Miðvikudagur 03.11.2010 - 08:51 - 13 ummæli

AGS í vanda með Ísland

Fjórða endurskoðun AGS verður erfið fyrir sjóðinn.  Svo virðist sem að starfsmenn sjóðsins hafi treyst um of á einhliða og „bjartsýna“ upplýsingagjöf frá íslenskum stjórnvöldum og stofnunum.

Blekið hafði varla þornað á skjölum 3. endurskoðunar, þar sem AGS spáir 3.5% hagvexti 2011, þegar ríkisstjórnin vaknar af einhverjum þyrnirósasvefni og viðurkennir að ekki er allt í eins góðum málum og menn héldu!

Hinar rómuðu skuldaaðgerðir virðast allt í einu ekki virka, uppboðsfresturinn er allt í einu framlengdur þvert á fyrri yfirlýsingar og niðurskurðurinn er ekki eins einfaldur í framkvæmd og excel skjöl ráðuneytanna gerðu ráð fyrir. Ofan á þetta bætist óleyst Icesave deilan sem landsmenn eru margir búnir að gleyma.

Það verður erfitt fyrir AGS að yfirgefa Ísland 2011, ef hagvöxtur stefnir í 0.5% eins og Arion banki spáir og 50 ma kr niðurskurður og skattahækkanir renna út í sandinn.  Minni hagvöxtur og hærri ríkishalli er ekki samkvæmt uppskrift AGS.

Væntingar eru miklar og boginn hefur verið spenntur hátt.  Það verður álitshnekkir bæði fyrir stjórnvöld og AGS ef hið margrómaða Íslands prógramm fer að riðlast.

2011 verður erfitt ár.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Já það þarf víða að endurskoða þessa dagana og AGS ekki undanskilinn. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig AGS bregst við eins og staðan er núna.

  • Ef samneyslan dregst saman um 50 ma, um 3-4% af landframleiðslu, hvar finnur Arion banki 4-5% vöxt í einkaneyslu og/eða fjárfestingu til að vinna þetta upp?

    Að hér verði hagvöxtur á næsta ári hlýtur að vera mikil bjartsýnisspá ?

  • Það sýnist allt vera byggt á óskhyggju og glansmynd, bæði hvað varðar ríkisstjórnina, Seðlabankann og AGS.

    Lendingin verður ansi hörð, því miður.

  • Útflutningsgeirinn mun halda landinu á floti og þar verður vöxtur einum í ferðamennsku og útflutningi á vörum og þjónustu fyrir utan sjávarútveg. Þeir sem standa í gjaldeyrisskapandi stöfum munu hafa það bærilegt, sérstakega þeir sem hafa litlar skuldir, tekjur í gjaldeyri en kostnað í krónum. Þeir sem eru í innlenda hagkerfinu, þar mun kreppan halda áfram, sérstaklega hjá þeim sem eru í opinberum störfum.

  • Jóhannes

    Andri Geir, það eru margir mjög sammála þér þarna. Það vakti nokkra furðu þegar seðlabankinn, stjórnvöld og þar með AGS kynntu hagvaxtarspá fyrir síðari hluta 2010 og 2011 þar sem gert var ráð fyrir viðsnúningi og öflugum hagvexti í kjölfarið, því erfitt er að sjá raunverulegar forsendur þessarar miklu bjartsýni. Fleira bendir til að hagkerfið sigli nú áfram í hægum samdrætti fremur en vexti og muni jafnvel gera það langt inn í árið 2011. Það eru takmörk fyrir hvað útflutningsgreinarnar geta aukið framlag til aukins hagvaxtar, ekki síst þar sem krónan hefur verið að styrkjast. Sjávarútvegurinn er keyrður á fullri afkastagetu í dag, framlag rekstrar orkufreks iðnaðar til hagkerfisins verður líklega fremur stöðugt frá því sem nú er og aukning í ferðaþjónustu mun ekki hafa stór áhrif. Ekki verður séð að aukning verði í innlenda hagkerfinu, enda eru fjárfestingar nánast engar og flestir halda að sér höndum vegna gríðarlegrar óvissu. Og þessi slæma staða er líklega ástæða fyrir myndarlegri vaxtalækkun seðlabankans í morgun. AGS mun ekki láta blekkja sig aftur.

    Stærsta vandamál Íslands er að ríkisstjórnin veldur ekki hlutverkinu. Hún er ekki með neina jarðtengingu eða skilning á gangverki hagkerfisins. Hún virðist ekki skilja hvers vegna Excel líkön ráðgjafanna ganga ekki upp og vandamálin leysast ekki. Flumbrugangurinn er allsráðandi, svo sem í Icesave og breytingum á skattalögunum, sem leitt hefur til milljarða flótta á skatttekjum ríkisins, ofl.

    Því miður eru meiri líkur en minni á að samdráttur verði áfram á Íslandi á næsta ári og að viðsnúningur næstu ára verði hægur og afar viðkvæmur.

  • Jóhannes,
    Já, því miður er spá Arion banka upp á 0.5% farin að líta út sem bjartsýnisspá. Það verður ekki auðvelt fyrir AGS að lækka sína spá um 3% stig á 3 mánuðum, það er U-beyja sem mun valda álitshnekki. AGS verður að fara að hlusta á aðra en útvalda „upplýsingafulltrúa“ stjórnvalda.

    Það er alltaf að koma betur í ljós hvað okkur sárvantar sjalfstæða Þjóðhagsstofnun.

  • Adalsteinn Agnarsson

    AGS, á eftir að brenna sig, á Íslendingum!
    Frjálsar handfæra veiðar leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga!
    Mætið á Austurvöll, knýið Jóhönnu til að standa við 0rð sín,
    FRJÁLSAR HANDFÆRA VEIÐAR!

  • Jóhannes,

    Sammála þér um flest, en eitt er ekki rétt.

    Sjávarútvegurinn er ekki keyrður á fullu. Það er hægt að ráða við miklu meiri veiðiheimildir, veiðar ganga vel, mun betur en undanfarin ár.
    En atvinnugreinin heldur að sér höndum í endurnýjun og fjárfestingum á meðan ekki verður skýrt hvernig framtíðin verður varðandi fiskveiðistjórnun. Þetta kemur niður á þjónustuaðilum, sem að lang mestu leiti hafa starfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu.
    Ef að fyrirtækin sem hafa keypt veiðiheimildir sínar, verða sviptar þeim eins og Jóhanna sagði í gærkvöldi í viðtali, og marg oft hefur komið fram hjá stjórnvöldum undanfarið, þá verða þau eins og úrbrædd aðalvél. Geta ekkert knúið áfram.

  • Er eitthvað mark takandi á Arion? Er ekki sama liðið þar? Kannski er þetta allt á réttri leið. Hvernig væri hér ef Sjálfstæðismenn hefðu stýrt okkur? Værum við þá með óðaverðbólgu ofan í allt annað? Sagði ekki Óli Thors að það þyrfti að vera 8.5 % atvinnuleysi til að vera í balans.

    Hvað höfum við, þegar við erum að gíra allt niður, að gera við 3 stóra banka?

  • Það er bara alltaf að koma betur og betur í ljós að landið er sokkið vegna vitlausrar gengisskráningar 2004-2008 þe. krónan átti aldrei að verða sterkari en ca TWI-140 en best hefði verið að keyra á ca ±155 til að tryggja að ýmis framleiðsla færi ekki úr landi sökum gegisþróunar. Það hefði verið gott að eiga þetta nú á innanlandsmarkaði til að spara gjaldeyri og jafnvel flyta eitthvað af því líka út.

    Er ekki „race to the bottom“ einmitt ein byrtingarmynd þess að það er ekki hægt að hafa framleiðsluna á einum stað og neysluna á öðrum og í þessu sambandi þá er líka nauðsyn að hafa „low-tech“ framleiðslu til að starfa við fyrir þann hluta þjóðarinnar sem ekki er hámenntaður – en það er alltaf svoleiðs fólk í öllum samfélögum, þarna eru líka mikil verðmæti þó þau séu ekki á þessum besta mælikvarða „low waight – high price“ skala sem allir vilja hafa hjá sér.

    Þetta hefði senniglega verið mun betra, þe. hafa smá hag- og peningastjórn en ekki allt þetta USA/UK rugl sem hér gekk á.

  • Jóhannes

    ET,
    það sem ég á við er að miklu meira verður vart kreist út úr takmörkuðum auðlindum sjávarútvegsins nema auka töluvert áhættu til framtíðar.
    Ég gleymdi reyndar að taka undir punkt Halldórs hér að ofan. Verulegur samdráttur er fyrirsjáanlegur í samneyslu á næstu árum, fjárfesting atvinnuveganna er lítil í dag og fátt sem bendir til breytinga, nema framkvæmdir við álverið í Straumsvík og etv Helguvík, fækkun opinberra starfsmanna, stöðnun eða áframhaldandi fækkun vinnustunda í einkageiranum, raunskattahækkun, skuldavandi heimila og almenn stöðnun og óvissa mun tæplega leiða til aukningar einkaneyslu af þeirri stærðargráðu að leiði til hagvaxtar á næstunni.

    Í dag blasir við að það eru einfaldlega meiri líkur á því en minni að árið 2010 sé nokkuð dæmigert fyrir næstu ár á Íslandi. Í samanburði við meðaltal þjóða heims er það öfundverð staða. En þetta verða það mikil viðbrigði frá fyrri stöðu.

  • „2011 verður erfitt ár“
    Þetta var ekki það sem mig langaði að heyra :/ , maður fyllist svartsýni
    Eins og ég fylltist bjartsýni þegar AGS lýsti því yfir að kreppunni væri (tæknilega séð) lokið http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/06/28/kreppunni_lokid_segir_ags/

  • Adalsteinn Agnarsson

    Lærið þið af Færeyingum, sendið 50 til 60 frystiskip út fyrir 200 mílur,
    þessi skip geta sótt fisk á fjarlæg mið, í stað þess að eyðileggja mið,
    og fiskistofna við Ísland.
    Þá má stórauka strandveiðar og gefa handfæra veiðar FRJÁLSAR,
    þetta mundi leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga!
    Fiskimiðin færu fljótlega að gefa þjóðinni margfaldan afla,
    hyrfu þessi skip af miðunum!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur