Mánudagur 13.09.2010 - 07:04 - 24 ummæli

Engin velferð án velmegunar!

Danir hafa áhyggjur af því að þjóðartekjur þeirra muni ekki vaxa nógu hratt í framtíðinni til að viðhalda norrænu velferðarkerfi.  Nú geta menn yfirleitt verið sammála um að danskt efnahagslíf stendur sterkari fótum en hið íslenska.  Hvað þá með framtíð velferðarkerfisins á Íslandi?

Danir líta á stærð og vöxt á landsframleiðslu á mann sem lykilstærð til að meta stöðu og framtíð velferðarkerfisins.  Aðeins lönd sem hafa hæstu landsframleiðslu á mann hafa efni á norrænu velferðarkerfi.

Samkvæmt tölum frá AGS fyrir 2009, var landsframleiðsla á mann í Danmörku í 5. sæti meðal þjóða heims (USD 56,115, nominal gdp) á meðan Ísland var í 19. sæti (USD 37,997, nominal gdp).  Landsframleiðsla á mann á Íslandi er aðeins 2/3 af landsframleiðslu í Danmörku.  Nú hafa þessar tölur ekki verið leiðréttar fyrir kaupgetu (PPP) og þar sem launataxtar eru mun lægri hér á Íslandi en í Danmörku getur hver dollari keypt fleiri vinnumínútur hér á landi.  Á móti kemur að miklar skuldir Íslands eru í gjaldeyri og aðföng eru að miklu leyti verðlögð í gjaldeyri þannig að það vegur upp á móti lágum launum.

Ekki aðeins eru tekjur okkar þær lægstu á Norðurlöndunum, stærsti hluti ríkisútgjalda í framtíðinni mun fara í vaxtagreiðslur til útlendinga, þannig að ekki verður mikið eftir til að halda uppi norrænu velferðarkerfi.

Í augnablikinu eru við í skjóli AGS og hinna Norðurlandanna, sem halda hlutunum gangandi á meðan við skerum niður og hækkum skatta.  En spurningunni um hvernig við viðhöldum norrænu velferðarkerfi á lágum tekjum og háum skuldum þegar hönd AGS sleppir er enn ósvarað.

Svo virðist sem að stærsti hluti þjóðarinnar setji traust sitt á „þetta reddast“ en þetta mun alls ekki reddast nema að við stóraukum gjaldeyrissköpun og framleiðslu okkar.  2 árum eftir hrun er fátt sem bendir til að við getum búist við sterkum útflutningsvexti í framtíðinni.  Þar með er framtíð velferðarkerfisins í mikilli hættu hér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • … og þá er nú gott að hafa hér á landi vinstristjórn sem hefur það að sínu eina höfuðmarkmiði að koma í veg fyrir hvers konar verðmætasköpun því slíkt felur í sér a) umhverfisrask, b) aukin auðæfi til þeirra sem leggja vinnuna á sig eða c) gæti ógnað alræðisvaldi ríkisins í lífi þegnanna.

    Vinstristjórnin gengur út frá því að hér sé hægt að kæfa allt og þannig skapa samfélag þar sem allir eru á bótum frá ríkinu, ríkið veiti fólki allt, og enginn fái örðu meira en næsti maður.

    Hver svo á að skapa tekjurnar fyrir ríkið til að framfylgja þessu er nokkuð sem Indriði Þorláks er ekki alveg búinn að sjá út, en fastlega má reikna með að skattar verði bara hækkaðir, enda er það svar vinstrimanna við öllum spurningum.

    Ísland er gjaldþrota, við erum bara með kyrrstöðusamning við umheiminn. Þegar kemur að skuldadögum mun í ljós koma að núverandi ríkisstjórn hefur, með misheppnaðri samfélagstilraun sinni, sett landið í þrot með því að eyðileggja sjálfar grunnstoðir hagkerfisins, verðmætasköpun og dugnað.

  • Gudrún þú ert grunnhygginn bjáni og sennilega af orðræðu þinni frá suðurnesjunum

    Á hinum norðurlöndunum hafa verið stjórnir sem þú myndir skilgreina sem vinstri stjórnir verið við stjórnvölin svo lengi sem elstu menn muna, samt gengur þeim betur en okkur.

    Málið er það að stjórnin tók við skipbroti efnahagsstjórnar sjálfstæðisflokksins, hann einn ber höfuðábyrgð á því sem er dragbítur á efnahagsmál íslands og verður til langs tíma.
    Sjálfstæðisflokkurinn þandi út stjórnkerfið þannig að þess eru varla nein hliðstæð dæmi í heiminum nema kannski í gamla sovét. Fyrir þessu rugli tók sjálfstæðisflokkurinn lán í útlöndum og milli þess að hann var að þiggja mútur frá bröskurum, þjófum og bankagansterum seldi hann eigur hins opinbera fyrir slikk. bæði hjá ríki og bæ sbr. hið STÓRKOSTLEGA fyrirtæki Fasteign.
    Málið er að sjálfstæðisflokkurinn er gjörspillt bananaapparat sem gengur út á að maka krókinn sem mest fyrir þig og vini þína.

    Bulldraumar um að hægt sé að búa til einhverjar framfarir með því að bæta við skuldir orkufyrirtækja til að búa til óarðbæra stóriðju niðurgreidda af almenningi eru einmitt bara það, draumar, það vill enginn lengur lána okkur því við erum svo stórskuldug og það er út af efnahagsóstjórn sjálfstæðisFLokksins.

    Gjörspillt glæpahyski sem sést best á því að enginn hefur beðist afsökunar og enginn vill breyta neinu, bara halda áfram á „við krökum til okkar botnlaust og endalaust og síðan borgar almenningur “ brautinni

  • Vel mælt Alfred, það var kominn tími til að e-r segði þessum heimóttalegu sjöllum til syndanna.

  • Pétur G.

    Alfred, það er þú sem ert grunnhygginn bjáni. Guðrún hafur hárrétt fyrir sér.

    Þú ert svona týpískur vinstrimaður sem kennir öðrum um eigið getuleysi og dvelst um leið í fortíðinni með eftiráskýringar.
    Sá sem dvelur um of lengi í fortíðinni kemst aldrei fram á við, enda hefur viðkomandi enga framtíðarsýn. Þetta er lýsandi fyrir núverandi stjórnvöld.

    Þú nefnir að hin Norðurlönd hafi haft vinstristjórni meira eða minna alla tíð.
    Þetta er ekki rétt.

    Í Danmörku hefur verið hægristjórn í næstum 10 ár.
    Í Svíþjóð hefur verið hægristjórn í 4 ár, og er útlit fyrir að hún haldi velli.
    Í Finnlandi hefur verið hægri stjórn meira eða minna sl . 20 ár.

    Noregur er að vísu hér undantekning með sína miðju-vinstristjórn, en þeir haf þau vit á því að nýta náttúruauðlindir landsins sem er öfugt við það sem vinstri-velferðarstjórnin vill gera hér á landi.

    Núverandi stjórnvöld hafa nefnilega ákveðið að nýta EKKI náttúruauðlindir landsins (sem eru vatns- og jarðvarmaorku). Þess í stað á að gera landið að einum allsherjar þjóðgarði og útivistarsvæði sem eru á framfæri skattborgaranna.

    En Alfred, fyrst þú ert svona ósammála Guðrúnu (og reyndar síðuhaldara líka) ertu með einhverjar raunhæfar hugmyndir að atvinnusköpun og uppbyggingu svo hægt verði að halda hérna upp velferð að Norrænni fyrirmynd?

    Koma svo Alfred, komdu með raunhæfar hugmyndir.

  • Hægan, hægan, Alfred, kurteisi kostar ekkert. Það er margt rétt sem Guðrún er að segja. Það er líka margt rétt í stefnu VG en hún er allt of norsk í uppbyggingu. Norðmenn með sinn olíugróða og skuldlaust ríki hafa efni á flokki eins og VG en það höfum við, því miður ekki, nema við séum tilbúin að fórna norræna velferðarkerfinu. Það verður ekki bæði haldið og sleppt hér.

    Svo má ekki rugla saman hugmyndafræði og fólki. Á Íslandi var það fyrst og fremst fólkið sem brást. Sjórnmálamenn og athafnamenn höfðu ekki reynslu eða þekkingu á hlutunum.

    Fjárfesting í endurnýjanlegri orku getur verið mjög arðbær ef rétt er haldið á spilunum og rétt fólk kemur að henni. Þetta hefur ekkert með hægri eða vinsti að gera eins og sést best á hinum Norðurlöndunum. Kratar byggðu upp velferðarkerfið þar en hægri flokkar sigldu því í gengum kreppuna núna í Svíþjóð og Danmörku. Í þessum löndum er það þjóðarhagur sem kemur á undan flokkspólitísku þrasi.

    Ef við ætlum ekki að nýta okkar orku er vandséð hvaðan hagvöxtur í framtíðinni á að koma. Sjávarútvegurinn er fullnýttur og landið getur ekki tekið við endalausum ferðamönnun enda eigum við hvorki húsnæði, bíla eða fólk til að sinna margfalt fleiri ferðamönnum. Landbúnaðurinn er niðurgreiddur svo hann skilar litlum nettóhagnaði.

    Það er líka rétt að enginn vill lána okkur og í framtíðinni verða erlend lán fokdýr fyrir Íslendinga. Þeir einu sem hafa aðgang að lánum á viðráðanlegu verði eru útlendingar, aðeins þeir munu geta hámarkað arð af íslenskri orku. En þar sem það er pólitísk tabú að hleypa útlendingum inn í orkugeirann verðum við að sætta okkur við hægan og óstöðugan hagvöxt í framtíðinni og lélegra velferðarkerfi.

    Það eru miklar líkur á að næsta kynslóð hreinlega flyti úr landi eða hleypi erlendum fjárfestum inn í orkugeiran til að vernda lífskjör sinna barna.

  • Ég þakka enn eina áhugaverða greinina frá þér Andri Geir.

    Ég deili þessum áhyggjum með þér, að þegar hönd AGS og hinna Norðurlandanna sleppir kemur virkilega í ljós hvað við erum illa stödd. Ríkið er varla byrjað að taka til hjá sér og við lifum um efni fram í dag sem aldrei fyrr. Það greinilegt að stjórnvöld eru enn og aftur kominn í „þetta reddast gírinn“.

    Veistu hvenær áætlað er að AGS prógramminu ljúki og raunveruleikinn taki aftur við á Íslandi?

  • Þórhallur Kristjánsson

    Það er ljóst að sjávarútvegurinn er nokkurnvegin föst stærð og kemur ekki til með að duga fyrir auknum hagvexti í framtíðinni.

    Ferðaiðnaðurinn hefur verið að stækka og getur stækkað eitthvað meira. Stóriðjan hefur gert okkur kleift að byggja virkjannir og er samið við stóriðjufyrirtækin til ákveðinns árafjölda. Þegar samningarnir við stóriðjuna renna út halda virkjannirnar áfram að snúast og möguleiki að semja um hærra verð eða selja orkuna til annara notenda sem eru viljugir til þess að greiða meira.

    Sú grein sem hefur verið að vaxa mest er hugverkaiðnaðurinn sem er orðin 22% af heildarútflutningstekjum íslendinga. Þessi geiri hefur verið í mikilli sókn og á sennilega eftir að vera það sem dregur okkur áfram í framtíðinni.

    Hvað varðar það að engin fáist til þess að lána Íslendingum þá vill forsætisráðherra Kína stórauka samskipti þjóðanna.

    Það sem við þurfum mest á að halda á Íslandi eru stjórnvöld sem stýra málum með aga og festu og án spillingar. Þannig hefur þetta því miður ekki verið undanfarin ár.

    Eg tel landið hafa það fram að færa sem þarf til þess að skapa íbúum þess gott líf ef rétt er haldið á málum.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Þórhallur,
    Hugverkaiðnaðurinn er auðvita góður en hann á að bætast við orkuiðnaðinn, ekki geta allir unnið við forritun. Svo er alltaf hætta á að þeir sem eru með hugverkafyrirtæki leyti á ákveðnum tímapunkti út fyrir landið ef skattaumhverfi eða höft eru of mikil hér.

    Ísland á 20. öldinni var byggt upp með erlendu lánum, að segja við næstu kynslóð nú verðið þig að bjarga ykkur án erlendra lána er að kalla stöðnun yfir landið. Þar með mun hagkerfið aðeins þjóna ákveðnum fjölda, hinir verða að leyta til útlanda.

    Kapítalísk hagkerfi ganga fyrir fjármagni.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Halldór,
    Ef allt er á áætlun mun AGS hverfa af landi brott á næsta ári, að mig minnir. Ef Icesave er þá enn óafgreitt, ESB umsókn í uppnámi og AGS farinn af landi brott mun ríkja hér hámarksóvissa.

    Ég held að AGS fari nú ekki fyrr en Icesave er í höfn.

  • Thor Svensson

    Nú segir Alfred reyndar; „Á hinum norðurlöndunum hafa verið stjórnir sem þú myndir skilgreina sem vinstri stjórnir verið við stjórnvölin svo lengi sem elstu menn muna“. Og það er hárrétt hjá honum. Núverandi stjórnir í bæði Danmörku og Svíþjóð eru vel vinstra megin við miðju ef við skilgreinum hægri og vinstri sem við gerum hér á landi.

    Að auki vil ég bara segja, að áður en hugað er að framtíð, þá verður fortíðin að gerast upp. Grunnurinn verður að vera í lagi áður en byggt er ofaná. Því lengur sem menn draga lappirnar í að gera upp fortíðinna, því lengur megum við bíða eftir þeim dásamlega degi þegar við getum byrjað á að sjá fram á við.

  • Og hvernig eiga danir og aðrir að fara að því að átjánfalda hagkerfi sitt á næstu öld? Það er jú það sem 3% hagvöxtur þýðir. Nánar tiltekið u.þ.b tvöföldun á efnahagsumsvifum á ~25 ára fresti.

    Það skiptir engu máli Andri hversu mikið okkur langar til að viðhalda hagvaxtartrúnni og fjármagna velferðarkerfin og allt það. Vandinn er að stefna af þessu tagi brýtur í bága við náttúrulögmál. Hvergi nokkursstaðar eru sjáanlegar orku- eða hráefnisauðlindir til að hagvöxtur af þessari stærðargráðu sé mögulegur. Ekki einu sinni í brjáluðustu vísindaskáldsögum gengi þetta upp.

    Höfum þetta bara á hreinu; Ef hagvöxtur á að vera 1-3% í heiminum á næstu öld þá verður mannkyn að beisla samrunaorku eða einhvern annan orkugjafa sem jarðar þá sem við höfum nú að stærðargráðu (þeir sem við notum helst í dagu eru þverrandi!) Til viðbótar þá verður þróa geimferðatækni til að sækja hráefni út í jaðar sólkerfisins því að vöxtur af þessu tagi er útilokaður á þeim takmörkuðu námaauðlindum sem finnast á plánetunni.

    Og þessa stefnu leggur menntað fólk blákalt fyrir almenning víða um heim og vill láta taka sig alvarlega! Á meðan það blasir við að flest eldri hagkerfi jarðar eru að hruni komin undan skuldafargi ónýts peningakerfis sem þrífst á ósjálfbærum hagvexti sem er ómögulegur.

    Ha?

  • Pétur G.

    Thor Svensson,
    Það er ekki rétt hjá þér, að bæði í Danmörku og Svíþjóð séu við völd ríkisstjórnir sem séu vinstra-meginn við miðju.
    Þar eru við völd ríkisstjórnir sem eru HÆGRA-meginn við miðju.

    Svo er spurningin, hvernig uppgjör við fortíðina viltu?

  • Pétur G.

    W, ertu með einhverjar aðrar lausnir á vanda heimsins aðrar en þær að flytja til annarra hnatta??

  • Pétur G.
    Hagvöxtur er ósjálfbær í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Það er ekki skoðun heldur staðreynd á meðan að hagvöxtur útheimtir sífellt meiri orku og hráefni. Það er bara engin leið að komast framhjá þessu.

    Það má víða finna hugmyndir um breytingar, en á meðan opinber umræða er gikkföst í sömu hjólförunum er ótímabært að ræða lausnir. Fyrsta vers er að horfast í augu við vandamálið og mér sýnist að uppdráttarsýkin verði að grassera vel og lengi áður en fólk er tilbúið að setja sig í þær stellingar.

  • Heyr heyr Thor

    Það þarf einmitt að viðurkenna að vandamál sé til staðar áður en hægt er að vinna að því.

    Nye moderatarne i Svíþjóð er einmitt dæmi um „hægri“ flokk sem hegðar sér að mörgu leyti eins og krataflokkur t.d. hafa þeir staðið kröftugan vörð um störf og velferðarmál. Samt þannig að vit sé í þ.e. að peningur sé til fyrir hinum góðu málefnum.
    Eitt sem hefur verið mikið vandamál á Íslandi er talnablinda eða etv. talnahunsun stjórnmálamanna og er þar af mörgu af taka.

    T.d. þegar Kárahnjúkar voru byggðir var hunsað að verri lánskjör Íslands vegna áhrifa lántakna Landsvirkjunar kostuðu ótæpilegt fé og gerðu í raun hagnað af störfum að engu þannig að næstu 20 árin eða svo verða kárahnjúkar bara kostnaður.

    eða
    kerfið sem sett er upp á íslandi með tilliti til verðtryggingar sem er svo fáránlegt að það tekur ekki nokkru tali vegna þess að hækkanir vegna skattheimtu leiða til hækkunar á neysluverðsvísitölu þannig að það sem ríkið tekur inn með hægri borgar það út með vinstri í formi hækkana á lánum og annarra ruðningsáhrifa (að ónefndum áhrifunum á fjárhag almennings sem verður fyrir tveimur höggum, fyrst verðhækkunum vegna aukinnar skattheimtu og síðan hækkunum á verðtryggðum lánum)

    eða
    Reyknesingar sem eyða árum saman langt um efni fram og fela sukkið með erlendum lántökum í gegnum snilldarfyrirtækið Fasteign, enginn virðist geta lagt saman 2+2 og fengið út 4 enda fjármálasnillingar þar við stjórnvölinn og vitleysingarnir kjósa aftur yfir sig snillingana enda búið að lofa álveri þrátt fyrir enga orku, ekkert skipulag enga fjármögnun (og ekkert vit)

    Varðandi það að ég sé týpiskur vinstri maður þá er það bara rugl. Ég tel mig norrænan hægrimann og lét mér til mikillar skammar FLokkinn glepja mig til að kjósa sig. Ég hef eftir að ég vitkaðist og fór að sjá í gegnum retóríkina skilað auðu því enginn flokkur á Fróni stendur sig ( en samt enginn jafn illa og FLokkurinn)

    „Þú ert svona týpískur vinstrimaður sem kennir öðrum um eigið getuleysi og dvelst um leið í fortíðinni með eftiráskýringar.“

    Ef ríkisstjórn tekur við skuldum hlöðnu landi eftir áratuga sukk, svindl og svínarí þá verður ekki hjá því komist að borga skuldirnar og endurskoða atferli svo ekki komi aftur til slíkra hamfara. Alveg óháð hvort maður er vinstri eða hægrisinnaður

  • Thor Svensson

    Pétur G. Ég sagði heldur ekki að stjórnir Danmörku og Svíþjóðar ekki væru hægra megin við miðju! Ég sagði að núverandi stjórnir í bæði Danmörku og Svíþjóð væru vel vinstra megin við miðju ef við skilgreinum hægri og vinstri sem við gerum hér á landi. Lestu nú almennilega það sem ég skrifa.

    Hvað varðar uppgjör við fortíðina, er það augljóst fyrir hvern og einn hvað skal til. Skil því ekki spurningu þína. Líttu í eigin huga. Nema að þú viljir að ég skligreini almnent hvaða hlutir séu með í uppgjöri og hvaða hlutir séu ekki með. Það læt ég mér fróðar menn dæma um. Það gæti þó orðið fróðleg umræða. Uppgjör hefur fyrst tekist þegar meginþorri þjóðarinnar er sátt og finnst réttlætinu hafi verið fullnægt.

  • Því miður er það sem Andri Geir er hér að benda hárrétt.
    Við höfum ávaxtað okkar pund hræðilega og komum til með að súpa seyðið af því næstu 1-2 áratugina.
    Þessi umræða um það að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo mikill hægriflokkur miklu meiri en flokkarnir á Norðurlöndum er náttúrlega hjákátlegt og þeir sem fullyrða þetta held ég séu ekki vel að sér í stjórnmálum annars staðar.
    Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn afrekað í landsmálunum?
    Þar hafa þeir aukið ríkisútgjöld að raunvirði um yfir 40% frá 2000 til 2008 og aukið fjölda opinberra starfsmanna um 27% og hlutfall ríkisins af kökunni er stórt.
    Raunar hefur ákveðins miskilnings gætt enda er
    Þeir bera ábyrgð á Landbúnarkerfi sem er það miðstýrðasta og ömurlegasta í heimi og skilar náttúrlega því miður engu í þjóðarbúið þegar betur er skoðað.
    Sjávarútvegskerfið þar sem ákveðnir einstaklingar eiga kvóta á Íslandi er náttúrlega bæði óréttlátt, heimskulegt enda nær allar þjóðir með gjald á bæði veiðileyfi, leyfi til að vinna olíu, gas, kol ofl. það er engin þjóð sem gefur auðlindir einstaklingum og við höfum ekki efni á þessu enda þarf fólk þá bara að borga meira í sínum sköttum. Þetta er engin vinstristefna þetta er bara „common sense!“

    Ef maður lítur á stjórn Sjálfstæðismanna í bæjarfélögum er ekki beint hægt að segja að þeir hafi staðið sig neitt sérstaklega vel framar öðrum. Reykjanesbær toppar listan með 4 miljarða halla árlega sem fjármagnaður hefur verið með skuldsetningu og er dæmi um heimskulegt og heilalaust bull.

    Það að segja að Sjálfstæðisflokkurinn er einhver mikill hægriflokkur er nátturlega bull. Þetta einkavinavæðingaferli er bara svona venjulegur spillingarkapitalismi eða crony capitalism http://en.wikipedia.org/wiki/Crony_capitalism
    „Crony capitalism is a pejorative term describing an allegedly capitalist economy in which success in business depends on close relationships between businesspeople and government officials. It may be exhibited by favoritism in the distribution of legal permits, government grants, special tax breaks, and so forth.

    Crony capitalism is believed to arise when political cronyism spills over into the business world; self-serving friendships and family ties between businessmen and the government influence the economy and society to the extent that it corrupts public-serving economic and political ideals.“

  • Eiginlega finnst mér Sjálfstæðiflokkurinn vera hópur illra upplýstra hillbilla sem ekkert hafa vitað hvernig stjórna á hagkerfinu enda var allt keyrt í kaf.
    Enda var svo sannarlega hagstjórnin hagstjórn hinna heimsku. Þeir gerðu allt til að auka þennslu því þá urðu þeir vinsælir. Juku lánsfé í gegnum íbúðarlánasjóð. Heilalausu bankarnir sem gefnir voru amatörum (með rétt flokksskírteini), lækkuðu matarskattinn, juku á opinberar framkvæmdir, blésu út fasteignabóluna. Davíð Oddsson krýndi sjálfan sig sem Seðlabankastjóra og var í raun hafður að háði og spotti. Hann fékk Ig Nobel Prizehttp://en.wikipedia.org/wiki/Ig_Nobel_Prize sem fær mikla athygli og er í Harvard

    http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Ig_Nobel_Prize_winners

    Árið 2009 fengu Íslendingar þetta:
    Ig Nobels Prize
    Economics: The directors, executives, and auditors of four Icelandic banks — Kaupthing Bank, Landsbanki, Glitnir Bank, and Central Bank of Iceland — for demonstrating that tiny banks can be rapidly transformed into huge banks, and vice versa (and for demonstrating that similar things can be done to an entire national economy).
    Raunar fékk starfsbróðir Davíðs Oddssonar, Gideon Gono í Seðlabankanum í Zimbabwe þá Ig Nobels Prize i Stærðfræði. „… for giving people a simple, everyday way to cope with a wide range of numbers by having his bank print notes with denominations ranging from one cent to one hundred trillion dollars.“

  • Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í íslenskum efnahagsmálum? Sem í mörg ár flokksmaður og stuðningsmaður flokksins finnst mér það grátlegt að horfa upp á þessa hryggðarmynd sem við blasir. Tek það fram að ég er enginn stuðningsmaður Framsóknarflokks eða Samfylkingar og VG eru hinum meginn á vellinum.

    Hvað heldur fólk að það að segja nei við Icesave (eða þora ekki að semja) leysi okkar efnahagsmál eða það að neita að tala við Evrópubandalagið. Ekki eins og það sé að rigna yfir okkur tilboðum. Hér á Sjálfstæðisflokkurinn enga samleið með öðrum hægriflokkum Evrópu en hins vegar vilja menn ólmir lána fé hjá Pútin og rússum og vilja hoppa í fangið á Rauða Kína sem mér finnst í raun hreint ótrúlegt.
    Það að halda því fram eins og á síðasta ársfundi Sjálfstæðisflokksins að þjóðarkakan myndi bara vaxa af sjálfum sér er náttúrulega veruleikafyrrt bull.
    Það þarf að minnka sneið ríkisins og það þýðir bless við norræna velferðarkerinu því við höfum ekki efni á velferð á krítarkorti sem bráðum verður búið að klippa.

    Íslensk velferð verður kostuð af Íslendingum. Þjóðarkakan er að dragast saman og ein helsta útflutningsafurðin er velmenntað fólk sem gefst upp á lúsalaunum og skattaokri á Íslandi.

  • Ómar Harðarson

    Mikið svakalega eiga menn erfitt að halda þræði í umræðum hér. Það er áhyggjusamlegt hversu lítil vitræn umræða fer fram um hvernig ná eigi landinu upp úr því botnfeni sem það er komið í. Fyrir hrun var ég með sambærileg laun við kollega mína í Noregi og Danmörku. Í dag er ég hálfdrættingur og varla það. Það er von að margir, og einkum fjölskyldufólk, hyggi á brottflutning af landinu eða eru þegar farnir.

    Það er alveg ljóst að ekki verður meiri framlegð í sjávarútvegi nema þar verði uppstokkun. Skuldum vafin fyrirtæki verða að fá að fara á hausinn og nýir eigendur sem starfa undir nýju regluverki verða að koma í staðinn.

    Landbúnaðurinn kostar skattgreiðendur 15 milljarða króna í beinhörðum framlögum. Því til viðbótar koma fáránlegir tollmúrar og tæknilegar hindranir á innflutning landbúnaðarafurða sem kosta þjóðarbúið amk annað eins. Landbúnaður í núverandi mynd er eitt af því sem leggja þarf niður, enda er það ekki sjálfbær atvinnugrein. Það má þó kannski eyða eins og 2-3 milljörðum til að halda hér úti menningarlegum verðmætum, landsnámsfé, landnámshænum og landnámskúm ásamt geitum. Þá peninga má fá af því sem sparast við að skilja að ríki og kirkju.

    Ég get hins vegar ekki séð að frekari fjárfesting í orkugeiranum geti skilað okkur áfram. Arðsemi þeirra framkvæmda hefur ekki verið það mikil hingað til. Langlíklegast er að strengur til Evrópu verði mun arðbærari. Hann losar okkur auk þess undan stóriðjunni sem litlu skilar og alls ekki þeim margföldunaráhrifum sem logið hefur verið að okkur (hvar eru 2000 aukastörfin á Austfjörðum sem áttu að fylgja 600 manna álveri?). Við verðum að hætta að hugsa í stórum lausnum. Menntað fólk með ímyndunarafl og áræðni er fyllilega fært um að þróa áfram fyrirtæki og arðbæra starfsemi. Það þarf ekki miðstýringu í frjálsu þjóðfélagi.

    Loks verð ég að viðurkenna að stjórnmálaástandið veldur mér miklum áhyggjum. Hér á landi er öllu snúið við. Hægri flokkar vilja bylta öllu (en líka raka undir sérhagsmunina), en Vg er eini íhaldsflokkur landsins. Andri Snær vísar til þessa í langloku í Fréttablaðinu um helgina. Samfylkingin er í augnablikinu eini flokkurinn með viti, með kúrsinn á ESB. Auðvitað á allt hófsemdarfólk að fylgja þeim að málum. En það verður líka að vera hægt að halda uppi skynsamlegum samræðum við hægri róttæklingana og vinstra íhaldspakkið um framtíð landsins og meginstefnu. En það virðist útilokað.

  • Athyglisvert er að sjá að íslenska ´“íhaldið“ er ekkert hægri flokkur lengur og hefur stefnu sem á ekkert skylt við raunverulega hægri flokka í evrópu. Þjóðernishyggjuflokkar eru reyndar oft kenndir við „hægri“-stefnu en það er mjög úrelt tenging og stafar frá tímum gamla evrópufasismans í byrjun síðustu aldar. Í dag hafa þjóðernisofstækismenn meira og minna yfirgefið klassiska hægri stefnu og hafa mörg „vinstri“-markmið til að vinna sér hylli hjá lágstéttarfólki en þar eru atkvæðin helst á lausu en það er víðast alið upp í „vinstri retórík“. Þannig sé ég amk Breska Þjóðarflokkinn fyrir mér en hann er í dag fyrirmynd íslenska Sjálfstæðisflokksins hvað varða evrópu“efasemdir“.

    Íslendinga vantar hægri flokk ekki þjóðernissinna. Þjóðernisvakningin hjá ESB andstæðingum hefur sameinað gamla Austantjaldskomma einsog Ragnar Arnalds og Hjörleif og gamla herstöðvasinna köldu stríðsáranna einsog Kjartan Gunnarsson og Styrmi í einn flokk. Þessir dínósárar kaldastríðsins kunna bara eina hugmyndafræði og hún er ekki andstæðari en svo þegar upp er staðið að nú eru þetta samherjar gegn allri umræðu að mögulega breyttri og bættri framtíð íslensku þjóðarinnar.

    Þegar upp er staðið eru Styrmir og Björn Bjarna „laumu-kommar“. Hagsmunagæslumenn einokunarafla og skoðanakúgara.

  • Leifur Björnsson

    Ómar Harðarsson ber af þeim sem senda inn ummæli við þessa færslu .
    Rökfastur, kurteis og öfgalaus.

  • Forever is a long bargain.

  • Beautiful blog with nice informational content. This is a really interesting and informative post. Good job! keep it up, hope to read your other updates. Thanks for this nice sharing.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur