Sunnudagur 15.08.2010 - 13:51 - 16 ummæli

„Velfærd kræver velstand“

„Velfærd kræver velstand“ er eitt af baráttumálum Venstre, stærsta stjórnmálaflokks Dana.  Nú er Venstre eða danskir stjórnmálaflokkar ekki oft í umræðunni á Íslandi en stundum er gott að líta út fyrir sinn eigin sjóndeildarhring og skoða hvað nágrannar manns eru að sýsla og athuga hvort maður geti nú ekki lært eitthvað af þeim.

Venstre flokkur Dana er hægra megin við miðju en fékk nafnið á 19. öld eftir franskri hefð frá 1789 þegar flokkar sem stóðu með almenningi sátu vinstra megin á franska þinginu en konungshollir flokkar hægra megin.  Nú eiga Íslendingar og Venstre langa sögu saman og þessi flokkur reyndist Íslendingum vel í sjálfstæðisbaráttunni.  Það var einmitt í stjórnartíð Venstre sem Íslendingar fengu heimastjórn og Peter Alberti ráðherra Venstre (sem síðar varð að segja af sér vegna fjármálaskandals og endaði í tukthúsi) valdi Hannes Hafstein sem fyrsta ráðherra Íslands.

Nóg um sögu Venstre en hver er stefnuskrá Venstre á 21. öldinni?   Í stuttu máli, þessi:

  • Standa vörð um norrænt velferðarkerfi
  • Byggja atvinnulífið á sveigjanlegu, sterku og frjálsu markaðskerfi
  • Taka þátt í evrópskri samvinnu innan ESB og innleiða evru

Er hér ekki komin uppskrift að flokki sem margir á Íslandi eru að leita að?  Eru úrslit í nýlegum sveitarstjórnarkosningum ekki einmitt krafa um að stokkað sé upp í íslensku flokkakerfi?

Það er deginum ljósara að flokkarnir hafa staðnað.  Margir geta ekki hugsað sér að kjósa neinn af gömlu flokkunum.  Hvað er svona heilagt við þessa flokka?  Enginn þeirra var til þegar ríkisstjórn Venstre gaf okkur heimastjórn 1904.  Eru þeir 20. aldar fyrirbæri og þar með komnir fram yfir síðasta söludag 2010, eða geta þeir aðlagað sig nýjum aðstæðum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (16)

  • „Byggja atvinnulífið á sveigjanlegu, sterku og frjálsu markaðskerfi“

    Trúin á markaðinn er meginorsök hrunsins. Ekki bara hrunsins hérna heima, heldur alls hrunsins.
    Frjáls markaður getur verið öflugt hagstjórnartæki en TRÚ á hann og að setja hann í miðju leiðir af sér m.a.
    – Aukið misrétti. Auðurinn safnast á fárra hendur og þar með völdin líka.
    – Fákeppni. Þeir stóru leggja þá litlu undir sig.
    – Bólur. Húsnæðisbólur, hlutabréfabólur……
    Það er undarlegt hvað við lærum lítið af sögunni. Markaður án öflugra stýringa er söguleg mistök.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Ég tala aldrei um trú á markaðskerfið í þessari færslu heldur að nota það sem tæki til uppbyggingar.

    Það er ekki hið kapítalíska markaðskerfi sem brást heldur þeir sem stjórnuðu því. Hvaða kerfi tökum við upp ef við ætlum ekki að bygga upp markaðsdrifið hagkerfi?

    Atvinnulíf á hinum Norðurlöndunum er byggt upp á frjálsu markaðskerfi. En þar fylgja menn lögum og reglum. Þar liggur munurinn.

  • Ætli allir dönsku stjórnmálaflokkarnir séu með orðið „velfærd“ í stefnuskrá sinni. En mikill er munur á útfærslunni. Sama hvaða sveitarfélag er tekið því þar reynir mesta á þetta (flest sem verkefni sv.félaga) Nú síðast er skorið við trog, framlög til barna og aldraða. Þess vegna sameinuðust Soc. og SocFolke í einni stefnu gegn þessum óskapnaði. Venstre er stór hægrisinnaður Framsóknarflokkur. Merkilegt en satt.

  • Nú verður að hugsa upp á nýtt og hætta allri meðvirkni við gamlar kreddur – ættir eða klíkur. Okkur er blátt áfram nauðsynlegt að setja málin í nýjan farveg. Þeir sem leita nýrra leiða horfa fram á meðan íhald horfir aftur.

  • Jakob Bjarnar

    Ég kvitta upp á þetta, sannarlega, eins og reyndar flest það sem fram kemur í skrifum þínum Andri Geir! Og takk fyrir þessa upprifjun á hugtakinu vinstri – hægri.

    Sannarlega hefur þetta úldna fjórflokkakerfi runnið sitt skeið á enda, eða ætti að hafa gert það. En því miður virðist afskaplega djúpt á öðrum valkostum. Um leið og örlar á einhverju slíku eru kverúlantarnir komnir á kreik og kollkeyra allar fyrirætlanir um að koma öðrum skynsamlegum valkosti á koppinn. Sjáið bara þessa Hreyfingu.

    Varðandi þá þrálátu bábylju sem Magnús býður uppá og erfitt virðist að kveða í kútinn: Sjálfstæðisflokkurinn, sem var bæði arkítekt og aðalverktaki í því sem leiddi til hins hrottalega hruns, var allt annar í orði en á borði. Hann funkeraði miklu fremur sem kommúnistaflokkur á Sovétska vísu en nokkru sinni frjálslyndur flokkur sem hefur í heiðri fagleg vinnubrögð. Þannig er nú það bara þannig að ef menn ætla (réttilega) að pinna hrunið á xD og segja jafnframt að frjáls markaðsbúskapur hafi steypt hér öllu fyrir björg – þá stenst það einfaldlega ekki.

  • Það er ekkert merkilegt við það að líta á Venstre sem hægra megin við framsóknarflokkinn eða vinstra megin við sjálfstæðisflokkinn, hann liggur nefnilega einmitt á milli þessara flokka þar sem mikið gat er í íslenskri flokkaflóru.

    Annars er Venstre enginn framsóknarflokkur enda ekki stjórnað að Sigmundi Davíð. Það er ekki bara nafnið og staðan á litrófinu sem skiptir máli heldur líka fólkið sem stjórnar flokkunum.

    Íslenskir kjósendur eru margir eins og krakkar sem heimta einhverja merkjavöru og eru fastir í nafni og sögu án þess að gera sér grein fyrir að flokkar eru ekkert merkilegri en fólkið sem stendur á bak við þá á þeirri stundu.

    Hvernig Íslendingar ætla að byggja norrænt velferðarkerfi á Miðjarðarhafs þjóðartekjum á mann er ráðgáta sem ég ekki skil. Norrænt velferarkerfi byggist á hæstu þjóðartekjum á mann sem er útgangspuntur Venstre.

    Eigum við ekki bara að segja að gömlu flokkarnir reddi þessu!

  • Andri Haraldsson

    Þetta er mjög þarft innlegg. Myndi kannski bæta því við að það er ekki alltaf gagnlegast að bera Ísland saman við önnur lönd. Þess í stað er oft miklu auðveldara að skilja Ísland ef maður lítur á bæjarpólitík í borgum með fólksfjölda á stærð við Ísland.

    Þannig er oft að í borgar og bæjarstjórnarmálum utan Íslands að þar eru heimspekileg pólitísk atriði í raun aukaatriði, hægri og vinstri skipta minna máli en einstaka mál sem koma upp (skóla eða vegi, heilsugæsla eða almenningsgarða). Mest orka og tími fer í að ræða hvernig skipta skuli skattatekjunum milli smærri verkefna.

    Alþingi er að þessu leyti oft ekki ósvipað borgar og bæjarstjórnum í borgum erlendis. Þetta er mjög alvarlegt vandamál á Íslandi þar sem mjög lítill tími og orka fer í að ræða málefni sem raunverulega varða stöðu landsins í heiminum, eða hvernig skuli skipuleggja þjóðina með tilliti til þess að auka hæfi einstaklinga og stofnana til að tryggja velsæld.

    En það er ekki auðséð hvernig úr þessu verður bætt meðan landið er svona fámennt.

  • Mikið rétt Andri Geir. Venstre er ekki Framsóknarflokkur en samt eru samvinnutengsl milli þessara flokka í DK og ísl.
    Er þetta ekki staðreyndin í dag?
    http://da.wikipedia.org/wiki/Venstre

    Venstre, Danmarks Liberale Parti er kendt som Venstre og er et dansk politisk parti. Partiet har partibogstavet V på stemmesedlen. Navnet Venstre kommer af, at det ved sin oprettelse befandt sig på venstrefløjen: det kæmpede for lighed mellem de forskellige klasser i samfundet, for skolegang til alle børn og for lige ret til lægehjælp. I dag er Venstre rykket til højrefløjen idet socialistiske partier har videregående mærkesager som økonomisk lighed.

  • Leifur Björnsson

    Evrópusinnaðir Sjálfstæðissmenn sem verið er að úthýsa úr flokknum þessa daganna ættu vel heima í flokk eins og Venstre.
    Núverandi formaður Sjálfstæðissflokksins vill svipta þjóðinni réttinum til að kjósa um ESB aðild, og rústa endanlega orðspori þjóðarinnar með að draga ESB umsókn til baka þrátt fyrir að flokkar sem höfðu ESB umsókn á stefnuskrá sinni hafi fengið 53% fylgi í síðustu alþingiskosningum og umsókn verið samþykkt af alþingi með 33 atkvæðum gegn 28.
    Geta skynsamir evrópusinnaðir hægri og miðju menn kosið slíkan flokk?
    Ekki ef þeir eru samkvæmir sjálfum sér.

  • Inn í ESB förum við, spurningin er aðeins um tímann. Ef við drögum þessa umsókn tilbaka núna verðum við komin á kné við ESB dyrnar í Brussel eftir 10 ár. Það eru mjög litlar líkur á að stjórnmálastéttin sem stóð vaktina í hruninu geti siglt í gegnum þann ólgusjó sem mun skella á þegar AGS hverfur af landi brott.

    Við erum núna í logni á undan storminum og höfum aftur fyllst ofurbjartsýni á eigin getu. Þetta mun enda eins og dansinn í kringum um gullkálfinn fyrir hrunið.

    Bíðum og sjáum hvað setur.

  • Um aldamótin 1900 snérist baráttan um að koma á viðskiptum við önnur lönd. Ég hygg að framsýnt fólk hafi dreymt um frjáls viðskipti. Hvort þau voru raunverulega í boði á þeim tíma veit ég ekki með vissu, en fljótlega tóku innlendir aðilar við einokununni af þeim erlendu. Breyttu reyndar ýmsu til að fegra sína framhlið.

    Núna er þjóðin skaðbrennd og veit varla hvert skal halda. En eitt er víst og það er að við þurfum viðskipti við umheiminn og þau með sem minnstum hindrunum, en góðu regluverki og sterku eftirliti. Markaðsviðskipti hafa fengið á sig ákveðið óorð eftir hrunið og ekki að ástæðulausu.

    En það var fyrst og fremst regluverkið og eftirlitið sem brást. Markaður með vörur og þjónustu verður að vera til staðar og leikreglurnar líka.

    Stefnuskrá Vestre í þrem línum er mér mjög að skapi og finnst hún kjarninn í þeim stjórnmálum sem ég aðhyllist.

    Hvort stjórnmálaflokkur lifir eða deyr er að aðalmálið, heldur að þjóðin komist úr því feni óstjórnar sem hún er í núna.

    Auðlindirnar eiga að mínu áliti að vera á forræði þjóðarinnar, renturnar að renna til þjóðarinnar og eftirlit með nýtingu þeirra sömuleiðis.

    Miðað við það sem að framan segir, finnst mér hag okkar best borgið innan ESB eins fljótt og vera má, með eins vönduðum samningi og kostur er.

  • Aðeins vegna ,,Venstre“. Þeim hefur nú gengið betur en nú. Lars Løkke er ekki eins öflugur leiðtogi og Anders Fogh. Annars er ótrúlegt gott gengi Rasmus-sona, í embætti forsættisráðherra. Poul Nyrup Rasmusen, Anders Fogh Rasmusen og Lars Løkke Rasmusen. Kannski ættu Rasmusen herramenn að stofna ,,Rasmusen partiet“.

    En svo að það sé á hreinu þá er Venstre frjálshyggju-sinnaður flokkur. Miðað við Sjálfstæðisflokkin þá hefur Venstre gengið ágættlega að stjórna.

    Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa tekist að jarða alla hagstjórn og ber þar helst að nefna að þessir flokkar hafa stjálfir verið í business. Þarf maður ekki að vera ansi bláeygður til að trúa því að flokkarnir hafa einungis verið að sýna ,,góðum“ viðskiptamönnum hjálpsemi? Þetta kerfi þarf að lagfæra, og hefur að mínu mati hærri forgangsröðun en ESB.

  • Staðreyndin er sú að frjálslynt fólk á Íslandi sem vill sterkan infrastrúktúr, gott heilbrigðis- og grunnmenntakerfi og er markaðssinnað. Að fólk fái frelsi og tækifæri til að ná árangri í lífinu – þetta fólk er pólitískt landlaust. Andri Geir, Þorvaldur Gylfason og slíkir; Af hverju stofnið þið ekki stjórnmálaflokk? – við þurfum ekki kverúlanta eins og hreyfinguna og einn ríkisforsjárflokkinn í viðbót. ESB hatur Sjálfstæðisflokksins útilokar þann flokk og liðleskjuháttur Samfylkingar gagnvart kommúnistunum í VG útilokar þann flokk.

  • Þetta er sirka lýsingin á röksemdarfærslunni fyrir því að ég styð Samfylkinguna…

  • Örlygur Ormarr

    Sammála Platini

    „Staðreyndin er sú að frjálslynt fólk á Íslandi vill sterkan infrastrúktúr, gott heilbrigðis- og grunnmenntakerfi og er markaðssinnað. Að fólk fái frelsi og tækifæri til að ná árangri í lífinu“
    Frjálslynt fólk á Íslandi er pólitískt landlaust.
    ESB hatur Sjálfstæðisflokksins útilokar þann flokk frá því að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd.
    Samfylkingin er í samstarfi við VG að takast á við þau erfiðu samfélagsverkefni sem eru afleiðingar af misheppnaðri verkstjórn sjálfstæðismanna og framsóknar.
    En Samfylkingin er reyndar (líka sögulega séð)eina stjórnmálaaflið, sem hefur vilja og burði til að takst á við þetta verkefni, sem Platini lýsir:
    Og að fólk verði ekki pólitískt landlaust.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur