Sunnudagur 15.08.2010 - 07:55 - 2 ummæli

Um áhættu og arðsemi

Ísland og Grikkland hafa sömu lánseinkunn á langtíma innlendum skuldbindingum hjá Fitch, BBB+.  Íslenska ríkið borgar rétt undir 6% vexti á óverðtryggðum 10 ára skuldabréfum í krónum, á meðan gríska ríkið þarf að borga rúmlega 10% í evrum.  Fátt sýnir á jafnafgerandi hátt hinn falska raunveruleika sem ríkir í íslensku fjármálakerfi.

Ég læt lesendum eftir að dæma hvort þeir vilja hafa sinn sparnað á 6% vöxtum í krónum eða 10% í evrum fyrir sömu áhættu?

Hvers vegna stendur á þessu, gætu sumir spurt?  Er þetta vegna þess að framtíðarhorfur íslensku krónunnar og íslenska hagkerfisins eru svona miklu betri en á evrusvæðinu?  Ef það væri skýringin væru hér engin gjaldeyrishöf.  Og þar liggur svarið.

Haftabúskapur ríkisins hefur byggt upp falskt og lokað hagkerfi sem virðist á uppleið en er byggt á sandi.  Krónan er með falskan botn og vextir reyrðir niður með fölskum stögum.

Því lengur og dýpra sem við höldum áfram á þessari leið því erfiðara verður að snúa taflinu við og opna kerfið.  Skellurinn verður svo mikill að enginn stjórnmálamaður mun taka það í mál.  Í raun mun margt versna með árunum, sérstaklega vaxtabyrði af erlendum lánum sem þarf að endurfjármagna á margföldum vöxtum.

Þessi brenglaði innlendi fjármálamarkaður mun ennfremur leiða til rangra ákvarðana í fjárfestingaverkefnum.  Allt í einu verða pólitísk óarðbær verkefni arðbær í hinu falska umhverfi.  Sérstaklega er mikil hætta á að lífeyrissjóðirnir verði þvingaðir til að koma með sínar erlendu eignir yfir í íslenskar krónur á vöxtum sem alls ekki endurspegla áhættuna.  Þetta hefur nú þegar gerst, eins og ég hef skrifað um þegar lífeyrissjóðirnir keyptu íslensk bréf Seðlabankans á háu yfirverði með gjaldeyri.  Fórnarávöxtun lífeyrissjóðanna var umtalsverð sem mun koma niður á lífeyrisgreiðslum í framtíðinni.

Það sem er svo furðulegt er að engin umræða var um þessi kaup lífeyrissjóðanna sem út frá fjárfestingarsjónarmiði voru að mörgu leyti andhverfa Magma málsins.  Mismunurinn er auðvita að í fyrra dæminu voru Íslendingar báðum megin við borðið en í hinu seinna sitja útlendingar öðru megin!

Á meðan þetta ástand varir og fjárfestingar á Íslandi snúast um flest annað en áhættu og arðsemi verður algjör stöðnun í atvinnutækifærum næstu kynslóðar.

Er ekki nóg að færa næstu kynslóð ósjálfbæran skuldabagga þarf líka að tæma þeirra framtíðarlaunaumslag?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Í upphafi heimskreppunnar 1930 voru sett á gjaldeyrishöft hér á Íslandi sem standa áttu í mjög skamman tíma. Þau gjaldeyrishöft stóðu frá um 1930-1960 eða í 30 ár. Ef við göngum ekki í ESB á næstu árum gætu núverandi gjaldeyrishöft varað meira en 30 ár með tilheyrandi skammtanakerfi á öllum innflutningi-eins og á árunum 1930-1960.

  • Ragnar Thorisson

    Skýr og klár sannleikur um íslenska hagkerfið hjá þér, og verðugt umhugsunarefni fyrir þjóðina. En athygli vekur hve viðbrögðin við grein þinni eru dræm.

    Enn á ný er íslenskur vanvita allmenningur sofandi, fljótandi fram að feigðarósi að Hruni nr. 2

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur