Laugardagur 20.11.2010 - 16:04 - 44 ummæli

Hagvöxtur í Icesave frosti

Íslendingar eru byrjaðir að borga fyrir Icesave.  Ný hagspá OECD upp á 1.5% fyrir 2011, er mikið áhyggjuefni.  Hagvaxtahorfur fyrir 2011 hafa nú lækkað um 2% stig sem jafngildir rúmum 30 ma kr.  Þetta er helmingur af Icesave reikninginum sem verður líklega upp á 60 ma kr.

Ástæðan er fyrst og fremst að stóriðjuframkvæmdir hafa tafist vegna skorts á fjármagni.  Erlendir lánamarkaðir eru í Icesave frosti.  Lánamarkaðir munu ekki opnast á viðráðanlegu verði fyrr en semst um Icesave.  Á meðan hægist á hagkerfinu, atvinnuleysi eykst, kaup stendur í stað og fólk og fyrirtæki hyggja á landflótta.

Ef við gefum okkur að áhrif Icesave á hagvöxt verði -1% 2010, -2% 2011 og -1% 2012, þá verðum við búin að borga Icesave einu sinni áður en við förum að borga Icesave í annað sinn.

Ef við neitum að borga Icesave og hagvaxtatapið verður varanlegt þá margfaldast „reikningurinn“ sem lendir á næstu kynslóð.

Það er borðleggjandi að niðurskurður og skattahækkanir 2011 og 2012 verða meiri með Icesave óleyst en leyst.

Sá á kvölina sem á völina, á vel við í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (44)

 • Björn Kristinsson

  Ekki viss um að það sé aðeins Icesave sem skiptir hér öllu máli. Það eru þættir eins og:

  *Óskýr skattastefna einkum með tilliti til lögaðila og fjármagns. Fjárfestar verða að vita hvert leiðinni er heitið.

  *Óskýr framtíðarsýn í nýtingu auðlinda bæði sjávarafurða sem og orku. Hér vantar skýra framtíðarsýn hvaða svæði megi nýta, atvinnugreinar o.s.frv.

  *Lítill stjórnmálalegur stöðugleiki. Stjórnmálamenn jafnvel í sömu stjórn geta ekki unnið saman sem ein heild.

  *Mjög skuldsett hagkerfi. Lykilfyrirtæki í orku sem og sjávarútvegi mjög skuldsett og hafa takmarkaða getu til frekari fjárfestinga.

  *Engin framtíðarstefna hvort/hvernig aðkoma erlendra fjárfesta eigi að vera hér á landi

  o.s.frv.

  Það þarf ekki Icesafe til að hindra fjárfestingu hér á landi. Ofangreind atriði duga til og þar erum við sjálfum okkur verst. Þessi atriði eru öll á okkur könnu, innlend málefni sem við eigum og getum tekið á. Afgreiðsla þeirra myndi liðka meira til en nokkurn tíma lausn Icesafe.

 • Hjalti Atlason

  Það er að styttast í að síðasti fossinn verður virkjaður. Það er of mikið af fólki í virkjana og mannvirkja geiranum. Stór hluti að þessu vinnuafli þarf fyrr en síðar að fara að finna sér eitthvað annað að gera.

  Það sem er að byggjast upp núna í formi nýsköpunar er sjálfbært atvinnulíf sem byggir ekki afkomu sýna á takmörkuðum auðlindum. Fólk úr virkjana og bankakerfinu er í auknum mæli farið að ráði sig til þessarar öflugu sprotafyrirtækja. Ég þekki það af eigin reynslu að það er mjög erfitt að fá tæknimenntað fólk til starfa núna.

  Við þurfum að þreyja þorran núna og verðum kominn með miklu sterkara og fjölbreyttara atvinnulíf sem byggir ekki bara á náttúruauðlindum eftir nokkur ár.

  Því lengur sem Icesave nær að halda aftur af erlendum lántökum þeim mun betra. Icesave klúðrið er verndari sprotafyrirtækja á Íslandi eins öfugt og það kann að hljóma.

 • Það er auðvitað ekki gott að hafa Icesave málið óleyst en það er eins og að þú gefir þér að það sé eina ástæða þess að hagöxtur sé neikvæður. Er það nú alveg víst?

  Og þá að útreikningunum. Það er líka eins og að þú gefir þér að öll aukning þjóðarframleislu geti farið í að greiða Icesave. Aukningu í þjóðarframleiðslu hlýtur að fylga einhver kostnaður er það ekki? Það þarf að kaupa meiri hrávöru til þess að framleiða meira.

  En þar fyrir utan. Icesave kostnaðurinn sem fellur á ríkið verður væntanlega greiddur af skatttekjum. Af þjóðarframleiðslu endar ca. þriðjungur hjá ríkinu (ca. 500 milljarðar af 1500). Ef að þjóðartekjur dragast saman um 1% þá dragast tekjur ríkisins saman um 5 milljarða er það ekki? Forsenda þín um ca. 4% samdrátt í þjóðarframleiðslu myndi þá þýða að ríkið hefði ca. 20 milljörðum minna úr að spila.

  Ef að það er niðurstaðan að 60 milljarðar eigi að lenda á íslenska ríkinu samkvæmt nýjum samningi (sem ég dreg reyndar í efa, en hvað um það) þá hlýtur Icesave andstaðan alltaf að hafa borgað sig ef við miðum við að samningurinn sem var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði þýtt að 300-500 milljarða kostnaður hefði fallið á ríkið.

 • Það er eins og Björn bendir á fleirri atriði en Icesave sem hér skipta máli en klárlega er óbeinn kostnaður af Icesave hár en hversu hár verður í raun aldrei hægt að vita nákvæmlega.

  Hver er stefnan í gjaldmiðilsmálum og Evrópumálum. Hvað tekur við eftir að IMF fer. Hvað sjá menn fyrir sér?
  Það að yfir höfuð að líkja míkrómyntinni íslensku krónunni við gjaldmiðla annara landa eins og sænsku og norsku krónunni eða fyrrum gjalmiðli Írlands írska pundið er í besta falli góður brandari og í versta falli algjör veruleikafyrring. Agnarsmátt (væntanlega 2-3% af hagstærð Noregs) gríðarlega skuldugt og gjörsamlega háð útflutningi til að halda landinu byggilegu.
  Raun eru tveir gjaldmiðlar eins og margoft hefur verið bent á verðtryggð króna og venjuleg króna.
  Þeir sem ekki einu sinni vilja skoða hvað við fáum í samningaviðræðum við ESB skulda í raun þjóðinni skýringu hver er þá stefnan. Get í raun ekki séð hvað við höfum að tapa með að fá fram svart á hvítu hvað við fáum og fáum ekki í samningaviðræðum við ESB. „Nei-Talibanarnir“ ráða og stýra umræðunni og þetta ferli virðist munaðarlaust.

  Er framtíðin að troða marvaðan á míkrómyntinni krónunni endaluast, mynt sem er agnarsmá og ofurseld gjaldmiðilsspekúlöntum. Sumir halda að við séum búin að ná botninum og núna sé eðlilegt ástand en því miður það er ekki svo. Nánast allt niðurskurðarferlið hjá ríki og sveitarfélögum er eftir og það á eftir að taka með samdrátt í þjóðarframleiðslu og þá er í raun ástandið svart.
  Framtíðarhorfur íslensks efnahags eru svo langt frá að vera öfundsverðar svo ég snúi út úr því sem stóð í framtíðarspá Landsbankans 2008.
  Menn tala um að stækka þjóðarkökuna en núna í síðustu viku hvarf stoðtækjafyrirtækið Össur og um 1/3 af þessum ræfilsega hlutabréfamarkaði á Íslandi.
  Menn hlusta ekki á forráðamenn útflutningsfyrirtækja snúa út úr ummælum og snúa öllu upp í pólitík. Pólitíska ástandið er eins og á tímum gjaldrabrennumanna enda ganga sumir svo langt að tala um að öll lönd Evrópu sem eru í ESB séu búin að glata sjálfstæði sínu og þeir sem tali við ESB séu föðurlandssvikarar og Quistlingar. Þeir hinir sömu virðast í raun margir ekki einu sinni gera sér grein fyrir því að við erum sjálfkrafa búin að innleiða næstum 70% af regluverki ESB sem hluti av EES.
  Væntanlega fá „heykvíslarhálfvitarnir“ sínu framgengt og geta síðan sjálfum sér um kennt og við blasir hugsanlega áratugur eða meir með stöðugum samdrætti í þjóðarframleiðslu og velferðarkerfið mun fylgja eftir enda ekki hægt að stækka þjóðarkökuna í gegnum ríkissjóð.
  Við erum komin langt umfram það sem er æskilegt hvað varðar lán og það liggur þá tvennt fyrir niðurskurður og/eða skattlagning valkostirnir eru ekkert fleirri.
  Áframhaldandi hallarekstur ríkisins dregur upp vextina og dregur niður gengi krónunnar og gerir ástandið ennþá verra.

 • stefán benediktsson

  Atriðin sem Björn nefnir úr skýrslunni benda öll til sama staðar, ÓVISSUNNAR, þaðan sem ekki er hægt að taka neina stefnu vegna landbanna í viðskiptalöndum okkar. Landbanna vegna hegðunar okkar í Icesave sem nú hefur þegar kostað okkur 798.000.000.000.- ISK

 • Hvaðan hefur þú þessa tölu, 798.000.000.000.- ISK, stefan benediktsson?

  En það er svo annað mál að það er ekki hægt að stela ca. 1000 milljörðum úr þrotabúum gömlu bankana til þess að bæta litlum hluta þjóðarinnar tapaðar innistæður og snúa sér að restinni að þjóðinni og brjálast yfir því að hún vilji ekki borga fyrir þetta 3-500 milljarða króna. Þannig er þessi heimur bara ekki skrúfaður saman.

 • @Seiken
  Samkvæmt óstaðfestum fréttum er talað um að við fáum um 3% vexti af Icesave i stað um 5% en samningunum er ekki lokið.
  Iceave skuldin hefur í raun ekki lækkað við samningaferlið. Það sem hefur gert stöðuna betri er að það virðast meiri heimtur af erlendum eignum gjalþrotabús Landsbankans og það er talað um 40-60 miljarða og hugsanlega minna sem falli á ríkið vegna innistæðutryggingarinnar.
  Það er há upphæð en ef þetta er litið á þetta í samhengi við heildarskuldastöðu ríkisins eins og henni er spáð í árslok 2011 þá mun ríkið að óbreyttu (það að menn geta haldið áfram á þessu niðurskurðaferli) mun verða um 1250 miljarðar og það er einungis ríkissjóður, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar eru hér ekki taldir með. Ríkissjóður hefur verið rekinn með 150miljarða halla á hverju ári og reyna að snúa ofan af þessu þeir vextir sem ríkið greiðir eru miklu mun hærri en það sem verið er að prútta um hér og það hefur enginn framreiknað þessi lán.
  Ef Icesave skuldin verður í árslok 2011 3-4% af heildarskuld ríkisins (ef menn gugna ekki á niðurskurðarferlinu) og fínt að fá niður vextina um 2% af þeim hluta skulda ríkisins en hvað um hin 96% af skuldum ríkisins?

 • En er það ekki rangt Gunnr að Icesave verði 3-4% af heildarskuldum ríkisins? Er ekki réttara að segja að Icesave verði ca. 30-40% af heildarskuldum ríkisins en að á móti komi eignir Landsbankans? Við erum hins vegar að greiða vexti af þessum heildarskuldum eins og þú bendir á og það eru fyrst og fremst þeir sem taka í.

 • Það sem oft gleymist er að aðgangur að fjármagni og kostnaður við það er lykilatriði í rekstri fyrirtækja sem hafa vaxtamöguleika. Það er engin tilviljun að fyrirtæki eins og Össur og Icelandair hugsa til skráningar erlendis, þau þurfa að flytja aðalstöðvar sínar og skrásetningu erlendis til að fá aðgang að lánsfé til vaxtar á betri kjörum en fást á Íslandi vegna lélegs lánstrausts ríkisins. Mat á lánstrausti Íslands er í erlendum höndum og þar á bæ skiptir Icesave máli.

  Bestu íslensku sprotafyrirtækin eru og verða keypt upp af erlendum keppinautum sem geta tekið góðar hugmyndir og fjármagnað þær og komið á markað. Án fjármagns verða sprotar aldrei annað en sprotar.

  Hitt er alveg rétt að skattakerfi sem byggir á að hala inn peningum til að borga mistök fyrir hrun er ekki vel fallið til að halda ungum og efnilegum frumkvöðlum á Íslandi eða laða erlenda aðila hingað til lands.

 • Björn Kristinsson

  Sammála Gunnr varðandi skuldir ríkisins (afsakið Andri en smá frávik frá upphafsinnleggi þínu). Vergar skuldir hins opinbera er um 105% af vergri landsframleiðslu Íslands eða um 1600 milljarðar IKR. Þetta eru gríðarlegir fjármunir. Þótt við aðeins tækjum hreinar skuldir þá horfðum við fram á 900 milljarða skuldir. Skuldir hins opinbera eru ekki sjálfbærar í dag og ríkissjóður er enn að safna skuldum eins og Gunnr bendir réttilega á.

  Hvert % hér telur hundruð milljarða. Hér erum við að tapa peningum, hér verðum við að ná tökum á aðstæðum. Þetta er okkar stærsti vandi í dag og getur hreinlega sent okkur í gröfina ef við vöndum okkur ekki hér og tökum ákvarðanir til langstíma; skammtímahugsun dugar ekki hér.

 • Augljóslega verður aldrei hægt að segja hver kostnaðurinn við óleyst Icesave mál hefur/hefði kostað.
  Heildarupphæð Icesve skuldbindingarinner hefur ekkert lækkað vegna þessa samningaferlis, sú upphæð hefði í raun lækkað hvort eð er, það skulum við hafa á hreinu það eina sem í raun hefði getað sparast er lækkun á vöxtum sem verða innan við 4% af heildarskuldum ríkisins í árslok 2011.
  Á móti kemur annar vaxtakostnaður, lenging á gjaldeyrishömlun, fyrirtæki geta ekki fjármagnað sig og öll uppbygging hefur verið frosti og fyrirtæki og fólk eru og eru að flytja sig burtu það er og verður ómögulegt að reikna þetta enda skipta forsendur útreikninganna þar mestu máli.

  Ef við fáum lækkun á vöxtunum eftir allan þennan tíma er það klárlega okkar Pyrrhosarsigur.
  http://en.wikipedia.org/wiki/Pyrrhic_victory
  Eftir Pyrrhus konungi Epirus, sem vann dýrkeyptan sigur yfir Rómverjum 279 fyrir krist í Asculum. Þessi vaxtlækkun á innan við 4% af heildarskuldum ríkisins er augljóslega okkar Pyrrhosarsigur, ef þetta verður þá undirskrifað.

 • Magnus Björgvinsson

  Fannst Guðmundur Gunnarsson orða þetta ágætlega varðandi Icesave óleyst um daginn þega hann talaði lýðskrumar og það sem þeir höfðu talið fólki trú um varðandi Icesave og að hægt væri líka að láta allar skuldir hverfa
  „Allt þetta hefur valdið óþarfa eins árs kyrrstöðu á lausnum fyrir atvinnulífið í eðlilegum samskiptum við erlendar lánalínur og tafið viðsnúning á almennum vinnumarkaði. Stór hluti hinna 15 þús. manns sem enn eru atvinnulausir eru það að sakir lýðskrumsins. Sama má segja um úrlausnir á stöðu þeirra fjölskyldna verst standa.“

 • Magnus Björgvinsson

  Afsakið þetta hér að ofan var skrifað gleraugnalaust og því eru ásláttarvillur átakanlegar. Vona að fólk átti sig á inntakinu.

 • Við erum allir sammála um að möguleikar til nýsköpunnar og vaxtar á Íslandi er skelfilegur og hugsanlega á óleyst Icesave mál þar stóra sök á.

  En það þýðir ekki að við getum leyft okkur að fallast á hvaða samning sem er bara til þess að klára ferlið. Einhvers staðar hljóta sársaukamörk fyrir kostnað að liggja. Með þá skuldastöðu sem hér hefur verið nefnd þá komu landsmenn ekki auga á að það væri þjóðinni til framdráttar (smbr. úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu) að samþykkja kröfu sem hefði þýtt 3-500 milljarða kostnaðarauka fyrir ríkið jafnvel þó það hefði þýtt betri skilyrði fyrir sprotafyrirtæki og vöxt.

 • Ómar Kristjánsson

  Þetta mál, icesaveskuldarmál íslands, er dáldið merkilegt og þá sér í lagi vegan atriða er utan sjálfs málisns er. Svo sem viðbrögð ílsendinga við umræddri skuld og háttalag allt.

  það er margt sem kemur svo vel fram. Bara sem dæmi kemur vel fram þarna eitt einkenni íslendinga eða þjóðtrú, að Ísland og Íslendingar sé einhvernveginn allt öðruvísi en önnur lönd og þjóðir og eigi að fá ,,sérmeðferð“ vegna þess að þeir séu svo sérstakir og allt öðruvísi. þessi, sérmeðferðarkenningin, er afar sterk hjá íslendingum.

  Eins og einhver sagði, að íslendingar eru soldið eins og gæinn sem kemur að biðröð og reynir starx að troðast fremst í röðina. Blikka dyravörðinn og, já heldurðu þú hleypir mér ekki inn og jafnvel vilja fá frítt inn þar að auki.

 • Bíddu við Seikan þetta var aldrei nema vaxtaprútt og þjóðaratkvæðagreiðslan var raunar um útrunninn samning og það lá þegar annar miklu betri samningur á borðinu.
  Klárlega var þessu klúðrað þegar íslenska fjármálabólan sprakk og við fengum sameinaða sveit Hollendinga og Breta gegn okkur. Þar fór úrvalsveit breska fjármálaráðuneytisins gegn íslenskum illa undirbúnum viðvaningum og við töpuðum skákinni straks í upphafi. Raun fólk sem var vant að semja við illa undirbúin Afríkuríki. Þessu hefur verið líkt við að Man. United mætti Gróttu í fótbolta.
  Ein hörmungin rekur aðra og þetta fær pólitískan vínkil með Svavari Gestssyni sem er pólitískur og stjórnmálalegur guðfaðir Steingríms J en enginn alvöru samningamaður og það er nú önnur saga.
  Samningalega er okkar staða algjörlega hörmuleg og þessi þjóðaratkvæðagreiðsla bætti engu um það er enginn alþjóðleg samúð með okkur ef einhver hefur ímyndað sér það.

  Menn völdu heilalausa þjóðaratkvæðagreiðslu um útrunninn samning og það hefur sáralítið gerst síðan þá. Það var enginn sem barðist með því að þetta yrði undirritað.
  Heildarskuldbindingin Icesave skuldbindingarinnar hefur ekkert lækkað hún hefði gert það hvort eð er þannig að það eina sem vinnst er þessi hugsanlega vaxtalækkun frá 5 til 3% miðað við þesi útrunnu samningsdrög sem þjóðaratkvæðagreiðslan snérist um. Ávinningurinn af töfinni er þá einungis vaxtalækkunin það sem er fakta. Raunar held ég að við hefðum getað náð þessari vaxtalækkun með samningsdrögum fyrr en þekki raunar ekki þetta ferli.
  Duglaust embættismannakerfi, „hrygglausir“, huglausir og illa upplýstir stjórnmálamenn og lýðskrumarar og heimsk og illa upplýst þjóð er ekkert sérstaklega góð blanda.

  Það eru flestir hættir að tala um lagaleiðina enda augljóslega myndum við skíttapa þar og gera okkar Pyrrhosar sigur ennþá stærri,… og dýrkeyptari.

 • Að mínu mati hafa íslensk stjórnvöld enga völ það sem er mikilvægast að sýna að þau ráða við skuldirnar og það mun í raun þýða að það þarf að gera 180 gráðu snúoperasjon.
  Hætta skuldasöfnum ná hallalausum fjárlögum ekki seinna en 2012 sem verður niðurskurður upp á 150 miljarða á öllum sviðum og algjör enduruppstokkun á ríkiskerfiu.
  Það er hægt að spara í menntakerfinu og eitthað í heilbrigðiskerfinu en reyna að halda uppi gæðunum, þarf að draga niður greiðslur í atvinnuleysistryggingarsjóð.

  Þetta mun gera þrennt það mun auðvelda okkur að endursemja um skuldirnar fá niður vexti lána ríkissjóðs og lengja í lánum sem mun bæta svigrúmið. Þetta mun geta ýtt undir traust á gjaldmiðlinum hvort sem við fáum Evru eða höldum krónunni þá er þetta lífsnauðsynlegt og er í raun forsenda þess að við losnum undan gjaldeyrishömlunum.

  Ef við ráðumst ekki á þennan skafl straks sem í raun allir ráðlögðu okkur við hrun en einkenni Íslendinga er að fresta vandanum og forðast að taka óvinsælar en nauðsynlegar aðgerðir. Þetta verður ísköld sturta og því verra sem lengra dregst.

 • Það lá í raun ekki betri samningur á borðinu við þjóðaratkvæðagreiðslu Gunnr. Það voru einhverjar óljósar sögusagnir um að það væri 70 milljörðum betri niðurstaða í pípunum en ekkert sem hönd var á festandi. Það var ekki hægt að taka afstöðu til annars en þess sem lagt var fyrir á atkvæðaseðlinum.

  Þú segir að það eina semm vinnist með þessu sé vaxtalækkun og það má vera að það verði sú niðurstaða sem lögð verður fyrir þjóðina næst. En úr því sem komið er þá þarf næsti samningur að vera mjög góður til þess að þjóðin hleypi honum í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Við höfum nefninlega fyrst og fremst velt okkur upp úr kostnaðartölum hér á þessum þræði en það er auðvitað ekki síður ósanngirnin sem felst í því að þetta lendi á íslenskum skattgreiðendum sem gerir það að verkum að þetta fer seint í gegn hjá þjóðinni.

  Með óleyst skuldamál heimila og aðal bófana utan fengelsismúra yrði það erfitt fyrir hvaða stjórn sem er að landa þessu máli.

 • Hvaða lán eru stopp vegna Icesave?

 • @Marat
  Hvaða lán eru í boði?

  @Seiken
  Mistök íslenskrar stjórnsýslu, eftirlitsaðila og stjórnvalda í fulltrúalýðræði þar sem þjóðin kýs stjórnmálaflokka aftur, aftur og aftur.
  Minni raunar á að íslenski innistæðutryggingsjóðurinn átti með þessu gríðarlega ofvaxna bankakerfi ekki hærri innistæður en það sem hefði dugað fyrir innistæðum í fyrrum Sparisjóð Mýrasýslu. Landsbankinn opnaði raunar Icesave í Hollandi í mai 2008 þegar bankakerfið var dauðadæmt og féð fór til Íslands.
  Af hverju er ekkert norsk Icesve hreinlega af því að norski Seðlabankinn hafði spottað þetta þegar 1998 og einugis innistæður í norskum krónum eru tryggðar (erlendar innistæður því ekki).
  Þessi mistök ásamt eftirlitskerfi, embættismönnum og stjórnmálamönnum sem ekki voru starfi sínu vaxtnir eins gjörsamlega ábyrgðalausum bankamönnum og hver er raunar ábyrgð bankaráðsmannanna?

 • Ég er hjartanlega sammála því Gunnr að frammistaða okkar í þessu máli er sorgarleg frá upphafi til enda. En það breytir engu hvaða saga liggur þarna að baki. Það er búið að reyna að selja íslenskum almenningi slíkar útskýringar mörgum sinnum áður. Næsti samningur fer ekki í gegn nema að vera miklu betri en það sem við höfum séð hingað til.

  Ef að ekki er hægt að ná samning sem fellur meirihluta þjóðarinnar í geð þá sýnir það fyrst og fremst að sú leið út úr kreppunni, að tryggja innistæður á Íslandi með því að stela eignum þrotabúana, sakvæða í framhaldinu skuldug heimilin og reyna svo að fá þau til þess að taka þátt í að borga reikninginn, er ófær.

 • Nýtt hlutafé dýrasta fjármögnun félaga – þ.e. þeir fjármunir bera hæstu ávöxtunarkröfuna (eðlilegt því hlutafé tapast fyrst). Að Össur og Icelandair vilji skrá hlutaféð sitt í Köben eða London – til að afla ódýrs fjár, er því bull.

  Þeir vilja fá hærri verðmiða á núverandi skráð hlutafé – sem þeira halda að þeir fái þar – því lítil tiltrú er hér á landi á kauphöllina og hlutafé sem ávöxtunarkost.

  Þessi söngur um að ef við borgum Icesave (og helst eins mikið og mögulegt er að semja um) – þá opnist allar flóðgáttir af ódýru lánsfé til Íslands og íslenskra fyrirtækja – er svo falskur, óhreinn og hjáróma að minnir helst á blessaðan Hung í Idolinu hér um árið.

  Hann hélt reyndar sjálfur að hann syngi eins og engill, eins og flestir hér.

 • @Seiken
  Þetta Icesave mál hefði aldrei átt að verða til það er búið að eyða gríðarlegri orku í þetta mál og þetta er langt langt langt frá að vera okkar erfiðasta mál ef litið er þetta án allrar tilfinningu og verður undir 4% af heildarskuldabirði ríkisins í árslok 2011 ef þetta niðurskurðarferli sem ráðist er í tekst og krónan lækki ekki meira. Miðað við umfang umræðunnar um Icesave kemur það fólki væntanlega á óvart hversu lítill hluti þetta er orðið af sístækkandi skuldabyrði hins opinbera og áhægjulegt ef þarna kemur einhver vaxtalækkun þarna en óháð því verður það okkar dýrkeypti Pyrrhosar sigur og klárlega er hægt að framlengja þetta endalaust. Við getum barið höfðum okkar í steininn þangað til heilasletturnar slettast um allt, það tekur enginn eftir þessu. Það er ekkert fjallað um þetta míkróskópíska íslenska hagkerfi erlendis. Raunar þekki ég það vel enda dvel ég mikið á Norðulöndum og þar er ekkert nánast ekkert fjallað um Ísland. Það enginn sem grætur úr sér augun yfir örlögum okkar. Það verða engar mótmælaaðgerðir þar sem þegnar í Bretlandi og Hollandi krefjast þess að fá að greiða niður skuldir okkar og skiptir engu hverjir stjórni þar.

  Hver á og vill borga niður skuldir heimilanna á Íslandi? Í raun hafa skuldirnar ekki hækkað það er gengi íslensku krónunnar (þeirrar óverðryggðu) sem hefur hrunið og ástæðan eru gríðarleg hagstjórnarleg mistök og í raun sorgleg röð misheppnaðrar stjórnsýslu stjórnvalda síðusta áratugin.
  Hver heldur þú að greiði þetta? Gjalþrota bankakarfi sem í raun er að falla saman enda eru þeir rotnir og við rót og geta í raun ekki afskrifað kúlulán eignarlausra og andlitslausra eignarhaldsfyrirtækja sem sum hafa einugis raðnúmmer og voru tekin til að halda uppi verði hlutabréfa bankanna. Í raun kemur mér það mjög á óvart ef þetta bankerfi yfir höfuð geti staðið sjálft uppi og annað hrun liggur í raun í kortunum.

  Hver heldur þú að greiði skuldaniðurfærslu gjalþrota Íbúðarlánasjóðs aðrir en skattborgarar á Íslandi? Hverjum er þar öðrum til að dreifa?
  Það hefur verið stungið upp á lífeyrissjóðum en eiga bara hluti lífeyrisþega að greiða þetta niður? Hvað um þá sem fá lífeyri frá Ríkinu eða þá sem eru með séreignasjóð? Hvað um þá sem ekki voru í raun búnir að borga í lífeyrissjóð og eru að fara að gera það núna á að skerða lífeyri þeirra er það réttlæti?
  Íslensk klúður, íslensk löggjöf, íslenskir stjórnmálamenn, íslenskir bankar, íslenskt húsnæði, íslenskir íbúðarkaupendur og lánþegar, taka lán í íslenskri krónu, íslensk efnahagsmistök, íslenskt lýðskrum….
  Þetta alíslenska klúður verður á kostnað Íslendinga sjálfra og engra annara það er væntanlega augljóst flestum.

 • Nei Gunnr. Icesave er (var) miklu meira 4% af skuldum ríkissjóðs. Það féll engin fyrir þessari blekkingu með að minnast aldrei á vextina en tala bara höfuðstólinn þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Gengur ekki heldur í dag.

  En sennilega er það rétt. Það er enginn að fara að greiða þessar skuldir fyrir okkur. En að sama skapi má telja það líklegt að við greiðum þær ekki heldur. Peningar sem eru ekki til verða ekki notaðir í að greiða niður skuldir.

 • @Seiken
  Það þýðir ekkert að bara framreikna Icesave skuldbindinguna en ekki aðrar skuldir ríkisins.
  Ef þú vilt sjá kostnaðinn verður þá að framreikna þetta allt saman, sem er í raun ágætt til að sjá hver í raun kostnaður íslenskra skattborgara kemur til með að verða. Og hver í raun kostnaðurinn er þegar ríkið er rekið með 3-4 Icesve halla (150miljarða) árlega frá hruni á þessa og komandi kynslóðir.
  Vandamálið er þegar orðið næstum óvinnanlegt ekki að heildarskuldirnar séu heimsmet en skuldabyrðin er heimsmet og nú þegar fer næstum 1 króna af 5 frá Ríkissjóð í að greiða vexti.
  Þegar hagvöxtur (sem raunar er neikvæður) er lægri en vextirnir vefst landið í þyngir og þyngir skuldavöndul.
  Eina ráðið er að hætta skuldasöfnun og þar eru þá bara tvær leiðir skattahækkanir eða gríðarlegur niðurskurður nánast fleiga 1/3 úr fjárlögunum sem verðru nauðsynlegt. Þjóðarframleiðsla Íslands er að fara niður í það að vera um 1/2 af þjóðarframleiðslu Danmerkur og viðbættum skuldum þýðir þetta að velferðarkerfið getur ekki verið meira en helmingur af þeirra velferðarkerfi en þessi staðreynd er ennþá ekki runninn upp fyrr þjóðinni.

  Varðandi skuldir heimilanna, segja lýðsrkrumararnir segja að eitthvað verður að gera en segja ekki hvað og hver á að greiða þetta. Menn vísa á bankanna, en forðast jafnframt að leggja fram þá staðreynd að ríkið á og rekur Íbúðarlánasjóð og pólitískt skipuð stjórn hefur farið þar með völdin þanning að augljóslega lendir lánaniðurfærsla á skattborgurum þessa lands. Ríkið á í raun Landsbankann.
  Þetta er eitt lítið dæmi af umræðunni á Íslandi. Neita staðreyndum einblína á aukatriðin en klárlega er þetta ekkert flókið hver kemur til að borga þetta er augljóslega íslenskur almenningur.

 • Ísland er í þungum róðri. Enginn efast um það. Að sá róður léttist við það að taka á sig skuldabyrði af Icesave – er eindaldlega jafn vitlaust og það hljómar.

  Svo skil ég eitt.

  Andri Geir reiknar prósentur í hagvexti og leggur til jafns við greiðslur á Icesave. Það stenst ekki skoðun.

  Hagvöxtur reiknast sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Að leggja að jöfnu 4% hagvöxt á einhverju árabili við að borga 60 milljarða til Breta og Hollendinga – er tóm vitleysa.

  Eitt álver eykur hagvöxt – en býr ekki endilega til laust fé handa Bretum og Hollendingum. Það þarf að kaupa súrálið, borga rafmagnið, vexti, laun o.s.frv. Flest eykur þetta þjóðarframleiðsluna og sumt mælist oft í henni (margfeldisáhrif).

  Að það sé ígildi þess að hægt sé að borga tugi milljarða í verndarskatta til Breta og Hollendinga – hljómar ekki mjög Stanfordlegt.

 • Þá held ég að það væri miklu eðlilegra að þú segðir Icesave skuldina vera ca. 30% af heildarskuldunum en að eignir kæmu á móti Gunnr. Þannig förum við með aðrar skuldir/eignir í ríkisbókhaldinu er það ekki.

  Þú ert að lýsa heimsmeti í skuldabyrði í landi með illstöðvandi skuldasöfnun þar sem jafnframt er fólksfækkun (en ert samt hlyntur því að taka á þig Icesave skuldir?). Og þú trúir því ennþá að þessar skuldir verði greiddar. Við því er ekki mikið að segja. Þetta eru trúarbrögð og ég get ekki fullyrt að þú hafir rangt fyrir þér. Ég hef hins vegar takmarkaða trú á því að sú leið sem var valin út úr kreppunni sé fær en ég get ennþá haft rangt fyrir mér í því.

  Menn völdu að skuldsetja þjóðina botnlaust til þess að geta bjargað innistæðueigendum, segja svo við skulduga lántakendur að ekkert sé hægt að gera fyrir þá og á sama tíma henda tugum milljarða í peningamarkaðssjóði. Þá var enginn sem þurfti að segja frá því hvaðan peningarnir áttu að koma. En ég get svo nefnt að ef menn töldu sig hafa efni á Icesave samningum um síðustu áramót þá hafa þeir efni á að leiðrétta skuldirnar ef nýr Icesave samningur er jafn góður og af er látið.

  Og svo tek ég það fram að mér finnst notkun á orðinu lýðskrumari vera fólki til minnkunnar Gunnr. Skuldugt fólk er að berjast fyrir tilverurétti sínum eftir að upplifa framkomu banka og stjórnvalda sem rányrkju. Meðan stjórnvöld skilja það ekki þá munu þau fáum málum landa.

  Fólk sem er á leið í þrot út af skuldamálum er nákvæmlega sama hver á Landsbankann, hvort skuldabyrði þjóðarinnar sé orðin ósjálfbær og hvort að allt hrunið sé okkur að kenna. Þetta fólk finnst það ekki skulda þjóðinni neitt og er ekki að fara að taka þátt í einhverri uppbyggingu. Það mun forða sér af landi brott ef og um leið og færi gefst eða leita sér að svartri vinnu innanlands. Fólksflótti nemur núna 10 einstaklingum á dag.

 • Ómar Kristjánsson

  Eins og bent er á í upphafspistli, þá er fíflagangurinn með málið þegar búið að valda stórskaða. Og það er fyrir löngu byrjað að borga. Hissa á að indefens mót´æli því ekki og forseti boði til þjóðaratkvæðagreiðslu í því tilefni. Feitt nei etc. það er verið að greiða icesave II. Það er bara augljóst og þessvegna eru forsvarsmenn atvinnulífsins farnir að ókyrrast allverulega því enginn þekkir auðvitað betur hvernig umrætt virkar en þeir. Það var td. upplýst í speglinum á RUV að það mætti helst ekki tala upphátt um skaðakostnaðinn sem orðinn er. Um hann væri hvíslað útí hornum. Menn þyrðu yfirleitt ekki að tala upphátt vegna þess að þá lentu þeir í þvæluumræðu sem orðin er svo algeng á íslandi eftir hrun og óþarfi er að lýsa nánar.

  Það að stjórnvöld sildu ekki hafa styrk til að klára málið þarna um árið er auk þess út af fyrir sig eitt og sér mjög veikjandi fyrir Ísland. Sú staðreynd segir bara útávið að hálfgert stjórnleys er á Íslandi og löglega kjörin stjórnvöld geti ekki klárað með formlegum hætti mikilvæg mál sem að þeim snúa.

  Að mörgu leiti er umræða sumra íslendinga um þetta efni eins og að krakkar væru að tala. En það sem enn verra er, er að stjórnmálaflokkar skuli stíla inná svona orðræðu og kynda undir. Þetta er svo ábyrðarlaust að margar lærðar greinar og greiningar verða gerðar í framtíðinni af þar til gerðum fræðingum, ss. stjórnmála, félags og sálfræðingum.

  Það er líka eitt sem eins og fólk virðist alveg feila að átta sig á. Í raun er fyrir löngu búið að de faktó að samþyggja að Ísland er ábyrgt fyrir nefndri skuld. Það var gert strax eftir hrun. En það er eins og fólk fáist ekki til að skilja þá staðreynd. Það er alltaf hálfpartinn talað þannig að málið snúist um að sleppa við greiða og fullt af fólki trúir því. þegar raunir er að það sem hefur gerst er, að tafið er að klára málið formlega með því að þvarga fram og til baka um greiðslufyrirkomulag. Greiðslufyrirkomulag sem alltaf er hægt að ræða í framtíðinni eftir því hvernig mál þróast og þegar viðkomandi þættir máls skýrast.

 • Andri Haraldsson

  Það er hægt að rífast lengi um óskýra hluti, hvort það er Icesave eða annað.

  Vandamálið af óleystu Icesave er að það er enginn grundvöllur fyrir því að opna gjaldeyrismarkaði þar sem sá markaður þolir ekki óvissu vel. En það er ekki þar með sagt að það að leysa Icesave væri nægjanlegt til að opna gjaldeyrismarkaði.

  Endurfjármögnun erlendra lána í einka og opinbera geiranum er að aukast og er dýrari fyrir það að Icesave er óleyst og að gjaldeyrismarkaðir eru lokaðir. Sá kostnaður er miklu raunverulegri í nútímanum heldur en framtíðar greiðslur af Icesave (munið að greiðslufrestur er talsverður ef samið verður). Ábyrgð þeirra sem töluðu um að Icesave væri 500 milljarða skuldbinding eða þaðan af hærri og þjóðargjaldþrot blasti við, osfrv. er mikil. Málið hefur dregist og eru flestir sammála núna að það sé ekki það mikilvægasta sem þjóðin á við að glíma.

  Tal um að vextir séu betri í þessari lotu en þegar fyrst var samið er svo annað. Það er ekkert sem segir að Ísland geti ekki alltaf endurfjármagnað lánið, og slíkt hefði verið hægt þó gengið hefði verið frá málum fyrr. Það er mjög lógískt að vextir lækki eftir því sem heimsvextir hafa lækkað og eftir því sem efnahagsstaðan á Íslandi hefur skýrst, og eftir því sem heimtur úr lánasafninu hafa skýrst. En ef gengið hefði verið frá málum fyrir 2 árum, þá væri allt eins hægt að endurfjármagna í dag á lægri vöxtum. Svo að telja það „hagnað“ af því að draga lappirnar er amk. að hluta byggt á misskilningi.

  En vonandi eru sögurnar réttar að það styttist í lausn málsins. Þó ekki væri nema fyrir að þá er kannski hægt að fara að tala um aðra mikilvægari hluti. Eins og t.d., að landflótti er að aukast og að heil kynslóð ungs fólks er að vaxa úr grasi sem lítur íslenska velferðarloforðið öðrum augum en fyrri kynslóðir.

 • Hjalti Atlason

  Seinken: “Við erum allir sammála um að möguleikar til nýsköpunnar og vaxtar á Íslandi er skelfilegur og hugsanlega á óleyst Icesave mál þar stóra sök á.”

  Gæti ekki verið meira ósammála.
  Með lágu gengi krónunar eru nýsköpunarfyrirtæki forskot á sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndunum vegna lágs launakostnaðar. Nýsköpunarfyrirtæki hafa ágætis aðgang að íslensku lánsfé með lækkandi innlánsvöxtum. Það sem virkilega stendur aftur á móti mörgum sprotafyrirtækjum fyrir þrifum er skortur á tæknimenntuðu starfsfólki.
  Sem starfandi í þessum geira hef aldrei hert nokkurn mann kvarta yfir því að óleyst Icesave deila væri að trufla starfsemina á nokkurn hátt.

  Ef að fjárfestar sjá tækifæri hér á landi sem þeir telja sig græða á þá hoppa þeir á það algerlega óháð Icesave eða gjaldeyrishöftum.

  Eini iðnaðurinn hér á landi sem kvartar yfir Icesave er orkufreki iðnaðurinn. Ástæðan fyrir lélegu lánshæfismati orkufyrirtækja er einfaldlega sá að þau eru skuldug upp fyrir haus. Orkufyrirtækin hafa í gegnum tíðina fengið góð lánskjör þar sem menn lýta á að þeir séu í raun að lána ríkinu. Nú er ríkið verri lánari og þar með er lánshæfismatið orðið hærra.

  Ef við leystum Icesave þá myndir ríkið skulda meira, orkufyrirtækin myndu skulda jafnmikið. Hvar á þessi lækkun á lánshæfismati að koma frá? Það eru margir sem telja að ríkið standi ekki undir núverandi skuldum, hvað þá + Icesave skuldir.

  Ég held að menn sem halda að allt batni við það að bæta á ríkið 60 milljarða Icesave skuld verði fyrir miklum vonbrigðum.

 • Í guðanna bænum ekki fara að spyrða mig við Icesave stuðning Hjalti. Þó ég geti tekið undir að óleyst Icesave valdi okkur vandræðum þá er ég engan veginn tilbúinn til þess að borga hvað sem er fyrir þá lausn.

  Reyndar gerir SÍ ekki ráð fyrir auknum hagvexti vegna útflutnings á næstu árum ef ég skyldi síðustu „skýrslu“ hans rétt. Það var að mínu viti einhver alvarlegasta áminning um okkar stöðu ef að hrun krónununnar getur ekki einu sinni örvað útflutning. Ég fagna því hins vegar ef að þið teljið að möguleikar til vaxtar séu miklir í ykkar geira. Það er bara hið besta mál. Við getum svo velt því fyrir okkur hvort að lág laun og skortur á tæknimenntuðu fólki hangi ekki saman. Og þá spyr maður sig að því hvort að möguleikinn til vaxtar sé í raun til staðar þegar tvöföld laun eru í boði fyrir tæknimenntað fólk erlendis.

 • Landflótti og Icesave?

  Er sammála Seiken í því að ástæða landflótta ungs fólks er einfaldlega að það er búið að gera það tæknilega gjaldþrota í stórum stíl vegna stökkbreyttra lána.
  Ungt fólk yfirgefur óréttlátt samfélag, þar sem lánadrottnar ráða ríkjum.

  Að tengja landflótta við Icesave er í besta falli langsótt. Þar sem Icesave hefur að mínu mati hverfandi árhif á lánshæfismat og þar með hverfandi áhrif á erlent lánsfé og þar með hverfandi áhrif á lækkun atvinnuleysis.

 • Þetta eru trúarbrögð.

  Spurning hvort það sé ekki eigingirni hjá Íslendingum að fá að borga Icesave einir – og bjarga fjármálunum hjá sér – þegar aðrar þjóðir eru í standandi vandræðum og hafa ekki neina einfalda lausn til að bjarga sér.

  Leyfa kannski Írum að borga hluta, Lettum hluta, Portúgölum hluta, Spánverjum hluta. Spurning hvort Grikkirnir ættu ekki að fá svona eins og eina skeið.

  Þið, Gunnrarar, Ómarar og Andrar sem vitið um þetta undrameðal við mikilli skuldsetningu ríkja – og náðuð næstum því 2% í kosningunni – hljótið að vilja dreifa þessari bráðlæknandi mixtúru sem víðast.

  Ósanngjarnt að Íslendingar einir reddi sér á henni.

 • Hjalti Atlason

  Það voru bankar og orkufyrirtæki sem bjuggu til síðustu bólu og þeir fyrrnefndu sem bjuggu til Icesave.
  Nú eru það akkúrat sömu aðillar sem eru að kvarta undan ósleystum Icesave samningi, sá fyrr nefndi vegna gjaldeyrishafta og lélegra lánalína og sá síðarnefndi vegna vona um erlent lánsfé.
  Er ekki eitthvað “poetic justic” á bak við þetta ósleysta Icesave mál.

  Það er of mikið af fólki í báðum þessum bólu geirum. Þeir þurfa að grenna sig þannig að óleyst Icesave sem sá fyrrnefni bjó til er akkúrat megrunarkúrinn sem þeir þurfa á að halda.

  Óleyst Icesave næstu 3 árin og við verðum kominn með banka og orkugeira af stærð sem hentar Íslandi og mikið af því góða fólki sem starfar í þessum geirum verður farið að vinna við “eitthvað annað”.

 • Þetta er eiginlega svívirðilega gott innlegg Hjalti Atlason.

 • Hjalti Atlason

  Seiken: Það eru án efa einhverjir t.d. tæknimenntaðir sem flýja land vegna tvöfaldra launa. Það er ljóst að það sætta sig ekki allir við að láta lækka sig í launum í gegnum lága krónu.
  Ég held samt að ef fólk fær starf við sitt hæfi og er á góðum launum miðað við manninn í næsta húsi þá nægi það flestum. Laun eru nefninlega bara hluti af jöfnuninni, starfsánægja, atvinnuöryggi etc. spilar inni í.
  Atvinnuleysi hreyfir frekar við fólki en væntingar um betri laun að mínu mati. Ef það er rétt þá er miklu betra að hafa hrun krónu með litlu atvinnuleysi en há laun og mikið atvinnuleysi þ.e.a.s. upp á landflótta.

  Íslendingar eru með lægsta hlutfall tæknimenntaðra á Norðulöndunum þannig að menntakerfið er að bregðast okkur fyrst og fremst að mínu mati.

 • hjalti Atlason

  Takk fyrir það 🙂

 • Ómar Kristjánsson

  Nei þetta er verulega leim innlegg og krakkalegt.

  Eða eru menn að leggja til að aldei komi erlent fjármagn inní landið eða? Og eiga fyritæki ekki að reyna að endurfjármagna sig eða borga vexti af núv. lánum? Hvaða tal er þetta!

  Þetta er bara útí hött umræða en reyndar ágætt dæmi um umræðuhefð hérna á ísl. sem eg nefni fyrr. Orðið verulega þreytt svona barnaskapur eilíflega. Verulega þreytt.

  Furthermore er engin hætta á því að ástand líkt og var hérna fyrir nokkrum árum myndist næstu tugi ára allaega. þ.e. óeðlilega mikið innstreymi fjármagns. það voru alveg sérstakar ástæður og aðstæður fyrir því að það var mögulegt. Í fyrsta lagi munu stjórnvöl aldrei leifa slíku að gerast. Mundu aldrei láta afskiptalaust eða reyndar kynda undir eins og sjallar gerðu á sínum tíma. Auk þess eru reyndar fjölmargar ástæður fyrir því sem eg nenni ekki að útskýra frekar.

 • Takk fyrir athugasemdir en það eru fáar hugmyndir um hvernig við bætum lánstraustið (sem erlendir en ekki íslenskir aðilar meta) með Icesave óleyst.

  Svo er hollt að muna að við lifum í kapítalísku hagkerfi. Fyrirtækin eru rekin til þess að skila arði til hluthafa. Þeim sem stýra fyrirtækjunum ber skylda til að standa vörð um hagsmuni hluthafa, þeir eru eigendurnir.

  Í núverandi ástandi þar sem lánstraust ríkisins er í rusli og enginn getur fengið samkeppnishæf lán munu best reknu fyrirtækin færa sig erlendis til þess að auka arð og verðgildi eigna hluthafa. Auðveldasta leiðin er að endurfjámagna lán á lægri vöxtum og þar með rennur mismunurinn beint til hluthafa.

  Þannig munu öll fyrirtæki sem eru rekin betur en „ríkið“ hverfa af landi brott með sínar höfuðstöðvar og stóran hluta af skattstofni. Eftir verða rekstrarskussarnir. Til að halda þeim á floti þarf gengisfellingar og verðtryggða krónu.

  Svona kerfi verður aldrei sjálfbært. Það getur gengið í 10-20 ár en að lokum hrinur það eins og sovét kerfið.

  Þegar ég tala við erlenda fjárfesta og bankamenn segja þeir:

  Ísland þarf að leysa Icesave og ganga inn í ESB til að eiga einhverja möguleika að fá erlenda fjármögnun á viðráðanlegu verði.

  Ég segi að 70% þjóðarinnar vilji ekki heyra svona tal

  Þá segja þeir að Ísland verði að reiða sig á erlenda spekúlanta og okurlán þegar hjálp AGS sleppir.

  Gerir almenningur sér grein fyrir hvað það mun þýða fyrir launaumslagið um hver mánaðarmót?

 • Auðvitað finnst enginn stuðningsmaður við þetta Icesave mál og klárlega er þetta klaufaskapur og heimska fyrst að leyfa þessu að koma upp, bremsa það ekki í upphafi eins og Norðmenn gerðu þegar 1999 síðan gera ekkert í þessu og klappa með og samningaferlið er hneyksli og það mega allir skammast sín og í raun töpuðum við skákinni um Icesave þegar haustið 2008 eins og áður er rakið.
  Eignir koma nú mót skuldum og það sem stendur út af borðinu eru 40-60 miljarðar miðað við núverandi krónugengi bak við haftakrónu og gjaldeyrismúr í skjóli IMF.

  Óháð hvaða skoðun menn hafa á þessu Icesave máli hefur töf á lausn málsins kostað óheyrilega mikið í því að það hefur ekki tekist að endurfjármagna óhagstæð lán og uppbygging hefur tafist hvað af þessu er Icesave eða ósamstæðri ríkisstjórn eða ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu og almenn lítilli tiltrú á okkur er ekki auðvelt að segja en þetta eru staðreyndirnar.

  Þetta Iceave mál er ekkert að hverfa það eru þrír slæmir kostir þar af 2 sem í raun leiða til sama ferlis:
  1) Neita að semja og krefjast dómsmáls það mun fara fyrir EFTA dómstólinn og þar munum við nær örugglega tapa og allur kostnaður lendir á okkur. Með að fara með þetta fyrir dómstól sjálf þá í raun skuldbindum við okkur til að hlýta dómsorðinu. Raunar gugnuðu menn á að fara með þetta fyrir dóm haustið 2008 enda sáu menn fram á dúndrandi tap.
  Til að skjóta hryðjuverkalögum Breta fyrir dóm rann sá frestur út að mig minnir 15. janúar 2009 og ríkisstjórn Geirs H Haarde lét vera að sækja það mál í Bretlandi á síðum tíma.
  2) Töf á lausn málsins gerir það að verkum að það fer fyrir dómstól hvort eð er og ríkisstjórninni hefur verið veittir frestir og það ef ekki leysist fyrir áramótin mun í raun þetta dómsferli hefjast hvort eð okkur líkar betur eða verr og niðurstaðan er næsta ljós.

  3) Icesave samkomulagið er í raun skuldaviðurkenning og þar ábyrgðist íslenska ríkið lágmarksinnistæður á Icesave reikningum Landsbankans það sem ábyrgðarsjóðurinn ekki gat borgað enda var hann nánast galtómur enda hafði hann gleymst og íslenskir ráðamenn voru minntir á þetta 3 mánuðum fyrir hrun eins og kemur fram í Rannsóknarskýrlslu Alþingis fyrir þá sem hafa lesið hana. Landsbankinn í íslenskri lögsögu, íslenskri stjórn og laut eftirlits íslenska bankaeftirlitsins, raunar fór megnið af Icesave féinu til Íslands og þetta var í raun gert til að halda lífinu í gjaldþrota banka.
  Bretum og Hollendingum lá á að leysa þetta mál og greiddu innistæðutrygginguna og íslensk stjórnvöld skuldbundu sig að greiða þeim þetta en samningar hafa enn ekki tekist um lánakjör.
  Eignir hafa komið á móti og skuldin verður um 40-60 miljarðar eftir nýjustu fréttum.
  Ef rétt er að það fyrirliggi óundirritað samkomulag með yfir 3% vöxtum þá er það væntanlega það besta sem við getum náð út úr þessu.

  Valkostirnir eru ekkert margir það er 1), 2) eða 3) Ef niðurstaðan verður eins og spáð er í 1) eða 2) þarf íslenska ríkið sjálft að fjármagna þetta, já eða verða útlæg af EES svæðinu þar sem eignir ríkisins gætu verið gerðar upptækar, refsitollur á afurðir ofl. ofl. ef menn vilja draga það svo langt.
  Öll töf á lausn málsins er á okkar kostnað, það er enginn uppbygging það eru fyrirtæki og fólk að fara frá landinu. Þjóðarframleiðslan er að dragast saman. Í síðustu viku hvarf 1/3 af fyrirtækjunum sem enn eru eftir af Hlutabréfamarkaðnum, nýsköpunarfyrirtækið Marel.
  Það er nánast ógerningur að endurfjármagna lán og allar lánalínur eru í raun stöðvar að hluta vegna þessarar óvissu.

  Samkv. tölum Seðlabankans þá verða heildarskuldir íslenska ríkisins (að undanskyldu Icesave) yfir 1250 miljarðar í árslok 2011 meðan það sem stendur út af Icesave (eignir-skuldir) verða 40-60 miljarðar eða þá um 4% af skuldum ríkisins.
  Augljóslega er það ekki gott að bæta við skuldum en í raun eru vextirnir af þessum 96% sem vega miklu meira en viðbót af skuldinni.
  Einfalt reiknidæmi settur þetta í svolítið samhengi
  1% vextir af 1250 miljörðum eru í raun 12,5 miljarðar á ári
  1% vextir af 40-60 miljörðum eru 400 – 600 miljónir á ári.

 • … afsakið átti við Stoðtækjafyrirtækið Össur en ekki Marel sem raunar er einning de fakto að fara frá landinu.

  Raunar er enginn fjárfesting ekki einu sinni í fiskvinnslu eða fiskveiðum og það er einn togari í smíðum og það var ákveðið fyrir hrun þannig að gríðarlegar skuldir útgerðarinnar er í raun ekki hægt að skýra út frá gríðarlegri fjárfestingu í greininni. Útgerðarflotinn er að úreldast og greinin ekki sjálfbær nema að litlu leiti vegna skulda.

  Því miður er ekki hægt að sjá neina góða lausn á skuldavanda fólks og fyrirtækja og raun er þetta samtengt því að ef fyrirtækin fara yfirum missir fólk vinnuna og hefur því engar forsendur til að geta staðið við sínar fjárhagslegu skuldbindingar.

  Klárlega er í raun ekki mikið hægt að gera, klárlega mun kostnaðurinn við björgun skuldugra heimila lenda nær óskiptur á ríkissjóði og þar með skattborgurum þessa lands og á þá sem á að bjarga.
  Það eru ekki lánin sem hafa stökkbreyst það eru launin og kaupmátturinn sem hafa hrunið og það virðist fólki nánast fyrirmunað að skylja.
  Eitt er með þá sem hafa sjálfir skrifað undir sína lánasamninga, en hvað um unga fólkið sem á eftir að borga þetta í gegnum skatta, niðurskurð á velferðarkerfinu og jafnvel í gegnum lögbundar lífeyrisgreiðslur næstu áratugi. Skiljanlegt að fólk vill ekki taka þátt í þessu.
  Ég held í raun að unga fólkið fer burtu það sem ekki er búið að vefja sér í skuldir það fer og ætlar sér ekki að greiða fyrir óráðsíu annara eldri systkina og foreldra.
  Það ætlar að láta uppvaskið eftir fyrir þá sem eiga það. Þá sem tóku þátt í darraðadansinum, skuldbundu sig og kusu þetta fólk yfir sig sem hafa stýrt landinu síðustu 2 áratugi og myndu kjósa þá aftur á morgun.

  Lýðskrum er að lofa einhverju sem í raun ekki verður hægt að standa við. Með að gugna á niðurskurði í opinberum útgjöldum í dag þýðir að þetta kemur 2-3 falt í hausinn á okkur á komandi árum. Lýðskrumið er gert til að halda vinsældum, fólk á Íslandi virðist geysilega ginkeypt fyrir lýðskrumi. Raunar myndi þetta ekki ganga í Norður-Evrópskum stjórnmálum eins og á Norðurlöndum, Bretlandi, Þýskalandi eða Hollandi.
  „Skjaldborg um heimilin“ er dæmi um lýðskrum enda gugna menn þegar valið stendur á milli þess að loka sjúkrahúsum og skólum versus það að greiða niður skuldur einstaklinga.

 • Það sem við erum farin að sjá er að bestu fyrirtækin og fólkið er að fara. Að okkar best rekna fyrirtæki og eina ljósið í kauphöllinni, Össur, skuli vera að fara úr landi og það til Danmörkur er auðvita mikill álitshnekkir fyrir Ísland. Þetta fer ekki fram hjá erlendum fjárfestum.

  Ef bestu Íslendingarnir eru að flýja land eru það ekki sterk skilaboð til erlendar aðila að passa sig á Íslandi?

  Eftir nokkur ár verður Össur orðið að dönsku fyrirtæki sem notfærir sér ódýrt íslenskt vinnuafl. Muna menn eftir Alfesca sem var afskráð úr kauphöllinni fyrir rúmu ári?

 • Fyrir alþjóðleg fyrirtæki, eins og Össur, Actavis og Marel, hlýtur að vera óeðlilegt og óhagkvæmt að hafa höfuðstöðvarnar á Íslandi.

  1% af tekjum Össurar eru á Íslandi.

  Bara ferðakostnaður við hafa höfuðstöðvar á eyju í Norður Atlantshafi er nægur til að flytja þær til meginlands Evrópu eða USA. Af hverju á fyrirtæki sem hefur starfsemi sína og 99% af viðskiptamönnum sínum annars staðar en á Íslandi – að vera á Íslandi?

  Er það ekki einhver misskilin þjóðernishyggja?

  Tala nú ekki um með stjórnvöld sem hækka alla fyrirtækjaskatta sem þau ná í – og setja auðlegðarskatt (!) á hluthafana.

  Össur er uppbyggt af mörgum öflugum dótturfyrirtækjum – sem hvert fjármagnar sig í sínu landi. Lánadrottnar Össurar horfa á sjóðstreymi og efnahag Össurar þegar þeir ákveða að lána félaginu fjármuni.

  Icesave skiptir akkúrat engu máli um fjármögnun Össurar.

  Hitt er satt að íslensk króna gengur ekki sem gjaldmiðill. Það er komin næg reynsla á það – og Íslendingar þurfa betri gjaldmiðil, þó ekki væri til annars en að geyma verðmæti betur en krónan gerir.

  En að blanda Icesave í alla hluti er tóm vitleysa. Eins og eitthvað mundi lagast við að borga 60 milljarða til Breta og Hollendinga. Það eina sem mundi gerast, er það augljósa, þ.e. við yrðum 60 milljörðum fátækari (skuldugri).

  Enda ert þú nú farinn að bæta við að þjóðin þyrfti líka að ganga í ESB – til viðbótar því að borga Icesave…!

  Það heitir að elda naglasúpur.

 • Þetta er ágætis umræða en hún byggir á veikum forsendum. Öll umræða um hvað við munum þurfa að borga vegna IceSave hefur verið byggð á þeirri forsendu að neyðarlögin haldi.
  Ef neyðarlögin halda ekki, sem kemur kannski ekki endanlega í ljós fyrr en að mörgum árum liðnum, þá verður IceSave skuldin miklu stærri en þessar tölur sem þið nefnið. Þar til viðbótar myndu forsendur bresta fyrir greiðslum til innistæðueigenda vegna Kaupthing Edge á stöðum eins og Þýskaland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Austurríki, en þar hafa allir innistæðueigendur fengið allt sitt greitt í krafti neyðarlaganna.

  Neyðarlögin færðu kröfur innistæðueigenda framar í forgangsröð en aðrar kröfur. Þetta var gert nóttina fyrir hrun. Ljóst er að um afar grófa, og í raun afturvirka, lagasetningu var að ræða, enda neyðartilfelli. Reyna mun á lögmæti lagasetningarinnar í dómssölum Hæstaréttar næstu árin.

  Að mínu mati, á því ekki að semja um neinar IceSave greiðslur nema ljóst sé að neyðarlögin haldi eða að fyrirvari sé gerður í lánasamningnum vegna þessa.

  Mér þykir furðulegt að jafnvel andstæðingar IceSave samnings benda ekki á þessar staðreyndir. Eva Joly gerði það reyndar, með grein í norsku blaði, að mig minnir. Þá var fólk að furða sig á tölunni sem hún nefndi. Að mínu viti hafði hún lög að mæla.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur