Laugardagur 23.10.2010 - 15:31 - 28 ummæli

Krónan er ópíum Íslendinga

Krónan er sem ópíum.  Í hruninu linaði hún þjáningar og var rómuð sem töfralyf, en aukaverkanirnar eru nú farnar að segja til sín.  Stór hluti heimila nær ekki endum saman um hver mánaðarmót og þessi hópur er hlutfallslega miklu stærri hér á landi en í þeim ESB löndum sem verst urðu úti í bankakreppunni, eins og t.d. Írland.  Í evrulöndunum varð engin gjaldeyriskreppa.  Þar féll ekki gjaldmiðilinn eins og hér og þar eru menn ekki með tekjur í einum gjaldmiðli og skuldir í öðrum, nema í undantekningartilfellum.

Hagfræðingar segja að gengisfelling sé ákveðið tæki til að gera lönd samkeppnishæf og koma þeim út úr kreppu.  Vissulega er það rétt, en þá gera menn ekki ráð fyrir að almenningur sé með laun og skuldir í mismunandi gjaldmiðli, sem er raunin hér á landi.  Hin verðtryggða króna er nefnilega eins og annar gjaldmiðill, ekki eins sterkur og jenið en líklega á svipuðu róli og breska pundið.

Það má því líta svo á málið að aðeins þeir sem eru með óverðtryggð lán eru með raunveruleg lán í krónum, allir aðrir eru með lán í annarri mynt.  Þetta er rót hins mikla skuldavanda á Íslandi.  Tekjur í gengisfelldri krónu geta ekki staðið undir lánum í sterkari gjaldmiðlum og þar á meðal verðtryggðri krónu.

Það er aðeins ein lausn á þessu og það er að gera þetta ópíum upptækt og skipta um gjaldmiðil.   300,000 manns geta ekki staðið undir alþjóðlegum gjaldmiðli á 21. öldinni.  Án alvöru gjaldmiðils verður engin alvöru hagvöxtur hér eða sparnaður.  Kostnaðurinn við krónuna er gríðarlegur.  Verðtrygging og háir vextir halda launum niðri, þá takmarka gjaldeyrishöft alla uppbyggingu og gera aðgang að erlendu fjármagni erfiðan og dýran.  Króna með sína galla mun eingöngu leiða til lægri launa, stöðnunar og landflótta.

Smáskammtalækningar á við að breyta vísitölu, fella niður verðtryggingu eða setja þak á vexti, slá aðeins tímabundið á vandamálið.

Okkar nær 85 ára gamla tilraun til að halda úti sjálfstæðri mynt er lokið.  Við verðum að fara að marka okkur nýja og haldbæra stefnu í gjaldmiðlamálum.  Nýr gjaldmiðill er ekki lausn á okkar vandamálum, heldur verkfæri sem gerir okkur kleift að vinna okkur út úr erfiðleikunum.  Því betra tæki sem við höfum, því betur vinnst sú vinna.

Í augnablikinu eigum við tvo möguleika sem virðast hvað raunhæfastir,

1. EVRAN – Ef við göngum inn í ESB stefnum við á evru.  Fyrsta skrefið er að fara sömu leið og Danir og fasttengja krónuna við evru með aðstoð evrópska seðlabankans, þar til við uppfyllum skilyrði fyrir evruupptöku.

2. NORSKA KRÓNAN – Ef við ætlum að standa fyrir utan ESB er eðlilegast að við í samvinnu við AGS leitum til norska seðlabankans um að fá að taka upp norsku krónuna.

Það er flestra hagur að við tökum upp nýjan gjaldmiðil og beinn kostnaður við slíka aðgerð verður alltaf lítill hluti af þeim kostnaði að halda úti ónýtri íslenskri krónu.  Hins vegar er þessi leið ekki sjálfgefin, ópíum er erfitt að uppræta,  sérstaklega þegar heil þjóð er orðið því háð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

 • Ertu ekki að fara í hring hér Andri?

  Fyrst segirðu: „Það má því líta svo á málið að aðeins þeir sem eru með óverðtryggð lán eru með raunveruleg lán í krónum, allir aðrir eru með lán í annarri mynt. Þetta er rót hins mikla skuldavanda á Íslandi.“

  Þessu get ég alveg verið hjartanlega sammála enda fræg ástæða (þ.e. skuldsetning í erlendum myntum) fyrir fjármálaóstöðugleika.

  En svo segirðu að fella niður verðtryggingu (eins og hún er í dag) sé smáskammtalækning – yrðu þá ekki allar verðtryggðar skuldir, sem þú segir „lán í erlendri mynt,“ að óverðtryggðum? Og væru þá ekki a.m.k. sá hluti erlendu lánanna orðinn að lánum í íslenskum krónum sem auðveldara væri að borga af þegar gengið fellur og útflutningur eykst?

  Ef við tækjum upp evru/norska krónu, væri þá allt í lagi að nota verðtryggingu áfram? Það hlýtur að vera m.v. fyrrgreind rök þín, afnám verðtryggingar er jú bara smáskammtalækning ekki satt?

  Ég tek það fram að ég er alveg sammála þér að skuldsetning í erlendri mynt og einfeldningsleg notkun erlends fjármagns, hvort sem það er í krónum eða öðrum gjaldmiðlum, er alvarlegt vandamál á Íslandi. En hver er orsökin fyrir því? Að við notumst ekki við evru? Ég tek ekki svoleiðis svar fullkomlega gott og gilt satt best að segja. Og ég efast um að þegnar PIIGS landanna geri það heldur…

  Gjaldmiðlar eru allir eins og hafa allir sömu þrjú grundvallarmarkmiðin. Hins vegar er laga- og regluverkið ásamt hagkerfum þeim sem þeir eru notaðir í ekki eins. Þess vegna haga þeir sér öðruvísi. Krónan er ekki vandamálið á Íslandi heldur regluverkið sem Íslendingum er ætlað að starfa innan meðan þeim er gert skylt að nota krónu sem lögeyri. Það er grundvallarvandamálið og það breytist ekkert þótt við tækjum upp norska krónu, evru, dollar eða sígarettur sem lögeyri á Íslandi.

 • Víðir Ragnarsson

  Þú gleymir að taka fram að verðtrygging „íslensku“ krónunnar er í raun lítið annað en gjaldeyristrygging, enda sveiflast verðtryggingin eftir verðhækkunum eða -lækkunum frá útlöndum.

  Ef kaffi hækkar í Brasilíu, hefur það áhrif á verðtryggð íslensk lán. Hvað er það annað en gjaldeyristrygging?

  Fyrrum efnahagsrágjafi ríksisstjórnar Geirs Haarde, Tryggvi Þór Herbertsson skrifaði heilmikinn pistil um stöðuga efnahagsstjórn. Því miður leyfir hann ekki tjásur við bloggið sitt svo það verður að einræðu, eða öllu heldur verður það að hjáróma einfeldni.

  Allt sem Tryggvi Þór segir er rétt en gallinn er bara sá að draumsýnin gengur ekki upp. Við erum búið að reyna í tæp 100 ár og ég vil ekki gefa misvitrum íslenskum pólitíkusum 100 ár í viðbót. Ekki einu sinni 1 ár, hvað þá 10 ár.

  Við erum örþjóð þar sem kunningjatengls og klíkuskapur hefur alltaf ráðið ríkjum og mun gera áfram, einmitt vegna þess hvað við erum fámenn þjóð. Stjórnmálamenn munu áfram skora hátt hjá sínum sterkustu stuðningsmönnum eins og landbúnaðarráðherrann gerir með því að slengja 60 milljónum í það að rannsaka hóstapest hjá hrossum á meðan fátækt fólk stendur úti í frosti að bíða eftir matargjöfum frá hjálparstofnunum.

  Að sama skapi munu sjávarútvegsráðherrar halda áfram með kröfur um að fella gengið til að þjóna LÍÚ. En gengisfelling er ekkert annað en bein launaskerðing almennings, eykur verðbólgu og hækkrar gengistryggð lán! Þetta hefur verið stundað í tugi ára…

  Eina von þessarar þjóðar er bandalag við aðrar sjálfstæðar lýðræðisþjóðir í Evrópu. Með stuðningi frá öðrum þjóðum getum við mögulega náð fjárhagslegum stöðugleika og virkri neytendavernd gegn sérhagsmunahópum sem hafa mergsogið íslenska þjóð í áratugi.

 • Hvað með YUAN-ið kínverska??? .Gífurlega sterkur gjaldmiðill og fellur sennilega lítið á næstunni.Hljómar fjarstæðukennt,en er örugglega ekki fjarstæðukenndara en matador hagkerfið sem við búum við.

 • Ég hefði viljað skrifa þetta blogg svo margt er í því sem ég tel vera rétt. Athugasemdir einsog Harðar hér að ofan benda til að hann hafi ekki sett sig inn í umræðuna. Eiginlega dæmigerður fyrir íslenska samræðuhefð að segja eitthvað alveg á skjön en finnast hann vera málefnalegur fyrir vikið. Minnir á Ásmund Daða sem spyr í ræðustóli Alþingis hvort ekki sé rétt að fara í tvíhliða viðræður við USA um landbúnaðarvörur. Bara til að benda á það að það sé hægt að tala við aðra en ESB!

 • Þórhallur Kristjánsson

  Það er rangt að ekki sé hægt að hafa krónuna áfram sem gjaldmiðil. Til þess að það sé raunhæft þarf hinsvegar að skipta um markmið Seðlabankans og endurstokka alla peningastjórnun.

  Til þess að hafa krónuna áfram þarf að stýra genginu á henni miðað við viðskiptajöfnuðinn og einungis að leyfa akveðin lág frávik í báðar áttir. Krónan á ekki að vera algerlega fljótandi og halda þarf vaxtamuninum við útlönd niðri.

  Nú er það komið í ljós að það var bannað með lögum að lána með tengingu við erlenda gjaldmiðla. Ef lögum hefði verið framfylgt hefði ekki verið hægt að dæla öllum erlendu lánunum hingað inn.

  Það var ekki krónan sem orsakaði hrunið heldur var það röng peningastjórnun og vöntun á að regluverki væri framfylgt.

 • Ég er sammála þessari grein en ég held að titillinn „Ópíum Íslendinga“ sé rangur. Titillinn ætti miklu fremur að vera „Krónan er kúgunartæki valdsins“ eða „Krónan er þumalfingur í íslenskan almenning“ eða enn betra „Krónan er lykillinn í íslenskum pilsfaldskapítalisma“.

  Gengisfelling er ekkert annað en launalækkun og kjaraskerðing á íslenskan almenning til að útflutningsfyrirtæki (útgerðarmenn) geti haldið áfram að hagnast og forðað þeim þ.a.l. frá gjaldþroti.

  Þetta er líka tæki til að fela slaka efnahagsstjórn, gengið er bara fellt og málinu (fyrir ríkisstjórnina) er reddað.

  Ég held að fólk sé að átta sig á þessu og ég spái því að við göngum í ESB áður en langt um líður, ég hafði ekki spáþ því fyrir 1 ári síðan..

 • Víðir Ragnarsson

  @Þórhallur Kristjánsson 23.10 2010 kl. 17:55

  „Það er rangt að ekki sé hægt að hafa krónuna áfram sem gjaldmiðil. Til þess að það sé raunhæft þarf hinsvegar að skipta um markmið Seðlabankans og endurstokka alla peningastjórnun.“

  Þetta er búið að reyna og þessu er búið að lofa okkur í tæplega 100 ár.

  Ég er löngu búinn að missa þolinmæðina og ég vil ekki sjá mín börn og barnabörn arðrænd á komandi árum.

 • Ívar Örn Reynisson

  Íslendingar hafa greitt fyrir illa rekin íslensk sjávarútvegsfyrirtæki í áratugi. Það er einföld eignatilfærsla sem hefur átt sér stað en falin með einhverju sem hefur verið nefnt gengisbreyting og gengisleiðrétting. Síðustu ár hafa íslendingar líka þurft að greiða fyrir illa rekna íslenska banka, illa rekið ríkisvald (t.d. þegar Davíðsstjórninnni datt það snjallræði í hug að lækka tolla á risastórum pallbílabensínhákum) og almennt heimskulega neysluhvatningu. Það er fyrir löngu komið nóg af heimsku í íslenskri peningastjórn og því kjörið að láta hana fara annað. Og þá væri jafnvel líka hægt að leggja niður Seðlabankaskrímslið og opna þar safn, ja, t.d. um gróðærið. Kannski að ferðamenn myndu heimsækja það safn.

 • Hafðu þökk fyrir greinargóðan pistil. Aðeins vegna möguleikana tvo sem þú telur upp. 1. er raunhæfur möguleiki en nr. 2. er hinsvegar ekki raunhæfur þar sem Norðmenn sjálfir hafa lagst gegn því. Eiginlega yrði sá kostur þannig að algjört fullveldisafsal þyrfti til Norðmanna, svo þeir tækju þetta í mál.
  En hvers vegna í ósköpunum geta landsmenn ekki sameinast um kost nr. 1 og síðan aðild að ESB eftir vonandi viðunandi samningsniðurstöðu? Hvað getur verið verra en það sem við höfum í dag?

 • … og Evran er amfetamín aðildarsinna. Öll ríki spila matador og lausnin er ekki fólgin í því að hafa einn risastóran gjaldmiðil sem er stjórnað af bankamafíunni heldur marga smáa gjaldmiðla sem eru byggðir á raunverulegum verðmætum og/eða trausti. Hagstjórn er auðveld þegar búið er að taka völdin frá bankamafíunni.

 • Nei, ekki ópíum Íslendinga. Frekar fjármagnseigenda og útgerðarmanna (útflutningsaðila). Krónan og vísitölubinding lána er og verður hvati óábyrgrar hagstjórnar á kostnað íslenks almennings. Á meðan núverandi kerfi viðgengst mun almeningur stöðugt fá reikningin. Fjármagnseigendur og útgerðaraðilar munu blása á alla áhættu. Er það heilbrigt hagkerfi?

 • Er ekki verðtryggingin að syngja sitt síðasta?
  Raunar get ég ekki séð annað en þeir þurfa að aftengja og banna hana men þeir geta ekki gert það afturvirkt.
  Það þýðir hækkaða grunnvexti og þeir verða væntanlega sveiflukenndir.

  Við fáum ekki norska krónu, þar er búið að segja nei. Raunar er hið norska hagkerfi það ólíkt því íslenska að þar vilja þeir ekki fá íslenska óreiðuþjóð inn á sig.
  Meira að segja flokkssystir Steingríms J, Kristin Halvorsen formaður SV og þáverandi fjármálaráðherra Noregs sagði nei. Síðan stórtapaði flokkur hennar og þeir misstu fjármálaráðuneytið í hendurnar á Verkamannaflokknum. Næsti fjármálaráðherra kemur væntanlega eftir 3 ár úr skuggraráðuneyti Høyre og þar verður engin stefnubreyting gagnvart okkur.

  Það er ennþá óvíst með Evrópubandalagsaðild og segjum að af því yrði sem ekki eru meiri en í mesta lagi 40% líkur þá erum við búin að fjarlægjast raunar all flest skilyrði Evruaðildar með halla á ríkisútgjöldum og lánsfjárshlutfall og það tæki væntanlega meira en 20 ár að nálgast þau.

  Sannleikinn er sá að við þurfum að troða marvaðan á örmynntinni krónunni í allmörg ár eða áratugi og það verður allt önnur króna en sú sem við höfum vanist þar sem væntanlega mun verða gríðarlega sveiflukennd þegar við loks getum fleytt henni og komist úr þessum gjaldeyrishömlum.

 • Ómar Kristjánsson

  Það er stefnt á nokkurnveginn jafnvægi í ríkisjármálum og með skuldastöðuna -þá hefur það reyndar verið þannig að varðandi það atriði hefur verið auðveldast að fá tilhliðranir – að því gefnu að skuldastefna sé í rétta átt og áætlanir þar að lútandi.

  Þessvegna er það ekki rétt þegar menn segja margir tugir ára í Evru. Ef Ísland veldi nú þann rétta kúrsinn núna og megin þorri innbyggjara einhenti sér í að vinna að þessu þjóðþrifamáli, aðild að EU þá gætum við verið komin með evru fyrr en margan grunar.

  En ef innbyggjarar velja þann slæma kostinn, að fylgja sundurlyndisfjandanum – jú jú, þá verða nokkur ár og jafnvel áratugir í evruna. En sem kunnugt er þá endar Ísland sem aðili að EU í framtíðinni. Það er bara eitthvað sem óhjákvæmilega gerist – eða allavega til að það grist ekki þarf eitthvað algjörlega ófyrirsjáanlegt að koma uppá og erfitt er að geta sér til hvað það gæti mögulega verið.

 • Gunnr – 23.10 2010 kl. 22:22

  Það er mjög erfitt að „aftengja“ verðtrygginguna meðan fólk skuldar svo mikið að það ræður ekki við að borga af því óverðtryggt. Það yrðu gjaldþrot á færibandi

 • Ómar Kristjánsson

  En er ekki fólk að fara framá í rauninni, að ríkið ákveði bara vexti, allaveg að einhverju leiti. Svona eins og í gamla daga stundum.

  Þ.e. að fólk er að segja sumt: Afnema verðtrygginu og hámarka
  a vexti líka. Þ.e.a.s að maður tekur alveg eftir að sumir eru eins og ekkert að reikna með að vextir verði, eða geti verið, mun hærri án verðtryggingar.

 • @Sjóður
  Það þarf að aftengja verðtrygginguna ef þeir ætla að fleyta krónunni. Fólk þolir ekki annað hrun krónunnar meðan lánin eru verðtryggð.
  Sveiflukennt gengi krónunnar þegar henni verður fleytt og það verður kanski ekki svo langt til þýðir í raun óbærilegt flökt í gegnum allt hagkerfið.
  Vænanlega mun Evra koma fram í viðskiptum fólk í milli og eins mun margt fólg fá greitt í Evrum meðan ríkisstarfsmenn og margir aðrir fá greitt í krónum. Sveiflukennt gengi krónunnar mun smám saman grafa undan henni í viðskiptum manna á milli.

 • Þú segir „Í evrulöndunum varð engin gjaldeyriskreppa“ Hvernig geturðu sagt þetta? Það ríkir gjaldeyrisstríð í heiminum þar sem allir eru að keppast við að veikja gjaldmiðlanna sína. Þú talar um sterka gjaldmiðla, en í heimskreppu vill enginn eiga sterkan gjaldmiðil. Það er bullandi gjaldeyriskreppa í Evrópu, einkum í svokölluðum PIIGS ríkjum sem eru hvað skuldsettust í Evrusvæðinu. Evran er alltof sterk og þessar þjóðir stefna í vítahring verðhjöðnunar vegna evrunar. Sterkur gjaldmiðill er veikur gjaldmiðill í heimskreppu.
  Ég vil fara fram á að vita hvað þú meinar með sterkum gjaldmiðli. Ef eitthvað er, þá er krónan og sterk í dag, og stefnir íslenskur efnahagur í verðhjöðnun ef fram heldur sem horfir.

 • Flott grein Andri. Með þeim betri og skýrari. Ég þarf ekki frekari vitnana við.
  Kveðja að norðan.

 • Valur B (áður Valsól)

  Norðmenn hafa sagt nei við leitan okkar á upptöku norskrar krónu svo það er ekkert eftir nema ESB aðild.

 • Magnús K. Guðnason

  Andri, ef krónan er ópium fólksins á Íslandi, þá er Evran kokaín fólksins í Evrópu.

  Sagt er að kokaín lækni öryggsleysi. Við neyslu kokaíns virka menn öruggari og sterkari, en eru það í raun og veru ekki, því þeir þurfa alltaf meira af því til að halda sér gangandi. Kokaín er dýrt og það er Evran líka.

  Kokaín blekkir þess vegna. Kokaín veitir falkst öryggi og það sama gerir Evran. Afleiðingarnar koma því síðar í ljós og allt fer úr böndunum.

  Vandamál okkar Íslendinga er við vilja bara alltaf eitthvað annað (dóp) en við erum með hverju sinni.

 • Magnús K. Guðnason

  Andri, skilgreindu hugtakið „sterkur gjaldmiðill“?

  Er sterkur gjaldmiðill ekki tvíeggjað sverð?

  Mannstu hvað útflytjendur grétu mikið þegar krónan var sem sterkust á árunum 2003-2005?

  Það sama verður uppi á teningnum þegar við fáum „sterkan gjaldmiðil“ eins og Evru. Þá munu útflytjendur gráta þegar þeir væla yfir því að þeir séu ekki samkeppnisfærir við aðrar þjóðir vegna þess að vörur frá þeim séu of dýrar vegnar sterkrar Evru.

  Í ESB er Evran fasti, þ.e. ekki er hægt að gengisfella hana til að jafna út sveiflur í hagkerfinu.

  Þess vegna þurfa allir þeir sem nota Evruna og aðlaga sig Evrunni, t.d. með hagræðingaraðgerðum, sparnaði og uppsögnum fólks.

  Þetta sjáum við í löndum eins og Grikklandi, Spáni, Írlandi, Portúgal og víðar í Evrópu, enda miðast Evran við Þýskan efnahagslegan raunveruleika, en ekki raunveruleikann í þessum ríkjum.

  Með krónu (sem endurspeglar Íslenskan efnahagslegan raunveruleika), er hægt að gengisfalla og þar með lækka laun tímabundið, án þess að það þurfi að koma til sársaukafullra niðurskurðaraðgerða og uppsagna fólks.
  Þegar betur árar, er hægt að hækka laun fólks aftur í samræmi við efnahagslegan árangur.

  Danir eru ekki enn komnir með Evruna og virðast ekki hafa neinn sérstakan áhuga á því. Svíar enn síður.

 • Jóhannes

  Þetta er fín og mjög þörf grein en titillinn ætti a vera annar, krónan er svo sannarlega ekkert deyfilyf fyrir þjóðina.
  Nú virðast fremur litlar líkur á ESB aðild að sinni og Íslendingar þurfa líklega að lifa við krónuna næstu ár. Einhliða upptaka annarrar myntar er einfaldlega ekki fær leið eins og nánast allir hagfræðingar landsins staðfestu opinberlega. Aðild að norsku krónunni hefur alfarið verið hafnað.
  Hinsvegar er saga íslensku krónunnar frá upphafi hrein harmasaga sem náði hástigi nú síðast með algeru hruni.
  Þrátt fyrir þessa miklu harmasögu virðist góð stemning í öllum helstu stjórnmálaflokkunum, að Samfylkingu undanskildri, að byggja á hagkerfið áfram á íslensku krónunni. Hinsvegar hefur enginn sýnt fram á á sannfærandi hátt hvernig megi ná stöðugu verðlagi, lágum vöxtum og laða að erlenda fjárfestingu með íslenska krónu að vopni. Greinarstubbur Tryggva Þórs var auðvitað góður inngangur í Hagstjórn 101 en er fyrst og fremst pólitískt innlegg Sjálfstæðisflokksins.
  Vænlegast væri að fá ópólitíska (ef það er þá hægt) úttekt frá erlendum sérfræðingum um hvaða möguleikar eru í peningamálastjórnun með íslenska krónu í framtíðinni. Seðlabankinn er vissulega með hæft fólk og þekkingu, en augljós hagsmunatenging þeirra kallar á óháð mat.
  Spurningunni um: Hvernig er hægt að lifa við íslensku krónuna? – er ósvarað.

 • Ómar Kristjánsson

  Sterkur gjaldmiðill er eigi = Hátt gengi. Eins og sem dæmi þegar gengi ísl. krónunnar var allt og hátt vegna innstreymi erlends fjármagns og fleira.

  Sterkur gjaldmiðill merkir miðill sem sveiflast ekki til og frá eins og smákæna á úthafinu og hvolfir reglulega..

  Þar fyrir utan er evran ekki ,,fasti“ í evrópu. Hún er fljótandi gjaldmiðill á markaði. Halló.

  Ennfremur eru danir de faktó með evru. Danska krónan er rígbundin við evru og færeyingar eru þ.a.l. líka með evru.

  Það er í raun óumdeilt fræðilega að islandi kæmi mun betur að hafa evru. Auðvitað má alltaf finna einhverja galla og svona eins og gengur. En þegar sett er á vogarskálarnar þá er enginn vafi hvernig fer. Kostirnir eru einfaldlega yfirþyrmandi.

  Þetta er í raun hlægileg umræða þegar menn taka sig til að dásama krónuna. Þetta er varla gjaldmiðll í venjulegum skilningi þess orðs og hvergi litið svo á – nema hérna uppi á skerinu. Þetta er mattadorgjaldmiðill.

 • Þakka góðar athugasemdir. Sterkur gjaldmiðill er svissneski frankinn. Þar er verðbólga lág, vextir lágir og laun há. Aðalástæða þess að Svisslendingar vilja ekki inn í ESB er að þá þyrftu þeir að hækka vexti sem myndi leiða til hærri kostnaðar fyrir þeirra iðnað sem aftur leiddi til lægri launa. Ein ástæða þess að Svisslendingar geta lifað með sterkan gjaldmiðil, er auðvita góð hagstjórn og svo lágur fjármagnskostnaður.

  Íslenska krónan er í algjöru öngstræti, haldið upp með háum vöxtum og verðtryggingu sem leiðir síðan af sér lág laun. Aðeins með alvöru gjaldmiðli er hægt að rétta af samkeppnishæfni Íslands og lækka fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila, og gera hann stöðugan. Lágur og stöðugur fjármagnskostnaður er besta leið verkalýðsfélaganna til að ná fram raunverulegum launahækkunum fyrir þá lægst launuðu.

  Krónan í dag er sniðin fyrir þá sem lítið eða ekkert skulda og standa í útflutningi. Fyrir þessa aðila er krónan töfratæki. Séð frá þeirra sjónarhóli varð hrunið búbót. Þeir sem eru svo heppnir að vera í rekstri með tekjur og skuldir í evrum standa vel. Þeirra launakostnaður lækkaði um helming í hruninu sem skilar sér síðan sem hagnaður og stórbættur arður í þeirra vasa. Ekki skemmir fyrir þessum aðilum að samningum um kaup og kjör er miðstýrt og taka alltaf mið af skussunum.

  Þeir sem berjasta fyrir krónunni vantar ekki peninga og vopn í þá baráttu. Og ekki nóg með það, þeir eiga góðan bandamann í flokki eins og VG? Og svo hneykslast menn á stjórnmálaumræðunni í USA?

 • Raunar eru þau lönd sem einna best hafa komið út úr kreppuni Svíþjóður og Noregur einning þekkt af góðri og aðhaldsamri hagstjórn.
  Sænska krónan tók dýfu undir Evruna sem hefur í raun bjargað mörgu hjá þeim. Raunar er ekki hægt að bera saman þessa gjaldmiðla þótt í raun litlir séu við míkróskópísku íslensku örmyntina krónuna sem verður einkennilegt að fylgjast með á næstunni.
  Hún liggur í vari á lánum og þjóðin verður að fleyta henni ella heldur allt hér áfram að koðna niður.
  Að óbreyttu mun gengi hennar falla og það gríðarlega enda er ekkert gólf þar.
  Tiltrúin er augljóslega lítil. Velferðarkerfið rekið á lánsfé og enginn vill, getur eða þorir að skera niður sem augljóslega verður sársaukafullt.
  Það er engin stemning í Svíþjóð og Noregi Þegar og ef þeir fara í ESB að taka upp Evru. Danska krónan er bundin við Evru og Finnar fóru í þetta með inngöngu sinni og hafa væntanlega betur verið utan við.
  Íslendingar hafa væntanlega engan annan kost. Herkostnaðurinn við krónuna verður gríðarlega hár og það mun augljóslega verða millusteinn sem íslenskt atvinnulíf og heimili verða að bera.
  Hér hefur aldrei verið góð hagstjórn. Hér hafa amatörar ráðið ríkjum þar sem Seðlabankinn hefur verið nokkurs konar elliheimili aldraðra stjórnmálamanna frekar en þar hafi ríkt fagmennska og framsýni eins og í seðlabönkum norrænu ríkjanna.

 • Raun er upptaka annars gjaldmiðil enginn patentlausn, þetta verður ákveðin efnahagsleg spennitreyja sem krefst gríðarlegs aga við hagstjórninni.
  Það er erfitt að keyra á kröftugum gjaldmiðli enda þarf ekki að ýta mikið á bensíngjöfina til að keyra hagkerfinu út í móa.

 • Gunnr,
  Alveg rétt, gjaldmiðlaskipti færir okkur nýtt verkfæri en er ekki lausn. Ef við notum ekki nýtt tól breytist ekkert, hins vegar er krónan bitlaust vopn sem fáum gagnast.

  Það er svo spurning hvort þjóð sem ekki gefur stefnuljós í umferðinni, hefur þann aga og þá nákvæmni sem þarf til að fara með nýjan gjaldmiðil?

 • Jóhannes

  Þegar tiltrú svo margra á gjaldmiðlinum er horfinn á hann litla möguleika í framtíðinni. Þess vegna verður fróðlegt að vita hvernig reynt verður að tjasla upp á krónuna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur