Fimmtudagur 30.12.2010 - 10:48 - 13 ummæli

Neysla leyfð – sparnaður bannaður!

Það eru ekki miklar umræður á Íslandi um sparnað einstaklinga enda snýst allt um skuldir og afskriftir.  Það vill oft gleymast að krónan með sínum höftum mun verða næstu kynslóð ótrúlega dýr þegar kemur að sparnaði, sérstaklega lífeyrissparnaði.  Íslendingar hafa ekki sömu möguleika að dreifa áhættu og leita betri ávöxtunar, og þjóðir sem búa við alvöru gjaldmiðla.  Þó ástandið sé ekki beysið á Írlandi, sem virðist orðið samnefnari fyrir lönd í nýrri heimssýn Íslendinga, þurfa Írar ekki að setja sinn sparnað í evrur.  Þeir hafa val.  Þeir geta farið með sinn sparnað til Asíu, Brasilíu eða Svíþjóðar þar sem hagvöxtur og hagstjórn er með ágætum.

Launþegar í evrulöndunum þar sem hagstjórn hefur brugðist þurfa nefnilega ekki að hafa öll eggin í sömu körfunni.  Þeir geta farið með sinn sparnað út fyrir sitt hagkerfi og þannig tryggt sér að innanlandsvandamál brenni ekki upp sparifé þeirra.  Nei, hvað sem menn segja, þá er evran alvöru gjaldmiðill ólíkt krónunni.

Goldman Sachs spáir að hlutabréfavísitölur í bestu hagkerfum heims muni hækka um tæp 30% 2011.  Þetta er ofaná þá gríðarlegu hækkun sem hefur orðið á hutabréfavísitölum á þessu ári.  Allir helstu markaðir eru núna hærri en fyrir hrun.  Þótt fleiri bankar hafi hrunið í Bandaríkjunum en á Íslandi hafa bandarískar hlutabréfavísitölur náð sér á strik ólíkt þeirri íslensku, sem einfaldlega gufaði upp – stærð skiptir máli, sérstaklega þegar kemur að fjárfestingum.

Ef verðbólga verður hér um 2% í náinni framtíð geta menn varla búist við meiri nafnávöxtun á sitt sparifé en um 4-5% í þröngu og einsleitu eignasafni.  Munurinn á ávöxtunarmöguleikum á Íslandi og erlendis er því alltaf að aukast, sem mun gera það ómögulegt að aflétta gjaldeyrishöftunum, þau verða hér ásamt verðtryggingu næstu áratugina, enda litlar líkur á að ESB aðild verði samþykkt.

Fyrir metnaðarfulla unga einstaklinga sem vilja byggja upp góðan lífeyrissparnað næstu 20-30 árin og tryggja sér áhyggjulaust ævikvöld, er um að gera að koma sér út úr íslensku haftasvæði, og það sem fyrst.

Að leyfa óhefta erlenda neyslu en banna allan erlendan sparnað er ekki heilbrigður grunnur undir efnahagsstefnu Íslands og er einhver versta fjármálaarfleifð sem foreldrar geta fært börnum sínum.

—–

Gleðilegt ár.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • Kristinn M Jónsson

  Ótrúlega flottur pistill Andri. Þú kemur miklu fram í fáum línum, kanske of fáum að mér finnst Vinsamlega útskýrðu betur eftirfarnadi.

  „Fyrir metnaðarfulla unga einstaklinga sem vilja byggja upp góðan lífeyrissparnað næstu 20-30 árin og tryggja sér áhyggjulaust ævikvöld, er um að gera að koma sér út úr íslensku haftasvæði, og það sem fyrst.“

  Hvernig koma menn sér létt út úr íslensku haftasvæði á örskots stund eins og þú segir, og hvað í ósköpum er til bragðs að taka svona almennt.

  Erum við alveg gjaldþrota þjóð ? Á bara eftir að viðurkenna það opinberlega ? Segðu okkur meira………………………………….

 • Góður pistill. Hvað þarf gjaldmiðill að gera/geta til ess að teljast gjaldmiðill?
  1. Hann þarf að vera gjaldgengur í nánast öllum viðskiptum. Er krónan það?
  2. Það þarf að vera sama verð á honum allstaðar. Hvert er aflandsgengi krónunnar?
  3. Hann þarf að vera góður geymslumiðill fjármuna. Hvað er gengi isk gagnvar td dönsku krónunni sl 10-20-30 ár.
  4. Hann þarf að vera stöðugur. Um það ætti ekki að þurfa að ræða.

  Íslenska krónan er byrði á þjóðinni og ávísun á frekari óstöðugleika. Því fyrr sem menn sjá það því fyrr geta menn byrjað á að skoða hvað er til ráða. Vissulega eru nokkrir möguleikar í stöðunni; innganga í esb og samningar um ERMII, einhliða upptaka dollars/evru, fastbinding við myntkörfu. Það eina sem örugglega er ekki valkostur, ef við viljum vera í hópi þeirra ríkja sem bjóða upp á hvað bestu lífskjör, er að rembast eins og rjúpa við staur og neita að viðurkenna hið augljósa.

 • lydur arnason

  Sæll, Andri og takk fyrir fínan pistil.
  Langar að heyra þína sýn á hvort íslendingar séu samkeppnishæfir á erlendum mörkuðum án krónunnar?

 • Ágætur pistill Andri.

  Svo langar mig að mæla með þessum hérna frá Friðriki Jónssyni um svipað efni. Áhugaverðar pælingar.

  http://fridrik.eyjan.is/2010/12/plasturinn-af.html#comments

 • Jóhannes

  Takk fyrir mjög fínan pistil. Það er hægt að taka undir hvert einasta orð.

  Því miður virðast margir, þar á meðal margir helstu forystumenn í stjórnmálum, vera sáttir við þann vítahring og sjálfheldu sem komin er upp í hagkerfinu. Von um viðsnúning og aukinn hagvöxt byggist á óraunhæfum væntingum sem litla stoð hefur í raunveruleikanum. Að sönnu gengur grunnstarfsemi raunhagkerfisins sem betur fer vel og heldur efnahagslífinu gangandi, en eins og seðlabankinn hefur réttilega margbent á er ekki að vænta neinnar aukningar varanlegs hagvaxtar nema til komi aukin fjárfesting í atvinnulífinu.

  En gríðarlega óvissa og vitleysisgangur í pólitíkinni sem og mjög mikil óvissa í ýmsum mikilvægum efnahagsþáttum (t.d. uppgjör skuldamála fyrirtækja, óvissa um stöðu bankakerfisins. ofl.ofl.) gerir það að verkum að fjárfesting í atvinnurekstri sem byggir á íslenska hagkerfinu er gríðarlega áhættusöm. Færa má gild rök fyrir að skynsamasta leiðin fyrir þá sem eiga fé sé a halda þeim í sem mestu skjóli næstu misserin, helst með ríkisábyrgð, og ALLS EKKI taka áhættu í innlendum fjárfestingum með lausu fé eða lántökum. Svo virðist sem flestir séu á þessari skoðun.

  Hugsanlegt er að neikvæðir raunvextir, m.a. vegna áhrifa aukinnar skattlagningar nafnvaxta, þrýsti fjármagni í auknum mæli úr sparnaði yfir í neyslu og yfir á fasteignamarkaðinn. Víst er að stjórnvöld og aðrir munu rangtúlka þennan fjármagnsflótta sem jákvæða þróun og viðsnúning, enda hafa greiningaraðilar þegar fallið í þann fúla pytt. Með því að hamast á þeim rúmlega 1.500 milljörðum sem sitja í sparnaði í bankakerfinu má vissulega þvinga fram skammtímaáhrif í hagkerfinu sem hagstjórnaryfirvöld geta montað sig af, einkum ef kosningar eru í nánd. En eins og Andri hefur réttilega margbent þá er íslenskt hagkerfi í óleystum vítahring og því miður litlar líkur á varanlegum hagvexti á næstu árum. En lífskjör á Íslandi eru sem betur fer góð og verða áfram góð miðað við heiminn, þótt landið dragist aftur úr helstu nágrannaþjóðum í lífskjörum á næstu árum.

  Og ég er algerlega sammála Andra, ungt fólk með kraft og metnað ætti að skoða alvarlega að skapa sjálfum sér og afkomendum sínum tækifæri meðal annarra þjóða. Sem betur fer valdi ég sjálfur þann kost.

  Gleðilegt ár Andri, og takk fyrir mjög góða pistla. Vonandi verður framhald á komandi ári.

 • Rétt hjá Andra.

  Ástandið hér á landi hefur farið úr því að vera slæmt, í vont, í verra í skelfilegt. Skattar, atvinnuleysi, skuldir og höft. Vantar bara að Icesave hefði verið samþykkt – þá væri þetta fullkomin hörmung.

  Líkur á að höftum verði aflétt næstu misserin og árin eru litlar.

  Gjaldeyrishöftin eru uppáhalds fantatak Samfylkingarinnar við að knýja þjóðina inn í ESB og evru – því annars éti hún það sem úti frýs og eigi viðskipti með haftakrónum.

  Sá flokkur svífst einskis í trúboðinu.

 • Andri Haraldsson

  Sæll Andri Geir.

  Auðvelt svar við þessu vandamáli: banna óhefta neyslu erlendra aðfanga… Það góða við það er þá þarf fólk líka færri krónur til að fara á eftirlaun, því það verður færra sem hægt er að kaupa.

  Mætti t.d., ímynda sér að ef einhver vill ferðast erlendis, eða hringja til útlanda, eða kaupa varahluti í tól og tæki, osfrv., þá þurfi þeir að fá til þess miða hjá þeim sem stýra gjaldmiðlinum. Sé enga ástæðu fyrir því að þetta myndi ekki leysa allan vanda Íslendinga. Þyrftum kannski að taka vegabréfin af fólki líka, en það er nú ekki hátt verð fyrir það að tryggja íslenska menningararfleifð, og krónan er jú stór hluti af sjálfstæði okkar og menningu (hver man ekki þá dýrð sem álkrónan var).

  Þetta gæti líka stutt við innlendan iðnað — hver veit nema að á Íslandi búi í dag snjallir ungir menn og konur sem gætu með svona stuðningi fundið markað fyrir íslenskar tölvur, bíla, og sjónvörp. Við þurfum að hugsa alvarlega um þessi mál svo draga megi úr atvinnuleysi. Við þurfum bara að skipuleggja okkur betur og herða sultarólarnar um tíma…

  Gleðilegt ár — „Höftin Heim 2011“

  Andri

 • Andri er að leggja til að einstaklingar taki það upp hjá sjálfum sér að spara í formi ávísanna á auðæfi í öðrum löndum. Þetta er óvitlaus tillaga að mínu viti enda búið að spara of mikið í ISK. Þetta hefur þó lítið með íslenskar krónur að gera eins og Andri virðist halda enda alveg eins hægt að láta lífeyrissjóðina sem fyrir eru fjárfesta meira í ávísunum auðæfi í öðrum löndum fyrir ISK. Gallinn við þetta er hinsvegar sá að með þessu er tæknilega verið að flytja auðæfi sem gætu verið íslenska hagkerfinu til gagns í formi neyslu úr landi, til landa þar sem þau valda ógagni.

  „“Þeir geta farið með sinn sparnað til Asíu, Brasilíu eða Svíþjóðar þar sem hagvöxtur og hagstjórn er með ágætum.““

  Ef allir í heiminum færu með sinn sparnað til þeirra landa sem hagvöxtur og hagstjórn er með ágætum eins og Andri segir, verður hagvöxtur og hagstjórn ekki lengur með ágætum í þessum löndum heldur verður til svokallað bóluhagkerfi sem blæs út af erlendri fjárfestingu. Þess vegna eru Brazarnir núna komnir út í gjaldeyrishöft til þess að halda fjarfestingu út úr landinu, öfugt við það sem við glímum við.
  Sjálfbærni hagkerfa er lykillin að því að því að allstaðar sé þolanleg afkoma Andri.
  Hugmyndir um að þurfa ekki að vera sjálfbær er alltaf á kostnað annarra. Þjóðverjar Danir og fl eru núna búnir að vera spara evrur í tíu ár (Þeir hafa safnað skuldaviðurkenningum á verðmæti í öðrum löndum) Gallin við þessara skuldaviðurkenninga er einmitt sá að þær eru ávísanir á verðmæti í öðrum löndum. Og það er einmitt ástæðan fyrir því að evran hrundi í sumar, en henni er haldið á floti með því að þeir sem hafa verið að safna þessum skuldaviðurkenningum á verðmæti sem ekki eru til í öðrum löndum gefa eftir af kröfum sínum.

 • Guðmundur,

  Þessi færsla snýst aðalega um fjárfestingamöguleika einstaklingsins og þann kostnað sem fylgir gjaldeyrishöftunum. Það er alltaf skynsamlegt að dreifa áhættunni með því að fjárfesta í breiðu og dreifðu eignasafni í mörgum hagkerfum og í mörgum gjaldmiðlum. Á Íslandi er aðeins boðið upp á einn gjalmiðil og 320,000 manna hagkerfi. Það er lokað á aðrar möguleika sem standa launþegum í evrulöndunum til boða. Þeir sem ekki vilja fjárfesta í ávísunum geta fjárfest í gulli, það geta menn sem fá sín laun í evrum en ekki ISK.

  Kristinn,
  Við erum kannski ekki alveg gjaldþrota en við höfum allt of lengi lifað um efni fram á sparifé annarra. Við erum enn að gera það en í þetta skipti hafa íslenskir einstaklingar ekkert lánstraust erlendis og íslenskir bankar fá enga fyrirgreiðslu, nú þarf ríkið að skrifa upp á skuldirnar sem bankarnir skrifuðu upp á fyrir hrun til að halda upp norrænu velferðarkerfi á krít. Á endanum verður eitthvað að gefa eftir. Taumlaus erlend neysla og innflutningur getur ekki haldið endalaust áfram eins og ekkert hafi gerst. Með því að loka á sparnað í alvöru gjaldmiðli er verið að ýta ungu og efnilegu fólki úr landi.

  Hvers vegna er allt í lagi að eyða 10 m kr í CO2 spúandi jeppa en ekki má kaupa norsk ríkisskuldabréf eða gull til fjárfestingar?

  Hvers vegna ekki að færs höft af sparnaði og yfir á neyslu?

 • „“Guðmundur,

  Þessi færsla snýst aðalega um fjárfestingamöguleika einstaklingsins og þann kostnað sem fylgir gjaldeyrishöftunum. Það er alltaf skynsamlegt að dreifa áhættunni með því að fjárfesta í breiðu og dreifðu eignasafni í mörgum hagkerfum og í mörgum gjaldmiðlum.““

  Ég skildi þetta og bendi á að þetta gengur ekki upp nema að mjög lítill hlut heimshagkerfisins stundi þessa iðju (safna ávísunum á verðmæti í öðrum löndum). Hugmyndinn er sú sama og þegar þóðverjar og Danir fóru að safna ávísunum á verðmæti í öðrum löndum sem endaði með hruni evrunar í sumar.

 • Andri Thorstensen

  Guðmundur, það er rökrétt fyrir fólk hvar sem er í heiminum að dreifa áhættunni; það skiptir ekki máli hvort þú búir á Íslandi, Bandaríkjunum eða í Nepal.
  Ennfremur hefur Ísland upp á að bjóða ýmsa fjárfestingakosti fyrir útlendinga; áhættan er kannski meiri en sömuleiðis getur ávöxtunin verið góð. Þessvegna getur verið skynsamlegt fyrir útlendinga að fjárfesta hér líkt og það er skynsamlegt fyrir Íslendinga að fjárfesta í útlöndum; ekki öll eggin í sömu körfuna.
  (Annar kostur við þetta er sá að þá fáum við frekar þekkingu og sambönd með fjármagninu; ef t.d. Google eða Microsoft opnaði gagnaver á Íslandi hefði það mun meira að segja en ef íslenskir aðilar gerðu hið sama. Og svo hafa Íslendingar þekkingu á ýmsu öðru eins og jarðhita og fiskveiðum og geta gert góða hluti í þessum efnum í öðrum löndum.)

  Ef staðan væri orðin þannig að enginn vildi fjárfesta á Íslandi nema hann ætti engra annarra kosta völ (þ.e. útaf gjaldeyrishöftum) þá værum við í verulega slæmum málum.

 • Eg sagði í fyrsta innlegginu mínu hér.
  „“ Andri er að leggja til að einstaklingar taki það upp hjá sjálfum sér að spara í formi ávísanna á auðæfi í öðrum löndum. Þetta er óvitlaus tillaga að mínu viti enda búið að spara of mikið í ISK.““

  Þannig að þið nafnarnir ættuð að geta séð með því að lesa fyrsta innleggið að ég er samála þessu, þetta er óvitlaust þegar litið er til einstaklingsins sem gerir.

 • Sæll Andri

  Að vanda eru þetta eru orð að sönnu hjá þér. Því miður.

  Annars óska ég þér farsæls komandi árs.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur