Mánudagur 26.07.2010 - 18:54 - 16 ummæli

Einu sinni var þjóð …

Ég leyfi mér að birta hér leiðara Alþýðublaðsins frá 1. apríl 1976, líklega skrifaðan af Sighvati Björgvinssyni, þáverandi ritstjóra blaðsins.  Þessi leiðari á jafn mikið erindi við okkur eins og hann átti við foreldar okkar.

—–

Í Alþýðublaðinu í gær (31. mars 1976) birtist athyglisverð grein um hvernig Nýfundnaland glataði sjálfstæði sínu.  Ástæðan var sú, að stjórendur landsins misstu öll tök á efnahagsmálum þess.  Mikill framkvæmdahugur var í mönnum en forsjá ekki að sama skapi.

Því lögðu Nýfundnalendingar út á þá braut að slá sér lánsfé erlendis til þess að standa undir framkvæmdum heima fyrir.  Í fyrstunni reyndist auðvelt fyrir landið að fá slik lán, enda eðlilegt að leita eftir erlendu lánsfé að ákveðnu marki til þess að standa undir verðmætaskapandi framkvæmdum.  En stjórnvöldum þessa litla lands þótti sláttan auðvelt þjóðráð. Eyða strax, borga seinna — lifa hátt í dag og hafa ekki áhyggjur af morgundeginum.  Þannig var lífið svo auðvelt og fyrirhafnarlítið fyrir ráðamenn þessa litla ríkis. En svo fór að syrta í álinn.

Á aðeins einum áratug tvö-og-hálffölduðust erlendar skuldir þjóðarinnar.  Og þessar erlendu lántökur voru ekki aðeins gerðar til þess að standa undir verðmætaskapandi framkvæmdum.  Á hverju þessara tíu ára var halli á rekstri ríkissjóðs Nýfundnalands og létta leiðin ljúfa — að slá erlend eyðslulán til þess að jafna metin — var svo freistandi, að hún var líka farin til þess að að jafna halla ríkissjóðs. Þannig gekk fjármálabúskapur þessarar litlu þjóðar fyrir sig í einn áratug.  Greiðslubyrði hinna erlendu lána jókst stöðugt og var nú komin að því að sliga þjóðina.  Byrði afborgana og vaxta var orðin svo þung, að hún var orðin þjóðinni ofviða. Og þá átti enn að leika sama leikinn til þess að losna úr klípunni.  Ríkisstjórn Nýfundnalands bauð út 8 milljón dollara lán.  En nú fékkst enginn til þess að kaupa skuldabréfin. Lánstraust þjóðarinnar var þorrið.  Enginn lánveitandi þorði lengur að lána henni fé.

Stjórnvöld Nýfundnalands sáu nú loksins hvað ritað hafði verið á vegginn.  En það var orðið of seint.  Stjórnvöld tóku það ráð að snúa sér til Breta, sem áður höfðu verið nýlenduherrar Nýfundnalands, og biðja þá um ráð.  Eftir tveggja ára stríð við að reyna að koma lagi á fjárhag landsins var horfið að því ráði að skipa brezka rannsóknarnefnd til þess að gera úttekt á fjárhagsstöðu landsins.  Nefndin skilaði ítarlegu áliti og komst að þeirri niðurstöðu, að Nýfundnaland væri gjaldþrota.  Stjórnmálamenn landsins hefðu afskræmt þingræðiskerfið og komið þjóð sinni á vonarvöl.  Árið 1934 voru sjálfstjórn og fjárráð tekin af Nýfundnalandi og landinu stjórnað af embættisefnd frá London.  Áfallið, sem þjóðin hafði orðið fyrir, var slíkt, að fimmtán árum síðar, þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í landinu um hvort menn vildu reyna aftur að vera íbúar sjálfstæðs ríkis ellegar gerast fylki í Kanada, þá valdi meirihluti kjósenda síðari kostinn.  Íbúar Nýfundnalands höfðu misst kjarkinn.  Þeir þorðu ekki að reyna aftur sem sjálfstæð þjóð.

Söguna um, hvernig Nýfundnaland missti sjálfstæðið má lesa í sérhverri alfræðiorðabók.  Sú saga á mikið erindi við okkur Íslendinga eins og nú standa sakir.  Á Nýfundnalandi bjó einu sinni sjálfstæð þjóð álíka fjölmenn og sú íslenzka.  Aðalatvinnuvegur hennar var sjávarútvegur og þjóðin var vel menntuð.  Nú er hún ekki lengur til sem sjálfstæð þjóð af því hún kunni ekki fótum sínum forráð.

Á áratug tæplega þrefaldaði þessi þjóð skuldir sinar i erlendum gjaldeyri.  Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs jukust erlendar skuldir Íslendinga um 80 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu.

Að þeim tíma loknum var greiðslubyrðin svo þung, að Nýfundnaland gat ekki undir henni risið.  Innan fárra ára þurfum við Íslendingar að verja fimmtu hverri gjaldeyriskrónu okkar til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum.

Á þessu tímabili þraut allt lánstraust Nýfundnalands erlendis.  Upp á síðkastið höfum við Íslendingar ekki fengið okkar erlendu lán frá hefðbundnum lánveitendum heldur höfum við þurft að sækja þau til arabískra olíufursta við afarkjörum.

Sá háttur var hafður á Nýfundnalandi að jafna halla rikissjóð með stöðugum lántökum.  Nákvæmlega sömu aðferðum er nú beitt til þess að rétta hinn íslenzka ríkissjóð af.

Alfræðiorðabækur segja um Nýfundnaland: Vel menntuð en fámenn þjóð öðlaðist sjálfstæði.  Hún vildi gera allt i einu og til þess að svo gæti orðið hóf hún skefjalausar lántökur erlendis.  Þjóðin reyndist ekki hafa þroska til að stjórna efnahagsmálum sínum.  Í kjölfar pólitískrar spillingar fylgdi fjármálaspilling og þjóðin varð gjaldþrota.  Sjálfviljug afsalaði sér hún stjórn fjármála sinna í hendur erlendri embættismannanefnd.  Sjálfviljug afsalaði hún sér sjálfstæði sinu í hendur erlendri ríkisstjórn.  Nú er þessi þjóð ekki lengur til.

Í öllum alfræðiorðabókum er líka kafli um aðrar litla eyþjóð í norðanverðu Atlandshafi — um íslenzku þjóðina. Sjálfstæðinu og fjármálastjórninni heldur hún enn.  En hversu lengi ef svo heldur fram, sem horfir?

Alþýðublaðið ráðleggur Geir Hallgrímssyni og ráðherrum hans öllum að lesa söguna um Nýfundnaland bæði kvölds og morgna.

—–

Ástandið á Íslandi er að mörgu leyti alvarlegra nú en þegar Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra.  Erlendir lánamarkaðir eru nú lokaðir, ekki er hægt að færa landhelgina út í 200 mílur eins og gert var 1975 og treysta á aðstoð Bandaríkjanna sem hér höfðu herstöð.  Nei, nú erum við líkari Nýfundnalandi en nokkru sinni fyrr.  Í stað Breta fer AGS með okkar fjárræði.

Þegar Bretar slepptu hendinni, „missti“ Nýfundnaland sitt sjálfstæði, hvað gerist þegar AGS sleppir hendinni hér?  Getum við treyst því að þetta muni einfaldlega „reddast“?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

 • Uni Gíslason

  Héðan af ‘reddast’ ekkert. Það þarf að stíga varlega niður og með fyrirhyggju. Hafi þjóðin ekki lært af þessu Hruni – sem var algert – þá nær þessi tilraun með lýðveldið Ísland ekki lengra.

  Það var ljóst þegar Haarde bað Guð að blessa Ísland. Takið eftir því að ennþá leyfa Alþingismenn sér þann lúxus að setjast í skotgrafir varðandi framtíð Íslands.

  Til dæmis hvað varðar ESB. Þar leyfist Alþingismönnum að tala um Sovétríki Evrópu (sbr. Pétur Blöndal) eða Bandaríki Evrópu (sbr. Ásmund Daða.) eða að fjármálakerfi heimsins sé voða vont og í stjórn Frímúrara (sbr. Birgittu Jónsd.) eða að Evrópulönd fari illa með dýr (sbr. Katrínu Jakobsd.) etc. etc.

  Það eru endalaus dæmi hægt að taka, enda steypan endalaus sem vellur upp úr mörgum þingmanninum – sem leyfir sér að tala svona á þessum tímamótum lýðveldisins.

  Evrópusambandið er ein leið til framtíðar og hún liggur beinast fyrir. Það er leið skynsemi og stillingar, áhættulítil en að sama skapi óáhugaverð fyrir þá sem vilja stunda áhættuviðskipti. Hún krefst aga og aðhalds, enda lönd sem ekki geta eða vilja láta stýra sér á slíkan hátt óvelkomin í sambandið.

  Aðild að ESB er nefnilega ekki bara samningsatriði, heldur kallar hún á vatnaskil í hugsanahætti Íslendinga.

  Því er ósvarað hvernig Íslendingar bregðast því kalli þegar þar að kemur.

 • Andri Haraldsson

  Takk kærlega fyrir að vekja athygli á þessari grein. Skynsöm þjóð, ef hún byggði á Íslandi, myndi óska eftir utanaðkomandi greiningu á því hvað er líkt/ólíkt með stöðu Nýfundalands og heimsmyndinni þá, miðað við stöðu Íslands og heimsmyndina núna. Eins væri óvitlaust að skoða hvernig öðrum smáum menningarbrotum hefur vegnað annars staðar.

  Það er vonandi að alvörugefin skrif, eins og þín, og nokkurra annarra fari að síast inní umræðuna. Íslendingar verða að komast niður af þessum stalli forheimskunar að þeir séu einstakir og að aðrar reglur eigi við þá en aðra. Þjóðernisrómantíkin var 19. aldar hreyfing — vonandi verður hún ekki dánarorsök Íslands á 21. öldinni.

 • Baldur Ragnarsson

  Ritstjóragreinin er ágæt samantekt um Nýfundnaland (og Labrador) en ítarlegri grein má finna hér:
  http://worldatwar.net/article/newfoundland/index.html
  Þarna er skilmerkilega fjallað um orsakir hruns ríkisins og afleiðingar.

 • Staða Íslands 2008-2010 er um margt lík stöðu Nýfundnalands 1932. En greinin hér að ofan inniheldur margar rangfærslur sem auðvelt er að leiðrétta í dag eftir tilkomu netsins.
  Staðreyndin er sú að efnahagur Nýfundnalands varð ósjálfbær vegna gífurlegs kostnaðar þeirra við þátttöku í fyrri heimstyrjöldinni til stuðnings Bretum og hruns á fiskmörkuðum eftir stríðið. Og ástæðan fyrir því að þeir misstu sjálfstæðið var gífurleg spilling og óstjórn eftir að efnahagurinn varð ósjálfbær og óbilghirni Breta og Kanadamanna í innheimtu skulda á sama tíma. Óstjórnin og spillingin á örlagatímum er hættan!
  Greinarhöfundur lætur svo sem að Nýfundnaland hafi leikið sér í skuldasukki og Bretar komið sem frelsandi englar!!!! Það er bara ekki rétt.
  Minn lærdómur af sögu Nýfundnalands er eftirfarandi:
  Það var ekki fyrr en Nýfundalands setti sambandsríki Kanada stólinn fyrir dyrnar í olíu- og orkumálum að hagur þeirr fór aftur að vænkast eftir að þeir höfðu misst sjálfstæðið. Þess vegna þurfum við verja auðlindirnar – það er ekki útlendingahatur heldur byggt á reynslu Nýfundnalands. Við eigum að ekki borga eina krónu í IceSave því það er herkostnaður vegna spillts fjármálakerfis og þá eykst bara skuldabagginn og líkur á algjörri ósjálfbærni aukast.
  Það er ljóst ef kreppan harðnar í Evrópu þá minnkar eftirspurnin eftir fiski og þá harðnar fyrst verulega á dalnum hjá okkur. Og ef við eigum að hafa einhver ávinning af ESB þá verðum að fara þangað af fullri hörku og ekki gefa tommu eftir í samningum varðandi sjávarútveginn, landbúnaðinn og auðlindirnar. Annars er betra að sitja heima.
  Og stóra spurningin er: Hvernig ætlar íslenska samninganefndin að haga samningum fyrir okkar hönd? Ég óttast að hún stjórnist af ótta og kjarkleysi en ekki hugrekki.

  Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér sögu Nýfundnalands en ekki hræðsluáróður þá bendi ég á eftirfarandi: http://www.heritage.nf.ca/law/collapse_responsible_gov.html

 • P. G. Geirsson

  Fer bara ekki eins fyrir Íslandi og Nýfundnalandi?

  Nýfundnaland gekk inn í Kanada og hefur ævinlega vera fátækt jaðarsamfélag innan þess ríkjasambands.

  Ísland gengur inn í ESB og verður eftir það ævinlega fátækt jaðarsamfélag innan þess ríkjasambands.

 • Uni Gíslason

  P. G. Geirsson veit ekki að ESB er ekki ríkjasamband. Amk. skilur hann ekki muninn á fedaration og confederation.

  ESB er einstakt fyrirbæri og á sér þannig engan líka, hvorki fyrr né síðar. P. G. Geirsson þarf að skilja að til að bera saman tvo hluti þá þurfa þeir að vera af sambærilegu eðli.

  Ríkjasamband og ESB eru ekki sambærileg. Bæði mynduð af ríkjum, en í hinu fyrra ófullvalda ríkjum, en í ESB fullvalda ríkjum. Væru ríkin ekki fullvælda, þá yrði þeim sagt upp vistinni í ESB – enda grundvallaratriði að ríki sé fullvalda til að geta verið meðlimsland.

  Skerpa sig P. G. Geirsson!!

 • P. G. Geirsson

  Oh, Uni þú ert svo klár. Bara klárastur allra.

  Þvílík mannvitsbrekka sem þú ert maður!

  Comon maður! Ég veit muninn á þessu tvennu.

  En hliðstæðurnar á milli Íslands og Nýfundnalands eru ekki til að taka feil á.

  Uni, cool down, Besserwisser!
  Öll þín viska leiðir bara að einu þó svo að leiðin að því virðist vera löng og snúin í skrifum þínum. Að ESB sé það besta í heimi fyrir Ísland. Þvílík rörsýni hjá þér, maður.

 • Uni Gíslason

  En hliðstæðurnar á milli Íslands og Nýfundnalands eru ekki til að taka feil á.

  Hliðstæður á efnahag þessara landa, já. Hliðstæður á mannfjölda, já. Hliðstæður á staðsetningu á jarðarkúlunni, já.

  Lengra nær það ekki. Engar hliðstæður um möguleika umræddra landa úr kreppunni.

  Nýfundnaland kaus að fara í ríkjasamband við Kanada. Það stendur Íslandi ekki til boða – hvorki við Kanada né nokkuð annað land eða ríkjasamband.

  Ísland er í EES og býðst að taka þátt í sambandi fullvalda ríkja ESB. Það er óheiðarlegt og í raun ómögulegt að bera ESB saman við ríkjasamband – án þess að ljóstra upp um það að viðkomandi skilji ekki hvað ríkjasamband er.

  Ríkjasamband er til að mynd ekki skilgreint með því að ríki vinni saman í bandalagi að sameiginlegum hagsmunum.

  Oh, Uni þú ert svo klár. Bara klárastur allra.

  Ah meira svona!!

 • Góður Uni!

 • Ómar Kristjánsson

  Það sem er líka athyglisvert er talið eða samhengið í greininni frá því í gamla daga um skuldsetningu íslands.

  Mig rámar alveg í allt þetta tal. Þetta var á tímum eitt helsta umræðuefni stjórnmálanna. Skuldsetning, viðskiptahalli o.s.frv.

  Að sko, sem sagt, ef hef stundum sagt að það sé svo langt síðan aðeinhver veruleg vandamál hafa verið uppi á íslandi að um/í/eftir hrun, þá var fólk ekkert vant þessu umræðuefni. Vissi ekkert hvernig átti að höndla og oft á tíðum missti/missir sig í allskyns óraunsæi og hamagangi.

  Á þessum tíma eða uppúr þessu (78 minnir mig) tók líka við vinstri stjórn. Það er margt sem svipar til þessara tímabila – en líka margt sem er ólíkt. (eg er ekki að draga = merki á milli heldur benda á að geti verið hliðstæður og í raun fátt nýttundir sólinni)

  Með N-f.land, þá er eftirtektarvert að ef farið er að grufla og lesa í þetta, þá var svona elíta í landinu sem hafði öll völd í raun – og meirihluti innbyggjar studdi hana yfirleitt.

  Þegar menn svo fara að tala um Kandada og í næsta orði ESB – þá eru menn á villigötum og stutt i bla bla-ið.

  En reyndar höfðu og hafa N.f.land, eða íbúarnir sko, það ágætt eftir að að þeir urðu hluti af Kanada.

 • @Uni Gíslason // 26.7 2010 kl. 22:10, Íslendingar gætu tæknilega séð gengið aftur inn í Danmörku án mikilla vandamála. Þá reyndar ekki sem sjálfstjórnarsvæði, heldur sem bara sveitarfélag innan Danmerkur, og þá mundum við hafa slíka stöðu.

  Ef að íslenska lýðveldið fellur núna þá er það engum öðrum að kenna en sjálfum íslendingum.

 • P. G. Geirsson

  Uni:
  Bla, bla, bla – jólkaka!

  Ríkjabandalag eða ríkjasamband.
  Áhrifin, eða öllu heldur áhrifaleysið er það sama, sbr. Nýfundnaland + Kanada, og Ísland + ESB.
  Það er pointið í þessu öllu saman, sama hvernig þú reynir að snúa út úr þessu með einhverjum smáatriðum eða tæknilegum útfærslum.

  Ómar Kristjánsson;
  Skál!
  Varstu undir áhrifum áfengis þegar þú skrifaðir þetta? Samhengisleysið í skrifum þínum bendir amk. til þess.

  Veit ekki betur en að Nýfundnaland sé jaðarsvæði innan Kanadíska ríkjasambandsins, þar sem að lífskjör er almennt lakari en annars staðar í Kanada.
  Það sama gæti orðið hlutskipti Íslands innan ESB, jaðarsvæði þar sem að lífskjör yrðu almennt verri en meðaltalið innan ESB.

  Veit til þess að íbúar á Nýfundnalandi litu öfundaraugum til Íslands vegna sjálfstæðis landsins og góðra lífskjara sem sköpuðust hér fyrir fyrir hrun. Margir á Nýfundnalandi þrá að fá sjálfstæði sitt aftur og litu til Íslands sem dæmi um land sem varð sjálfstætt og stórbætti lífskjör sín.

  En nú halda margir á Íslandi eða ca. 30% landsmanna, að best sé að leita til Mæðrastyrksnefndar (ESB) til að komast út úr vandræðum landsins, í staðinn fyrir að bjarga sér sjálfir eins og landsmenn hafa hingað til gert með glans.

 • Sannleikurinn

  Hvað er betra en að hlusta á eyjarskeggja segja sjálfir frá stöðu sinni í dag sem útnári í Kanada.
  http://video.google.com/videoplay?docid=-1585916770036577104#

  Saga Nýfundnalands er ekki vatn á millu ESB sinna þótt svo virðist sem Andri túlki það þannig að hægt sé að nota ófarir þeirra til að hræða „heimska kjána“ upp á Íslandi í ESB.

  Fólk á Íslandi eru ekki heimsk fífl sem selja sig fyrir kjánalega drauma fárra ESB-sinna.

 • Magnað.

  Maður er farinn að sjá skrifað á vegginn.

  Og þar en engum einum stjórnmálamanni eða flokki að kenna, ekki síðustu 1-2 ár það er að segja.

  Einn vandinn við Íslendinga er kannski sá, að gengi Íslendinga hefur verið það gott síðustu áratugi (í samanburði við gengi margra annarra þjóða á sama tíma) að fólk trúir því ekki alveg að þessi þjóð geti farið að hafa það ansi skítt. Það hefur þó verið hlutskipti margra þjóða. Þess vegna eru Íslendingar að taka hálf lufsulega á sínum málum nú finnst mér (sbr. það að enginn íslenskur blaðamaður spurði spurninga í Brussel nú í gær, sbr. nýrri færslu hér). Munu Íslendingar vakna upp við mjög vondan draum eftir ca 1 áratug?

  Það er í Íslendinga höndum, það er málið…

 • Pétur Maack

  P.G. Geirsson:
  „Veit til þess að íbúar á Nýfundnalandi litu öfundaraugum til Íslands vegna sjálfstæðis landsins og góðra lífskjara sem sköpuðust hér fyrir fyrir hrun. Margir á Nýfundnalandi þrá að fá sjálfstæði sitt aftur og litu til Íslands sem dæmi um land sem varð sjálfstætt og stórbætti lífskjör sín.“

  Og hvað?! Ert þú e.t.v. einn þeirra sem enn trúir að lífskjörin á Íslandi þessi síðustu ár hafi verið alvöru?
  Það að Nýfundnalendingar hafi litið hingað öfundaraugum sannar nákvæmlega ekki neitt (nema að þeir séu e.t.v. búnir að gleyma því hvernig þeir misstu sitt sjálfstæði).

  Og þetta tal um að Ísland hljóti að verða fátækt jaðarsvæði innan Evrópusambandsins. Ég lýsi eftir rökum um það.
  Er Finnland fátækt jaðarsvæði innan ESB?
  Malta?
  Hefur efnahagur Póllands hrunið vegna inngöngu í ESB? Er það fátækt jaðarsvæði.

  Það væri voðalega þakklátt ef menn gætu látið af þessum upphrópunum og farið að rökræða um hugsanlega aðild Íslands að ESB.

 • What a waste of time. You’re poor english made this article hard to read. Learn to write.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur