Mánudagur 01.11.2010 - 10:53 - 15 ummæli

Íslenska leiðin

Það virðist vera lítil stemning hjá Grikkjum, Portúgölum eða Írum að fara íslensku leiðina og endurheimta sjálfstæði sitt og gjaldmiðil með úrsögn úr ESB.   Menn á Íslandi segja að ESB aðild þessara landa hafi sett allt þar í kaldakol og sé öðrum þjóðum víti til varnaðar.  Hvers vegna ætli standi á því að almenningur í þessum löndum sjái ekki ástandið hjá sér með jafn skýrum augum og Íslendingar?  Hafa Íslendingar svona skýra og örugga sýn á markmið og leiðir sem er öðrum þjóðum til fyrirmyndar?  Er efnahagssaga Íslands síðustu 30 árin svona aðlaðandi og traustvekjandi?

Það þarf mikla þrjósku og bjartsýni til að trúa að efnahagsstöðuleiki Íslands síðustu 30 ára sé besti grunnur sem við getur fært nýrri kynslóð til að byggja á.  Aðeins þeir menn og stjórnmálaflokkar sem hafa staðið vaktina síðustu 30 árin geta tryggt efnahagslega framtíð landsins, segja menn og meirihluti þjóðarinnar kinkar kolli.  Allir sem voga sér að efast um þessa speki og spyrja um efnisleg rök og áætlanir eru yfirleitt afgreiddir sem kverúlantar, áróðursmeistarar og ef það dugar ekki er alltaf hægt að treysta á þjóðaríþrótt Íslendinga, persónulegt skítkast.

Á Íslandi byggja menn ekki á staðreyndum heldur slagorðum.  Á Íslandi vilja menn ekki leiðinlegt fólk sem spyr óþægilegra spurning og þorir að taka óvinsælar ákvarðanir, nei menn flykkjast um sprelligosa sem lofa öllu skemmtilegu.  Á Íslandi myndi engum detta í hug að fara að kjósa fjármálasérfræðinga í sveitarstjórnir.  Á Íslandi eru hugmyndir manna ekki jafnar og geta ekki staðið á eigin fótum, aðeins pólitískar hækjur eru leyfðar.  Og fátt er verra á Íslandi en erlendir sérfræðingar, enda verður erlent bókvit ekki í tandurhreina íslenska aska látið.  Um það geta 90% þjóðarinnar verið sammála.

Markmið hinnar íslensku leiðar er sáraeinfalt, Ísland ætlar að  „endurheimta“ stöðu sína við hlið hinn EFTA landanna, Noregs og Sviss.  Hvernig á að „endurheimta“

  1. Alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil án verðtryggingar
  2. AA lánstraust eða betra
  3. Lága skuldastöðu og verðbólgu
  4. Stöðugan efnahagsvöxt
  5. Þjóðartekjur og launataxta sem eru 20% yfir meðaltali ESB landanna
  6. Atvinnuleysi undir 4%?

Hvernig og hvenær menn ætla að ná þessum markmiðum spyrja menn ekki út í, þetta mun reddast eins og hrunið reddaðist.  Aðalatriðið í dag, er að berjast gegn minnihlutanum sem mun setja þessi markmið í uppnám með því að pressa á ESB aðild.  Það þarf ekki annað en að líta á Grikkland, Portúgal og Írland, allt eru þetta lönd sem ekki urðu Noregur eða Sviss efnahagslega, vegna þess að þau völdu ESB aðild.  Tær íslensk snilld sem aðrir sjá ekki!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Ekkilengursvotrúgjarn

    Ég veit að flugurnar dragast að ljósinu, en hvernig komast þær inn í ljósakúluna til að drepast?

  • Vel mælt Andri.
    Kveðja að norðan.

  • Það er erfitt að réttlæta það að greiða skatta inn í samfélag, sem er svo illa siðferðislega áttað að minnihluti þjóðarinnar hefur tiltrú á dómstóla ( hvað þá þing).

    Sigur hina íslensku talíbana með atvinnustefnu Innréttinganna, tóvinnu og hannyrðum er ekki líklegt til góðra lífskilyrða. Bak þessa standa valdaklíkur sem telja að enginn eigi eða megi stjórna nema þeir, og með sama góða gamla laginu.
    Hvílík framtíðarsýn ! maður fær ilsig +a staðnum

  • Sæll Andri Geir
    Takk fyrir þitt frábæra innlegg í umræðuna hér með því sem þú legðir
    til málanna í Silfrinu hjá Agli Helgasyni í gær.

  • Jakobína

    Ég held að það skipti engu máli fyrir íslenskan almenning hvort hann er innan eða utan ESB. Það eru í raun valdablokkirnar sem eru að rífast um þetta og hrauna áróðri yfir almenning, hver í krafti sinna hagsmuna.

    Hin eiginlegu og hættulegu landamæri liggja á milli fátækra og ríkra. Alþjóðlegt svarthol fjármálakerfa sem dregur til sín virðisaukningu úr framleiðslugreinum og brýtur niður afl og þol skapandi atvinnulífs og skerðir atvinnufrelsi.

  • Margt rétt í þessu hjá þér Andri en er ekki spurningin líka sú hvort það sé réttlætanlegt að leyfa fjármálamarkaðinum að komast upp með þetta. Hér á ég við hinn alþjóðlega markað – þarf ekki að taka þar í taumana og koma í veg fyrir skaðan sem hann er að valda allsstaðar? Áður enn þjóðir (margar aðrar en Íslendingar) hljóta frekari skaða af.

    Í grunninn eru vandamál Íslands hagstjórnar og fjármálastjórnar (þe. innanríkismál) og hefur ekki neitt með ESB að gera eða ekki. Fjárfestar koma ekki hlaupandi þó í ESB sé komið og ríki geta alveg farið illa þó þau séu í ESB. Vandin er frekar Íslensk pólitík og embættismenn þjóðarinnar og því miður lagast það ekki með ESB aðild.

    Tek þó að fullu undir það að staðan í dag er alveg óviðunandi – stefnuleysi í öllum málum og tilraun til vinsældapólitíkur fremur en markvissra aðgerða er alveg vonlaust ástand. Því miður er það svo að það sem þarf að gera mun enn frekar bitna á erlendum fjármagnseigendum og það er ekki líklegt til vinsæla í ESB trúboði ýmisa manna/kvenna og er það ekki ein rótin að vandanum.

    Ætli sé ekki segja að hér sé „catch-22“ staða – spurningin er bara hver fer illa en á endanum verður enginn friður (er líka nokkuð viss um að þetta eigi sér mjög alþjóðlega tilvísun í hinu alþjóðlega efnahags- og fjármálakerfi – þe. sama hvað gerist þá eru allir ósáttir og líklegir til vandræða).

  • Jón Gunnarsson

    Gott innlegg í umræðuna!

  • Bragi Páls

    Til að Ísland geti uppfyllt öll 6 atriði sem þú nefnir hér að ofan, er að fá ríkisstjórn:

    1. sem er opinn fyrir erlendri fjárfestingu,
    2. sem er með sanngjarna skattastefnu
    3. þar sem pólitískur stöðugleiki ríkir varðandi mikilvægar ákvarðanir
    4. sem er með jákvæða stefnu gagnvart avinnu- og athafnalífi
    5. sem viðurkennir að farsælt sé að virkja orkuauðlindir landsins
    6. gerir ekki skipulags mál flókin og ógagnsæ og taki þar með umhverfismál í gíslingu til þess eins að stöðva stórar atvinnuskapandi framkvæmdir.
    7. sem eflir menntun í tækni- og verkgreinum
    8. hættir tilraunastarfsemi með lykilatvinnugreinar þjóðarinnar.

    Sé þessum 8 punktum fylgt, munu margir erlendir aðilar líta til Íslands og sjá hag sinn í því að koma hér á fót atvinnu- og verðmætaskapandi starfsemi.

    Í kjölfar aukinna fjárfestinga;

    1. mun erlent fjármagn streyma inn í landið,
    2. hagvöxtur aukast
    3. atvinnuleysa nánast hverfa,
    4. lánshæfismat landsins fara í AAA flokk
    5. krónan styrkjast verulega og verða alvöru gjaldmiðill
    6. skuldastaða minnka verulega og gjaldeyrisforði aukast verulega
    7. verðlag lækka og verða stöðugra
    8. almenn velmegun aukast langt yfir meðaltal ESB

    Allt til að þetta sé mögulegt er vilji og hæfir stjórnmálamenn sem hafa skýra framtíðarstefnu og trú á fólkinu í landinu.

    Vandamálið í dag er að við erum með ríkistjórn

    1. sem ekki hefur trú á fólkinu í landinu,
    2. sem ekki er með skýra framtíðarsýn varðandi uppbyggingu landsins
    3. er með blauta drauma um að ESB-aðild sé eini bjagrhringur landsins,
    4. sem er að gera allskonar pólitískar tilraunir hér á landi með stjórnkerfið og atvinnulífið skv. sínum viltustu draumum byggðum á pólitískum hugjsónum og pólitískum rétttrúnaði,

    Það þarf framsýnt fólk við stjórn landsins, atvinnumenn, ekki amatöra og pólitísk viðrini.

  • Jóhannes

    Bragi, það eru afar blautir draumar og mikil fantasía að íslenska krónan verði „alvöru gjaldmiðill“ í framtíðinni. Það er afar gagnrýnisvert að stjórnvöld og seðlabankinn skuli ekki hafa sett fram neinar áætlanir um hvernig haga eigi peningamálastjórnun með íslensku krónuna í náinni framtíð. Það er nokkuð ljóst að krónan þarf gríðarlegan stuðning til að halda einhverjum stöðugleika, þar á meðal áframhaldandi verðtryggingu, áframhaldandi gjaldeyrishöft og líklega afar sterkan gjaldeyrisvaraforða líka ef eitthvað á að losa um gjaldeyrishöftin. Í öllum tilfellum verður íslenska krónan landsmönnum dýr í rekstri.

  • Bragi Páls

    Jóhannes;
    Þetta er rétt hjá svo lengi sem að Samfylkingin fær að ráða ferðinni.
    Sé svo, á krónan enga framtíð fyrir sér. Samfylkingin er fyrir löngu búin að dæma krónuna til dauða sbr. fræga ræðu ISG á Alþingi í feb. 2008.
    Fjárfestar sem heyrðiu þessa krónuandlátsræðu ISG og fregnin fór eins og eldur í sinu og þeir flúðu krónuna í umvörpun sem féll all verulega í kjölfarið í mars 2008.

    The rest is a story.

    En það er vel hægt að lifa með krónuna og það án hafa og verðtryggingar.

    All sem til þarf er öflugt athafna og atvinnulíf.

    Gjaldmiðlar ríkja endurspegla efnhagslíf og efnahagsástand viðkomandi ríkja.
    Sé efnahagslífið öflugt, þýðir það öflugan heimagjaldmiðil.

    Sé efnahagslífið veikt (eins og á Íslandi nú í dag) eða þá umheimurinn hefur ekki trú á núverandi stjórnvöldum, verður gjaldmiðill viðkomandi ríkis veikur.

    Evran er gervigjaldmiðill, því ekkert eitt (sterkt) ríki stendur að bak við hann, heldur mörg mismunandi sterk ríki.

    Ríki sem standa á bak við Evruna er öll mjög mismundi og öll mismundandi efnahagslega sterk, þannig að Evran endurspeglar ekki raunverulegt ástand þeirra ríkja sem standa á bak við hana.

    Þess vegna mun evran hrynja til grunna í framtíðinni. Að skipta Evru-ríkjum upp í A og B ríki, er aðeins undanfari þessa hruns, því B-ríkin munu aldrei sætta sig við að vera flokkuð sem undirmálsríki.

    Skv. Bloomberg-Business Week hefur andstaða við evru aukist í Þýskalandi og eru um 52% Þjóðverja á móti henni. Einungis 30% eru hlynt Evrunni þar í landi.
    Ennfremur segir Bloomberg-Business Week að um 60% Þjóðverja finnist að önnur lönd ESB séu dragbítur á Þýskalandi og vildu gjarnan losna við þessi ríki úr ESB-samstarfinu.

    Evran er tilraun sem einungis hefur staðið yfir í um 10 ár. Margt bendir til að þessi tilraun muni mistakast.

  • Innlegg Jóhannesar hér að ofan hlýtur að vera gáfulegasti pistill í bloggheimum í dag. Já, mikill er máttur Ingibjargar Sólrúnar! Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef heyrt þessa gölnu kenningu. Og restin um evruna er náttúrulega rakalaust raus. Ótrúlegt hvað staðreyndir eiga það til að fara algerlega framhjá fólki. Hvernig ætli standi á því? Gæti slíkt staðreyndaflug framhjá fólki skýrt af hverju allir skulda allt of mikið?

    Joe

  • Adalsteinn Agnarsson

    OPPPPNIÐ augun,lærið af Færeyingum!
    Andri Geir á trillu! Frjálsar handfæraveiðar leysa fátæktar og atvinnu
    vanda Íslendinga!
    50 til 60 frystiskip þarf að senda út fyrir 200 mílur að sækja fisk!

  • Jóhannes

    Held að Joe McCarthy sé að fara mannavillt eins og nafni hans forðum gerði iðulega.

    Bragi,
    Andlátstilkynningar Evrunnar eru nú, sem oft fyrr, stórlega ýktar. Vissulega hafa komið upp viss vandamál sem þarf að leysa en Evran hefur staðið sig mjög vel frá því að hún tók gildi og er að sjálfsögðu komin til að vera.
    Saga íslensku krónunnar er aftur á móti mikil harmasaga sem náði vissum hápunkti með algeru hruni með skelfilegum afleiðingum. Sú mýta að krónan verði stöðug og góð með lágu verðlagi og lágum vöxtum ef aðeins hagstjórnin er góð stenst ekki skoðun, enda hefur þá aldrei verið góð hagstjórn á Íslandi frá upptöku krónunnar. Þetta sést m.a. á því að hún hefur misst 99,95% af verðgildi sínu á móti forvera sínum, dönsku krónunni. Og þegar krónan er algerlega rúin trausti mikils meirihluta Íslendinga, á hún sér ekki viðreisnar von. Vissulega er hægt að lifa við krónuna áfram með sértækum aðgerðum, svo sem verðtryggingu, gjaldeyrishöftum, öflugum gjaldeyrisvarasjóði og helst öðrum bakstuðningi til viðbótar. En alvöru gjaldmiðill verður íslenska krónan aldrei og kostnaður þjóðarinnar við að halda henni verður ærinn.

  • Bragi Páls

    Jóhannes;
    Með Evru fáum við bara ný vandamál að kljást við.
    Það eru vandamál sem við höfum ekki sjálf stjórn á og ráðum því ekki við.
    Þau vandamál geta því verið erfið viðureignar.

    Margir sjá Evru nefnilega í einhverjum töfraljóma.

    En það er svo með Evru eins og annað, það sem að maður hefur ekki, er alltaf svo eftirsóknarvert.

    Hefur einhver hugleitt á hvaða skiptigengi ætti að skipta út krónunni fyrir Evrur?

    Og hafa menn hugleitt það hversu mikil áhrif skiptigengi muni hafa á efnahag fólks?

    Tökum dæmi:

    Fyrir hrun voru meðallaun hér á landi 370.000 á mánuði.
    Þetta samsvarið um 4.350 Eur á mánuði miðað við gengið 85 kr./Eur.

    Meðallaun í Þýskalandi eru um 3.500 Eur á mánuði. nú í dag.

    Meðallaun á Íslandi eru nú komin niður í 345.000 pr. mán.

    Væri krónunni skipt út fyrir Evrur á við skulum segja 160 isk/Eur,
    yrðu þessar 345.000 kr. um 2.150 Eur mánaðarlaun.

    Með örðum orðum yrðum við láglaunaland miðað við Þýskaland skiptum við yfir í Evrur einhvern tímann í framtíðinni á þessu gengi.

    Ekki nóg með það, allar peningalegar stæðri á Íslandi, t.d. lífeyrissjóðirnir myndu niðurskifast á þennan hátt við myntskipti yfir í Evrur.

    Hvernig ætla Evru-sinnar að útskýra það fyrir almenningi á Íslandi, að þessi myntskipti séu hagstæð fyrir það?

  • Jóhannes

    Bragi,
    Helsta vandamálið í hagstjórn með Evru eða annan sterkan gjaldmiðil er að halda þarf rekstri ríkis og sveitarfélaga nálægt núlli til lengri tíma.
    Það er vissulega vandasamt að finna rétt skiptigengi yfir í Evru. En Evruupptaka tekur langan tíma og í millitíðinni fer Ísland í ERM II myntsamstarf þar sem krónan getur, með vissum bakstuðningi Evrópska seðlabankans, aðlagast að ákveðnu jafnvægisgengi. Skiptigengið myndi væntanlega ráðast af einhverju jafnvægi viðskiptajafnaðar Íslands, sem væntanlega er mun sterkara gengi ISK en er í dag, (hugsanlega gengisvísitala kringum 130-140.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur