Föstudagur 16.07.2010 - 08:36 - 14 ummæli

OR kyndir verðbólguna

Pólitísk óstjórn á OR verður landsmönnum öllum dýrkeypt.  Nú eftir borgarstjórnarkosningar og með nýjum meirihluta kemur allt í einu í ljós að hækka þarf taxta um 20% aðeins til að eiga fyrir skuldum í ár.  Og þetta er aðeins byrjunin.

Þar sem ekki var tekið á skuldavanda OR strax eftir hrun hafa hlutirnir aðeins versnað.  Lánskjörin eru verri en hjá Landsvirkjun og ríkinu og enginn vill nú lána OR.  Þetta mun skapa vítahring hækkandi taxta næsta áratuginn að hið minnsta.

Gefum okkur að lánamarkaðir opnist á næsta ári og OR geti farið að endurfjármagna sín lán.  Hvað þýðir það?  Gömlu lánin voru á gríðarlega hagstæðum kjörum og tekin þegar lánstraust Íslands var í hæstu hæðum.  Nú hefur það hrunið og það þýðir að vaxtakostnaðurinn á endurnýjuðum lánum mun margfaldast.  Meðalvextir á evrulánum OR í árslok 2009 samkvæmt árskýrslu var 1.30%.   Á síðustu mánuðum hafa vextir á 10 ára grískum ríkisskuldabréfum verið á milli 8-10%.  Á næstu fjórum árum þarf OR að borga eða endurfjármagna lán upp á 70 ma kr.  Hvaða vaxtakjör halda menn að OR fái á þessa endurfjármögnun og hvert á að sækja peningana til að borga þessa nýju vexti?

Það eru yfirgnæfandi líkur á að þessu verði velt yfir á neytendur í formi hærri taxta.  Það eru því allar líkur á að taxtar OR hækki langt yfir almennt neysluverð næsta áratuginn.  Hér hef ég auðvita ekki gert ráð fyrir hækkuðum orkusköttum en ef þeir bætast ofan á allt saman verður íslenskt heitt vatn lúxus í Reykjavík áður en langt um líður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

 • Hver er ábyrgð stjórnmálamanna sem gjörsamlega eyðileggja gullgæs Reykvíkinga ?
  Koma henni nánast á silfurfati í hendur kröfuhafa nema viðskiptavinir fyrirtækisins taki á sig fáránlega kjaraskerðingu, því enginn er að fara að hætta að kaupa vatn og rafmagn.

 • Þó að verðskrá OR fyrir heitt vatn hækki um 20% verður það samt ódýrara en t.d. á Akureyri, en þar er verð á rúmmetra 25% hærra en í Reykjavík og fast gjald á mælinn rúmlega 100% hærra (c.a. 19.000 kr á ári fyrir minnstu tenginguna).
  Svo má athuga það líka að í flestum tilfellum er vatnið heitara hjá notendum í Reykjavík.
  Í mínum huga er verið að draga svolítið úr lúxusnum sem Reykvíkingar hafa búið við, frekar en að heitt vatn verði lúxusvara sem finnist bara á betri heimilum.

  En ég get tekið heils hugar undir hugleiðingar þínar um stjórn OR.

 • Mörður Árnason

  Afar athyglisvert — og ógnvænlegt. Kannski er þá líka kominn til að athuga hvernig þessar skuldir mynduðust, og hvaða vit er í því að hætta fé almennings í stóriðjuævintýrin?

 • Haukur Kristinsson

  Jú, Mörður Árnason, endilega skipa nefnd og athuga málið.

  Segðu Degi vini þínum að Unnur G. Kristjánsdóttir sé laus og liðug.

 • Björn Kristinsson

  Mörður, þetta var fyrirséð fyrir löngu síðan. Þetta sýna einfaldlega ársreikningar fyrirtækisins. Andri bloggaði um þetta árið 2009.

  Bendi þér einnig á að skoða stöðu Landsvirkjunar. Þótt staðan þar sé örlítið skárri en hjá OR þá er vandinn þar gríðarlegur.

  Við skulum hafa eitt á hreinu. Þessi tvö fyrirtæki hafa ENGA fjárhagslega burði til að fara í framkvæmdir að NEINU RÁÐI Á NÆSTU ÁRUM; aðeins minniháttar verkefni rúmast innan efnahagsreikningsins.

  Eitt að lokum þegar verið bera saman verð á vatni og raforku miðað við nágrannalöndin þá þýðir ekkert að bjóða fólki upp á enn og aftur þann þreytta samanburð að raforkuverð sé nú hærra þar.

  1) Við borgum fyrir kalda vatni í gegnum fasteignagjöldin
  2) Meðallaun í nágrannalöndunum er tvöfald hærra en hér á landi. Kaupmáttu ráðstöfunartekna eftir skatta einnig (hér er bæði tekin inn skatthlutfalla sem og meðalskuldir fjöldskyldu – vextir lægra og um 30% vaxtatekna frádráttabærar frá skatti)
  3) Raforkuverð er sveiflukennt yfir árið í löndum eins og Noregi. Hátt yfir hávetrartímann, lægra á vorin og haustin og mjög lágt yfir sumarið maí til byrjun september. Hér á landi er það hins vegar föst krónutala yfir allt árið

  Sammála Andri eins og við höfum bloggað um áður. Almenningur mun borga hrunið beint (hærri skattar, lægri laun) og óbeint (hærri rekstrarkostnaður – matur, eldsneyti, föt,…)

 • Svartálfur

  Það verður að að skoða verðtrygginguna áður en ráðist er í næstu skattahækkanir og hækkanir á þjónustu almannaveitna. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að halda verðmæti fjármagns óbreyttu en sliga skuldara. Það er náttúrulega óþolandi að í hvert skipti sem opinber aðili hikstar þá hækki skuldbindingar almennings.

 • Svartálfur

  En í rauninni á OR sennilega engan kost skárri til lengri tíma en að hagræða í rekstri og hækka gjald fyrir þjónustuna.

 • Það átti að vera búið að hækka gjaldskrá OR fyrir löngu og í litlum skrefum. Nú kemur stórt högg sem fer beint út í verðlagið.

  Svo er spurningin hvað gerist ef endurfjármögnun klikkar hjá OR. Ef OR reynir að borga upp lán þarf gríðarlega taxtahækkun og á sama tíma mun krónan gefa eftir því mikil eftirspurn verður eftir gjaldeyri. Það verður tvöfalt högg fyrir landsmenn með ófyrirsjáanlegum verðbólguafleiðingum.

  Nei, staða OR er hrikaleg, og margt bendir til að á endanum lendi hún í greiðsluþroti.

  Magma málið er bara smá generalprufa miðað við greiðsluþrot OR og/eða LV.

  Ein leið sem ég skrifaði um á síðasta ári er hreinlega að láta OR fara í greiðsluþrot og í hendur kröfuhafa og síðan þjóðnýta hana að hætti Venesúela. Þar með héldist hún í „íslenskri“ eigu en orðsporshrunið erlendis fyrir íslensk stjórnvöld yrði hrikalegt að ekki sé talað um lífskjarhrun sem mun fylgja í kjölfarið þegar erlendir aðilar draga sig í hlé frá Íslandi.

  Hin leiðin er hreinlega að láta OR og LV í hendur kröfuhafa og ganga inn í EB. Þar með væri orkuframleiðslan komin í erlent eignarhald, nokkuð sem flestir Íslendinga mega ekki hugsa til. Orðspor og lífskjör myndu batna en við yrðum að fórna íslensku eignarhaldi.

  Um þetta mun framtíðarsýn Íslands snúast. Hverju erum við tilbúin að fórna? Er íslenskt eignarhald meira virði en orðspor og lífskjör? Það er margt sem bendir til að við getum ekki haldið í þetta allt þrennt eins og margir halda fram. Eitthvað verður að gefa eftir – en hvað?

 • Björn Kristinsson

  Sammála Andri. Skil ekki að stjórnvöld hafi ekki fyrir löngu skorið á milli eignarhalds á orku- og sjávarútvegsfyrirtækjum og eignarhaldi á auðlind.

  Eignarhaldið og nýtingarréttur á auðlind er eitt en varanlegt eignarhald á auðlind er annað. Þetta á að girða af með lögum. Til hvers er löggjafinn ef honum er fyrirmunað að skilja og framkvæma svo augljósa hluti ?

  Skiptir eignarhaldið máli ef við fáum gíðan arð af auðlindinni á móti ? Hingað til hafa landsmenn t.a.m. ekki verið að fá svo mikinn arð af auðlindum sínum hingað til !

  Það sem skiptir raunverulega máli er að Íslendingar hafi stjórn á nýtingu auðlinda sinni og stefnumótun á nýtingu þeirra þannig að þær verði sem sjálfbærastar bæði fyrir núverandi sem og komandi kynslóðir.

  Það sem ég óttast mest er að skuldsetning OR, LV og meirihluta sjávarútvegsfyrirtækja verði sé þannig að við séum þegar búin að missa bæði nýtingarréttin sem og eignarhaldið á auðlindunum. Það skiptir engu máli hér hvað stjórnmálamenn mása og blása, menn virðast almennt séð ekki átta sig á þeirri alvarlegu stöðu sem þessi fyrirtæki eru í. Skattahækkanir breyta þar engu. Þær lækna ekki þann vanda sem þessi fyrirtæki eru í – endurfjármögnun og vaxtakostnað næstu 10-20 ár.

 • Björn Kristinsson

  Í stuttu máli. Auðlindirnar verða að vera í íslenskri eign. Fyrirtækin geta síðan fengið nýtingarrétt í ákveðinn tíma gegn skattlagningu á nýtingarréttinum – hátt auðlindargjald !

  Hvert er vandamálið við að framkvæma þetta ?

  Ef við seljum hins vegar frá okkur auðlindarnar þá erum við hvað ? Leiguliðar í eigin landi !

 • Góð greining á OR. Það þarf að skipta þessu upp og láta okkur borga það sem okkur ber að borga fyrir heitt vatn. Lélega stjórnun við framkvæmdir, yfirmönnun, há laun og annað þarf að skera niður og kröfuhafar fái þær eignir sem þeir lánuðu í raun fyrir

 • Ef OR og LV gerðu upp í evrum væri staðan ekki eins ljót á pappírunum. Eignir og skuldir væru þá mæld í sömu mynt. Tekjurnar hefðu aftur á móti lækkað verulega mælt í evrum. Gjaldskráin hefur lækkað verulega mælt í evrum. OR stendur ekki undir þessari lækkun gjaldskrár mælt í þeim myntum sem lánin eru í. Hvenær hækkar verð og hvenær lækkar verð ?
  Það fer bara eftir því hvaða forsendur maður gefur sér við útreikninginn.
  Íslendingar segja að verðlag hafi hækkað á Íslendi en útlendingar að það hafi lækkað. Hvoru tveggja er rétt.

 • Bara sleppa því að borga þessar skuldir og segja Fuck You við helvítis erlendu kröfuhafana. Enaga þjóðnýtingu bara borga ekki og puntur. Sama með ríkið og LV.

  Hér þurfa allir að koma að að og standa saman gegn erlendum drullusokkum (drullusokkur = stafar í fjármálageiranum).

 • Mér finnst þetta mál styðja við þá skoðun mína að stjórnmálamenn eiga ekki að stjórna orkufyrirtækjum, eða örðrum fyrirtækjum, það býður bara upp á spillingu og rugl. Auðlyndir eiga svo að vera í almenningseigu þar sem nýtingaréttur er leigður út, sama hvort leiguaðillar séu frá útlöndum eða íslandi. Þá taka einkaaðillar áhættuna sem skattborgarar eru að taka í dag. Svo sé ég ekkert að því að fá erlent fjármagn inn í orkugeirann eða sjávarútveginn, bara ef auðlindirnar eru í almenningseigu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur