Föstudagur 05.11.2010 - 15:56 - 19 ummæli

Betri og ódýrari menntun

Menntun á Íslandi er dýr, ómarkviss og óskilvirk.  Það eiga að vera miklir möguleikar á að lækka útgjöld til menntamála án þess að það komi niður á gæðum.  Í raun eiga að vera meiri möguleikar að skera niður í menntamálum en heilbrigðismálum.

Kíkjum á tölur frá OECD og SÞ þessu til stuðnings.

Íslendingar eyða einna mest til menntamála af þróuðum ríkjum, eða 7.5% af landsframleiðslu.  Finnar eyða aðeins 5.9% og koma sterkt út í könnunum á gæðum og skilvirkni eins og PISA skýrslur benda til.  Hver grunnskóla kennslustund virðist betur nýtt í Finnlandi.  Á aldrinum 7 til 14 ára fá finnsk börn 5,500 klukkutíma í kennslu en íslensk börn 6,300.  Sem sagt, finnska grunnskólakerfið er ódýrara, afkastmeira og betra að gæðum.

Þegar kemur að framhaldsmenntun eru Íslendingar einnig eftirbátar Finna. Aðeins um 55% Íslendinga hafa framhaldsmenntun á móti 71% í Finnlandi.  Þá er kynjamunur hvergi meiri innan OECD í skólasókn en á Íslandi.  Drengir geta vænst þess að sækja skóla í 18.2 ár en stúlkur 20.2 ár.  Hér hallar því verulega á drengi.

Þegar kemur að háskólanámi er enginn íslenskur skóli meðal 100 bestu í heimi og þrátt fyrir gríðarlega kostnaðarsamt menntakerfi er fjármagn til rannsókna í lágmarki.

Það er því alveg ljóst að það þarf ekki aðeins að gera menntakerfið hér ódýrara heldur þarf að jafna mun kynjanna og auka gæðin og skilvirknina.

Spurningin er, ætlum við að nota tækifærið og bæta okkar menntakerfi um leið og við lækkum kostnaðinn, eða verður kostnaðurinn og gæðin skorin niður samtímis?

Heimildir: OECD, SÞ, Hagstofan

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Grétar Thor Ólafsson

    Þetta eru mjög ómaklegar tölur, OECD skilur ekki hið séríslenska menntunarumhverfi….. 😀
    Án gríns, þetta er algerlega kórrétt hjá þér Andri. Það eru miklir möguleikar á umbótum.
    T.d. hefur Hraðbraut gert það sem Menntamálaráðherra og KÍ tókst EKKI, að stytta námstíma til stúdentsprófs. Ekki bara hefur Hraðbraut tekist þetta heldur hefur hún stytt tímann um eitt ár til viðbótar það sem markmið ráðuneytisins var (sem var þrjú ár), og er nú tvö ár.
    Nú kom frétt í blöðum dagsins að einkareknir leikskólar eru reknir með minni kostnaði en hinir opinberu. Nota bene, grunnskóli Hjallastefnunnar kom langbest út úr samræmdu prófunum núna sl. vor (man ekki hvaða árgangur það var).

    Svigrúmið er mikið. Einkaframtakið í menntamálum er greinilega að skila árangri (fyrir utan fjármálaruglið hjá Hraðbraut). Það er alveg satt og sannreynt. Nú þarf bara pólitískan vilja, sem mig grunar að sé alls ekki til staðar hjá núverandi vinstri stjórn.

  • Menntun á Íslandi varð dýari. Sérstaklega fyrir þá sem stunda framhaldsskóla lengur en fjórar annir. Enda breytti Menntamálaráðherra styrkhæfum önnum úr tíu (fimm ár) og niður í fjögur ár (átta annir). Þetta var auðvitað framkvæmt þannig að engum var sagt frá þessu og það var í raun alger tilviljum að ég komst að þessu núna. Enda var ég að leita mér upplýsinga á vefsíðu LÍN og rakst á þetta fyrir tilviljun.

    Ég nefni þetta vegna þess að önn í framhaldsskóla á Íslandi getur kostað 260.000 kr og jafnvel meira. Þetta á sérstaklega við um fólk sem hefur ekki framhaldsskóla í sinni heimabyggð eða heimabæ.

    Nánari upplýsingar, http://www.lin.is/lin/UmLIN/Log_og_reglur/Reglugerd_um_namsstyrki.html

  • Ingimar Karl Helgason

    Það er vafalaust rétt að kostnaður við kerfið sé eins og þú nefnir, fremur hátt hlutfall af landsframleiðslu.

    Merkilegt samt að kennararnir okkar eru ekki hálaunafólk.

    Þegar litið er undir yfirborðið á tölum OECD kemur líka ýmislegt forvitnilegt í ljós.

    T.a.m. að umtalsvert hærra hlutfall íbúa landsins er í grunn- og framhaldsskólum en til dæmis í Finnlandi. 21,8% hér en 17,8% í Finnlandi.

    Þá eru íslenskir krakkar að jafnaði tveimur árum lengur í grunn- og framhaldsskóla heldur en frændur okkar Finnar. 14 ár hér, en 12 í Finnlandi.

    Annars eru í upphafi greinar þinnar tvær fullyrðingar um að kerfið okkar sé ómarkvisst og óskilvirkt. Vaflaust er margt hjá okkur sem má laga, sbr. muninn á strákum og stelpum.

    En rökin sem þú færir fyrir fullyrðingunum eru samt ekki sannfærandi. Til að mynda það sem þú segir um háskólann í hópi hinna hundrað bestu. Enda þótt slíkt markmið hafi verið sett, þarf það ekki endilega að hafa verið raunhæft.

    Það mætti líka beina umræðunni annað. Til að mynda að hugsa ekki menntakerfið eins og færiband í frystihúsi, eins og þessi færsla ber með sér. Tilgangur menntakerfis þarf ekki og á ekki ekki fyrst og síðast að vera að moka fólki út á vinnumarkað með mismerkileg prófskírteini.

  • Sæll Andri.
    Þakka þér fyrir góðar ábendingar. Eftir lesturinn situr samt eftir spurningin: Hvar á að skera niður í menntamálum?

    Sérðu fyrir þér að grunnskólanám eða framhaldsskólanám verði stytt?
    Finnst þér koma til greina að einkaháskólar hætti að fá tvöföld fjárframlög frá skattgreiðendum (hér á ég við að þeir fá bein fjárframlög auk þess sem þeir fá óbeina ríkisaðstoð í formi niðurgreiddra skólagjaldalána LÍN)?
    Viltu fækka háskólum? Hverjir eiga þá að fjúka? Viltu fækka námsbrautum?

    Í stuttu máli þá hlakka ég til að heyra konkret hvaða aðgerðir þú sérð fyrir þér í þessum málaflokki.

  • Sveinn M. Árnason

    Kæri Andri.
    Mér er fullkomlega ljóst að þú berð hag þjóðar og menntakerfis fyrir brjósti. Og það geri ég einnig.
    Spyrja má hvort örþjóð, eins og Ísland, geti ætlast til þess að eiga háskóla í fremstu röð í heiminum. Ég leyfi mér að efast um það.
    Ég er svo lánsamur að hafa stundað nám við besta háskóla í heimi í mínum fræðum, nefnilega HÍ. Hver skyldu þau fræði vera? Jú, einmitt íslensk fræði, bókmenntir og málfræði auk íslenskrar sögu. Mér er til efs að þau fræði verði stunduð við einhvern útlendan háskóla af þeirri einurð og skarpskyggni sem hér er gert.Ég stundaði nám við Hí á árunum 1972 – 1978.Eftir það, og meðfram námi, hefi ég kennt íslensk fræði við Menntaskólann við Sund. Samtals í 36 ár.

    Sendi þér mínar bestu kveðjur,
    Virðingarfyllst,
    Sveinn M. Árnason

  • Lögfræði og viðskiptafræði eru kennd í amk. 4 háskólum.

    Allir grunnskólar eru t.d. með bókasöfn, er ekki hægt að sameina þetta og bókabíll keyir bara á milli einu sinni í viku? Nægir ekki að hafa almenningsbókasöfnin ?

    Það er svo marg sem má skoða og hagræða en enginn þorir að gera neit…

  • Sæll Andri,

    Þetta eru hollar ábendingar.

    Hvað er átt við með framhaldsmenntun í þessari skýrslu? Er það háskólanám eða bara allt sem gerist eftir grunnskóla?

    Ég er ekki viss um að hærra hlutfall framhaldsmenntunar sé endilega gott. Þetta er að mörgu leyti vandamál hér í Bretlandi eftir að Tony Blair og félagar settu sér slíkt markmið með háskólanám. Það eru mörg merki þess að námið sé að þynnast út (til að markmiðin náist frekar) og það er erfitt að fá hæft fólk til að kenna öllum. Það er ekki ólíklegt að þessi vandmál yrðu hlutfallslega stærri í litlu samfélagi eins og Íslandi.

    Þetta er svo augljóslega í andstöðu við markmiðið um meiri gæði.

    Bestu kveðjur,

    Eiður

  • Góður pistill, Andri Geir!
    Þegar farið er inn á vefinn „topuniversities.com“ fyrir árið 2010, finnst Ísland ekki þar sem heimaland neins af 600 bestu háskóla í heiminum árið 2010. Þessi listi er hins vegar mjög áhugaverður. Ef við lítum á 150 bestu háskólana þá kemur í ljós að Danir standa sig best norðulanda eiga University of Copenhagen (www.ku.dk)#45, Aarhus University (www.au.dk) #84 og Technical University of Denmark (www.dtu.dk)#141. Svíar fylgja fast á eftir með Uppsala University #62, Lund University #72 og KTH #150 auk þess eiga svíar tvo aðra háskóla undir 200. Finnar eiga University of Helsinki #75 og Norðmenn eiga University of Oslo #100 og University of Bergen #133. Auk þessa eiga hin norðurlöndin fleiri háskóla á þessum lista yfir 600 bestu.
    Held að það væri gott að byrja með það markmið að komast á þennan lista, yfir 600 bestu, í stað þess að vera með óraunhæf markmið.

  • Andri Haraldsson

    Ég flutti frá Íslandi fyrir um 18 árum. Þá hafði um nokkurra ára skeið verið rædd nauðsyn þess að stytta framhaldsskóla/menntaskólanám. Mér skilst að það sé enn verið að hella uppá kaffi og borða kex yfir þeirri umræðu. Hverjar svo sem ástæður eru fyrir því að eftir 20 ár hefur ekkert breyst, þá er slíkt ekki markvisst.

    Fyrir miklu færri árum var sett markmið um að gera HÍ að einum af 100 bestu háskólum í heimi. Slíkt markmið er bæði óraunhæft og vitlaust. Sýnir í raun betur en flest annað að íslensk menntastefna er jafn hrokafull og barnaleg og útrásin. Hversu vel getur skóli skipulagt sig sem hefur að grunnmarkmiði óraunhæft sjálfumglatt froðusnakk? [nánar skoðað: Þó að allar þjóðartekjur Íslendinga væru settar í það verkefni í 100 ár, þá myndi það ekki takast. Amk. ekki ef háskólinn ætlaði sér að sinna einungis íslenskum nemendum. Einfaldur útreiknur getur sýnt það. Bestu háskólar heims samanstanda af þeim stúdentum sem alla jafna koma úr besta 1% af hverjum árgangi (skiptir þá engu hvort „best“ er mælt sem gáfur, vinnusemi, afköst, eða sambland þar af 1% er bara 1%). Á íslandi eru um 150-200 einstaklingar í hverjum árgangi. Þannig að þá þyrfti HÍ að vera einn af bestu háskólum heims með aðeins um 6-800 nemendur í grunnnámi. Og enginn færi erlendis. etc. etc. Gengur ekki upp.]

    Varðandi skilvirkni. Án skynsamlegra markmiða er erfitt að mæla skilvirkni. En það liggur fyrir að háskólakerfið á Íslandi er mjög óskilvirkt. Margir litlir skólar sem hafa óskýr markmið og ógagnsætt gæðaeftirlit. Framhaldsskólarnir sömuleiðis eru orðnir hverfaskólar, sem er andstæðan við skilnirkni. Í stað þess að byggja þekkingarsetur þar sem ungt fólk getur sett stefnuna á toppinn á sínu sérsviði, þá kenna allir skólar nú meira og minna sama staglið í 4 ár. Það er allt of seint í nútímanum að fara að sérhæfa þekkingu þegar fólk er 20 ára gamalt! Mætti líta á íþróttir sem hliðstæðu . Heldur einhver að íþróttamaður sem biði til 20ugs að sérhæfa sig myndi ná miklum árangri? (já, það er mismunur, en líkingin er ágæt engu síður)

    Ég hélt ekki að skólaskipulagið sem ég upplifði sem barn og unglingur á Íslandi gæti versnað– en eftir því sem ég fæ best séð þá er það samt að gerast. Veit ekki hvort svarið er niðurskurður. En uppskurður væri sjálfsagt ágæt byrjun.

  • Gunnar Skúli Ármannsson

    Sæll Andri,

    mjög áhugaverðar vangaveltur, ég veit ekki svarið en hallast helst að því að yfirbyggingin sé of dýr. Veit að finnskir kennarar hafa góð laun öfugt við þá íslensku.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Við eigum að skera ár af grunnskólanum, ár af menntaskóla, þe útskrifa stúdenta 18 ára og klára BA og BS nám á 3 árum.

    Það er auðvita ekki raunhæft að Ísland eigi háskóla sem nær inn á topp 100. Þess vegna eigum við að hverfa aftur til „gamla“ kerfisins þar sem framhaldsnám á háskólastigi var almennt sótt erlendis. Við eigum aðeins að bjóða upp á framhaldsnám á háskólastigi í greinum eins og íslensku, sögu, jarðfræði og jarðhitaverkfræði.

    Hlutfallslega voru íslenskir embætismenn betur menntaðir fyrir 100 árum en í dag!

    Og það sést mætavel!

  • @Andri Geir Arinbjarnarson 05.11 2010 kl. 18:16
    Það verður erfitt að stytta framhaldsskólann um eitt ár, eins og einhver benti á að ofan hefur það mál verið rætt út í það óendanlega án niðurstöðu.

    Aftur á móti sé ég sóknarfæri með styttingu grunnskólans. Grunnskólastigið er á höndum sveitarfélaganna, sem eru víðast hvar í mikilli fjárþröng. Það væri hægt að vinna þeirri hugmynd töluverðs fylgis í því árferði sem er núna.

    Ég er annars sammála þér varðandi háskólastigið, þó með þeim fyrirvara að mér finnst að það eigi að vera forgangsatriði að útrýma þessum svokölluðu einka“háskólum“. Þetta er ekkert annað en peningahýt kostuð af skattfé, sjöföldun yfirbyggingar og dreifing á því fáa virkilega vel menntaða fólki sem við eigum á sjö staði. Áður en hægt er að einbeita sér að einum skóla verða allar aðgerðir hægar og ómarkvissar.

    En svona á þessum nótum: ég hreinlega skil ekki hverjum dettur í hug að fara í framhaldsnám á Íslandi. Það er einfaldlega ekki hægt bara út af því að við eigum ekkert alvöru háskólabókasafn (í Þjóðarbókhlöðunni eru tæplega 1 milljón „items“, yfirleitt allt úreltar bækur, í venjulegu háskólasafni í Evrópu er talað um að algjört lágmark fyrir litla háskóla sé um 3 milljónir – í Det Kongelige Bibliotek í Köben erum við að tala um 32,1 milljón items!)

  • stefán benediktsson

    Það er hægt að hagræða mjög mikið í menntakerfi okkar, til dæmis með styttingu náms, en við tökum ekki þann kostnaðarlið burtu sem miklu veldur í samanburði okkar grunnskóla við aðra. Við höfum náð meiri árangri í „skóla fyrir alla“ eða „mainstreaming“ en nokkur þjóð í OECD. Skóli fyrir alla krefst fjölda sérfræðinga sem ekki eru í sama mæli á launaskrá hjá skólum nágranna okkar.

  • Pétur Maack

    Einhver sem titlar sig Lesanda hér að ofan spyr hvar eigi að skera í menntakerfinu. Öfugt við heilbrigðis- og velferðarmálin, þar sem hefur verið skorið, þarf ekki að skera í skólum heldur hagræða.
    Um mjög langt árabil hefur kjarabarátta KÍ snúist um að skilgreina hverja starf kennara hverja mínútu dagsins. Í raun er forskrift kjarasamninganna orðin svo nákvæm að skólastjórnendur eru orðnir óþarfir. Þrátt fyrir þetta hefur yfirbygging skólanna aukist stórkostlega á undanförnum árum. Hið svokallaða millistjórnendalag hefur þanist út, f&f með því að draga úr kennsluskyldu á hluta starfsmanna skólanna og nefna þá um leið fagstjóra, brautarstjóra etc. Þá er nánast ómögulegt að losna við óhæfa starfsmenn úr skólunum.
    Fyrsta skrefið í hagræðingu grunnskólans væri því að kasta kjarasamningunum og byrja alveg frá grunni.
    Annað skrefið (sem sum sveitarfélög eru að taka eða hafa þegar tekið) er að hreinsa í þessum stjórnendastöðum.
    Þriðja skrefið er að stytta námið.

    kv.
    PMÞ

  • Ármann Gylfason

    Ef rétt er haldið á spöðunum má bæta háskólakerfið til muna, en til þess þarf rótækar breytingar, sameiningar sem byggja á því að efla það góða sem fyrir er í einka og ríkisskólunum, og velja áherslusvið.

    Við eigum sennilega langt í land með að komast í topp 100. Athugaðu að ísland er ekki framarlega á lista yfir framlög til háskóla, til að mynda er framlag Dana til verkfræðinema í DTU sjöfalt samanborið við Íslandi (sem er reyndar það hæsta á norðurlöndum, enda með öflugustu tækniháskólum í heimi).

    Rannsóknarstyrkjakerfið á íslandi er veikt. Lítill hluti framlags til rannsókna rennur um samkeppnissjóði, sem byggja á jafningjamati. Meirihlutinn eru bein framlög til rannsóknarstofnana, ríkisháskóla, og að litlu leiti einkaháskóla auk annarra, án þess að skýr rannsóknarverkefni liggi fyrir og eftirfylgni með árangri eða útgáfum virðist lítil.

  • Bragi Jóhannsson

    Það er til einföld leið til þess að stokka upp grunnskólakerfið, ná tugprósenta hagræðingu, halda eða auka gæðin í starfinu og í leiðinni auka ánægju nemenda og kennara í leiðinni.

    Hún felst í því að leita til þeirra sem starfa í skólunum sjálfum og láta þá velja leiðina. Til þess þarf að leggja fyrir þá samanburðargögn svo þeir geti vegið og metið kosti og galla ólíkra menntastefna, hvað ávinnst og hvað tapast með breyttum starfsháttum. Einnig að þeir móti þá hugmyndir um hvernig þeir taka ábyrgð á og velji sér draumastarfshlutverk innan þess skólastarfs sem þeir vilja taka þátt í.

    Með því að skapa skólastarfsmönnum færi á að velja þá skólastefnu sem þeim hugnast og fá þá sjálfa til þess að setja sér markmið um að ná tilætluðum árangri er þetta allt hægt. Það eru meira segja færi á kjarabótum handa stéttinni ef stéttarfélögin sjálf gefa kennurum færi á að endurmóta skólastarfið með því að kennarar og starfsfólk skóla geti gert þjónustusamninga við sinn skóla um að breyta ábyrgð sinni og endurskoða heildarhlutverk sitt í skólastarfinu.

    Úr því að einkaskólarnir geta náð þessu öllu á 75% framlagi pr. nemenda, þá er tækifærið þarna og lausnin er hjá kennurunum sjálfum og starfsfólki skólanna. Það þarf aðeins að leggja til gögn og samningsumgjörð svo þeir geti gjörbreytt sínum starfsháttum sjálfir.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Stefán,
    Þú segir:
    „Við höfum náð meiri árangri í „skóla fyrir alla“ eða „mainstreaming“ en nokkur þjóð í OECD.“

    Þetta fer eftir því hvernig þú skilgreinir „alla“ Drengir koma verulega illa út úr íslenska skólakerfinu og hafa ekki sömu möguleika til framhaldsnáms og stúlkur. Þegar hlutfallið í menntaskólum og háskólum er orðið 2 stúlkur á móti hverjum strák er eitthvað að. Grunnskólinn er að bregðast drengjum og við hreinlega höfum ekki efni á að reka grunnskóla sem er sniðinn fyrir stúlkur á kostnað drengja. Hér hefur dæmið snúist við á 100 árum!

    Við verðum að hanna grunnskólann þannig að bæði kynin fái jafna möguleika til framhaldsnáms.

  • Amatörinn

    Takk fyrir góða grein Andri Geir.

    Það eru mýmörg tækifæri til endurskipulagningar í menntakerfinu. Er ekki sumarfríið í íslenskum skólum ennþá miðað við sauðburð og heyskap? Hvaða önnur vestræn þjóð lætur ungmennin hangsa í 3-4 mánuði á ári í fríi? Ég var sjálf í MS og var í sumarfríi í maí, júní, júlí og ágúst vegna þess að ég slapp við vorpróf, enda með fínar árseinkunnir.

    Kennarar hafa barist gegn þessari „kjaraskerðingu“ að vera ekki á fullum launum í fríi í 12 vikur á ári á meðan aðrir launþegar fá 5.

    Þarna er aldeilis tækifæri til að endurskipulagningar og með þessu verður lítið mál að stytta námstímann í framhaldsskólum niður í 3 ár.

  • Ingi Björn

    Fínar pælingar..

    Ég fór einhvern tíman nákvæmlegan ofan í tölurnar hjá OCED, Þá var lÍN inn í þessum tölum en það skekkir auðvita samanburð við önnur lönd. Ég þekki ekki þessar tölur, en það ber að hafa þetta í huga..

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur