Fimmtudagur 04.11.2010 - 11:08 - 4 ummæli

Seðlabankinn í pólitískri klemmu

Það hefur löngum verið erfitt að túlka og skilja yfirlýsingar og aðgerðir Seðlabanka Íslands á þessari öld, og enn klórar maður sér í kollinum yfir yfirlýsingum þaðan.

Í gær voru vextir lækkaðir um 0.75% og landsmönnum sagt að einkaneysla eigi að draga okkur út úr efnahagsvandanum.  Gengur þetta tvennt upp?  Varla?  Hvers vegna?  Jú, og það veit Seðlabankinn mæta vel, að hagkerfið hér byggir að mestu leyti á föstum vöxtum sem eru ákvarðaðir fyrir utan veggi Seðlabankans.  Vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands hafa því önnur áhrif á neyslu hér en í nágrannalöndunum.

Eftir þessa lækkun munu heimilin hafa minna á milli handanna en áður.  Langflest húsnæðislán eru á föstum vöxtum, aðeins þeir sem eru með lán tengd óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans njóta lækkunarinnar.  Á móti kemur að ellilífeyrisþegar og þeir sem eiga sparnað fá minna í sinn vasa og þegar allt er reiknaða saman eru yfirgnæfandi líkur á að heimilin hafi minna fjármagn til neyslu eftir þessa vaxtalækkun.

Minnkandi einkaneyslan er ekki besta kveikjan að efnahagsbata sem á að byggja á einkaneyslu!  Í þessu felst mótsögn.  Eitthvað annað verður að koma til.  En hvað?

Fyrirtækin eru flest yfirskuldug og geta ekki bætt meiri lánum á sig, endurfjármögnun á lægri vöxtum er erfið vegna verðtryggingar og ófullkomins og óburðugs fjármálamarkaðar.  Lítið sem ekkert lánsfé fæst í nýsköpun.  Í stuttu máli, innlend útlán eru í frosti, eins og tölur Seðlabankans sýna.  Síðasta hálmstráið er að lægri vextir ýti sparnaði út í fjárfestingu, en hvert og í hverra hendur.  Hverjum geta fjárfestar treyst á Íslandi og er víst að allir fjárfestar hafi sömu trú á verðbólgustöðuleika og Seðlabankinn?  Margir munu einfaldlega kjósa að færa sinn sparnað yfir í verðtryggð ríkisbréf.

Ef við lítum á afstöðu AGS þá hefur hún alltaf verið að Ísland þurfi að breytast úr neysluhagkerfi í framleiðsluhagkerfi.  Aðeins þannig getum við endurheimt okkar erlenda lánstraust og hafið alvöru uppbyggingu.  Þetta er sú leið sem tryggir hámarks lífskjör.

Eina rökrétta túlkunin á yfirlýsingu Seðlabankans er því að framleiðsluleiðin sé ófær eins og stendur (klúður og ósætti stjórnmálastéttarinnar hafa tímabundið lokað á verkefni og erlenda fjármögnun) og því verði að fara hina torsóttu og hættulegu einkaneysluleið.  Veikari hagvaxtaspá styður þessa túlkun.

En hvers vegna í ósköpunum getur Seðlabankinn ekki talað tæpitungulaust?

PS.  Vaxtaákvarðanir Seðlabankans eru ansi bitlaust verkfæri í íslenska hagkerfinu eins og sagan segir okkur.  Það sem skiptir miklu meira máli er að halda gengi krónunnar stöðugu.  Fastgengismarkið sem styðst við gjaldeyrishöft er eina tæki Seðlabankans sem „virkar“ í yfirskuldugu, verðtryggðu krónuhagkerfi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Góður pistill að vanda.
    En eitt skal áréttað. Orðið „verðtrygging“ stenst ekki skoðun. Enginn virðist kaupa þessa tryggingu og ekki er hægt að kaupa tryggingu á móti. Það sem hér um ræðir er sjálfstæður gjaldmiðill sem heitir verðtryggð króna. Vextir Seðlabankans hafa lítil sem engin áhrif á þessa verðtryggðu krónu enda eru þeir sérstaklega gerðir fyrir hina Íslensku krónu. Hækkun benzinverðs erlendis hefur meiri áhrif á þá verðtryggðu.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Erlendur,
    Þakka góða ábendingu.

  • Sennilega væri mun fljótlegra að taka saman það sem Seðlabanki Íslands hefur gert af viti en allt það sem hann hefur klúðrað.
    Giska á að það vitræna kæmist á eina A4 síðu.
    Allt klúðrið yrði þykkur doðrant.

  • Björn Kristinsson

    Vextir lækka og gengi krónunnar styrkist. Á ekki að geta orðið til nema með handstýringu. Þetta merkir tveinnt:

    1) Styrking krónunnar undanfarið er pólitísk aðgerð en hefur ekkert með hagfræðilega stöðu landsins að gera.

    2) Lækkun vaxta ein og sér bendir til þess að gjaldeyrishöftin verða viðloðandi næstu misseri. Afnám þeirra næsta vor er óskhyggja.

    Á meðan Seðlabankinn er enn undir hæl stjórnmála þá erum við föst. Stjórnvöld hafa ekki enn kjark í að ráðast í þær grundvallarbreytingar sem þarf að vera á hinu opinbera kerfi. Því fyrr sem fólk áttar sig á þeirri staðreynd því fyrr komumst við áfram, fyrr gerist ekkert. Með núverandi stöðu er peningastefna Seðlabankans og fjármál hins opinbera að dansa sitthvorn dansinn.

    Að lokum, ríkið er enn að safna skuldum…það er mjög slæmt. Við verðum hreinlega að fara að horfast í augu við þá staðreynd að við erum á bjargbrúninni varaðandi þessi mál. Þetta hefur ekkert með svartsýni að gera, þetta er köld staðreynd, tölurnar tala sýnu máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur