Þriðjudagur 17.08.2010 - 06:17 - Rita ummæli

Uppstokkun ekki niðurskurður

Í nýjasta hefti The Economist, er fjallað um tillögur og aðferðir ríkisstjórnar Bretlands til að ráðast á halla í ríkisfjármálum sem stefndi í 11% er verst lét.  Þar er haldið fram að ríkisstjórn Cameron’s sé að brjóta blað í niðurskurði á ríkisútgjöldum og að aðferðirnar séu mjög róttækar og geti orðið fyrirmynd annarra skuldsettra ríkja.  Niðurskurður er kannski ekki rétta orðið hér heldur uppstokkun, því allar deildir og stofnanir ríkisins þurfa að stefna að 25% lækkun á útgjöldum nema heilbrigðisþjónustan þar sem enginn niðurskurður er boðaður.   Þessi uppstokkun er um 75% af aðlögunaraðgerðum Bretlands, en skattahækkanir ekki nema 25%.

Þegar markið er sett svona hátt í lækkun útgjalda, 25%, er ekki hægt að beita flötum niðurskurði.  Öll ráðuneytin (nema heilbrigðisráðuneytið) þurfa að ákveða hvaða þjónustu þau veita til borgaranna og hvernig.  Í raun má segja að aðgerðirnar falli í 3 hópa.

1. Þjónustan endurskipulögð, einfölduð og /eða minnkuð

2. Þjónustan aflögð, stofnunum lokað

3. Þjónustan flutt yfir í einkageirann að hluta til eða öllu

Greinarhöfundur The Economist, hefur að vísu nokkrar efasemdir um að svona rótækt plan muni takast að öllu leyti, en segir að breska ríkið eigi varla annarra kosta völ ef Bretland eigi að verða samkeppnishæft á alþjóðamarkaði og pundið ekki að hríðfalla með tilheyrandi lífskjaraskerðingu.

Það er ljóst að Bretar hafa komist að þeirri niðurstöðu að flatur niðurskurður og skattahækkanir einar sér duga ekki og þeir vita af eigin reynslu að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er ekki forsvaranlegur og í raun stórhættulegur, enda tók það Verkamannaflokkinn yfir 10 ár að byggja upp heilbrigðisþjónustuna eftir niðurskurð Íhaldsflokksins á 10. áratug síðustu aldar.

Íslenska ríkisstjórnin og flestir stjórnmálamenn hér á landi virðast á hinn bóginn vera staðnaðir í aðferðum 20. aldarinnar.  Í staðinn fyrir að standa að heilstæðri áætlun líkt og Bretar, er hér hver höndin upp á móti annarri í einhverjum ömurlegum sandkassaleik sem á eftir að rústa þjónustu ríkisins en skilja eftir dýrt og laskað bákn.  Þetta veit ekki á gott.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur