovo ennþá.

  Aftur og aftur sýnir þú að þú skilur ekki hvað ESB er, hvers það er megnugt, hver tilgangur þess er eða hvað það vill Íslandi.

  Að skrifa að ESB hafi ákvörðunarvald er í hæsta máta rangt.

  Með kveðjum úr Árnesþingi sem oft áður. /

 • Uni Gíslason

  Blessaður og sæll P.G Geirsson! Velkominn!!

  Ég vel leið Noregs.

  Gangi þér vel með það.

  Hér ættum við að nýta gæði landsins og byggja upp sterkan efnahag sem leiðir til sterkrar og stöðugrar krónu.

  Já svona eins og frá stofnun lýðveldisins. Nei heyrðu, bíddu nú aðeins við!!

  M.ö.o. efnahagur Ísland á að vera framleiðsludrifinn“ en ekki drifinn áfram á draumum og góðærum sem fengin eru að láni.

  Mjög skýrar tillögur þarna P.G. Geirsson, takk fyrir það.

  Ef við förum í ESB á þeim forsendum sem ríkisstjórn Jóhönnu vill, verðum við aldrei annað en veikt land líkt og gömlu Austantjaldslöndin sem eru nú í ESB.

  Íslendingar fara á sínum eigin forsendum, takk fyrir, enda samningurinn gerður við íslenska þjóð – ekki Jóhönnu eða nokkurn annann. Það eru þrátt fyrir allt Íslendingar einir sem fá að kjósa um samninginn þegar þar að kemur.

  Fari Ísland í ESB, munu ráðamenn í Brussel stjórna nýtingu fiskimiða við Ísland,

  Nei.

  og sú stjórnun yrði ekki með hagsmuni Íslands í huga, heldur hagsmuni ESB.

  Nei, nei… nei. ESB stjórnar ekki nýtingu fiskimiða – heldur fer það með úthlutun veiðiheimilda. Löndin sjálf fara með nýtinguna. Þetta er einfalt, allir ættu að skilja þetta.

  Ríkisstjórn Jóhönnum hefur engan áhuga á að byggja hér upp sterkt framleiðsludrifið efnahagskerfi, heldur gerir hið gagnstæða,

  Það er ekki gott að skilja hvað þú ert að tala um, þegar Ísland er nánast 100% framleiðsludrifið hagkerfi, fyrir utan ferðamannabransann.

  að hafa efnahagskerfið veikt sem hún geti „sannað“ það að við verðum að ganga í ESB.
  M.ö.o. það á að svelta landsmenn inn í ESB og til að jástast Evrunni.

  Vænissýkisstig er alvarlegt, en ef þú heldur líka að ESB ætli að taka vatnið burt frá Íslandi hringdu þá í 543-4423.

  Hvað er t.d. að gerast í olíuleitarmálum út af N/A-strönd landsins? Ekkert. Því var klúðrað af núverandi stjórnvöldum með allt of háum skattaþröskuldum.

  Eða valmöguleiki B: það reyndist enginn hafa sérstakan áhuga á að leita að olíu á svona erfiðu svæði. Af hverju ekki?

  1. Það er mjög kostnaðarsamt og óvíst að nokkuð nýtingarhæft finnist.
  2. Sjá borpall BP í Mexícó-flóa.


  Norska leiðin er klárlega sú leið sem Ísland á að fara í sínum efnahagsmálum.

  Nema hvað að það er ekki hægt. Norðmenn eru miklu hæfari í öllu sem við kemur að reka land og þjóð en nokkru sinni Íslendingar. Þeir eru skynsamir, hógværir, ekki áhættusæknir, ekki undirlægjur, ekki bráðir, ekki með FLokkinn í sínu landi, hafa lengst af verið undir stjórn sósíaldemókrata og eru almennt sparsamir og nægjusamir.

  Tölum saman um norksu leiðina þegar hægt verður að lýsa Íslendingum með amk. helming ofangreindra lýsinga, ok?!

  Með kærri kveðju úr Árnesþingi. /

 • Sveinbjörn

  Sæll Uni
  Ég legg til að þú lesir þetta sem þú skrifaðir aftur og setir það í samhengi við að ef að Ísland væri ekki aðili að EES þá hefðum við möguleika á að binda okkur við hvaða gjaldmiðil sem til er í heiminum. Það hefur ekkert með þín þráhyggju um ESB að gera. Heldur þú að USA gefi kínverjum leyfi til að binda juan við dollar? Hér er það sem þú skrifaðir:

  „Gengur verslunareigandinn með hörku þegar hann krefst þess að þú borgir fyrir brjóstsykurinn? Gengur stjórnsýslan fram með hörku þegar hún krefst þess að þú hafir réttindi til að aka bíl? Gengur skólinn fram með hörku þegar hann krefst þess að þú fáir amk. 5 í einkunn til að standast próf?“

  Ég skil ekki hvert þú ert að fara, þó þetta teljist íslenska.

  „Að sjálfsögðu ekki. Svoleiðis tal er bara þvæla. Eins gengur ESB ekki með hörku fram við Ísland þegar það krefst þess að landið gerist meðlimsland til að fá að taka þátt í myntsamstarfi – en skv. reglum þeim er ESB hefur samþykkt sem sínar eigin, þá ber ríki að vera meðlimsland ESB fyrr en það getur tekið þátt í myntsamstarfi.“

  Það er enginn að tala um myntsamstarf þó binding eigi sér stað. Þetta kemur ESB ekki við nema að því leiti til að þetta er bannap skv. EES. Svartfjallaland tók upp evru einhliða og án aðkomu ESB. Flott samstarf, ekki satt?

  Lestu betur það sem þú skrifar og það sem komið hefur fram hér á undan.
  Kv.
  Sveinbjörn
  PS: Hættu að skrökva að fólki að önnur lönd geti ekki keypt burt frá okkur veiðiheimildir og það varanlega

 • Sveinbjörn

  Sæll Aftur Uni
  ESB ekki með ákvörðunarvald? Þú hefur ekki lesið Lissabonsáttmálann; er það nokkuð?
  Kvóti – Einhver!!!!!??
  Kv.
  Sveinbjörn

 • Sveinbjörn, ESB hefur eingöngu ákvörðunarvald í þeim málum sem aðildarríkin veita þeim, þú getur fræðst um þetta á íslensku hérna: http://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%B6gm%C3%A6tisreglan_(Evr%C3%B3pusambandi%C3%B0)

  Held þú mættir nú alveg hressa upp á kunnáttu þína á Lissabonsáttmálanum – já, ég hef nefninlega lesið allan helvítis sáttmálann, öfugt við marga 😉

 • Uni Gíslason

  Sælirnú Sveinbjörns, sem og ævinlega!

  ESB ekki með ákvörðunarvald? Þú hefur ekki lesið Lissabonsáttmálann; er það nokkuð?

  Ákvörðunarvald er það sama og fullveldi – eða sá kraftur sem ríki geta haft til að ákvarða sér og sínu á eigin forsendum án aðkomu nokkurs annars aðila.

  Það er alveg á tæru að ESB hefur ekkert slíkt vald, enda hefur það engu að ákvarða – ESB er ekkert annað en ríkin sem það mynda og þau ríki eru fullvalda. Þau koma sér saman um að deila fullveldi sínu á afmörkuðu sviði á vettvangi E Ess Bé.

  Evrópusambandið sjálft er lögaðili, en ekki fullvalda og ekki með sjálfsákvörðunarvald eins og fullvalda ríki. Það hefur einungis vald til að framfylgja þeim lögum og samþykktum sem ríki sambandsins ákveða í sameiningu innan þess ramma sem ESB er skilgreint.

  ef að Ísland væri ekki aðili að EES þá hefðum við möguleika á að binda okkur við hvaða gjaldmiðil sem til er í heiminum.

  Ísland hefur þann möguleika per í dag og breytir aðild að EES þar öngvu um. Sem aðili að EES og auka-aðili að ESB er það vafasamt að Ísland getir uppfyllt skuldbindingar sínar gagnvart fjórfrelsinu (í þessu tilfelli frjálsu flæði fjármagns) ef Ísland tekur upp einhvern gjaldmiðil (USD, NOK t.d.) án þess að hafa djúpa gjaldeyrisvarasjóði.

  Þannig að þó aðild að EES loki ekki fyrir það að tekinn sé upp gjaldmiðill annars lands á Íslandi, þá reynist það þrautinni þyngra og varla hægt á þessum áratug án þess að brjóta í bága við skuldbindingar landins gangvart EES.

  Svartfjallaland tók upp evru einhliða og án aðkomu ESB. Flott samstarf, ekki satt?

  Brilliant samstarf, jú – en þess ber að geta að Montenegro er ekki aðili að EES eða ESB og þannig auðveldara um vik að fá að taka upp Evru. Einnig ber að minnast á það að Montenegro bað náðasamlegast um leyfi til þess að fá að taka upp Evru – en ESB hefði vel getað synjað landinu um það.

  En vegna stríðsins og samviskubits vesturlanda þá hafðist það í gegn (eða af öðrum ástæðum)

  Ísland er hins vegar í EES með ESB og verður að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart fjórfrelsinu – það er erfitt með tóma gjaldeyrisvarasjóði. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er einnig merki um afskaplega veikt hagkerfi og spurning hvort það á heima í EES.

  PS: Hættu að skrökva að fólki að önnur lönd geti ekki keypt burt frá okkur veiðiheimildir og það varanlega

  Hvergi í innleggjum mínum hér hef ég snert á kaupum eða sölu veiðiheimilda, en fyrst þú minnist á það, þá er meðferð veiðiheimildanna algerlega (100%) undir Íslandi komið. Kjósi Ísland að selja kvóta áfram eins og gert hefur verið í spillingar og einkavinavæðingu FLokksins, þá verða erlendir aðilar að fá að fjárfesta í íslenskum veiðiheimildum eins og hver annar.

  Hvort að heilu löndin geti keypt veiðiheimildir, það er mér til efs – en markaðurinn verður að vera frjáls, sé hann á annað borð til staðar.

  Hins vegar ef Íslendingar ganga þannig frá veiðiheimildum að þær séu ekki seljanlegar, þá er útilokað að útlendingar eða nokkur aðili geti keypt þær. Hvað þá varanlega.

  Með kærri kveðju úr Árnesþingi. /

 • Andri
  Góðir punktar eins og svo oft.
  En til að hafa rökrétta valkosti framan við sig þarf eiginlega fjórða valkostinn:

  Hvernig ástandið verður ef Íslendingar ná eiginlega engri skýrri niðurstöðu og láta að mestu reka á reiðanum, takandi ekki upp neina skýra strategíu til að sækja fram og upp úr þessum pytt, eru „fórnarlömb“ AGS og erlendra kröfuhafa, og festa sig áfram í þrasi um ýmis atriði fremur en heildarmynd.

  Líklega þarf að vinna vandaða analýsu af aðilum/með hjálp aðila sem eiga engra hagsmuna að gæta af því hvort Ísland er innan eða utan ESB (niðurstaðan verður önnur af því tvennu), stilla upp scenarios („sviðsmyndum“). Málefnalega, með skoðun og niðurstöðu, og líklegri lokaniðurstöðu miðað við hvern hinna þriggja (fjögurra) valkosta.

  Vonandi hafa Íslendingar gæfu til að gera það.

 • Sverrir,
  Góð ábending. Hin dökka sviðsmynd er reynsla Nýfundnalands. Þar blandaðis saman spilling, skuldir og reynsluleysi. Þeir reyndu að leiga auðlindir, kolanámur að mig minnir, svo var talað um að selja Baffinsland. Allt átti þetta að redda málum en allt kom fyrir ekkert. Eftir 15 ár höfðu þeir misst nær heila kynslóð til Kanada og Bandaríkjanna og fjölskyldur flosnuðu upp. Á endanum var gengið til þjóðaratkvæðis um að sameinast Kanada og það samþykkt, en ekki með nema 52% atkvæða. Þjóðin var að gefast upp og betra var að fá Kanada til sín en að missa börnin til Kanada.

  Þetta ferli tekur áratugi, byrja smátt en hleður upp á sig og getur verið ómögulegt að snúa við. Tungumálið (íslenskan) tefur þetta ferli en stoppar það ekki.

 • Budduhagfræðingurinn

  Andri Geir, þú lætur að því liggja að á Nýfundnalandi sé allt í himna lagi núna vegna þess að þeim bar gæfa á sínum tíma til að ganga í Kanada og að börnin séu núna heimahjá sér og þar blómstri allt.

  – Sannleikurin, nú 60árum síðar, er bara akkúrat annað, við getum lært margt að reynslu Nýfundnalands síðustu 60ár vegna þess að örlög þeirra í dag gætu orðið okkar örlög í framtíðinni.

  – Innganga í bandalag, sem hefur að langtímamarkmiði að verða sambandsríki, er ekki bara buddumál heldur líka menningarlegt og hreinræktað sjálfstæðismál.

  – Hér er viðtal við Barbara Doran sem gerði myndina „Hard Rock and Water“ þar sem borin eru saman örlög þessara þjóða síðustu 60ár.
  http://video.google.com/videoplay?docid=-1585916770036577104#

  – Vert er að geta þess að hótunum og mútum var beitt til að fá fólk til að samþykkja inngöngu í Kanada.

  – Okkar vandamál eru og verða aðeins leyst hér heima og þar ættum við að beita okkar kröftum, ríkisstjórn SF og VG hefur ekkert plan um endurreisn efnahags Íslands nema inngöngu í ESB þ.e svelta lýðinn inn í ESB.

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  Budduhagfræðingur,
  Eins og ég segi er reynsla Nýfundnalands hin DÖKKA sviðsmynd. Sorgarsaga sem ekki má gleymast og getur endurtekið sig. Höfum eitt í huga, sambandsríkið Kanada er fullvalda ríki ólíkt ESB.

  Nei, það er mikil blekking að okkar vandamál verði eingöngu leyst á Íslandi. Við getum ekki leyst gjaldmiðlamálin einhliða og enn síður aðgang að erlendum fjármálamörkuðum.

  Ísland er og hefur aldrei verið eins og Japan, land sem getur fjármagnað sig eingöngu innanlands. Ef það væri staðan, væri íslenska krónan eins og japanska jenið, sterk og alþjóðlega viðurkennd þrátt fyrir háa skuldastöðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur