Fimmtudagur 04.11.2010 - 23:18 - 34 ummæli

Lífskjör falla mest á Íslandi

Samkvæmt nýrri þróunarskýrslu SÞ fellur Ísland mest allra landa á milli áranna 2005 og 2010, eða um 10 sæti.  Þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við og teljum að hafi farið enn verr út úr kreppunni, af því að þau voru innan ESB, farnast betur.  Írland stendur í stað og Spánn, Ítalía, Portúgal og Grikkland hækka öll um 1 til 4 sæti.

Sem sagt, ekkert af verst stöddu evruríkjunum lækkar í röðinni á síðustu fimm árum á meðan Ísland lækkar um 10 sæti.

Ekki hef ég séð íslenska fjölmiðla segja sínum lesendum frá þessari niðurstöðu.  Er furða að meirihluti þjóðarinnar trúi að Ísland sé að koma betur út úr kreppunni en evrulöndin, þegar enginn hefur áhuga á að horfast í augu við staðreyndir og rannsóknir erlendra stofnanna á við SÞ.

Þessi skýrsla SÞ ásamt nýlegri skýrslu World Economic Forum setur íslenska hrunið í alþjóðlegt samhengi sem við viljum helst ekki horfa á eða ræða.  En það þýðir ekkert að loka augunum og búa til raunveruleika á íslenskum forsendum.  Slík mun í besta falli tefja fyrir uppbyggingu og í versta falli leiða til stöðnunar og síðan hnignunar.

Heimild:  UN Human Developmen Report 2010

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (34)

  • Komonn, við féllum úr 1sta sæti! 1sta! Íkarus flaug of hátt, fallið var mikið. Lífskjör falla til hva, ca. um 10 ár eða eitthvað, lápum við dauðann úr skel þá?

  • Hans Haraldsson

    Þar til fyrir nokkrum mánuðum var því gjarnan haldið fram að Írar hefðu komist betur frá fjármálakreppunni í hreinum efnahagslegum skilningi en við.

    Nú er annar veruleiki að koma í ljós. Atvinnuleysi er tvöfalt meira á Írlandi, nær tvöfalt meiri niðurskurður (hlutfallslega) stendur fyrir dyrum og skuldatryggingaálag írska ríkisins er líka næstum tvöfalt hærra en hins íslenska. Þar er líka brostinn á landflótti.

    Í raun voru áhrif kreppunnar bara lengur að koma fram þar syðra.

    Væri ekki viturlegra að bíða með upphrópanir a.m.k fram að næstu skýrslu? Sérstaklega í ljósi þess að tölurnar sem eru notaðar við útreikningana eru oft 1-2 ára gamlar.

    Svo má auðvitað spyrja sig hversu mikið mark er takandi á skýrslu sem notar orðin „high human development“ til að lýsa þjóðfélagsástandinu í Sádi-Arabíu.

  • Ari,
    Nei, við féllum ekki úr fyrsta sæti heldur úr 7. 2005 niður í 17. 2010. Svona skýrslu þarf að lesa vandlega og hafa staðreyndir á hreinu.

  • afsakið, ruglaði saman ártölum, í fjölmiðlum var aðallega talað um að Ísland hafi verið í 1sta sæti árið 2007.

  • Hans,
    Skýrslan tala sínu máli og stendur á eigin fótum. Hún snýst ekki aðeins um efnahagslega þætti, menntun, heilsa og öryggi koma þar líka inn í.

    Það er hins vegar rétt að sum gögn byggja á tölum frá 2008, en ég á erfitt með að sjá að skýrslan 2012 sem mun byggja á 2010 tölum muni bæta stöðu Íslands mikið miðað við önnur lönd.

    Ísland kaupir 7% atvinnuleysi dýrum dómi, það kostaði gríðarlega launalækkun sem hefur haft sínar afleiðingar fyrir heimilin sem ekki ná endum saman.

    Það er rétt að niðurskurðurinn á Írlandi verður meiri en hér (bæði löndin vorum með ríkishalla upp á 13% í byrjun 2009) en það er vegna þess að Írar hækka skatta ekki eins mikið og alls ekki á fyrirtæki.

    Skuldatryggingarálagið er hærra á Írland af því að þeir létu ekki allt bankakerfið hjá sér rúlla ásamt hlutabréfamarkaði eins og Íslendingar gerðu.

    Nei, samanburðurinn við Írland er aðeins flóknari en margir vilja láta. Er ekki best að láta 3ja aðila eins og SÞ líta hlutlausum augum á dæmið. Eru Írar og Íslendingar bestir til að dæma hjá sjálfum sér?

  • Gunnar Tómasson

    Á síðasta ári lækkaði verg landsframleiðsla í dollurum um nálægt 30% miðað við VLF 2008.

    Á föstu verðlagi í íslenzkum krónum varð lækkunin í kringum 6-7%.

    Síðarnefnda talan er sú sem stjórnvöld og AGS halda á lofti.

  • Ég finn það vel í eigin buddu hvað kjaraskerðingin er gríðarleg. Það skiptir mjög miklu máli þegar gjaldmiðillinn sveiflast eins og lauf í vindi – ekki líkur gildum trjástofni sem stendur af sér allflest veður.

  • Já, það er þetta með Írana. Hugmyndir úr fjárlagafrumvarpi 2011 var kynnt í gær, með áætluðum 930 miljarða króna niðurskurði og umtalsverðum skattahækkunum.

    Halli ríkissjóðs á Írlandi er tæp 12% en þegar banka-björgunin er reiknuð inn, er hallinn hvorki meira né minna en 32%.
    Fjárlagafrumvarpið væntanlega gerir þó ekki ráð fyrir að niðurskurðurinn verði meiri en svo, að hallinn á næsta ári verði 9.5%, og að jöfnuði verði náð 2014, sem þýðir að næstu fjárlagafrumvörp hafa boðaðan enn meiri niðurskurð.

    Í niðurskurðinum verður ráðist á bætur og framlög til verlferðar. Virðisaukaskattur hækkaður sem og tekjuskattur og ýmsir aðrir skattar.
    Atvinnuleysi er spáð um 14-15% og reiknað er með umtalsverðum landflótta.

    Og síðan er búist við því að Írar leiti til ESB með beiðni um fjárhagsaðstoð.

    Og varðandi útflutninginn, og samdráttinn þar, þá er áhugaverðast að samdrátturinn er mestur á útflutningi til annarra evru-ríkja, en hlutdeild hans er um 40% í heildarútflutningnum. Sameiginleg mynt er því EKKI að verja Íra. Og það sem meira er, að hugsanleg styrking evrunnar vegn bættrar stöðu í Þýskalandi, kemur örugglega til með að hafa meiri samdrátt í för með sér á útflutningi til ríkja utan evrusvæðissins.

    Evran verður því enn meiri skaðvaldur í efnahagslífi Íra á næstu árum.

    Allavega, þá er það ljóst að ástandið á Írlandi er í engu skárra en á Íslandi, líklega mun verra, og á eftir að versna umtalsvert á næstu árum.

  • Það er augljóst að útflutningur evruríkja út fyrir sameiginlega markaðinn verður síður samkeppnishæfur með sterkri evru, en hvernig getur evran veikt útflutning Íra til ESB-ríkja? Evran kostar jafnmikið í Þýskalandi og Írlandi.

    Er ekki bara málið að það er kreppa? Neysla og þar með útflutningsmarkaðir eru að dragast saman. Er Hilmar kannski að stinga upp á íslensku leiðinni fyrir Írland, gera millistéttina að öreigum á einu bretti með falli gjaldmiðilsins? Verða Írar eitthvað ánægðari með það?

  • Það er ýmislegt sem getur skýrt þessa öru hreyfingu Íslands á listanum.

    Fyrsta sem mér dettur til hugar er smæð landsins. Ísland er lang minnsta landið af þessum löndum sem þú skoðar. Annað sem mér dettur til hugar er hvaða erindi áttum við í tíunda sætið árið 2005? Er 2005 toppur sem ekki ætti að miða við, svipað og þegar þeir sem afneita hnattrænni hlýnun miða við 1998 (minnir mig) því þá var óvenju heitt.

    Datt þetta í hug. Verkfræðing líkt að rýna í tölur og skoða ekki hvað er á bakvið þær 😉

  • Lítil hagkerfi sveiflast meira en stærri hagkerfi. Hvort sem er ESB eður ei, Evra eða króna. Eina leiðin til að breyta sveiflukendu hagkerfi Íslendinga er að flytja eins 4-5 miljón mans inn.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Því er við að bæta að atvinnuleysi hér var 1,5 – 2,0% á þessum árum en um 4,5% í Írlandi. Atvinnuleysið hér er auðvitað í raun hærra en opinberar tölur segja til um eða líklega um 11-12%, þar sem svo margir eru farnir úr landi, bæði erlendir ríkisborgarar og Íslendingar. Hér hefur atvinnuleysið því a.m.k. 6 faldast á meðan það hefur 3 faldast á Írlandi.

    Þeir sem hafa atvinnu á Írlandi – 85% allra vinnufærra – berjast ekki við 30% hækkun lána og allra nauðsynja, sem þýðir að því mig minnir um 18% lækkun kaupmáttar. Fórnirnar eru því meiri hér á landi fyrir allan obba fólks.

    Þetta segi ég án þess að gera lítið úr vanda Íra, sem er gífurlegur. Þeir gerðu líka svipuð mistök og við. Það er því lítið loft eftir í írska tígrinum og ætli við íslensku víkingarnir séum ekki einnig ansi framlágir!

  • Svo má ekki gleyma eignarbrunanum sem varð hér. Þó húsnæðisverð og laun hafi lækkað í evrum á Írlandi hefur þetta snarhækkað ef mælt í íslenkum krónum. Þá eru lífeyrissjóðir og sparnaður fólks í evrum og oft er stærstur hluti þess fjárfestur í stærstu evruhagkerfunum Þýskalandi og Frakklandi þar sem hlutabréfamarkaðir hafa náð sér eftir hrun. Þetta hefur hækkað um nær helming mælt í krónum á meðan íslenskar eignir lífeyrissjóðanna hafa hrapað í verði vegna falls bankanna og hlutabréfamarkaðarins.

    Þegar allt er tekið með í reikninginn er ástand hinnar venjulegu fjölskyldu verr á Íslandi en á Írlandi. Maður lifir ekki á %.

  • Kreppan á Íslandi mun verða skelfileg árin 2011 til ársins 2018 ef ekkert breytist og íslendingar hafna ESB aðild (eins og gæti vel gerst). Ef það gerist, þá verður kreppan á Íslandi skelfileg til frambúðar.

  • Mjalli,
    Ef stærð hagkerfsins er ástæðan, ættu Lúxemborg og Malta að hafa hrunið með okkur.

  • Við munum ekki taka upp evru næstu árin, nema að gera það einhliða.
    Það á að hlusta á röksemdir Heiðars Más varðandi það mál.
    Það væri gott mál að geta borgað launafólki út í gjaldmiðli sem virkaði.
    Íslenska krónan er ekkert betri en Kongó krónan sem notuð var á Djúpavogi á síðustu öld.
    Kongó krónan var ekki tekin gild á Hornafirði.

  • Það er alltaf skemmtilegt hvað menn eru selectívir á það sem hentar í þeirra málflutning.
    Guðbjörn telur t.d. að atvinnuleysi á Íslandi sé falið, og gefur í skyn að svo sé ekki á Írlandi.
    Auðvitað eru þetta ekki rök, heldur fullyrðingar út í bláinn, sem á svo að draga einhverjar ályktanir af.

    Málið er, að menn eru að bera saman lönd sem eru ekki á sömu tímalínu og hafa notað ólíkar aðferðir í úrvinnslu kreppunnar. Írar eru bara ekki komnir almennilega inn í kreppuna, og þó er ástandið þar að verða óbærilegt.

    Og þar sem þjóðirnar eru með ólíka gjaldmiðla, þá verða afleiðingar líka ólíkar. Á meðan við njótum þess að innlend framleiðsla verður samkeppnishæfari, þökk sé krónunni, þá verður engin breyting á samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu á Írlandi.

    Samdrátturinn á Írlandi er því fyrst bundinn við atvinnulífið. Minni útflutningur (hrun í tölvugeiranum) smitar hægt og rólega út í þjóðfélagið. Fyrst með uppsögnum, svo með lægri launum og færri vinnustundum. Og í framhaldi af því, mun fleiri uppsagnir.
    Hinn fyrirhugaði niðurskurður hjá hinu opinbera á næstu árum kemur svo til með að auka atvinnuleysið enn frekar, og gera vandann afskaplega erfiðan úrlausnar.

    Vandamálið í hnotskurn er því það, að Írar hafa evru. Þeir geta ekki treyst á aukna samkeppnishæfni síns hagkerfis, með því að lækka gengið. Þeir geta því ekki dreift áfallinu jafnt á alla með minni kaupmætti á innfluttri vöru, heldur þurfa að að lifa við gjaldþrot fyrirtækja og uppsagnir.

    Vandamál okkar eru bara allt annars eðlis. Og þar eru tveir áhrifavaldar verstir, en eru báðir afleiðing ábyrðarleysis. Í fyrsta lagi óhófleg skuldsetning einstaklinga og fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum. Og í öðru lagi verðtrygging.

    Með því að takmarka lántökur í erlendum gjaldmiðlum, þá lágmörkum við gengisáhættu. Og með því að banna verðtryggingu, þá aukum við ábyrgð fjármagnseigenda á því að halda verðbólgu innan marka.

    Síðan mætti í framhaldinu setja lög sem hreinlega banna hallarekstur ríkis og sveitarfélaga, að viðlagðri refsiábyrgð.

    Og þar með væri framtíðarvandi okkar mun minni og framtíðaráhættan ásættanlegri.

  • Varðandi húsnæðisverð á Írladni Andri, þá er þetta rangt hjá þér.
    Í fyrrakvöld var þáttur um þetta á RTÉ, þar sem fram kemur að lækkun á húsnæði getur numið allt að 50-60%, og jafnvel þessi lækkun hefur ekki komið fasteignamarkaði af stað.

    Þar var tekið viðtal við byggingavertaka, sem átti þó nokkur raðhús óseld.
    Í hans tilviki setti hann húsin á sölu 2008, og setti 300.000 evrur á hvert þriggja herbergja hús. Sem gerði 24.000.000 miljónir króna á genginu 80. Í dag er ásett verð 150.000 evrur, eða 23.200.000 krónur.

    Reybndar skiptir þetta okkur ekki nokkru máli, þar sem fasteignakaup á Írlandi er ekki hluti af íslenskri fjárfestingu.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Hilmar,
    Það er alveg rétt að gegisfelling gerir lönd samkeppnishæfari og á að dreifa skellinum jafnt en svo er ekki á Íslandi. Verðtryggingin var sett á af Óla Jó á sínum tíma sem „lausn“ á sífelldum gengisfellingum en hefur þann ókost að dreifa áhrifum gengisfellingar ójafnt á milli launamanna og fjárfesta, síðan bætist ofaná, að hluti hagkerfisins er rekinn í erlendri mynt, sá hluti sem fær tekjur sínar í evrum eða evrutengdum krónum er í allt annarri stöðu.

    Ef litið er yfir 85 ára peningamála stjórnun Íslendinga með sjálfstæðan gjaldmiðil er sú saga ekki uppbyggandi eða traustvekjandi.

    Hvers vegna ættum við að geta stjórnað okkur af viti núna með sömu stjórnmálamönnum sem höfðu engar lausnir fyrir og í hruninu? Er þetta ekki enn eitt formið af ofurbjartsýni sem síðan fer með allt á hausinn.

    Öll lönd hafa sínar raðhúsalengjur sem eru óseljanlegar. Hins vegar er ein leíxa af hruninu fyrir almenning að dreifa áhættunni á sínum sparnaði. Þeir sem eru með sínar tekjur í íslenskum krónum ættu að vera með sinn sparnað í hagkerfum sem sveiflast á móti Íslandi, t.d. Asíu og Brasilíu. Þannig væri sparnaðurinn tryggður í íslenskri niðursveiflu en í uppsveilfu er nóga vinnu að fá og það er sá tími sem fólk getur helst tekið fall á sínum fjárfestingum. Að missa vinnuna og sparnaðinn á sama tíma er það versta sem getur hent.

    Það er ekki óeðlilegt að fjölskyldur hafi 35-50% af sínum sparnaði erlendis. Útflæði íslensk sparnaðar er höfuðverkur Seðlabankans og því verða gjaldeyrishöftin hér enn um stund.

  • Bragi Páls

    Margir fjasa um að við verðum að fá Evru sem gjaldmiðil og þá muni allt lagast.

    Það er bent á að af því að við erum með krónu sem gjaldmiðil, þá sé eignabruninn gífurlegur.

    En hefur þetta Evru-sinnaða fólk hugleitt það, að við það að taka upp Evru á t.d. núverandi gengi að þá yrði þessi eignabruni gerður varanlegur og óafturkræfur?

    Þið þessir Evru-sinnar, hvaða gengi á að skipta krónunni upp í Evru?

    Getið þið svarað því og hvernig það eigi að eiga sér stað?

    Það gengur ekki að við verðum á helmingi lægri launum en t.d. Þjóðverjar mælt í Evrum, yrðum við svo vitlaus að skipta út krónunni fyrir allt of lágt gengi.

    Slík er bara hálfvitagangur.

  • Ehh.. hvað fáum við margar evrur fyrir kílóið af þorski, fyrir og eftir upptöku evrunnar?
    Þú leiðréttir mig kannski ef það er rangt hjá mér, en skv mínum bókum væru þær jafnmargar.

    Og hvað þýðir það?
    Jú, í grunnin yrði nákvæmlega engin breyting á efnahagsreikningi Íslendinga. Hinsvegar yrðu afleiðingar af sveiflukenndu efnahagslífi margfaldar.
    Hugsanlegur aflasamdráttur yrði strax sjáanlegur í atvinnuleysi. Við hefðum ekki lengur tækifæri til þess að verðfella okkar eigin gjaldmiðil í samræmi við minnkandi verðgildi landsframleiðslu.

    Og varðandi stjórnmálamennina, yrðum við ekki með þá sömu í evru-umhverfi?
    Fylgja evrunni einhverjir „aðrir“?

    Og ef vandamálið er verðtryggingin, af hverju ekki að afnema hana?
    Það er nefnilega ekkert lögmál að við, árið 2010, þurfum að búa við afleiðingar af efnahagsóstjórn vinstriflokkanna fyrir 30 árum.

    Málið er ákaflega einfalt. Fjármagnseigendur þurfa ekki verðtryggingu. Ef verðbólga eykst, þá færa menn fjármagnið í annað form. Í staðinn fyrir bein lán, t.a.m. lán til fjárfestinga, þá kaupa menn hlutabréf. Og til lengri tíma litið, þá er arður af hlutabréfamarkaði meiri en af lánastarfssemi.

    Stóra málið er þetta, allt sem hægt er að gera í evru-umhverfi er hægt að gera hér.
    Ábyrgur ríkisrekstur er óháður gjaldmiðli. Sparnaður er óháður gjaldmiðli. Rástöfunarfé er óháð gjaldmiðli. Hófleg fasteignalán eru óháð gjaldmiðli.

    Það að geta sveiglað krónunni eftir tekjum þjóðarbússins er hinsvegar bara algerlega ómótstæðilegt. Kílóið af innlendu kjöti hækkar mun minna en af innfluttu, ef krónan fellur í verði. Sem segir okkur, að hinn venjulegi neytandi getur fætt sig með svipuðum krónufjölda, á innlendu kjöti, á meðan hann þarf að skera niður neysluna á evrukjöti.

    Og varðandi fasteignalánin, af því að evrumenn festa sig algerlega í þeirri umræðu, þá dugar hóflegt hámark á fasteignalán (t.d. 20 miljónir og 80% af fasteignamati), greiðslumat, afnám vísitölubindingar og hámark á föstum vöxtum til að koma í veg fyrir fasteignabólur.

  • Jón Ottesen

    „Það að geta sveiglað krónunni eftir tekjum þjóðarbússins er hinsvegar bara algerlega ómótstæðilegt. Kílóið af innlendu kjöti hækkar mun minna en af innfluttu, ef krónan fellur í verði. Sem segir okkur, að hinn venjulegi neytandi getur fætt sig með svipuðum krónufjölda, á innlendu kjöti, á meðan hann þarf að skera niður neysluna á evrukjöti.,,

    En á eldsneyti, bílum, varahlutum, heimilistækjum, bleyjum, barnamat, hjólbörðum, og nánast öllu nema kjöti, mjólk, rafmagni og hitaveitu?

    Að halda því fram að rástöfunarfé sé óháð gjaldmiðli er út í hött. 100þ. krónur á gengi evru 90kr er ekki sömu ráðstöfunartekjur og 100þ krónur á gengi evru 160kr. í landi þar sem nánast allt er flutt inn.

    Eru útflutnings vegir Íslands svo hand ónýtir að þeir geta ekki þraukað nema þeir borgi laun sem teljast undir fátæktarmörkum í Vestur Evrópu?? Ég veit ekki betur en að útgerðin og stóriðjan hafi lifað við ofurkrónu í mörg ár, vissulega vældu þeir vegna þess að þeir vildu græða meira en þeir fóru ekki á hausinn í stórum stíl.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Hilmar,

    Þú segir

    „Stóra málið er þetta, allt sem hægt er að gera í evru-umhverfi er hægt að gera hér.“

    Við erum með gjaldreyrishöft og ónýtan hlutabréfamarkað sem enginn treystir. Það verður aldrei hægt að ná sömu áhættudreifinu í krónum og evrum, stærð markaðarins ræður því.

    Auðvita er allt hægt ef viljinn og þekkingin er fyrir hendi. Hins vegar er enginn raunverulegur vilji eða kunnátta til að stjórna krónunni eins og Svisslendingar hafa stjórnað frankanum. 85 ára reynsla sýnir það.

    Þetta snýst ekki um hugmyndafræði heldur þá einföldu staðreynd að við höfum hvorki hefð eða reynslu í ábyrgri fjármálastjórnun. Það tekur áratugi að byggja hana upp og ekkert bendir til að við eigum traustan grunn til að byggja á. Þras stjórnmálamanna og traust á Alþingi ætti að sannfæra þá sem enn eru í vafa.

    ESB og evruaðild snýst mest um að fá aðstoð, stuðning, þekkingu og aðhald í stjórnun. Svo einfalt er það.

  • Fyrst Jón Ottesen:
    Grundvallaratriði í kreppu er að allir geti fætt sig. Rafmagnstæki eru afgangsstærð, til skamms tíma litið. Gallinn við flesta þessa dagana er sá, að þeir eru fastir í skammtímahugssun. Kreppan núna HLÝTUR að vera viðvarandi ástand. Eins og að „góðærið“ s.k. hlaut að vera viðvarandi.
    Og ef hugsunin er sú, að við getum mætt TÍMABUNDINNI niðursveiflu með minni innflutningi á rafmagnstækjum, er það þá ekki hið besta mál?

    Og svo er það þessi árátta að kenna stjórnmálamönnum alltaf um allt. Hagfræðingar eru bara engu skárri, enda virðast þeir ekkert færari um að læra af fortíðinni fremur en aðrir.
    Það vantar í þá flesta örlítið meira af George Soros, og minni stærðfræði. Hegðun verður ekki mæld með stærðfræðiformúlum.

    Og Andri, það virðist vera þitt mesta áhyggjumál að stjórnmálamennirnir okkar séu svo slakir. Batna þeir eitthvað með evru?
    Hvað segir þú um ákvæði í stjórnarskránni, sem fortakslaust bannar framúrkeyrslu á fjárlögum, að viðlagðri refsiábyrgð?

    Nú og svo varðandi „… að fá aðstoð, stuðning, þekkingu og aðhald í stjórnun..“
    Hafa Írar ekki aðgang að þessu öllu saman?
    Ef svo er, af hverju eru þeir þá svo illa staddir?
    Þeir eru jú með evru.

  • Gunnar Tómasson
    05.11 2010 kl. 00:49 #:
    Góður punktur!
    Krónan er frábær gjaldmiðill fyrir stjórnvöld sem eru fávitar í efnahagsmálum.
    Með henn er alltaf hægt að senda reikninginn fyrir óstjórnina til almennings.
    Þetta hefur verið gert í gegnum tíðina með ótal gengisfellingum.
    En það skrítna er að almenningur virðist elska þessa ónýtu krónu, sem bindur marga í vonlausa skuldafjötra.

  • Jóhannes

    Hilmar,
    Sú fullyrðing þín: „Það að geta sveiglað krónunni eftir tekjum þjóðarbússins er hinsvegar bara algerlega ómótstæðilegt“ og annað í innleggi þínu ber vott um ansi djúpar og innilegar tilfinningar til „Íslenzku Krónunnar“. Vonandi verður mat á hagkvæmni krónunnar sem gjaldmiðils og lögeyris til framtíðar byggður á kaldara og faglegra mati.
    Það er köld staðreynd að íslenska krónan hrundi. Hún lækkaði ekki, hún hrundi stjórnlaust. Hrun hennar var langt umfram aðlögun íslenska þjóðarbúsins að ytri aðstæðum, enda stefndi hún niður í hyldýpi. Hrun íslensku krónunnar var stöðvað með stórkarlalegum inngripum inn í markaðinn og líf hennar er algerlega háð öflugustu gjaldeyrishöftum á byggðu bóli, höftum sem ekki er enn séð fyrir endann á hvort eða hvenær verði aflétt. Tjón af hruni krónunnar fyrir íslenskt hagerfi er líklega töluvert meira en tjón af hruni bankanna, ef frá er talið fráleitt inngrip Seðlabankans til stuðnings bönkunum, enda lenti tjónið af hruni bankanna að mestu á útlendingum.
    Almennt er viðurkennt að íslenska krónan hafi sjaldnast verið í einhverju „jafnvægisástandi“ við aðstæður í hagkerfinu. Saga hennar er harmasaga verðbólgu og ójafnvægis, og það þrátt fyrir afar öflug gjaldeyrishöft frá um 1930 þar til um miðjan 20. áratuginn. Tilraunin um flot krónunnar 2001 var virðingarverð en hún beið algert skipbrot með hruninu 2008. Í millitíðinni hafði seðlabankinn í örvængingarfullri tilraun til að hemja gríðarlegan verðbólguþrýsting hækkað stýrivexti upp úr öllu valdi sem leiddi til þeirra spákaupmennsku erlendra fjárfesta og ævintýramanna sem í dag er 400 milljarða sjóhengja yfir íslensku krónunni og þjóðinni. Þar að auki má ætla að stór hluti íslenskra fjárfesta og sparifjáreigenda leiti í öruggara skjól með hluta síns sparnaðar eftir hrakfarir síðustu missera og vantrúar á krónunni.
    Og það hefur enginn, endurtek, ENGINN, getað bent á hvaða fyrirkomulag peningamálastjórnunar eigi að taka upp með íslenska krónu til að tryggja verðstöðugleika og samkeppnishæft vaxtastig við helstu viðskiptalönd Íslendinga, þ.e. EF hægt verður að vinda ofan af gjaldeyrishöftunum. Seðlabankinn hefur ekki treyst sér til að gefa neitt út og því síður stjórnvöld. Í öllu falli verður mjög mikill kostnaður því samfara að druslast með krónuna áfram, verði þjóðin til þess þvinguð.

  • Jóhannes, fall krónunnar er afleiðing af gengdarlausum erlendum lánum. Og gengdarlaus erlend lántaka, án þess að hún skili arði af fjárfestingum, hefur stórfelldar afleiðingar.

    Í okkar tilviki er afleiðingin fall krónu. Hverjar er afleiðingarnar á Írlandi og Grikklandi, svo dæmi sé tekin?

    Halda menn að það sé ekkert vandamál að stofna til gríðarlegra skulda, bara af því að þjóðir eru með evru? Og að það verði engir eftirmálar af slíkri iðju?

    Og þegar menn ná að skilja það, að skuldir ÞARF að borga, þá er næsta sem menn skilja, að meðallaunin geta ekki verið 30.000 evrur, heldur 20.000 evrur, eða jafnvel 15.000 evrur.

    Sérðu launamenn sætta sig við að taka á sig skerðingu upp á 50%, þegar minna verður til skiptanna af evrunum?

    Læt þetta gott heita, en ætla að vona að menn nái að setja hlutina í samhengi. Glæpsamleg framkoma bankamanna og útrásarvíkinga, ásamt slöku eftirliti ríkissins hefur ekkert með íslenska krónu að gera, per se, og það er dálítið kjánaleg hagfræði að reikna með að svoleiðis hlutir endurtaki sig. Það er að segja, ef menn hysja upp um sig brækurnar, og hætti að taka tilskipunum frá ESB gagnnrýnislaust.

  • Jóhannes

    Hilmar,
    Hvaða ráð hefur þú þá til Seðlabankans til að vernda þessa blessuðu viðkvæmu krónu til framtíðar? Á þá að banna erlendar lántökur? Á að banna óarðbærar fjárfestingar sem fjármagnaðar eru í erlendri mynt? Hver á að leggja mat á hvaða viðskipti á að leyfa með tilliti til verndunar krónunnar og hvaða þættir eiga að vera inni í því mati? Á að hverfa aftur til stjórnarhátta frá 1945 – 1960 þegar handstýring var nánast á öllu hagkerfinu og gjaldeyrisleyfanefnd ákvað fyrir þjóðina hvaða jólaávexti og krydd mætti kaupa fyrir viðkvæmu og verðmætu krónuna okkar?
    Þessar erlendu lántökur sem þú nefnir og ráðstöfun þess fjár voru einfaldlega (að langmestu leyti) eins og hver önnur lögleg viðskipti milli aðila, gerð við þær markaðsaðstæður sem þá voru uppi. Vissulega var oft illa vandað til verka og heimskulega í mörgum málum, en það er bara gangurinn í viðskiptum. Ef gjaldmiðillin þolir ekki fjórfrelsi EES samningsins án þess að sveiflast gríðarlega eða hrynja, þá eru meiri líkur á að eitthvað mikið sé að gjaldmiðlinum, fremur en viðskiptafrelsinu.

  • Einfalt ráð Jóhannes. Engin ábyrgð ríkissins á erlendum lántökum.
    Og ef íslenska ríkið stendur ekki sjálft í lántökum, er þetta þá nokkuð vandamál?

    Og ef menn treysta þessu ekki, þá er nóg að benda á, að stífari reglur FME um óefnislegar eignir næði utan um þann leik sem bankarnir léku, til þess að „svíkja“ út fé. Eða öllu heldur, að falsa verðmæti veða.

    Sem sagt, ríkið ábyrgist ekki innistæður, heldur verða þær að vera háðar innistæðusjóði sem sannarlega tekur nægilega hátt álag.

    Ég leyfi mér líka að benda á það, að í okkar hagsögu þá hefur þetta ekki verið stórfellt vandamál, heldur voru það tíðar gengisfellingar sem settu allt á skjön.
    Ég ætla líka að benda á þá staðreynd, að fyrir hrun var rekstur ríkissjóðs í mjög góðum málum. Það var fyrst og fremst reglur ESB um bankamál sem leiddu okkur á villigötur.
    Og að sjálfsögðu er það hámark aumingjaskapsins, að gera ekki ráð fyrir því að þokkalega greint fólk geti komið í veg fyrir að bankamenn hagi sér eins og þeir höguðu sér.

    Það tókst á hinum norðurlöndunum, þó það hafi ekki tekist á Íslandi og Írlandi.

    Samandregið:
    1. að koma í veg fyrir fasteignabólur með afgerandi reglum um útlán.
    2. að afnema ríkissábyrgð
    3. að tryggja rekstraröryggi sparisjóða, með því að leggja aukaálag á erlend lán banka, og með því tryggja öruggt greiðslukerfi og smálánakerfi.
    4. að halda ríkisfjármálum í horfinu

    Það er fullt af leiðum færar, nóg af þeim. Þeir sem vilja hinsvegar bara evru og ekkert nema evru, verða samt aldrei til í að fara neina af þeim. Þeir finna því allt til foráttu. Þeir halda alveg örugglega áfram að draga upp tárvotar myndir af fólki með sultardropa í kuldanum, bíðandi eftir gjaldeyrisheimildinni eða skammtaða sykrinum.

    En leiðin sem við förum verður að vera frelsi með ábyrgð, með áherslu á ábyrgð.

    Og einu sinni enn, já ótrúlett, það þarf að minna á það einu sinni enn (sennilega til einskis þó) að Írar eru með evru og samt fór eins og það fór. Þið eruð bara aldrei tilbúinir, þið evrusinnarnir, að ræða það mál.

    Af hverju fór þetta svona hjá Írum, sem eru með evrur?
    Ég sé engan tilgang til að ræða þetta frekar, fyrr en þið komið með einhver svör við því.

  • Helgi Helgason

    Hilmar,þegar krónan var aftengt dönsku krónuni,á því herrans ári,1922 hefur hún rýrnað gagnvart þeirri Dönsku um99,99%.

  • Ætli það skipti nokkuð máli hvaða gjaldmiðill er notaður þegar efnahagsstjórnin er jafn hörmuleg og hefur verið jafn hörmuleg eins og á Íslandi. Það þarf rótækar breytingar á hagstjórninni áður en við svo mikið eigum séns í að stýra hagkerfinu með traustum gjaldmiðli já eins og Evru. Í raun get ég ekki annað séð en við séum að fjarlægjast Evruaðild hvað lýtur Mastricht ákvæðunum með skuldasöfnun ríkissjóðs sem hefur verið 2 faldur Icesave halli (75miljarðar x2) árlega frá hruni þar sem ekki er gengið í það að skera niður í ríkisútgjöldunum.

    Það eru 2 gjaldmiðlar á Íslandi krónan og verðtryggða krónan og spurning hvort ekki þarf að fara breyta því? Það þýðir ekkert að líta til tímabils krónunnar 2001-2007 þegar gengi krónunnar verður fleytt. Sú króna sem við þá höfum verður miklu veikari og sveiflukendari hagkerfið er í frjálsu falli, pólitísk upplausn.
    Ástandið núna (sem er ekkert gott) er sýndarveruleiki. Það gleðjast allir gríðarlega yfir lækkun á stýrivöxtum seðlabankans en vandamálið er að nær flestar skuldir eru í erlendri mynt eða verðtryggðar þanning að þetta mun hafa sáralítil áhrif já annað en að grafa undan krónunni þegar og ef henni verður þá fleytt.
    Það er búið að læsa dyrunum að hagkerfinu, búið að setja ofurskatta á fjármagn og menn búast við að það sé forsenda uppbyggingar en því miður þetta virkar bara ekki svona…

    Annað hvort siglum við inn í alkul verðhjöðnunar, stöðnunar innan í gjaldeyrishöftum eins og á kreppuárunum eða óðaverðbólgu sem getur augljóslega orðið enn brjálæðingslegri en sú er við höfðum kringum 1982/1983.
    Fjármagn verður fest í varanlegum verðmætum, gulli, traustum eignum en verður augljóslega ekki notað til að koma af stað áhættusömum rekstri.

  • Hvaða raunhæfa möguleika höfum við í gjalmiðilsmálum?
    Við erum og verðum með krónuna og augljóslega verður að koma til gríðarlega aðhaldsöm fjármálastefna sem er í raun lífsnauðsynleg til að reyna að byggja upp traust á gjaldmiðlinum því annars siglum við í nokkurs konar kollektíft gjaldþrot þar sem nær allar fjármagnsskuldbindingar eru bundnar við verðtryggðu krónunna eða erlenda mynt og stór hluti skuldbindinga ríkisins.
    Þetta mun þýða að það þarf að byrja á að hreinsa til í ríkisrekstrinum og ná hallalausum fjárlögum og sýna að við getum það það verður fyrst og fremst með að skera niður útgjöld já og reyna að halda uppi gæðum heilbrigðis og menntakerfis en hitt mun allt verða skorið niður við rót. Það er ekki hægt að halda uppi hagvexti í gegnum ríkissjóð eins íslenskir stjórnmálamenn, já bæði frá hægri og vinstri væng stjórnmála virðast raunar halda.

    Við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til að færa hagkerfið einhliða yfir í annan gjaldmiðil og þá færi hér allt á hliðina. Við fáum ekki norska krónu, það er búið að segja nei og það er ekki heppilegur gjaldmiðill fyrir Ísland, allt of sterkur.
    Við höfum eina veika von með Evruna þar sem hið míkróskópíska íslenska hagkerfi myndi þá verða undir stjórn Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Klárlega sveiflast gengi gjaldmiðla en þá erum við á risastórum „ísjaka“ meðan íslenska krónan er eins og lítið grílukerti sem flýtur í sjónum. Klárlega er það grundvöllur stöðugleika þar sem útflutningur á evrópumarkað er mestur. En það skilyrðir aðild og sérsamninga, en ef ekki fólk vill það þá er enginn valkostur og verður enginn valkostur annar en íslensk króna næstu áratugina.

  • Jóhannes

    Hilmar,
    Það hefur engin ríkisábyrgð verið á erlendum lántökum einkaaðila, þetta er einhver alvarlegur misskilningur hjá þér. Ísland fer ótrúlega vel út úr hruni bankanna miðað við fjárhagstjónið sem varð, þar sem tjónið lendir að langmestu leyti á erlendum aðilum. Undantekningarnar eru tvær, klúður seðlabankans í aðdraganda hrunsins og í hruninu sjálfu verður Íslendingum mjög dýr og langstærsti reikningurinn sem leggst á þjóðina. Einnig lendir Icesave klúðrið á þjóðinni, en hún ætlar þó að sleppa samt ótrúlega vel frá því máli.
    Þú nefnir að gengisfellingar hafi farið illa með krónuna!! Nákvæmlega, krónan er svo léleg að hún hefur misst yfir 99,9% af verðgildi sínu gagnvart forvera sínum, dönsku krónunni, þrátt fyrir afar öflugar stuðningsaðgerðir svo sem öflug gjaldeyrishöft lengst af og viðtæka verðtryggingu í hagkerfinu. Það er beinlínis heimska að halda að einhver bati í hagstjórn geri krónuna að traustum gjaldmiðli, enda er ágætt að skoða söguna þegar hugað er að framtíð. Fullyrðing þín um góða stjórn ríkisfjármála fyrir hrun stenst ekki skoðun enda jukust umsvif ríkisins og samneyslan í heild gríðarlega á árunum fyrir Hrun. Það er hluti þess alvarlega vanda sem við er að fást í dag.
    Stórbætt hagstjórn er nauðsynleg en hún mun ekki gera krónuna að góðum gjaldmiðli, því miður. Ef krónunni yrði fleytt yrði hún afram skotskífa áhættufjárfesta sem myndu ráða meira um gengi hennar en undirliggjandi efnahagur landsins. Og ef henni er haldið í höftum, þá höfum við reynsluna af því fram til 1995. Það var harmasaga.

  • Vildi endilega benda þér á þessa grein sem birtist í írsku blaði í gær um hryllilegar framtíðarhorfur írska ríkisins:

    http://www.irishtimes.com/newspaper/opinion/2010/1108/1224282865400.html?sms_ss=facebook&at_xt=4cd85a9def2f8aa9%2C0

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur