Mánudagur 16.08.2010 - 08:45 - 17 ummæli

Íslensk leynilögregla að hætti Stieg Larsson

Jæja, þá mun ekki líða á löngu áður en að íslenska lögreglan fái sína KBG deild, þar sem hún mun hafa óheftan aðgang að einkalífi borgaranna.  Dómsmálaráðherra segir að vísu hafa sínar efasemdir um þetta en bendir á að svona deild muni starfa undir ströngu eftirlit og umsjón Alþingsins.  Það ætti að róa borgarana, eða hvað?

Hvaða reynslu hafa Íslendingar í að reka öflugar og óháðar eftirlitsstofnanir og hvert er traust almennings til þingsins.  Nei, þetta boðar ekki gott.

Eitt aðalsmerki íslensks lýðræðis hefur verið að hér á landi höfum við getað búið í sátt og samlyndi án leynilögreglu.  Það var alltaf sagt að hér þekki allir alla svo engin þörf sé fyrir leyniþjónustu.

Reynsla annarra þjóða sýnir að rekstur leynilögreglu er miklu erfiðleikum háð, kostnaðurinn er gífurlegur og eftirlitið eitthvað það erfiðasta sem til er.  Ef við getum ekki haft eftirlit með bönkum er borin von að við getum haft eftirlit með leynilögreglu.  Íslenska stjórnsýslu skortir allan faglegan grunn til að taka þetta vandasama verk að sér.

Útkoman af þessari tilraun getur orðið hræðileg, einkalíf margar verður eyðilagt, rannsóknir verða byggðar á vafasömum grunni, klíkuskapur og ættartengsl munu ráða hvernig tekið verður á hinum og þessum.

En það sem verður langhættulegast er þegar þessi „Stasi“ deild verður notuð í pólitískum tilgangi.  Það er aðeins tímaspursmál hvenær hún verður notuð á lymskulegan hátt til að þakka niður í óþægilegum einstaklingum.   Svo er alltaf hætta á að þessi deild verði ríki í ríkinu og haldi þingmönnum, ráðherrum og dómurum í gíslingu í krafti þeirra upplýsinga sem hún aflar.

Ég ráðlegg Rögnu að lesa bækur Stieg Larssonar áður en lengra er haldið!  Svona mál á að taka fyrir á nýju stjórnlagaþingi.

Ps.  Munurinn á milli VG og D minnkar með hverjum degi!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Já, það yrði nú heldur betur vandræðilegt ef þessi svokallaða vinstri stjórn kæmi á lögregluríkinu sem Björn Bjarnason reyndi að koma á í sinni valdatíð undir mikilli gagnrýni vinstri manna.

    Ég hef margoft orðið vitni að því að stjórnvöld noti lögregluna eftir geðþótta í pólítískum tilgangi gegn löglegum aðgerðum friðsamra borgara. Lögreglan er í raun valdstjórnartæki sem stjórnvöld beita óháð gildandi lögum og reglum. Það er nógu slæmt. Stjörnvöldum er alls ekki treystandi til þess að koma sér upp leynilögreglu og eða leyniþjónustu sem þau myndu misnota með enn verri hætti.

    Þetta er stórvafasöm þróun.

  • Ísland er lítið land. Fyrirsjánlegt er að misnotkun geti átt sér stað. Vð höfum séð ófyrirleitna stjórnmálamenn hér á árum áður. Ég sé enga þörf fyrir leyniþjónustu (secret service).

  • Magnús Bjarnason

    „L’enfer est plein de bonnes volontés et désirs“

    Eins og það stig vænissýki sem er í íslenskum stjórnmálum núna, þá er leynilögga það síðasta sem við þurfum. Stofnun sem er hönnuð til misnotkunar og sem yrði fljótlega beytt á óvandaðan hátt, allt í nafni öryggis og sannleiksástar.

  • Dómsmálaráðherra væri sæmra að gera upp við ólöglegar símhleranir og persónunjósnir fyrri ára í stað þess að lögleiða mannréttindabrot.

  • Það væri helst þörf á að stofna „Stasiska“ skattalögreglu til að tryggja að ofurskattarnir skiluðu sér til norrænu velferðarstjórnarinnar.

  • Björgvin Valur

    Ég er sammála þessum pistli og hef viðrar svipaðar skoðanir. Bara ekki jafn vel.

  • María Kristjánsdóttir

    Hefur VG lýst yfir stuðningi við þessi lög? Er Ragna í VG? Eða hvaða merkir setningin: Munurinn á milli VG og D minnkar með hverjum degi?

  • María Kristjánsdóttir

    Hvað en ekki hvaða átti þetta að vera.

  • Málið með svona batterí er að menn setja þetta af stað í ákveðnum tilgangi (að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi). Það er þarft verk tel ég ef rétt er haldið á spilum.

    En um leið er það þannig að sumir ímynda sér að mál geti ekki þróast í nýjar áttir nú þegar búið er að setja upp svona batterí, og að ekki sé mögulegt að þetta verði notað í öðrum tilgangi en upphafsmenn hugsa sér nú.

    Dæmi um þetta er einkavæðing bankanna og orkufyrirtækjanna. Menn töldu víst að þróun starfsemi eftir einkavæðingu yrði eins og tilteknum hópi þótti æskilegt og sáu ekki fyrir sér að annað gæti komið á daginn. Þannig er það alltaf þegar trúboð er stundað, nýja staða mála á alltaf að vera svo frábær. En svo komu aðrir hópar með aðra hugsun sem voru ekki meðreiðarsveinar klíkunnar sem vildi breytingarnar, og fóru að beita sér samkvæmt sínum hugmyndum. Með þekktum afleiðingum. Byltingin át börnin sín.

    Það er því rétt að fara rétt að þegar stofnuð er leyniþjónustudeild. Ekki síst í því upphlaups og óróa ástandi sem mig grunar að verði hér á landi næstu 5 árin. Það verður erfitt að sigla þjóðarskútunni, og kannski ekki gott fyrir ístöðulitla pólitíkusa að geta teygt sig í batterí eins og þetta. Sagan sýnir það.

  • Ef einhver er enn í vafa um að lögreglan sé ekki misnotuð af elítunni, þá vinsamlegast lesið þessa grein og þá ætti sá vafi að hverfa með öllu:
    http://www.svipan.is/?p=10523

  • Guðgeir Kristmundsson

    „Ps. Munurinn á milli VG og D minnkar með hverjum degi!“

    Tek undir þetta. Senda þetta lið á námskeið í stjórnmálaheimspeki og sagnfræði.

  • Leifur Björnsson

    Tek undir að þetta er skelfileg hugmynd yrði strax misbeitt.

  • Friðrik Sig

    Skelfileg hugmynd og skelfileg framtíðarsýn hjá arfaslökum dómsmálaráðherra.

  • María Kristjánsdóttir

    mér sýnist af viðtalinu við Robetrt Marshall í fréttum í kvöld að hér fallist Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn í faðma.

  • Sigurður Sigurðsson

    Andri Geir.
    Hér er fróðleg lesning og með tengingu við VG (Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður)
    http://www.domsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/skyrslur_til_radherra/nr/691

    SKÝRSLA
    UM SÉRSTAKAR RANNSÓKNARAÐFERÐIR LÖGREGLU

    DÓMS- OG KIRKJUMÁLARÁÐUNEYTIÐ
    APRÍL 1999

    Í nefndina voru skipuð Björg Thorarensen skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu sem jafnframt var formaður, Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, Bogi Nilsson ríkissaksóknari, Björn Halldórsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og Egill Stephensen saksóknari hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Í aprílmánuði 1998 lét Björn Halldórsson af störfum í nefndinni vegna löggæslustarfa í Bosníu og Herzegovinu. Í hans stað var skipaður af hálfu ríkislögreglustjóra Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri.

  • Sigurður Sigurðsson

    Hér er linkur á grein í Morgunblaðinu

    unnudaginn 9. júlí, 2006 – Innlent – greinar
    Vodafone og Ericsson í vanda í Grikklandi
    Farsímar hundrað háttsettra manna hleraðir

    http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1092030

  • Takk fyrir góðar athugasemdir. Þetta er stórmál sem varðar mannréttindi alls almennings og verður að halda á lofti. Svona leyniþjónusta má ekki verða innleidd bakdyramegin.

    Þetta er einmitt mál sem á að fara fyrir þjóðaratkvæði.

    Gaman væri að vita hvar Forseti Íslands stendur í svona máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur