Laugardagur 17.07.2010 - 10:22 - 34 ummæli

ESB eða ekki ESB?

Þetta er hin mikla spurning sem Íslendingar glíma við á þessum tímum.  En hvernig er best að nálgast hana?  Út frá hlutlausri og upplýstri umræðu eða tilfinningasemi og þjóðernisrembingi?

Ekki ætla ég að gera tæmandi úttekt á svona stóru máli í lítilli færslu enda væri það að æra óstöðugan.  Hins vegar langar mig að varpa fram annarri spurningu.  Hvar og hvernig ætlum við að fjármagna atvinnutækifæri fyrir næstu kynslóð?  Ætlum við að skila betra búi til þeirra sem taka við eða verður næsta kynslóð sú fyrsta í manna minnum sem tekur við verra búi en foreldrar þeirra?  Hvað á að standa undir lífskjörum hér á Íslandi 2050?  Ekki held ég að margir velti þessu fyrir sér enda er núverandi kynslóð Íslendinga ein sú eigingjarnasta og sjálfelskasta frá upphafi.  Allt snýst um núið og mig.

Á síðustu öld rifu ömmur og afar okkar þetta land upp úr einhverri mestu örbyrgð í Evrópu til velferðar og hagsældar.  Þetta var gert með erlendu fjármagni og íslenskri vinnusemi og menntun.

Núverandi kynslóð hefur veðsett arfleið forfeðra sinna, safnað skuldum sem aldrei verða borgaðar og vill nú helst hlaupa burt frá öllu saman og kenna útlendingum um allt.   Er þetta góður grunnur fyrir næstu kynslóð að byggja á?

Ef við borgum ekki okkar skuldir fáum við ekki ný lán eða fjármagn og verðum annars flokks þegnar í alþjóðasamfélaginu.  Ef við ætlum að borga okkar skuldir og teljast til siðmenntaðra þjóða er ekkert eftir til uppbyggingar.  Allur gjaldeyrir fer í skuldir og að halda uppi lágmarksvelferðarkerfi.  Hvar á næsta kynslóð þá að fá fjármagn til að skapa störf fyrir sig og sín börn?  Þetta er spurning sem fæstir vilja velta fyrir sér, hvað þá svara.

Erlendur gjaldmiðill verður að koma erlendis frá og hann er nauðsynlegur til að hér sé hægt að viðhalda og bæta lífskjör.  Ólíkt fyrrverandi kynslóðum mun sú næsta hafa mjög takmarkaða möguleika að taka lán á viðunandi vöxtum erlendis til uppbyggingar.  Eina leiðin er þá að fá fjárfesta erlendis frá.  En hvers vegna ættu þeir að hafa áhuga á Íslandi?  Þeir hafa 200 önnur lönd að velja úr, svo hvað er svona sérstætt við Ísland sem þeir gætu grætt á, því ekki koma þeir hingað í góðgerðarskyni.

Áhættan við að fjárfesta á Íslandi er mikil eins og kröfuhafar og erlendir bankar vita af eigin reynslu.  Hér er gríðarlega há rekstrar-, pólitísk- og lagaáhætta miðað við önnur OECD lönd.  Þetta þýðir að arðsemi af hugsanlegri fjárfestingu þarf að vera miklu hætti hér en annars staðar.  Minna lendir því í vasa Íslendinga og tækifærin verða færri.

Það er því bráðnauðsynlegt að lágmarka þessa áhættu.  En hvernig?  Það gerum við ekki einhliða, enda verða það erlendir fjárfestar sem á endanum meta hvað er ásættanleg áhætta og hvað ekki.

Séð með erlendum augum eiga Íslendingar þó eina augljósa leið sem mun lækka þessa áhættu og gera landi vænlegra til fjárfestingar.  Það er innganga inn í ESB.  EES eins og hrunið sannar gaf bara falska öryggiskennd.  Þetta þýðir ekki að inngang inn í EB sé nóg ein og sér, alls ekki.  Hins vegar er hún nauðsynlegt skilyrði fyrir auknu fjármagni en ekki nægjanlegt.  Hún er mikilvægur þáttur í að endurvekja traust á Íslandi sem fýsilegum fjárfestingarkosti og að koma Íslandi inn á ESB radarskjá fjárfesta.

Eins og staðan er í dag er það AGS og hin Norðurlöndin sem halda kerfinu hér gangandi og skaffa fjármagn.  Án þeirra væri ástandið hér skelfilegt.  En þetta er engin framtíðarlausn.  Og enn síður er það framtíðarlausn að senda AGS heim og segja bless við alþjóðasamfélagið og reyna að standa ein að uppbyggingu.  Sú uppbygging verður aldrei annað en klambur og tálsýn.

Hvernig ætlar meirihluti þjóðarinnar að skila betra búi í hendur sinna barna en tekið var við, án inngöngu í ESB?  Það er spurning sem næsta kynslóð ætti að fara að spyrja?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (34)

  • Geir Anders

    Andri þú skaust sjálfan þig í fótinn í fyrstu málsgrein – talaðir um hlutlausa og upplýsta umræðu fyrst og svo endarðu setninguna með því að segja „þjóðernisrembing“. Þar með þurfti ekki að lesa lengra um hlutlausa umræðu þina. Gangi þér vel að sannfæra aðra um að best sé fyrir íslendinga að bindast hrynjandi hluta efnahags heimsins.

  • Sigríður Guðm

    Besta leiðin er að koma af stað blómstrandi nýsköpun á Íslandi og skapa sjálf okkar eigin organic growth á fyrirtækjum sem eiga erindi með vöru sína í heimsþorpið – til þess þarf aðallega að virkja hugvitið og það þarf enga hjálp frá ESB til þess.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Geir,
    Þetta er sett fram sem spurning en ekki staðhæfing. Þakka samt innlitið. Annars var færslan ekki beint um ESB aðild heldur hvernig þeir sem ekki vilja ESB aðild ætla að skila búinu til næstu kynslóðar.

    Það er ekki nóg að vera á móti ESB en ekki með neinu sem raunverulegt hald er í? Útúrsnúningar eru engin framtíðarsýn.

    Hvort sem mönnum líkar betur eða verr búum við í kapítalísku hagkerfi sem keyrir á peningum. Hvaðan eiga þeir að koma í framtíðinni?

    ESB skaffar þá auðvita ekki en gæti gert aðgang að þeim auðveldari og kostnaðinn minni.

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Við erum aðeins smáríki með rúmlega 300þús íbúa og vestræna menningu. Við ættum að hafa mikla möguleika á frísamningum við mun fleiri lönd en ESB og eigum því ekki að fara þarna inn frekar en orðið er og bíða átekta og sjá til hvernig ESB þróast. Við höfum land sem er eiginlega bara einn stór flugvöllur og er mjög vel staðsett landfræðilega og við eigum (ennþá) offramboð af menntafólki. Við ættum að fækka verulega opinberum starfsmönnum og nýta þá ásamt öðru menntafólki til nýsköpunar og tækifæra í einkarekstrinum.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Sigríður,
    Það þarf peninga til að virkja hugvitið alveg eins og ömmur og afar okkar gerðu. ESB er ekki launs í sjálfu sér en er okkar besti lykill að fjármagni eins og staðan er í dag.

    Að halda fram að hægt sé að standa að uppbyggingu með íslenskum krónum sem við prentum sjálf er tálsýn. Ef það væri hægt gæti hvert heimili staðið undir sér með matadorpeningum sem eru upp í skáp á öðru hverju heimili.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Adda,
    Lönd eins og Noregur og Sviss geta leyft sér þann lúsux að bíða og sjá hvernig ESB þróast. Við erum í gjörgæslu AGS og algjörlega upp á hann og Norðurlöndin komin hvað varðar aðgang að gjaldeyri.

    Ég er ekki viss um að margir vildu bíða og sjá ef það þýddi bensínskömmtun og Cheerios aðeins um jólin.

  • Spurningin í lok færslunar er það sem skiptir máli, hitt eru meira og minna vangaveltur höfundar í bland við staðreyndir sem blasa við.

  • Andri Haraldsson

    Their islendingar sem hugsa um naestu kynslodir eru flytja til annarra landa med bornin sin.

    Raunhaeft langtima mat a stodunni er ad a Islandi verdi faerri infaeddir og eldri. Og erlent laglaunavinnuafl fyrir utgerd og storidju og sumarstorf tengd ferdathjonustu. Island tynir menningunni med heilaflotta og atgervisflotta tengdum turisma. Andstaeda thess sem thjodernissinnar vilja.

  • Mér finnst Cheerios ágætt (og Prins Pólo ásamt Ópali sem okkur hefur verið hótað líka.) Síðan á ég ekki bíl.

    Síðan eru lausnir AGS+Norðurlanda skrípaleikir. Ganga út á það að losna undan skuldum með því að taka á okkur meiri skuldir. Mjög gáfulegt.

    Hinsvegar tek ég undir sjónarmið höfundar að gjaldmiðilsmálin eru í ólestri. Krónan verður alltaf viðskiptahindrun, jafnvel við bestu aðstæður. Hún er viðskiptaleg áhætta í eðli sínu, þar sem hún hefur tilhneigingu til að falla í kreppum (eða ætti maður að segja hrynja?)

    Fyrir þessa áhættu vilja fjárfestar umbun og hingað til hefur ekki verið hægt að bjóða upp á aðra umbun en okurvexti fyrir heimili og atvinnulíf.

  • stefán benediktsson

    Það sem reyndist nú best í „uppbyggingunni“ á fyrri hluta aldarinnar var að borga fólki lítil laun. Eftir stríð og allt til vorra daga var notuð sú aðferð að auka verðbólgu til jafns við launahækkanir = lítil laun. Pottþétt leið fyrir „landeigendur“ allra tíma.

  • Björn Kristinsson

    Andri, hingað til hefur ekki enn komið fram hvers vegna við eigum að ganga í ESB. Er það aðeins út frá fjármálahliðinni ? Umræðan undanfarið hefur allt of mikið verið út frá þeirri hlið.

    Þú veist jafn vel og ég að fjármálahliðin ein og sér tryggir ekki afkomu þjóðar og velsæld. Hún er ekki einu sinni forsendan. Það eru aðrir og mikilvægari hlutir sem mynda þann grunn.

    Alls staðar þar sem menn hafa reynt að „hressa“ upp á hagkerfi með „lausnum“ hefur það ekki dugað til. Menn flytja frá minni kjörnum í stærri og það er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Frá smærri bæjarfélögum til stærri og frá minni fylkjum til þeirra fjölmennari.

    Inngangi í ESB mun ekki breyta því sé það ferli í gangi. Horfið á löndin sem eru þegar í ESB, horfið á ákveðin fylki í BNA. Alls staðar flytur fólk í til miðkjarnans þar sem því telur að möguleikar þess séu meiri.

    Andri, það verður að hefja ESB umræðuna á annað plan. Ekki tengja hana aðeins fjármálahliðinni.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Nafni,

    Það sem þú skrifar er nokkuð sem ég setti fram í bloggfærslum rétt eftir hrun.
    Það var sú framtíðarsýn að landið yrði að útgerðarstöð með stóriðju og ferðabransa á sumrin. Eins konar útkjálkaeyja í líkingu við Svalbarða bara stærri. Hingað kæmu ferðamenn og farandverkamenn en infæddir færu úr landi.

    Þetta kalla ég hina „default“ framtíðarstefnu. Ef ekkert er gert og allt kjakkar í sama farinu lendum við á þessum stað. Ekki strax, en eftir 50-100 ár verðum við komin langleiðin þangað. Nýfundnaland er annað dæmi.

    Í raun er saga Nýfundnalands mjög athyglisverð. Þeir áttu ekki val um að ganga inn í ríkjasamband fullvalda ríkja. Þeir reyndu í yfir 15 ár að halda sjálfstæði sínu eftir hrunið í kreppunni miklu en gáfust að lokum upp og völdu að ganga inn í Kanada. Þeir voru að missa heila kynslóð til Kanada og Bandaríkjanna og mörgum þótti skömminni skárra að reyna að halda í börnin sín með inngöngu í Kanada en að missa þau til annarra landa.

    Annað dæmi eru Cook eyjur í Kyrahafi sem eru nú undir verndarvæng Nýja Sjálands eftir að hafa lent í skuldavanda um 1990.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Björn,
    Alveg rétt. Ef þú lest athugasemd mína hér að ofan má draga þá ályktun að innganga inn í ESB, samband fullvalda ríkja sé besta leið okkar til að varðveita menningu okkar og sjálfstæði.

    Hvorki Nýfundnaland eða Cook eyjur höfðu þetta val og misstu sjálfstæði sitt á endanum.

    Þetta er annars efni í aðra færslu.

  • Sigríður Guðm

    Andri – þú er greinilega alin upp á einhverjum McKinseyisma, sem er langt frá þeim raunveruleika sem hlutirnir gerast í litlu smáríki eins og hér. Ég hef verið uþb 20 ár að vinna sem raðfrumkvöðull á skerinu og annars staðar, og hef því reynslu frá fyrstu hendi hvernig fyrirtæki byggjast upp hér og verðmæti verða til. Vandamálin snúast klárlega ekki að því hvort að við höfum aðgengi að fjármagni – fjármagn kemur alltaf ef að hlutirnir eru rétt gerðir. Vandamálin snúast um að við erum á petite markaði og sem slíkur er því erfitt að byggja upp fyrirtækið á fyrstu skrefunum, því að „home market“ er gríðarlega mikilvægur í fyrstu skrefunum. Hinsvegar er hægt að hanna vörur sem fitta fyrir markaðinn „heimsþorpið“ frá day one. Besta dæmið sem flestir benda á er auðvitað CCP – og það er aragrúi af sprotum að detta inn þessa dagana sem að taka mið af þeim viðskiptalíkönum og leiðum sem færar eru við að byggja upp nýtt alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki á Íslandi. Í nær öllum sprotafyrirtækjum sem ég hef komið nálægt er ESB meira aðhlátursefni frekar en annað – hverjum dettur í hug að eyða tíma og peningum í að vinna að engu öðru en að búa til umsóknir – flestir eru löngu búnir að átta sig á því að það er hægt að búa til eitt stykki vöru sem fer í að búa til umsókn í þetta bákn þarna úti. Þannig eitthvað sem snýr að því að ná í fjármagn til að koma af stað hlutunum hérna er bara bannorð í flestum fyrirtækjum. Þetta er in general staða sprota / nýsköpunarfyrirtækja og ESB breytir þarna nákvæmlega engu um – meira established fyrirtæki í established greinum eins og orku / fiskvinnslu / flugiðnaði osfrv er ekki vaxtarbroddurinn sem skiptir máli. Þau halda áfram að reka sig og fá fjármagn ef þau standa sig vel. Mér sýnist nú í dag frekar verið að reyna að stoppa að fjármagn fari í þau heldur en hitt – allavega hjá þessari vinstri stjórn sem er að kollríða öllu framtaki á skerinu. Fyrsta skref er því að koma henni frá þannig að það sé hægt að fara að standa að einhverri uppbyggingu af viti hér. AÐ eyða síðan mestum tímanum í eitthvað ESB blaður er bara tímaeyðsla og tekur tíman frá því þar sem fókusinn ætti að vera – uppbyggingunni.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Sigríður,
    Eins og ég segi í færslunni er það ekki ESB sem kemur með peningana, heldur er ESB sá gæðastimpill sem aðrir fjárfestar gera kröfur um.

    T.d. eru margir bandarískir fjárfestar sem aðeins fjárfesta innan ESB, vegna þess að þeir vita að hverju þeir ganga og kannast við regluverkið.

    ESB aðild er þannið nauðsynlegt skilyrði fyrir að komast á radarskjá fjárfesta en ekki nægjanlegt. Það er málið.

    CPP er gott dæmi. Í dag væri nær ómögulegt að koma svoleiðis hugmynd af stað nema með erlendu fjármagni. Líklegast væri að fjárfestar gerðu nú kröfu um að fyrirtækið væri skrásett utan Íslands.

    Það sem ekki má gleymast er að þó hugmyndin sé íslensk er mjög líklegt að útfærslan og fjármögnun verði ódýrari erlendis. Þannig er hætta á að við missum frumkvöðla úr landi.

    Aðeins með fjárfestingu í orkugeiranum verður lífskjörum viðhaldið hér. Þar höfum við sérstöðu með mikla endurnýjanlega orku sem er auðseljanleg.

    Þetta snýst ekki bara um að fá erlent fjármagn heldur fjármagn á sem bestu kjörum. Þar skiptir ESB aðild máli.

  • Valur B (áður Valsól)

    Sammála því að ESB andstæðingar verða að svara því hvernig eigi að halda á peningamálum þjóðarinnar án þess að ganga í ESB. Það þýðir ekki bara að þjóðrembast og æpa einhver slagorð. Bullið sem maður hefur séð er með hreinum ólíkindum og mætti halda að allar þær þjóðir sem gengið hafa í ESB á undanförnum árum hafi gert það af óvitaskap og síðan hafi þær afhent allar sínar auðlindir til einhvers leynilegs aðila innan sambandsins. Heldur fólk í alvöru að þegar stjórnmálamenn í Noregi voru að berjast fyrir aðild að þeir hafi haft það á planinu að afhenda olíuauðlind sína til ESB? Ruglið og þvælan er ótrúleg.

  • Andri Haraldsson

    Ég veit ekki hvað svarið er fyrir Ísland varðandi inngöngu í ESB. En ég held að hrunið hafi sett spurningarnar í forgrunn:

    1. Er raunhæft að vera landafræðilega einangrað örríki með tiltölulega einhæfa (fáhæfa) atvinnustarfsemi?
    2. Hvað er það sem íslendingar vilja halda í af sinni sérstöðu? Tungumálið? Landlæga kæruleysið og sinnuleysið? Hvað sem það er, þá kostar sérstaða ákveðnar fórnir. Hvaða leiðir eru raunhæfar í því?
    3. Hvernig getur Ísland nýtt betur þau gífurlegu auðævi sem landið býr við. Það er engin spurning hvort heldur er í einka eða ríkisrekstri þá er mikil sóun á Íslandi.

    Að lokum, og með fyllstu virðingu fyrir Sigríði Guðmnds. hér fyrir ofan, þá er hennar hugsunarháttur akkúrat sá þröskuldur sem íslendingar falla alltaf um. Það er ekki nægjanlegt að stökkva bara í einhverja törn og vinna eins og brjálaður og þá reddast allt. Það gat virkað á einhverjum tíma í sögunni, en slík hegðun er ekki traustvekjandi í augum þeirra sem ekki þekkja til.

    Íslendingar eru alla jafna vinnuþjarkar, hugmyndaríkir, útsjónarsamir og fljótir að tileinka sér nýjungar. En á móti kemur að þeir eru of oft hrokafullir, þröngsýnir, skammsýnir, reynslulitlir, sjálfumglaðir, illa fjármagnaðir og óvanir að eiga við þá bestu af þeim bestu í nokkrum hlut.

    Sem þjóð þurfum við að breyta einhverju, því að það neikvæða í þessari upptalningu hefur sýnt sig sem sterkara en það jákvæða. ESB er ein leið, en enginn hefur bent á aðrar raunhæfar leiðir.

  • Það virðist vera ákaflega erfitt fyrir Íslendinga að horfa inn á við. Við erum oft svo hrokafull, svo sannfærð um að við getum gert hlutina betur en aðrir. Ég er ekki svo viss um að við eigum svo margt sameiginlegt með forverum okkar. Fólk var held ég mun duglegra og harðara af sér áður fyrr. Við ættum heldur ekki að gleyma að hefði ekki verið fyrir Marshall aðstoðina, þá værum við kannski enn bláfátæk fiskveiðiþjóð. Nei, við þurfum svo sannarlega að láta renna af okkur. Við munum ekki komast út úr þessu með þjóðrembuna að vopni.

  • Sigríður Guðm
    Hvaðan úr Breiðdalnum ert þú eiginlega. Eigum við ekki bara að óska okkur að næsta Coke eða Microsoft, Nokia eða Ericson verði Íslenskt. Kannski bara úr Breiðdalnum ?

    Hvað hefur þú svo haft í ábata af allri þinni frumkvöðla starfsemi Sigríður ? Ef öll þjóðin væri í sama bransa og þú þá máttu bóka að allir væru mjög vongóðir en vongott fólk étur ekki vonina. Vonin skapar ekki fjármagn til að byggja vegi, hús eða hvað annað.

    Og hver segir að nýsköpun sé vonlaus ef við erum í ESB. Er Ericson ekki Sænskt og Nokia Finnskt ?

    Hvað getur Ísland ekki gert innan ESB sem það getur gert utan ESB ? Þú talar um samninga við risa eins og Kína. Ok. Kínverjar geta s.s. ekki gert samninga við beint við önnur ríki mun nær markaðnum og skrúfað okkur út á einum degi ? Ég minni bara á að Evrópa er líka mjög háð Kína.

    Í stuttu máli sagt Sigríður Guðm. Þá viltu taka risavaxna áhættu til að halda landinu meðal vestrænna ríkja í efnhagaslegum skilningi , frekar en að fara öruggu leiðina og ganga í ESB (losna svo við krónuna, verðtrygginguna og alla peningastjórnina) og enda með lífskjör sem verða sambærileg við önnur Norðurlönd t.d. Danmörku og Svíþjóð.

    Síðan hvenær borgaði sig fyrir smáríki að einangra sig ?

  • Sigríður Guðm

    Iceviking – hver er að tala um að það þurfi að byggja hér upp næsta Coke eða Nokia – við erum lítil 330.000 manna þjóð og það þarf ca 20 góða sprota til að ná svipuðum árangri og CCP og gjaldeyristekjurnar verða svipaðar og allur sjávarútvegurinn. Gerirðu þér grein fyrir því. Til að skapa 20 góða sprota þarf að fjárfesta í ca 200. Ég er sjálf að vinna í nýju átaki sem ætti að koma þessu málum á góðan skrið. Nú þegar komin með yfir hálfan milljarð IKR sem mun verða nýtt í þessa hluti á Islandi á næsta ári. Það er í samstarfi við erlenda fjárfesta sem vilja koma með fjármagn til landsins í stórum stíl – eru búnir að gefast upp á þessum stóru efnahagsblokkum sem eru allar meira og minna sökkvandi – þegar horft er lengra en græna grasið.

    Andri – ég veit eiginlega ekki hvaða gæðastimpill það er sem ESB hefur lengur. Eg var að tala við hedgefund manager fyrir helgi í Seattle og helsta áhyggjuefni hans var Evrópa og Euro. Hann talaði að allar þessar stjórþjóðir væru eins og sökkvandi skip – og að þær þjóðir sem væru best komnar í dag, væru þær sem væru litlar og gætu hreyft sig með nógu miklum hraða til að allt færi ekki í voða. Um það snýst þetta að setja retta stefnu strax en fara ekki að eyða orkunni í sökkvandi efnahagsblokkir eins og við erum að gera. Og þá fannst honum Ísland mjög spennandi. Áttum okkur á því að flestir eru að reyna að flýgja EURO – veit ekki betur en stærsti hluti þjóðverja vilji gamla Markið sitt aftur – hvað segir það þér um þennan gamaldags hugsunarhátt að ESB sé einhver gæðastimpill. Þetta kerfi er að hrynja innanfrá. Síðan snýst vandamálið aðallega að því sem kallað er pólitísk áhætta en ekki gjaldmiðil – flestir hafa áhyggur af þessari vinstri stjórn og hvað hun mun gera. Allir halda að sér höndunum vegna þess. Það snýst ekki um gæðastimpil frá ESB.

    Það er ekkert mál að blindast af einhverju grænu grasi hinum megin við fjöllin og það muni redda öllu – á meðan er allt að brenna hér. Það þarf að hefja uppbyggingu strax og ná áttum. Verðmætasköpun mun alltaf gerst hér organically það er allaveg ljóst, og það er meira en nog fjármagn til á Íslandi til að koma því það langt að hægt sé síðan að ná inn erlendu fjármagni á seinni stigum – ef þess þarf þá.

    Þú ert með ofurtrú á orkugeiranum – ásamt því að það er sú grein sem ég hef engar áhyggur af – hún plummar sér og nóg af þekkingu og tækifærum þar. Þar er ekki flöskuhálsinn – það þarf að fókusera stíft á flöskuhálsana.

  • Sigríður Guðm

    „CPP er gott dæmi. Í dag væri nær ómögulegt að koma svoleiðis hugmynd af stað nema með erlendu fjármagni. Líklegast væri að fjárfestar gerðu nú kröfu um að fyrirtækið væri skrásett utan Íslands.“

    Veistu eitthvað um hvernig CCP myndaðist ? Kom að því erlent fjármagn á fyrstu 10 árunum eða svo? Ekki króna. Það var ekki fyrr en þeir voru orðnir sigurvegarar sem bjöggi og David@general catalyst komu inn. Ef það kæmi krafa um að vera skrásett utan Íslands í dag væri það vegna þess að það er vinstri stjórn á Íslandi í dag.

  • Sigríður Guðm

    „Aðeins með fjárfestingu í orkugeiranum verður lífskjörum viðhaldið hér. Þar höfum við sérstöðu með mikla endurnýjanlega orku sem er auðseljanleg.“

    Ef þetta er rétt fullyrðing – er eitthvað að stoppa það annað en að hér er vinstri stjórn sem að heldur öllu botnfrosnu. Talaðu við einhverja í atvinnulífinu og þú færð alltaf sömu svörin – allstaðar. Hinsvegar er mikið betri fjárfesting til framtíðar að halda íslenskri náttúru

  • Sigríður Guðm

    „Þetta snýst ekki bara um að fá erlent fjármagn heldur fjármagn á sem bestu kjörum. Þar skiptir ESB aðild máli.“

    Á Íslandi eru bara SME – þú hugsar eins og McKinsay raðgjafi en þeir eiga venjulega bara við stærri fyrirtæki. Þegar þú ert fyrr inn í ferlinum þá skiptir þetta mjög litlu máli hlutfallslega miðað við allt hitt – þegar þú ert orðið stórfyrirtæki já þá skipta þessir hlutir mjög miklu – en það er ekki Ísland. Í dag þarf aðallega nýsköpun til að koma hlutum af stað aftur og þá mun ESB aðild engu skipta í því samhengi.

  • Uni Gíslason

    Sigríður Guðm er dugleg að lýsa því hvað hausinn hefur fagurt hár en sleppir alveg að minnast á að búið er að skilja höfuðið frá búknum.

    Nú þegar komin með yfir hálfan milljarð IKR sem mun verða nýtt í þessa hluti á Islandi á næsta ári.

    Það er sætt en það þarf (skv. þér) 5 milljarða IKR

    Til að skapa 20 góða sprota þarf að fjárfesta í ca 200

    Sprotafyrirtæki eru fín, en þau þurfa að geta vaxið. Öll f.v. sprotafyrirtækin sem þú talar um (t.a.m. CCP) kalla á ESB aðild til að geta vaxið.

    Eg var að tala við hedgefund manager fyrir helgi í Seattle og helsta áhyggjuefni hans var Evrópa og Euro.

    Hann var greinilega ekki að spá mikið í ISK ef þetta voru hans helstu áhyggjuefni.

    Annars þekki ég gæja sem er hedgefund magager í London sem hefur gríðarlegar áhyggjur af USD og annan þekki ég í Kína sem hefur gríðarlegar áhyggjur af GBP.

    Merkilegt, ekki satt? Við skulum taka ákvarðanir út frá þessum upplýsingum.

    og að þær þjóðir sem væru best komnar í dag, væru þær sem væru litlar og gætu hreyft sig með nógu miklum hraða til að allt færi ekki í voða.

    Skiptir nákvæmlega engu máli þegar umrædd ‘lítil og hreyfanleg’ þjóð er 100% upp á ‘stóru og stirðu’ þjóðirnar komin.

    Síðast raunverulega heimskreppa fór illa með Ísland, þrátt fyrir smæð og hreyfanleika, *vegna* þess að þegar stóru þjóðirnar hætta að kaupa af smáu og hreyfanlegu þjóðunum.

    Þetta tal hljómar eins og alger steypa. Næst kemurðu ‘synergy’ einhvernveginn inn! Jeminn.

    veit ekki betur en stærsti hluti þjóðverja vilji gamla Markið sitt aftur

    Vá ok, þú ert Heimssýnar-‘meðlimur’. Ég veit ekki betur en að það sé armur xD sem er skreyttur einstaka nasjónalista.

    Til hamingju með það. Láttu einhvern sem nennir að hlusta á þig vita þegar Þýskaland segir upp Evrunni. Þangað til er best að halda svona pælingum fyrir sjálfa þig.

    Í dag þarf aðallega nýsköpun til að koma hlutum af stað aftur og þá mun ESB aðild engu skipta í því samhengi.

    Að koma hlutunum af stað er mikilvægt sama hvað. ESB kemur því nákvæmlega ekkert við. Að koma hlutum af stað er alltaf hægt, en kostnaðurinn er mismikill og framtíðin er mismunandi.

    ESB er fyrir framtíðina. Það er leið, jarðvegur og umhverfi.

    Gangi þér vel í nýsköpun með unnar fiskafurðir á Íslandi án ESB. Bæ ðe vei.

  • Sigríður Guðm

    Uni – auðvitað vilt þú sem lögfræðingur fá ESB, verður nóg að gera í einhverri búreókrötu og möppum.

    „Sprotafyrirtæki eru fín, en þau þurfa að geta vaxið. Öll f.v. sprotafyrirtækin sem þú talar um (t.a.m. CCP) kalla á ESB aðild til að geta vaxið.“ – halló er ekki í lagi Uni – þú ættir nú að hafa fengið allavega lágmarksþekkingu á viðskiptum í lagfræðinámi þínu og ekki exposa fávisku þína á þessum málum opinberlega. Þurfti ESB aðild til að fá General Catalyst inn í fyrirtækið? Fyrstu 10 árin, þegar mesta verðmætasköpunin er að gerast, eru algjörlega fóðruð af íslensku fjármagni t.d. Ísl Hugbúnaðarsjóðnum. Það er þarna sem lang mikilvægasta vaxtarskeiðið gerist. Síðan er orðinn til gullkálfur sem getur í raun vaxið sjálfur ef þeir vilja. Auðvitað geta þeir bara selt hann og exitera og þa kemur innspýting inn í hagkerfið – og það er gott.

    „Það er sætt en það þarf (skv. þér) 5 milljarða IKR“ – ég var bara að gefa dæmi um að fjármagn er að streyma inn í landið, jafnvel þó að vinstri stjórnin vilji auðvitað helst ekkert gera, til að sannfæra alla um að allt sé að fara til fjandans – nema við fáum græna heyið í Brussel. Hér er nú þegar fjandans nóg af kapitali í landinu hjá lífeyrissjóðum sem leitar að leiðum til að avaxtast – en auðvitað halda allir að sér hendinni meðan það er vinstri stjórn sem vil endilega ýta undir að annað hrun gerist hér. Þú kvartar auðvitað ekki sem lögfræðingur – enda er það líklega eina stéttin sem græðir á þessu öllu, jafnvel þó að sú stétt hafi gerst stærstu mistök í manna minnum á Íslandi.

    „Skiptir nákvæmlega engu máli þegar umrædd ‘lítil og hreyfanleg’ þjóð er 100% upp á ’stóru og stirðu’ þjóðirnar komin.“ – það lentu allar þjóðir heimskreppunni, og það er margt sem hægt væri að gera þannig að við værum „first-in-first-out“ ef það væri farið af stað með atvinnulífið aftur. Þær leiðir sem stóru þjóðirnar fóru, á mjög líklega eftir að koma þeim í vanda síðar, og þú mátt trúa hverju sem er, en prufaðu að greina stöðu ríkisfjármala hja þeim og þú serð hvert þetta er allt að stefna t.d. USA og ekki lítur ESB út í dag. Þú veist að það er raunveruleikinn en Samspillingin heldur afram að slá hausnum í steininn.

    „veit ekki betur en stærsti hluti þjóðverja vilji gamla Markið sitt aftur“ – var þetta eitthvað sárt fyrir þig að lesa – eitthvað sem að þú veist að er satt og sýnir hvaða stöðu ESB er í – að hrynja innanfrá. Svara þessu bara með einhverju rugli eins og annað frá þér. Helt að rökfærsla væri eitt af því sem að löffar ættu að kunna.

    „Að koma hlutunum af stað er mikilvægt sama hvað. ESB kemur því nákvæmlega ekkert við. Að koma hlutum af stað er alltaf hægt, en kostnaðurinn er mismikill og framtíðin er mismunandi.“ – það er rétt hjá þér að þetta snýst um að koma hlutunum af stað og það kemur ESB barasta ekkert við eins og þú segir. Ef þú hefðir tekið industrial economic í löffa kúrsunum, myndirðu skilja að það sem þetta mun snúast um í framtíðinni er nýsköpun og möguleiki hagkerfa að umbreyta sínum eigin atvinnuvegum – þegar hagkerfi hafa krónu eins og við höfum þá kikkar inn gjaldeyrisskapandi tekjur til að bjarga málum þegar svona gerist – í stóru hagkerfinunum er meiri stöðuleiki, en á móti þá skapast hærra atvinnuleysisstig vegna þess að kerfin eru svifaseinni. Til langs tíma þá kemur þetta á mjög svipaðan stað niður. Og þá vil ég frekar fá bara að vera Íslendingur sem er ekki bara stýrt af misgáfuðum möppulöffum í Brussel.

  • Tek ofan hattin fyrir Sigríði Guðm. fyrir að reyna að koma vitinu fyrir þá sem hvorki vilja vita né sjá. Ótrúlegt þetta óðagot ESB-sinna sem hafa nákvæmlega ekkert vit á því sem þeir eru að gjamma um, en hreyta svo skít og ónotum í þá sem augljóslega tala af viti og þekkingu.

    Hver er til dæmis rökstuðningurinn fyrir þessari fáránlegu fullyrðingu pistlahöfundar? „Hér er gríðarlega há rekstrar-, pólitísk- og lagaáhætta miðað við önnur OECD lönd“ Hver er þessi gríðarlega háa rekstrarlega áhætta? Pólitíska áhætta? Lagaáhætta?

    Hver er þessi „gæðastimpill“ sem t.d. Portúgal, Grikkland, Eistland og Ungverjaland hafa? Staqnda þessi lönd frammi fyrir því að þurfa ekki annað en að smella fingrum til að erlendir fjárfestar kaffæri þau í fjármagni?

    Staðreyndin er sú að ESB-sinnar héldu að þeir hefðu meðtekið stórasannleik, en þegar þeir eru krafnir svara um HVERS VEGNA Á ÍSLAND AÐ GANGA Í ESB, þá hefur þetta lið ekkert fram að færa annað en innantómt kjaftæði og bull.

  • Lítum okkur nær. Hvers vegna gengu Danir, Finnar og Svíar inn í ESB? Er allt í kaldakoli þar?

    „Kjaftæði og bull“ er klassískur málflutnigur þeirra sem vilja ekki sjá ESB. Svo er alltaf reynt að koma með persónulegar árásir á pistlahöfun, hnýta í starfsreynslu eða menntu. Allt gert til að finna veikleika í stað þess að vera með málefnanlega skrif. Þetta er klassísk Karl Rove aðferð sem George Bush og repúblíkanar í Bandaríkjunum aðhyllast mjög.

    Þótt Grikkland sé í vondum málu eru það ekki ESB að kenna frekar en hrunið hér. ESB er nefnilega samband fullvalda ríkja. Það verður að gera þá kröfu að þeim sé stjórnað af skynsemi og ráðdeild, líkt og Þýskaland, Hollandi, Svíþjóð og Finnlandi. Þetta eru allt ESB lönd.

    Grikkir geta enn fjármagnað sig á erlendum mörkuðum þó það sé hræðilega dýrt. Það er meira en Íslendingar geta sem eru undir verndarvæng AGS og hinna Norðurlandanna.

    Halda menn virkilega að Ísland með AGS en utan ESB hafi meira sjálfstæði en Danmörk innan ESB með eigin krónu og fullt efnahagslegt sjálfstæði?

    Það er rökrétt að álykta að þeir sem telja að sjálfstæði Íslands sé ógnað með aðildarviðræðum við ESB telji einnig að AGS sé ógn við sjálfstæði landsins.

    Af hverju vilja lönd komast inn í ESB en reyna í lengstu lög að komast hjá AGS?

    Hvernig ætla ESB andstæðingar að leysa gjaldmiðlamálin og fjármögnunina utan AGS og ESB? Af hverju er ekki hægt að fá þetta rætt?

    Svo er sjálfsagt að ræða galla ESB sem eru margir. Auðvita væri best að við þyrftum ekki að íhuga ESB aðild. Lönd eins og Noregur og Sviss geta farið sínar eigin leiðir vegna þess að bæði löndin eru efnahagslega sjálfstæð og vel stjórnað.

    Hvernig ætla ESB andstæðingar að breyta Íslandi í Noreg eða Sviss? Eru þeir með 5 ára áætlun? Gaman væri að sjá hana.

  • Nokkur orð um áhættu á Íslandi sé frá erlendum sjónarhóli:

    Rekstaráhætta: Íslensk fjármálastjórnun er gríðarlega áhættusækin, OR er gott dæmi. Gömlu bankarnir féllu allir, sumir virðast hafa verið rændir innan frá, klassískt dæmi um hæstu gerð af restraráhættu.

    Pólitísk áhætta. Neyðarlögin, fyrning kvóta, hringlandiháttur sjórnmálamanna, síbreytilegt skattakerfi.

    Lagaáhætta. Íslendingar þekkja ekki eigin lög, gengislánin sem viðgengust í 10 ár ólöglega.

    Ef menn kalla þetta eðlilega áhættu og fullyrðingu um að svona sé þetta ekki almennt í öðrum OECD löndum „fáránlega“ þá er framtíð næstu kynslóðar á Íslandi ekki björt.

  • Sigríður Guðm

    „„Kjaftæði og bull“ er klassískur málflutnigur þeirra sem vilja ekki sjá ESB. Svo er alltaf reynt að koma með persónulegar árásir á pistlahöfun, hnýta í starfsreynslu eða menntu. Allt gert til að finna veikleika í stað þess að vera með málefnanlega skrif. Þetta er klassísk Karl Rove aðferð sem George Bush og repúblíkanar í Bandaríkjunum aðhyllast mjög.“

    Andri – athyglisverð fullyrðing og lýsir því þegar viðkomandi sér bara aðra hliðina. Varstu nokkuð búin að lesa commentin hér að ofan hjá t.d. Una „Sigríður Guðm er dugleg að lýsa því hvað hausinn hefur fagurt hár en sleppir alveg að minnast á að búið er að skilja höfuðið frá búknum.“ Serlega málefnalegt ekki satt hjá ESB-sinna. „Vá ok, þú ert Heimssýnar-’meðlimur’. Ég veit ekki betur en að það sé armur xD sem er skreyttur einstaka nasjónalista.“ – serlega málefnalegur flutningur ekki satt. Hjá þér sjálfum “ Út frá hlutlausri og upplýstri umræðu eða tilfinningasemi og þjóðernisrembingi?“ – sérlega málefnalega og hlutlaust sett fram. Sjálfstæðisbarátta / sjálfstæðissinar væri kannski betri orð í staðin fyrir að leiða umræðuna beint í skotgrafirnar, eins og þú ert örugglega mótfallinn. Svona getum við haldið áfram með málefnaflutning ESB sinna bara hér á þessari einu bloggfærslu t.d. „Þetta tal hljómar eins og alger steypa.“ Þannig við skulum bara skoða þetta út frá báðum hliðum hlutlaust en ekki eins og einhver veðhlaupahestur.

    Það sem er athyglisvert við skrif ESB-sinna í dag er að flestir fara út í að útskýra að þessi ríki innan ESB séu jú fullvalda ríki og hvert og eitt ráði sínum málum ein – það er að segja þetta eru rökin þegar farið er að tala um það sem er að éta sambandið að innan, eins og vandamál Grikkja, Spánn eru að gera. Þá allt í einu eru allir orðnir sjálfstæð og standa ein fyrir sínu. Málið er einfalt það þarf ekkert svona samband allra ríkja til að geta rekið ríki eitt og sér. Auðvitað glímum við við okkar vandamál í dag, eins og flestir eftir hrun, en fókusinn á að vera á að leysa þau – en ekki halda að þau leysist sjálfkrafa með einhverju ESB. Það gera þau einmitt ekki, eins og sést hjá Grikklandi, Spáni osfrv.

    Annað sem ég vil benda á er í sambandi við íslenska rekstraráhættu. Þú réttilega bendir á að íslensk fjármálastjórnun sé áhættusækin – og ég held að það sé nú ekki CFO-unu að kenna, þetta er einfaldlega staðreyndin með að reka fyrirtæki á Íslandi, þau þurfa að vera yfir meðallagi áhættusækin, einmitt vegna astæðna sem þau eru fædd inní. Vandamálið hjá stærri þjóðum er síðan akkúrat öfugt – of lítil áhættusækni in general. Eg get ekki séð að ESB breyti þar nokkru um – þetta er eðli hverrar þjóðar og tekur tillit til t.d. að við breytum því aldrei að við erum lítið eyríki, en ekk t.d. Danmörk sem er tengt við Þýskaland.

    Þú talar um AGS eins og ESB – AGS er tímabundið dæmi, en ESB er eitthvað sem við losnum aldrei við ef við förum þar inn. Þar er regin munur á. Vonandi tekst okkur að forða okkur frá því að við munum fara út í að byggja upp svipað bankakerfi eins og seinast – og þurfa síðan að leita að hjálp hja AGS. Við eigum ekki að þurfa þess og nú er mikilvægt að þessi kynslóð nái að „institutionalize-a“ það í kerfið þannig að ekki þurfi að hafa áhyggur af þessu aftur.

    Vandamálið er samt það að engin veit hvar næsta bóla myndast, eins og gerist alltaf með reglulegu millibili, þannig það er voðalega auðvelt að vera vitur eftir á og benda á að allir á Íslandi séu vonlausir (svona eins og allir hinir sem toku þátt í eignabólunni út um allan heim þá er það ekki?) – þetta er einfaldlega partur af því að vera í kapitalísku kerfi og setjum þá upp varnir gegn því – en reynum ekki að hlaupa undir pilsufaldinn hjá sambandi sem er að hruni komið sjálft.

  • Sigríður,
    Ég tek alveg undir með þér um persónulegar árásir og dylgjur. Því miður er þetta svo algengt að ég er löngu búinn að missa tökin á að leiðrétta þetta allt.

    Ég hef aldrei haldið fram að ESB sé einhver töfralausn. Best væri ef við þyrftum ekki að ganga þar inn en ég get ekki séð neinn annan veg út úr okkar ógöngum. Hvernig við ætlum að losna við AGS án þess að ganga inn í ESB veit ég ekki. Ef einhver getur sannfært mig um að við getum endurheimt okkar efnahagslega sjálfstæði án ESB aðilar er ég tilbúinn að hlusta.

  • Sigríður Guðm

    Eitt sem ég hef síðan tekið eftir – er að vandamálið með ESB, eða að „pólitísk“ áhætta er algjör ef við förum inn í það. Það mun sem sagt verða fundin einhver leið til undanþágu til að allt líti vel út á pappírunum og þjóðin samþykki. Síðan mun innan 5 ár eitthvað breytast og það er ekki hægt að hafa þessar undanþágur og allt það. ESB-sinnar auðvitað vilja ekki hugsa um svona vitleysu – þetta er bara órökstuddur þvættingur.

    En skoðum nú hvað er NÚ ÞEGAR byrjað að gerast í þessum ferli sem hafinn er. Því var logið að þjóðinni að ferlið sem væri verið að fara núna inn í ætti að vera „hlutlausar viðræður“ – en nú er komið í ljós að ESB hefur hafið markvissar óhlutlausað aðgerðir / atlögu við íslensk stjórnsýslukerfi in general. Að þessu var þjóðin aldrei spurð. Ásamt þessu er varið ómældu fjármagni í borgaðan áróður sem birtist út um allt. Þetta er svona dæmi um hidden agenda sem mun verða alsráðandi þar til ESB hefur haft fullan sigur innan 20 ára. Sem betur fer er ísl þjóðin meðvituð um þessar aðgerðir sem sýnir sig að það er 2/3 þjóðarinnar á móti aðild. Sem betur fer segi ég nú bara.

  • Sigríður Guðm

    Andri – ég tel mig vera búinn að finna lausn sem kemur okkur út úr þessum ógöngum, og já ég veit að þetta hljómar loftkennt – en ég get því miður ekki talað um það opinberlega enn. Þessi leið hefur aftur á móti fengið fyrsta „græna ljósið“ hjá ríkisstjórninni. Þessi leið mun fara inn í umræðuna 1Q, 2011, og verða nokkuð controversal, en mun ekki kosta okkur neitt nema smá stolts afsal – en mun hjálpa okkur úr út ógöngunum og ná fótum aftur. Og verða betri lausn en að fara inn í ESB. Þetta er leið sem hefur aldrei verið farin á byggðu bóli áður. Það þarf nefnilega ekki svo stórar aðgerðir þegar um er að ræða svona litla þjóð – um það snýst þetta. Challenge-ið er í raun eins og meðalstórt ráðgjafaverkefni hjá McKinsey:) Gaman að rökræða við þig smá hér – en nú þarf ég að halda áfram og láta ekki svona mál trufla mann. Ég mun aftur á móti fara á fullt aftur á öllum stöðum ef ég tel minnstar líkur á því að þjóðin muni samþykkja þetta – þetta er svona smá management-on-demand:) he he

  • Uni Gíslason

    Síðan er orðinn til gullkálfur sem getur í raun vaxið sjálfur ef þeir vilja.

    http://www.pressan.is/mpressanis/Lesa/ccp-ihugar-ad-flytja-ur-landi-vegna-kronunnar–esb-eina-leidin

    ég var bara að gefa dæmi um að fjármagn er að streyma inn í landið

    Og ég var að benda á að 0.5 milljarðar nægir fyrir 0.1 sprotafyrirtæki. Það er ekki nóg, en auðvitað vill enginn erlendur fjárfestir leggja fé í félag í landi þar sem ljóst er að gjaldeyrishöft munu vera um ókomna tíð.

    Það er burtkastað fé.

    Þú veist að það er raunveruleikinn en Samspillingin heldur afram að slá hausnum í steininn.

    Ég hef hvorki hugmynd né áhuga á því hvað xS er að gera, nema í almennum atriðum – en ekki er ég fylgismaður eða kjósandi þess flokks.

    Enda finnst fólk í öllum flokkum sem styður aðildaviðræður við ESB.

    Það sem ég var að benda á er að ef um raunverulega heimskreppu hefði verið að ræða, þá hefði það engu breytt að Ísland sé ‘smátt og hreyfanlegt’ í fjármálum.

    Ísland er 100% háð öðrum löndum, enda ekki hægt að gera út togarana þegar ekki fæst seldur fiskur fyrir olíu, ekki er hægt að rækta landið þegar ekki fæst seldur fiskur fyrir olíu og áburði, ekki er hægt að lifa á túrisma ef engir eru túristarnir etc.

    Dómsdagsspár um framtíð BNA eða ESB eru bara það: spár. Staða Íslands er staðreynd því hér varð raunverulegt hrun. 1929-style.

    Allir bankar og sparisjóðir hrundu.
    Öll fyrirtæki og einstaklingar fundu sig í miklu meiri skuldum en nokkurntíman var reiknað með.
    Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi stoppaði alveg.
    Sjóðirnir hrundu alveg.
    Skuldir landsins vegna krónubréfa var slík að gjaldeyrisvarasjóður dugði ekki til og nausynlegt varð að setja höft á gjaldeyri um ókomna tíð.

    Þetta var með öðrum orðum Hrun með stórum staf. Það kom ekki fyrir annarstaðar og það hefur ‘bjargað’ Íslandi hingað til. Fiskur selst ennþá, ferðamenn streyma ennþá til landsins etc.

    Íslendingar fá olíu á skip sín og landbúnaðartæki.

    var þetta eitthvað sárt fyrir þig að lesa – eitthvað sem að þú veist að er satt og sýnir hvaða stöðu ESB er í – að hrynja innanfrá.

    Svona svona, það er ekkert sárt að lesa áróður (þó hann sé pínu þreytandi, eins og mosquito sem er alltaf að sleppa) – Þjóðverjar hafa margir svona ‘Icesave’ áhyggjur vegna Evrunnar og Grikklands. Þeim finnst ekki rétt að styðja klúður Grikkja og eru smeykir við verðbólgu vegna þessa.

    Það er nú allt dramaið. Hins vegar er þetta bara ein könnun og í Bild Zeitung. Engar frekari upplýsingar um þessa könnun komu fram í Bild.

    EN varðandi s.k. ómálefnalega umræðu af minni hálfu:

    „Sigríður Guðm er dugleg að lýsa því hvað hausinn hefur fagurt hár en sleppir alveg að minnast á að búið er að skilja höfuðið frá búknum.“ Serlega málefnalegt ekki satt hjá ESB-sinna

    Hér var ég að tala um það hvernig þú lýsir ástandinu á Íslandi sem fullt af tækifærum, krónan bjargar málunum, Ísland er smátt og hreyfanlegt etc.

    En krónan er dauð sem gjaldmiðill. Þó þú farir með milljón krónur til NY getur þú ekki keypt svo mikið sem pylsu.

    Hagkerfi Íslands er smátt og hreyfanlegt, já.. en það er máttlaust og í sárum eftir Hrunið. Það hefur ekkert traust, hvorki innan lands né utan.

    Sem sagt, hausinn er kannski fagur, en þetta sem þú ert að lýsa átti við fyrir Hrun. Áður en höfuðið tók af.

    Vá ok, þú ert Heimssýnar-’meðlimur’. Ég veit ekki betur en að það sé armur xD sem er skreyttur einstaka nasjónalista.“ – serlega málefnalegur flutningur ekki satt. Hjá þér sjálfum “ Út frá hlutlausri og upplýstri umræðu eða tilfinningasemi og þjóðernisrembingi?“ – sérlega málefnalega og hlutlaust sett fram.

    Ég þekki f.v. meðlimi Heimssýnar sem mættu á aðalfund 2009 og skyndilega var salurinn fullur af Sjöllum – Kjartan Gunnarsson tók í höndina á viðkomandi og bauð þau velkomin.

    Viðkomandi fólk er alveg jafn mikið á móti ESB aðild og áður, en sögðu sig um leið úr Heimssýn, því Sjallarnir höfðu einfaldlega tekið yfir. Aulinn sem er formaður Heimssýnar er slíkur einfeldningur að hann sáir í akur íhaldsins með því að koma fram sem andlit Heimssýnar.

    En það er hans mál.

    „Þetta tal hljómar eins og alger steypa.“ Þannig við skulum bara skoða þetta út frá báðum hliðum hlutlaust en ekki eins og einhver veðhlaupahestur.

    Aha. Því ekki það.

    Gangi þér vel með nýsköpunina.

  • Maður gefur ekki upp fullveldi lands fyrir Evru, það væri galið . Og ekki neita að við værum að gefa upp fullveldið, því bandalagið er ekkert nema stækkandi stórríki og fer með æðsta vald aðildarlanda innan þess. Það kemur ekkert þrjósku við, Andri, að vilja ekki vera hluti af Evrópustórríkinu eða borga ólögvarið Icesave, sem þú hefur talað fyrir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur