Föstudagur 24.09.2010 - 08:41 - 9 ummæli

Hugmyndaskortur tefur uppbyggingu

Þegar kemur að stjórnun og skipulagi er Ísland einstaklega íhaldssamt og hugmyndasnautt land, ólíkt því sem er á sviði lista og bókmennta.

T.d eru róttækar hugmyndir um hvernig við skipuleggjum og stjórnum okkar atvinnulífi eins konar tabú, og hvergi er þetta augljósara en í opinbera geiranum.

Flestir geta verið sammála um að hagvöxtur er nauðsynlegur til að viðhalda okkar lífskjörum og velferðarkerfi.  Gríðarlegur samdráttur hefur orðið hér síðustu tvö ár og enn bíðum við eftir að þetta snúist við.

Ástæður þess að hagvöxtur lætur bíða eftir sér eru margar, skortur á fjármagni á viðráðanlegu verði er ein, en önnur er ósveigjanleiki í skipulagi og stjórnun.

Í sinni einföldu mynd er VLF á mann byggð upp af margfeldi landsframlegðar og fjölda unna klukkustunda á ári per mann, sem ég kalla hina tvo stillihnappa.  Á Íslandi hefur landsframlegð alltaf verið fremur lág en fjöldi vinnuklukkustunda há, ólíkt okkar nágrönnum.  Þetta hefur að sumu leyti komið okkur til góða í þessari kreppu.  Við höfum getað stillt kerfið af með því að nota báða stillihnappana, fyrst lækkuðum við landsframleiðslu per unna klukkustund (sem er í alþjóðlegum samanburði mæld í USD, PPP)  með gríðarlegri gengisfellingu og svo höfum við verið að „fínstilla“ hlutina með því að fækka unnum klukkustundum sem kallast víst að aðlaga starfshlutfall að fjárhagsáætlun.

En þessi margrómaði sveigjanleiki, hefur sínar dökku hliðar.  Fyrir almennt launafólk þýðir þetta lægri launataxta og hærra verðlag en í nágrannalöndunum.  Eina leiðin fyrir einstaklinginn er að vinna fleiri stundir og berjast fyrir hærri töxtum en stjórnvöld svara þá með gengisfellingu.  Í hagkerfum sem ekki nota gengisfellingar er verk stjórnvalda miklu vandasamara og erfiðara.  Þar þurfa menn virkilega að bretta upp ermarnar og vinna hörðum höndum við að skipuleggja og stjórna hagkerfinu þannig að framlegðarvöxtur verði jákvæður og jafn.  Á Íslandi kemur þetta í skorpum og rykkjum.

En ástandið í dag er um margt óvenjulegt.  Enn önnur gengisfelling eða fækkun vinnustunda mun ekki bæta ástandið og gera næstu lendingu mjúka.  Nú er komið að því að Ísland fari að gera ráðstafanir til að bæta framlegð og auka gjaldeyristekjur.  Nýjar, sveigjanlegar og praktískar hugmyndir eru eina leiðin til að losa um gamlar stillingar sem eru hættar að virka.

Fyrst verður að líta á vaxtarhorfur í okkar aðalatvinnugreinum og meta möguleika á framlegðaraukningu og gjaldeyrisskapandi störfum.  Við verðum að fara að koma með raunhæfar hugmyndir um hvernig við færum störf á milli greina og þá sérstaklega hvernig við  hvetjum og þjálfum fólk til nýrra og þjóðhagslega hagkvæmari starfa.

Eitt stærsta verkefnið hér er að minnka opinbera geirann og færa fólk yfir í greinar sem bjóða upp á háan framlegðarvöxt of gjaldeyrisskapandi verkefni.  Þetta verður ekki gert af viti nema með því að auka framlegð opinbera geirans á sama tíma.  Aðeins þannig er hægt að standa vörð um grunnþjónustu og fækka fólki á sama tíma.  Hér þurfum við að þróa og innleiða róttækar hugmyndir sem taka á skipulagi, stjórnun og vinnutilhögun.  Vandamálið er hins vegar að þá þarf að taka á gömlum valdastrúktúr sem byggir á áratuga pólitík, úreltri hugmyndafræði og óskrifuðum venjum.  Fáir treysta sér út í þá ormagryfju og því hjökkum við í sama farinu og bíðum eftir næstu gengisfellingu og lækkuðu starfshlutfalli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Það er ekkert mál að auka framlegðina. Við einfaldlega styttum vinnuvikuna. Augljóslega eru afkostin ekki í beinu hlutfalli við vinnutíma. Einnig má draga úr atvinnuleysi og auka framlegð með því að dreifa vinnunni á fleiri einstaklinga.

  Ég vil þó benda á að þeir sem halda því fram að hagvöxtur (a.m.k. umfram fólksfjölgun) sé nauðsynlegur eru illfærir að hugsa út fyrir kassann (íhaldssemi og hugmyndasneyð). Við núverandi kerfi erum við einfaldlega háð hagvexti og reyndar einnig erlendu lánsfé eins og hætt kominn fíkniefnaneytandi.

  Við eigum auðvitað að hanna fjármálakerfið upp á nýtt þannig að við losnum við þá eiginleika sem viðhalda þrældómi og óstöðugleika.

  Hagstjórn er auðveld ef kerfið er smíðað rétt og í þágu almannahags. Það er þó dapurlegt hvað margir eiga erfitt með að koma auga á það og líta á núverandi fyrirkomulag kerfisins sem einskonar náttúrulögmál.

 • Það er framlegðarvöxtu per einstakling og per unna klukkustund sem við verðum að stefna á. Aðeins þannig er hægt að hækka taxtakaup og lífskjör.

  Hagstjórn er allt annað en auðveld eins og dæmin sýna á Íslandi. Þetta er eitt erfiðasta verkefnið sem við glímum við.

  Annað hvort eru við í kapítalísku hagkerfi eða ekki, það er ekki stundum hægt að vera þar og stundum ekki eins og margir halda. Hvernig við notum og dreifum arðsemi af kapítalískum rekstri er önnur spurning. Þetta tvennt þarf að aðskilja vel.

 • „Annað hvort eru við í kapítalísku hagkerfi eða ekki, það er ekki stundum hægt að vera þar og stundum ekki eins og margir halda. Hvernig við notum og dreifum arðsemi af kapítalískum rekstri er önnur spurning. Þetta tvennt þarf að aðskilja vel.“

  Hér er ég algerlega sammála þér Andri. Ég skil alveg hugsunina hjá Þórarni varðandi að hugsa út fyrir rammann/kassann, en almennt séð er auðvitað viljandi rætt hvað við getum gert innan núverandi kerfis til að bæta það og.. „láta það virka“, fremur en hvernig við getum byrjað aftur frá grunni og rekið okkur á nýtt safn af vandamálum næstu áratugina.

  Það er mjög mikilvægt að geta komið með nýstárlegar lausnir og vera ekki of fastur innan „kassans“ (að sama skapi og nauðsynlegt er að hugsa út fyrir núverandi hefðir opinbera geirans), ekki síst í okkar núverandi ástandi. En við þurfum alltaf að vera innan einhvers ramma, sama hvað við ræðum og í dag er sennilega nytsamlegast að sjá hvað við getum gert við núverandi kerfi/ástand, fremur en að fara alveg aftur í grunninn og velta fyrir sér hvað við gætum gert ef við byrjuðum upp á nýtt. Þó auðvitað sé oft gaman að velta hlutum þannig fyrir sér líka… að fenginni reynslu gætum við oftast bætt hlutina ef við gætum farið til baka… þó eflaust kæmu þá bara ný vandamál til að læra af í staðinn.. 🙂

 • Jóhannes

  Andri Geir, þú kemur oft með áhugavert sjónarhorn.

  Fullyrðingin: „Flestir geta verið sammála um að hagvöxtur er nauðsynlegur til að viðhalda okkar lífskjörum og velferðarkerfi.“ er einmitt einn stærsti hugmyndafræðilegi og pólitíski ágreiningurinn í stjórnun efnahagslífs á Íslandi í dag.

  Eins og kemur fram hjá Þórarni Einarssyni eru allmargir þeirrar skoðunar að hagvöxtur sé af hinu vonda vegna afleiðinga hans og Ísland eigi því að stefna að byggja upp samfélag sem grundvallast á litlum og helst engum hagvexti. Þetta virðist vera grundvöllur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar undir forystu Vinstri Grænna. Nú eru miklar líkur á að þessi efnahagsstefna nái fram að ganga, samdráttur verði á þessu ári og næstu ár verði nálægt núlli eða mjög hægur hagvöxtur (seðlabankinn byggir á óraunhæfum forsendum um hagvöxt þar sem m.a. taka tillit til stóriðjuframkvæmda sem ríkisstjórnin er andsnúin).

  Það verður því spennandi að sjá hvernig landsmenn taka í stefnu ríkisstjórnarinnar um lítinn sem engan hagvöxt á komandi árum.

 • Það er ekki rétt að við séum annað hvort í kapitalískum rekstri eða ekki. Mörkin milli opinbers- og einkareksturs eru mismunandi milli landa en ekkert ríki er algerlega undirlagt kapitalískum rekstri og ekki frekar er til lönd sem eru algerlega keyrð á opinberum rekstri.

  Hvað varðar hagvöxtinn að þá myndi ég miklu frekar vilja skoða hvernig við getum byggt hérna gott samfélag á breiðari grunni en því hvernig við getum búið til samfélag sem hámarkar einkaneyslu. Þannig eykur það hagvöxt að sleppa heilbrigðiskerfinu frjálsu og senda lækna og auglýsendur út að sannfæra fólk um að það þurfi á fleiri aðgerðum að halda, en það býr ekki til betra samfélag að mínu mati. Við getum líka stóraukið álagið á fólk á vinnumarkaði og þannig aukið hagvöxt en það býr ekki endilega til betra samfélag. Í Danmörku þar sem ég þekki til er t.d. talsvert meiri afkastakrafa á vinnumarkaði og fyrir vikið er fjórðungur fólks á vinnufærum aldri utan við skóla- og vinnumarkaðinn.

  Það sem ég myndi frekar vilja skoða er hvernig við getum byggt upp samfélag þar sem fólk er upplýst, hamingjusamt og heibrigt með lágmarks auðlyndanotkun. Hagvöxtur leikur aukahlutverk í slíkri uppbyggingu.

 • Andri Haraldsson

  Andri Geir-

  Óháð hvað fólki finnst um haagvöxt, þá hittir þú naglann á höfuðið. Mesta vandamál Íslands er að hvernig málum er háttað og í hvað störfin fara. Íslendingar hafa vanist því að búa við mikinn vöxt og fjárfestingu í þjóðfélaginu (rykkjótt og skrykkjótt eins og það hefur verið), og það hefur oft falið hversu mikill hluti starfsaflans er í störfum sem skila litlu efnahagslega.

  Það er í sjálfu sér ekki vandamál að vera með ríkisbákn, og alls kyns nefndir og ráð og listamannastyrki, og niðurgreiða þetta og hitt og byggja allar byggingar úr flottustu efnum osfrv. — EF og aðeins EF maður á fyrir því. Vandamálið er að Íslendingar hafa ekki efni á þessum flottræfilshætti (hafa aldrei, en gátu logið því að sér og falið það í þenslu). Það mun taka langan tíma að breyta þessum hugsunarhætti, og það sem sérstaklega er erfitt er að taka þarf til í ýmsum hlutum þjóðfélagsins þar sem situr fólk og hefur unnið sína vinnu og reiknar með því að halda sinni vinnu þangað til það fer á eftirlaun. En það er bara ekki grundvöllur fyrir mörgum þessum störfum, hvort heldur það er í ríkis eða einkageiranum.

  Varðandi hagvöxt. Ef fjöldi fólks í hagkerfi eykst, þá þarf að auka við þjóðartekjurnar til að allir hafi það jafngott og þeir höfðu það áður, eða þá að auka framleiðni sem fólksfjölguninni nemur. Eins þá þurfa þjóðartekjurnar að aukast um það sem nemur meðalverðbólgu viðskiptalandanna, annars rýrist kaupmáttur. Hagvöxtur er, sem slíkur, ekki markmið heldur leið að þeim efnislegu lífsgæðum sem fólk sækist í. Þeir sem vilja ekki eyða lífi sínu í að stöðugt auka lífsgæðin hafa mikið til sín máls–en þeir eru ekki ráðandi meirihluti þjóða enn sem komið er.

 • Andri Geir, ég held að aukin framlegð sé ekki endilega það sem við þurfum nema að því marki sem gæti fengist með því að stytta vinnuvikuna (losna við illa nýttar vinnustundir, streitu og álag). Sama gildir um hagvöxtinn.

  Athugaðu að fólk sem ákveður að draga úr vinnu en notar frítíma sinn til þess að rækta grænmeti og smíða sín eigin húsgögn er í raun að draga úr framlegð og hagvexti, enda myndu fyrirtæki framleiða sambærilegar afurðir með mun minni fyrirhöfn sem þar að auki yrði bætt í þjóðarframleiðsluna.

  Augljóslega styð ég þau raunverulega auknu lífsgæði sem geta falist í þeim breytta lífsstíl sem hefur þó hugsanlega þær afleiðingar að draga úr þjóðarframleiðslu og framlegð. En það er líka hægt að breyta fjármálakerfinu svo það þjóni fólki og styðji við raunveruleg lífsgæði. Þar þarf þó eins og áður sagði að hugsa út fyrir kassann.

 • Landsframleiðsla á mann per klst er mjög há í Þýskalandi og Frakklandi og jafn há ef ekki hærri ein í USA. Hins vegar er landsframleiðsla á mann lægri í þessum löndum en USA því menn vinna færri stundir og taka sér lengra frí.

  Á Íslandi er tekjum haldið uppi með mikilli vinnu. Nú þegar yfirvinna er ekki fyrir hendi á fólk ekki nóg í sig og á.

  Það sem ég er að segja er að nú verður að laga þetta með því að auka framlegðina en ekki fara eina ferðina enn í þenslu og verðbólgu.

 • i see what you did there

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur