Miðvikudagur 03.11.2010 - 22:43 - 7 ummæli

„Þrjú hjól undir bílnum“

Lagið sem Ómar Ragnarsson söng með hljómsveit Svavars Gests 1965, „Þrjú hjól undir bílnum en áfram skröltir hann þó“ er viðeigandi sem nýr þjóðsöngur Íslendinga, nú þegar sálmurinn „Lofsöngur“ er svo ekki 2010.

Þegar fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans er farinn að segja „að aldrei hafi verið reynt að hafa áhrif á spár Seðlabanka Íslands“, er fokið í flest skjól.  Varnarleikur Seðlabankans er orðinn vandræðalegur og yfirlýsingar sem koma frá þeirri stofnun eru varla til að auka traust.

Nú eru liðin tvö ár frá hruni og enn er verið að reikna og greina skuldavandann.  Mistök Jóhönnu var að gera sér ekki grein fyrir hversu gjörsamlega fyrri ríkisstjórnir (og hún sat jú í sumum þeirra!)  höfðu rústað öllum sjálfstæðum og óháðum innviðum stjórnsýslunnar.  Það voru hreinlega engir sem gátu tekið sjálfstæðar og hugaðar ákvarðanir, það biðu allir eftir pólitískum fyrirskipunum og forsendum sem tóku sífelldum breytingum, svo aldrei var hægt að komast af byrjendareit.  Nú á svo að taka 6 mánaða vinnu og redda í einni helgarskorpu, klassísk íslensk vinnubrögð.  Eru menn svo hissa að ekkert gerist!

Traust og trúverðugleiki stjórnvalda og stofnanna hefur náð nýjum lágpunkti.  Ný ríkisstjórn sem ætlar að endurreisa þetta traust, verður að skilja að stjórnmálmenn og embættismenn geta ekki unnið það starf.  Önnur mistök Jóhönnu, var að gera sér ekki grein fyrir þessu.  Hennar fyrsta verk hefði átt að vera að endurreisa Þjóðhagsstofnum og manna hana með samblandi af íslenskum og norrænum sérfræðingum.

Að reyna að stjórna efnahags- og fjármálakerfi landsins án tímanlegra og óháðra upplýsinga sem njóta trausts kjósenda, er eins og að keyra í bílnum í laginu hans Ómars.

Þeir sem benda á þessa augljósu staðreynd fá einnig svar frá því góða lagi:

„þegiðu kona og lokaðu glugganum“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Jamm, sem sagt annað hrun, samfélagslegt í þetta sinn í vændum eða hvað?

  • Adalsteinn Agnarsson

    Flottur, Andri Geir.

  • Orðsendingin frá Aróri var afar kjánaleg svo ekki sé meira sagt.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Af hverju ætti Jóhanna að endurreisa Þjóðhagsstofnun þegar hún hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðinn til að segja sér fyrir verkum?
    Hún játaði það í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gær. Altso að AGS réði.

  • Góð greining á vandanum, Andri Geir!

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Þorsteinn,

    Við þurfum 3ja aðila, sjálfstæða stofnun sem greinir vandann, hratt og örugglega byggðan á köldum staðreyndum og segir sannleikann. AGS notar þessar upplýsingar til stefnumótunar og er því ekki rétti aðilinn, enda hafa þeir ekki mannskap i þetta verk.

    Vandamálið er að AGS og stjórnvöld eru ekki að móta sínar ákvarðanir á réttum og tímanlegum forsendum eða upplýsingum – rusl inn, rusl út.

  • Sammála því að hér vanti Þjóðhagsstofnun. Þriðja aðila sem segir okkur hvað er í gangi. Og segir það á grunni greiningar aðastæðna sem uppi eru í þjóðfélaginu hverju sinni. Pólitíkinn á Íslandi hefur fengið að þróast á þeim nótum að ráðandi öfl stjórna ferðinni. Við eigum að hafa samræðustjórnmál sagði einn pólitíkus. Kannski var hún að hugsa um lýðræðið blessunin. En ef samræðustjórnmálin byggja á grunninum „mér finnst“, opnar það ekki greiðlega leið sérhagsmunanna?

    Eitt dæmi um vitleysuna sem traustur greinandi hefði getað varað við er fasteignabólan. Með einfaldri greiningu gagna sem liggja á netinu, öllum opinn, mátti sjá bóluna byrja að myndast þegar Kárahnjúkar fóru af stað og skjóta í hæðirnar þegar fjármagnið streymdi inn á fasteignamarkaðinn árið 2005. En Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma. Vegna þess að hættan var sú að stofnunin gat tekið upp á því að birta óþægilegar upplýsingar og gat þannig komið í veg fyrir að stjórnmálamenn sem vildu stjórna umræðunni næðu markmiðum sínum.

    Grundvallarspurningin er þessi, hverra hagsmuna ber gæta í þessu samfélagi? Okkar allra sem heildar eða sérhagsmuna einhverra sem í góðri aðstöðu vilja ná markmiðum sínum? Ég segi okkur sem heildar og Þjóðhagsstofnun hjálpar okkur í þeim efnum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur