Mánudagur 06.09.2010 - 19:01 - 10 ummæli

ASÍ og krónan

Það er engin furða að Gylfi Arnbjörnsson sé fúll út í krónuna.  Þeir sem standa í útflutningi hafa sjaldan haft það eins gott og núna, sérstakleg þeir sem ekki skulda mikið.  Íslenskir launamenn hafa tekið á sig stórfellda launaskerðingu sem hlutfall af útflutningstekjum, þessi skerðing rennur að miklum hluta beint í vasa útflutningsaðila sem hafa því meir á milli handanna sem kjör launafólks versna.

Það má því búast við miklum átökum þegar allir kjarasamningar liggja á lausu seinna á þessu ári.  Gylfi mun þrýsta fast á að bæta sínum mönnum launatapið sem hefur bætt rekstrarstöðu útflutningsaðila.  En það verður á brattann að sækja að hækka gengið.

Þar sem  erlendar skuldir þjóðarbúsins eru í hæstu hæðum er lítið svigrúm til að hækka gengið.  Lágt gengi er nefnilega nauðsynlegt til að gjaldeyrisafgangur verði til í landinu til að borga útlendingum vexti og afborganir.  Hærra gengi leiðir einfaldlega til greiðslufalls í erlendum gjaldeyri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Þetta er hin mikla þversögn á milli gengis og gjaldeyris sem margir átta sig ekki á.

Það sem gerir stöðuna svo enn verri er að öll þessi erlendu lán hafa að litlum hluta farið í gjaldeyrisskapandi verkefni og fæst þeirra fóru í verkefni sem geta staðið undir höfuðstól og vaxtagreiðslum í alvöru gjaldmiðli.  Því verður að borga af þessum lánum með því að skera niður, hækka skatta, hækka verð og taxta, lækka laun og fella gengið.

Það er erfitt að sjá hvernig hrein vinstri stjórn ætlar að taka á svona vandamáli án þess að valda launþegum vonbrigðum.

Við erum núna í ákveðnu logni hvað varðar gengi og verðbólgu en stormskýin hrannast upp.  Útlitið fyrir 2011 er ekki gott, búast má við lægra gengi og hærri verðbólgu.  Ófriður á vinnumarkaði mun alls ekki bæta þá stöðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Sjóður

    Ertu búinn að lesa athugasemdir Hagsmunasamtaka Heimilanna?
    http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/06/40_000_heimili_i_jarnum/
    „Friðrik víkur einnig að gengi krónunnar en hann er þeirrar skoðunar að þeir sem fari með stjórn peningamála beri ábyrgð á lágu gengi hennar.“

    Eins og það séu einhverjar forsendur fyrir sterkari krónu!

  • Sterk króna skapar ekki meiri gjaldeyri, en eykur hins vegar eftirspurn eftir gjaldeyri. Þar sem ekki er til neinn afgangsgjaldeyrir er tilgangslaust að tala um styrkingu, það myndi aðeins gera illt verra.

    Styrking er ekki möguleg nema með því að taka upp innflutningshöft sem myndi á endanum sprengja upp verð og auka verðbólgu.

    Að styrkja gengið með endalausum erlendum lántökum er ekki hægt lengur.

    Þar sem enginn gjaldeyrismarkaður er til staðar hér og höft eru ströng stýrir Seðlabankinn og AGS auðvita genginu, það er rétt hjá Friðriki, en hver er ábyrgur fyrir þessari stöðu, er miklu flóknara mál eins og kemur fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

  • Leifur Björnsson

    Gengið mun ekki styrkjast neitt á næstunni engar forsendur eru fyrir því.
    Við þurfum að ganga frá
    1.Samkomulagi vegna Icesave.
    2.Halda áfram samstarfinu við AGS.
    3.Halda áfram aðildarviðræðum við ESB og reyna að komast í skjól hjá evrópska Seðlabankanum.
    4.Taka til í ríkisfjármálun.
    Takist vel til í aðildarviðræðum við ESB getum við afnumið gjaldeyrisshöftin í samstarfi við evrópska Seðlabankann og komist inn í Evruna eftir kannski 10 til 15 ár því miður mun gengið verða lágt þangað til.
    Ef maður skoðar efnahagsumræðuna þá virðast margir eiga erfitt með að skilja að við erum að kljást við tvíburakreppu efnahags og gjaldeyriskreppu.
    Það er vel skiljanlegt að ASÍ sé pirrað yfir ástandinu í ljósi þess að samtökin eiga ekki sök á því.

  • Sjóður

    @Leifur Björnsson

    Ef þú heldur að bændasynir og útgerðarmenn séu aggressívir gegn ESB núna bíddu þá eftir umræðunni sem fer af stað þegar þarf að fara að negla niður gengi krónunnar gagnvart Evru.

    Mjög margir virðast lifa í þeirri blekkingu að í þeim viðræðum verði hægt að fá ESB til að endurreisa góðærið með því að bakka upp krónuna á „gamla góða“ genginu. Þrátt fyrir að í raun sé skásta raunhæfa gengið þar sem viðskiptajöfnuður er við eða rétt yfir 0

  • Ragnar Thorisson

    Einkennilegt orðalagið hjá myntkörfulántakendum að bankarnir hafi tekið afstöðu gegn krónunni, því afstaða til krónunnar hlítur alltaf að vera tvíeggjað sverð.
    þetta þekkja allir sem hafa upplifað gengisfellingar í gamla daga.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Það er margt rétt í þessum pistli. Ástæðan fyrir gjaldeyrishöftunum er vegna þess að lífsstandardinn árin fyrir hrun var ekki raunverulegur heldur fjármagnaður með lánum og með því að hafa krónuna fljótandi og kolrangt skráða.

    ASÍ sakna þess tíma þegar lífskjörin voru þannig en þau voru langt yfir framleiðslugetu landsins.

    Ástæðan fyrir gjaldeyrishöftunum er sá að útlendingar eiga enn um 400 milljarða í krónueignum hér.Hvernig í ósköpunum datt stjórnvöldum í hug að láta það gerast að fjármagna viðskiptahalla upp á mörg hundruð milljarða með því að lokka erlenda peninga til landsins með okurvaxtastefnunni ? Svo þegar það þurfti að greiða þetta til baka var gjaldeyririnn búinn fór í að fjármagan viðskiptahallan,

    Hvar voru allir sérfræðingarnir sem áttu að vera að fylgjast með mælunum sem voru farnir að sýna eldrautt árin fyrir hrun?

    Það tekur mörg ár að ná ballans í kerfið aftur og við verðum að sætta okkur við það. Þótt við mundum ganga í ESB þá hverfur vandamálið ekki. Það gengur aldrei til lengdar að eyða meiru heldur en er hægt að afla. Því verðum við að stilla lífsstandardin miðað við framleiðslugetu landsins en ekki falsa hann með endalausum lántökum.

  • Þórhallur,
    Þetta er rétt. Seðlabankinn er að reyna að ná balans í kerfið sem ekki er auðvelt. Auðvita verða ekki allir ánægðir. En hvað annað er hægt að gera?

  • Þórhallur Kristjánsson

    Andri Geir,
    Það er svosem ekki mikið annað hægt að gera en það sem verið er að gera. Sennilega mundum við komast fljótar út úr kreppunni ef við göngum í ESB og tökum upp evruna en það tekur líka tíma.

    Það er hinsvegar spurning á hvaða gengi ESB mundu vilja skipta krónunum sem hér liggja. Það hefur verið talað um að í íslenska bankakerfinu liggji um 2000 milljarðar króna. Hvert er raunverulegt verðmæti þessara króna ef við mundum skipta yfir í evrur ?

    Annað sem gæti hjálpað við endurreisnina er ef erlendir fjárfestar mundu koma með gjaldeyri hingað inn. Vinstri grænir eru ekki beint sá flokkur sem fagnar því. Síðan verður að huga vel að því ef íslenska ríkið eða íslensk fyrirtæki geta aflað sér gjaldeyrislána að sú fjárfesting fari í að skapa verðmæti í sama gjaldmiðli og lánin eru í.

    Árin fyrir hrun voru sveitafélög og fyrirtæki að fjármagna reksturinn með gjaldeyrislánum og höfðu litlar tekjur í gjaldeyri. Þetta getur aldrei gengið enda hrundi kerfið.

    Með jákvæðum viðskiptajöfnuði eins og verið hefur undanfarna mánuði erum við smá saman að laga gjaldeyrisstöðuna en skuldirnar eru það miklar að það tekur langan tíma að ná jafnvægi. Þessvegna er ekki hægt að kalla eftir því að það þurfi að styrkja krónuna mikið á nánustu framtíð. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að hafa krónuna sterkari.

  • Gísli Ingvarsson

    Ég er hjartanlega sammála Sjóði hér að ofan að það verður enginn hægðarleikur að fá Evrópska Seðlabankann til að samþykkja krónuna á góðu gengi. Hinsvegar er ég ósammála niðurstöðu hans um að bændasynir og útgerðarmenn fái meiri stuðning fyrir Ögmundarskap sínum en orðið er. Það verður að komast svo langt í umræðunni að menn fái að vita „raungengi“ krónunnar. Það verður botninn sem hægt verður að spyrna í. Breytilegt gengi „gengisvarinnar krónu“ er því miður ekki hægt að nota til neins. Ekki einu sinni til að fresta vandanum. Við erum komin í vandræðin og þeim verður ekkert frestað frekar.

  • Sjóður

    @Gísli Ingvarsson

    Það komst kanski ekki nógu vel til skila en ég er ekki viss um að Íslendingar almennt séu tilbúnir að sætta sig við „raungengi“ hvert sem það svo sem er. Held það gæti orðið erfitt debat.

    Það sést best á umræðunni þessa dagana. Menn tala um að Seðlabankinn sé að ráðast á krónuna þegar hann er að reyna að eiga eðlileg viðskipti á gjaldeyrismarkaði og fjármagna sig í gjaldeyri.

    Það er eiginlega of stutt síðan gengi erlendra gjaldmiðla var þægilegt fyrir Íslendinga sem pældu aldrei í viðskiptahallanum sem safnaðist upp á sama tíma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur