Laugardagur 06.11.2010 - 11:58 - 9 ummæli

Gott uppkast en hvað með fólkið?

Þorsteinn Pálsson skrifar í Fréttablaðið í dag um tillögur sjálfstæðismanna í efnahagsmálum og það sama gerir Tryggvi Þór í Morgunblaðið.

Það er auðvelt að vera sammála bæði Þorsteini og Tryggva um að þessar tillögur sjálfstæðismanna eru þarft innlegg í umræðuna um endurreisn efnahagsmála á Íslandi.  Þar er tekið á hlutum sem þarf að lagfæra og hrinda í framkvæmd.  Tillögur í skattamálum eru ítarlegar og skynsamlegar en minna fer fyrir niðurskurðaráformum eins og búast má við enda erfiðara að selja þau kjósendum. Þá er lítið sem ekkert minnst á Icesave, AGS, ESB umsókn eða gjaldmiðlamál sem gera þessar tillögur þrengri og veikari fyrir vikið.

Þungamiðjan í áformum sjálfstæðismanna er að nota 80 ma kr „ónotaðan“ skattstofn í séreignarsjóðum.  Þetta er okkar síðasta stóra vopn til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, en það er einnota.  Ef okkur mistekst að höndla það rétt og sóum þessu fjármagni í ómarkvissar pólitískar aðgerðir verður fátt um fína efnahagsdrætti hér á landi í framtíðinni.

Og hér er komið að stærsta vandamáli við tillögur sjálfstæðismanna, hvernig verða þær framkvæmdar og af hverjum?   Bestu tillögur í heimi renna út í sandinn ef framkvæmdin klikkar.

Hefur sjálfstæðisflokkurinn farið í gegnum nægilega hreinsun eftir hrunið og fengið nógu marga nýja einstaklinga í brúnna sem njóta trausts og hafa reynslu til að fullmóta nýjar tillögur og koma þeim örugglega í höfn?  Eða togar gamla gengið enn í spotta á bak við tjöldin, sem gæti siglt öllu í annað strand?

Rannsóknarskýrsla Alþingis kennir okkur að veikasti hlekkurinn í okkar samfélagi er val á fólki til stjórnunar og framkvæmda.  Ef við veljum ekki besta fólkið, skipta tillögurnar litlu máli.  Og þetta á við um alla stjórnmálaflokka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Ég deil þessum áhyggjum með bloggara. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki trúverðugleikann sem þarf til að taka á málunum. Hagsmunasamtök LÍÚ og Bændaelítunnar með fulltingi gamalla Austantjaldskommúnista er skelfilegur valkostur.

  • Adalsteinn Agnarsson

    Það er ekkert minnst á FRJÁLSAR HANDFÆRA VEIÐAR, en þær gætu leyst
    fátækrar og atvinnu vanda Íslendinga!

  • Góður pistill!
    Ábendingin um áhættuna við einnotalausnina er góð.
    Held að núverandi alþingismönnum sé ekki treystandi fyrir henni.
    Verðum við ekki að eiga eitthvað uppí erminni þegar búið er að hrensa til á Alþingi og þangað er komið ábyrgara lið?

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Góð greining.

    Og nei, því miður hefur hreinsunin ekki átt sér stað hjá Sjálfstæðisflokknum.

    Að mörgu leyti frábærar tillögur, en ég hef þó aldrei verið hrifinn af því að eyða skatttekjum fyrirfram líkt og sjálfstæðismenn boða.

    Ég treysti allavega núverandi ríkisstjórn ekki fyrir þessum skatttekjum svo mikið er víst!

  • Leifur Björnsson

    Þessar tillögur eru óábyrgar og það væri glapræði að fara að skattleggja séreignasparnað við inngreiðslur.
    Því var lofað þegar séreignasparnaðurinn kom til sögunnar rétt fyrir síðustu aldamót að hann yrði ekki skattlagður við inngreiðslu.
    Verði það svikið mun fólk ekki treysta því að séreignasparnaðurinn verði ekki tvískattaður og einfaldlega hætta að leggja í séreignasparnað.
    Tek undir með þér Andri að hrunverjar með Davíð Oddsson í broddi fylkingar ráða öllu í Sjálfstæðissflokknum og flokknum því ekki treystandi fyrir einu eða neinu.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Leifur,
    Það er líklega rétt hjá þér að ef þessi sparnaður verður skattlagður núna, þá er engin trygging fyrir því að næsta kynsóð breyti ekki reglunum og sattleggi hann aftur þegar hrunkynslóðin fer á eftirlaun. Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að leggja á næstu kynslóð.

  • Bragi Jóhannsson

    Tvennt sem gleymist í þessu.

    Það gleymist að þessir 80 milljarðar eru að mestu fastafjármunir, ekki lausafé. Sjóðirnir hafa enga stóra kaupendur til þess að losa um 80 milljarða Íslandsmeginn haftanna.

    Megnið af fjármununum mun svo stranda í bönkunum sem liggja á fjármunum en lána þá helst ekki. Þeir eiga kröfur á langflesta athafnamenn landsins sem duga til þess að ryksuga upp góðan vilja Sjálfstæðisflokksins.
    Á meðan stóru dómsmálin í kringum hrunið eru ekki hreinsuð upp þá hafa bankarnir ekki forsendur til þess að meta áhættu af nokkru viti.

    Það þarf að vera forgangsmál að auka afgreiðsluhraða á dómsmálum svo viðskiptasamfélagið fari að virka almennilega aftur, með bankana og skilanefndirnar sem bakhjarla fyrirtækja en ekki sem aðila í rekstri samkeppnisfyrirtækja þeirra og langdregnum dómsmálarekstri við aðra í atvinnulífinu.

  • Jóhannes

    Það er margt gott í tillögum Sjálfstæðismanna. Og þær eru óþægilegar fyrir lánlausa ríkisstjórnina sem engar tillögur eða stefnu hefur nema fylgja í blindni prógrammi AGS, hindra atvinnuuppbyggingu og eyðileggja skattkerfið.

    En í tillögum Sjálfstæðismanna er gríðarstórt gat. Það er ekki minnst einu orði á einn almikilvægasta þátt hagstjórnarinnar, peningamálastefnuna. Einn af hornsteinum þjóðernisstefnu Sjálfstæðisflokksins er að þvinga þjóðina til að dröslast með íslenska krónu sem gjaldmiðil og lögeyri um langa framtíð. Í þeirri stefnu lýtur flokkurinn boðum leiðtoga síns úr Hádegismóum, þar sem hann situr í skjóli umbjóðenda sinna, útgerðaraðalsins sem reyndar nýtur þess frelsis umfram þjóðina að vera nánast laus við krónuna. Óþarfi er að rekja hörmungarsögu íslensku krónunnar sem náð hefur vissum hápunkti með algeru hruni og haldið við í öndunarvél gríðaröflugra gjaldeyrishafta. Sjálfstæðisflokkurinn þegir þunnu hljóði um hvernig hann ætlar að ná áður óþekktum stöðugleika í verðlagi, vaxtastigi eins og í nágrannalöndunum og byggja upp trúverðugleika erlendra fjárfesta á gjaldmiðli sem misst hefur tiltrú eigin þegna. Seðlabankinn hefur ekki, svo vitað sé, treyst sér til að setja fram hugmyndir um hvernig eigi að lifa við krónuna ef unnt reynist að aflétta gjaldeyrishöftum, enda eflaust mjög flókið mál og vandasamt. En Sjálfstæðisflokkurinn skuldar þjóðinni samt þessar tillögur, sé það einlægur ásetningur hans að þvinga þjóðina áfram.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Jóhannes,
    Rétt hjá þér, krónan er kviksyndi sem ekkert er hægt að byggja á. Það er líka rétt hjá þér að þeir sem eru í evruhagkerfinu hér dásama krónuna, enda sér hún þeim fyrir ódýru vinnuafli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur