Laugardagur 07.08.2010 - 22:29 - 3 ummæli

Enn um mannaráðningar

Hér er bloggfærsla sem ég skrifaði í febrúar 2009 um mannaráðningar.  Sumt hefur breyst síðan þá og nú er meiri umræða um þessi mál sem er af hinu góða en betur má ef duga skal.

———

Í þessari kreppu sem við upplifum núna er íslenskum mannauði mikið hampað og er allra manna mál að ekkert komi okkur út úr þessum erfiðleikum nema hinn mikli íslenski mannauður.  En mannauður er eins og eldur.  Hann þarf að hemja og halda undir ströngu og stöðugu eftirlit annars er voðinn vís eins og dæmin sanna.

Bankahrunið er að miklu leyti af manna völdum.   Hér brást hinn íslenski mannauður heldur betur. Eins og ein helsta blaðakona á The Times sagði um daginn:  „Þegar stórfeldur efnahags-stormur geisar eins og nú, er ekki hægt að skella allri skuld á ónóg lög og reglugerðir.  Það sem þjóðir þurfa helst eru einstaklingar með reynslu, sjálfstæða hugsun, fumlaus og fagleg vinnubrögð, en umfram allt góða dómgreind.“  Því miður hefur ekkert af þessum eiginleikum fólks átt upp á pallborðið á Íslandi undanfarin ár.  Mannaráðningar hafa verið handahófskenndar í besta falli, en oftar en ekki byggja þær á pólitík og kunningsskap.

Það sem er oftast mikilvægast í ráðningum á Ísland er að umsækjandinn sé „einn af okkur“.  Þetta þýðir að hún eða hann sé þægilegur í viðmóti, falli vel inn í hópinn, sé á sömu bylgjulengd og skilji nákvæmlega hvert og hvernig fyrirtækið eða stofnunin stefnir.  Sem sagt, hóphugsun (e. groupthink) er sett skilyrði sem gerir allt svo þægilegt og huggulegt.  Enginn er að tefja málin með því að spyrja óþægilegra spurninga sem eru alltaf afgreiddar sem fíflaskapur eða misskilningur.  Allir þegja og þögn er alltaf afgreidd sem samþykki.  Ef einhver vogar sér að fara út fyrir markaðar línur fær sá sami umsvifalaust reisupassann.  Þannig er öðrum gert viðvart um að það sé betra að halda sér á mottunni.

Þetta kerfi hefur sína kosti, fyrirtæki og stofnanir geta unið hratt og markviss að sínum markmiðum og í lygnum sjó getur allt litið út fyrir að ganga upp.  Vandamálið er að ef rangur kúrs er settur í byrjun er ekki hægt að leiðrétta hann fyrr en um seinan.  Ekkert virkt varnarkerfi er til staðar enda engin reynsla af gagnrýnni og sjálfstæðri hugsun.  Endalokin geta orðið hörmuleg og eru mýmörg dæmi um það í sögunni.  Því miður virðist íslenska þjóðin nú vera að upplifa sitt skólabókardæmi um afleiðingar hóphugsunar.  Það verður dýrt og sársaukafullt.   Sagan kennir okkur að eitt af því sem oft er spurt um þegar hóphugsun tekur völdin er: „hvernig gat svona vel menntað og gáfað fólk tekið svona afleitar ákvarðanir?“

Hvernig komumst við út úr þessum vítahring?  Með því að læra að hlúa að og ýta undir sjálfstæða og gagnrýna hugsun.  Gera það að skyldu allra að spyrja spurninga og falla ekki í þá gildru að yfirmenn hafi betri hugmyndir af því þeir eru hærra settir.  Þetta þarf að setja í starfslýsingar og sjá svo um að breidd og víðsýni ríki í ráðningu á nýju starfsfólki.

Eitt af því sem er erfitt fyrir marga nýja stjórnendur er að ráða fólk sem er öðruvísi en það sjálft, fólk sem hugsar öðruvísi, hefur aðrar skoðanir og er ekki alltaf sammála.  Það reynir á leiðtogahæfileika að stjórna slíku teymi.   Miklu auðveldara og skemmtilegra er að vinna með sínum líkum.  Takið eftir hvernig Obama myndaði sína stjórn.  Þar var leitað langt út fyrir hina venjulegu flokksgæðinga sem álitu sig eiga sín ráðuneyti vís.  Obama hefur reynt að ráða fólk með mikla reynslu og ólíkar skoðanir.  Það verður ekki auðvelt fyrir hann að stjórna þessum hóp.  Þar má búast við hörðum deilum og skoðanaágreiningi.  En það er eitt af aðalsmerkjum góðra leiðtoga að geta leitt og fengið ólíka einstaklinga til að vinna saman. Það er lítill vandi að leiða hóp þar sem einstaklingar skilja sína persónu eftir  heima þegar farið er til vinnu og eru sammála öllu og öllum á sínum vinnustað.

Nú þarf hið opinbera að ganga fram með góðu fordæmi og innleiða nýjar, faglegar og alþjóðlega viðurkenndar aðferðir við mannaráðningar.  Í mörgum okkar nágrannalöndum starfa ráðninga nefndir eða stofnanir sem hafa eftirlit með að opinberir aðilar og stjórnsýslan fylgi eftir óháðu og faglegu ráðningarferli og stöðumati í öllum opinberum ráðningum og mannabreytingum.

Núverandi ástand er vægast sagt ömurlegt.  Nýjustu dæmin eru bankaráðin, bakastjórar, stjórn FME og LÍN.  Var farið efir faglegu og óháðu ferli við þessar ráðningar? Hverjir komu þar að og hvaða áhrif höfðu þeir á niðurstöður?  Ný lög um Seðlabankann taka fram að auglýsa þurfi stöðu seðlabankastjóra.  Þetta er vissulega framför en hér er byrjað á öfugum enda.  Fyrst þarf að skilgreina og ákveða ferlið áður en eitt ákveðið ráðningartæki er valið.  Ég hef mínar efasemdir um að auglýsing ein og sér nægi til að fá hæfustu einstaklinganna sem umsækjendur.  Það er kominn tími til að fagfólk komi að og taki til í ráðningarmálum hins opinbera.  Betra seint en aldrei.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    En Andri Geir, hér eru séríslenskar aðstæður svo starfsýsingin er gerð EFTIR að búið er að ráða „réttan“ mann. Það hefur altaf verið svoleiðis af því að aðstæurnar eru svo „sérstakar“.

    Djísús, að þurfa að búa við þetta.

  • Þetta verður aldrei of oft endurtekið. Reynt þetta 100 sinum á eigin skinni og er hættur að sækja um stöður hjá hinu opinbera og einkageiranum sem opnast. Flokks- klíku- ættar og vinatengsl ráða öllu.
    Kveðja að norðan.

  • Jakob Bjarnar

    Allt þetta er satt og rétt. Auk þess sem við bætist Parkinsons-lögmálið sem kveður rammt að hér á Íslandi svo ekki sé meira sagt. Reyndar á það einnig við í einkageiranum. Millistjórnendur forðast eins og heitan eldinn að ráða fólk sem hugsanlega mögulega ógnar þeim. Þannig að þeir sem kveður lítt sem ekkert að eru efst á vinsældarlistanum þegar fólk er ráðið til starfa.

    Hinsvegar, og það á augljóslega við hér á Íslandi, er það svo árátta embættismanna að skapa vinnu hver fyrir annan. Parkinson benti á að … „á hverju ári varð 5-7% aukning á starfsmannafjölda í opinberri þjónustu, „óháð breytingum á magni vinnu (ef nokkrar voru)“.“ – svo ég vitni í Wikipediu. Við sjáum engan niðurskurð í ofbólgnu systeminu og við bætist alger firring meðal löggjafans gagnvart ríkisrekstrinum. Lýsir sér einkar vel í orðum Lilju Mósesdóttur sem sagði að það væri tilgangslaust að segja fólki upp því þá færi það bara á atvinnuleysisskrá!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur