Sunnudagur 22.05.2011 - 22:17 - 17 ummæli

Eignarétturinn og mannréttindi

Á mbl.is er frétt um að innanríkisráðherra Íslands telji að mannréttindi séu ofar eignaréttinum, þar sem hann segir: „Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið og hef sjálfur lengi bent á að þegar að valið stendur á milli einkaeignaréttar annars vegar og mannréttinda hins vegar að þá ber að forgangsraða í þágu mannréttinda.“

Þetta er mjög athyglisverð skoðun, sérstaklega í ljósi þess að eignarétturinn er friðhelgur samkvæmt stjórnarskrá Íslands og eru grunnurinn í bæði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að.

Það er rökvilla að valið geti staðið á milli mannréttinda og eignaréttar.  Eignarétturinn er hluti af mannréttindum alveg eins og rétturinn til lífskjara.  Það er ekki hægt að setja eina grein mannréttindasáttmála ofar annarri eftir geðþótta, slíkt er mismunun og er í andstöðu við almenn mannréttindi.

Það hlýtur að vera krafa að æðsti maður dómsmála innan framkvæmdavaldsins skýri þessa afstöðu sína og sýni fram á að hún stangist ekki á við stjórnarskrá landsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

 • Anna María Sverrisdóttir

  Ég skil ummælin þannig að ráðherrann telji að stundum verði einkaeignarrétturinn að vera í öðru sæti, ef það verður til þess að fjöldinn njóti mannréttinda sem annars bjóðast ekki. Ég tek undir það viðhorf.

 • Ómar Kristjánsson

  Innanríkisráðherrann er að boða það, gegnum morgunblaðið, að það eigi að taka það sem er inná bankabók.

  ,,Auðvitað er það mjög slæmt ef að hinn almenni maður tapar eign sem hann á inni á bankabók. En það er enginn stórkostlegur harmur.“ (Háttvirtur Innanríkisráðherra á mbl.is)

  Annrars e þetta hálfbroslegir taktar núna í mogga. Finna allt í einu að verða mánaðagamalt viðtal í prtúgölsku blaði við forseta þar sem spyrjandin spyr þeirra hnitmiðuðu spurningar, að forsetinn hafi boðað að finna yrði pólitíska lausn á skuldarmáli Íslands er snýr að Neytendavernd á EES Svæðinu – og hvaða lausn hann sjái fyrir sér.

  þá kemur þessia gamli frasi þarna, húkrunarkonur og bændur og fiskimenn og bla bla bla og evrópsku regluverki sé um að kenna etc. – og bætir svo við að eignir hinns fallna banka muni sennilega duga svo hvað sé vandmálið. Þetta er lausn forseta.

  http://aeiou.visao.pt/entre-as-exigencias-dos-mercados-e-a-democracia-eu-tenho-de-escolher-a-democracia=f600971

  Nú Nú. Gott og vel. Hvað gerist næst? Jú, viðtal við Mósedóttur þar sem hú má vart vatni halda af hrifningu yfir orðum forseta í hinu Portúgalska blaði – og í kjölfarið viðtal við Innanríkisráðherra þar sem hann staðfestir að allt sé rétt hjá Forseta og Mósedóttur.

 • Gunnar Tómasson

  Erlendir aðilar lögðu fram nokkur þúsund milljarða króna í þá svikamyllu sem var íslenzka bankakerfið fram til október 2008.

  Af hagtölum Seðlabanka Íslands má ráða, að gjaldeyrir streymdi frá Íslandi undir fölsku flaggi – sem vergar vaxtagreiðslur.

  Slíkar greiðslur jukust úr jafngildi 1/25 hluta vergrar landsframleiðslu árið 2004 í 1/3 hluta árið 2008.

  Í umsögn um þetta fyrirbæri í marz 2009 taldi ég það „jafngilda blóðmjólkun samfélagsins“ – og kom því áliti á framfæri við Rannsóknarnefnd Alþingis.

  Rannsóknarnefndin virðist ekki hafa talið þetta athugunarvert.

  Það er ekki svo fjarstæðukennt að ætla að meintar vergar vaxtagreiðslur til útlanda hafi að hluta verið erlent lánsfé á útleið eftir umbreytingu í lán til eignarhaldsfélaga sem fengu milljarða „lán“ í gegnum svikamylluna en reyndust ekki eiga túkall með gati þegar á reyndi eftir hrun.

  Stjórnarskrá Íslands er ekki ætlað að vernda þjófstolnar „eignir“.

  Hún var og er grundvöllur þjóðfélagssáttmála um mannréttindi og lýðræði – og vörn gegn því þjófræði sem hefur kollvarpað samfélaginu.

 • Andrés Kristjánsson

  Gunnar Tómasson

  23.05 2011 kl. 01:15

  Sammála.

 • Anna,
  Vandamálið við að, stundum verði eignarétturinn að vera í öðru sæti er hvenær og undir hvaða kringumstæðum? Ögmundur segir að peningar á bankabók verði að geta tapast til að halda uppi lífskjörum til þeirra verst settu? Hvað með aðrar eignir, hús og jarðir, verður fólk að gefa þær upp líka á einhverjum tímapunkti.

  Í svona kerfi hver leggur peninga í banka? Betra að hafa þá undir koddanum.

  Hvaða erlendur aðili halda menn að láni til lands þar sem eignarétturinn er ekki friðhelgur og verður settur í „annað“ sætið eftir geðþótta.

  Einkarétturinn er hornsteinn hins kapítalíska hagkerfis ssm drífa hagkerfin á hinum Norðurlöndunum. Þar skattlegga menn hagnað en taka ekki eignir fólks, á þessu er mikill munur.

  Hvers vegna eru Forsetinn, Ögmundur og Lija ekki að predíka þennan boðskap á hinum Norðurlöndunum? Ætli margir þar myndu hlusta á svona vitleysu.

  Ísland er land öfganna, við sveiflumst frá stjórnlausri frjálshyggu yfir í einhverja eignaupptöku útópíu ala Marx. Hvers vegna getur Ísland ekki tekið hin Norðurlöndin sem fyrirmynd, þar sem menn halda sér á skynsömu brautinni.

  Þessi tilraunastarfsemi Forsetans og VG er ekki ókeypis – þeir sem ekki vilja taka þátt í henni flytja bara til Noregs þar sem menn eignarrétturinn er friðhelgur.

 • Andrés Kristjánsson

  Andri Geir hver er þín afstaða til Cochabamba vatnsstríðsins? Eignarréttur vs mannréttindi.

 • Gunnar og Andrés,

  Hvernig eiga erlendir aðilar að gera greinamun í framtíðinni á þjófótta Íslendinginum og hinum heiðarlega? Er ekki einfaldast fyrir þá að láta Ísland eiga sig.

  Annars er Ögmundur ekki að tala um erlenda aðila heldur hinn vejulega Íslending. Gildir eignarréttarákvæðið ekki fyrir sanna Íslendinga?

 • Andrés,
  Eignarétturinn er hluti af mannréttindum, það er ekki hægt að slíta þetta í sundur.

 • Þessi ummæli Ögmundar eru með ólíkindum.

  En þau sýna hugsunarhátt kommúnistans.

  Fullkomið hneyksli að þessi maður skuli vera dómsmálaráðherra.

  Talaði ráðherra með þessum hætti erlendis væri honum strax vikið úr starfi.

  Ögmundur ræður ekki við embætti sitt. Hann hefur engan skilning á lögum og rétti.

  Ótrúlegt!

 • Páll Þór Jónsson

  Málið snýst um Icesave að hluta og ákvörðunina sem tekin var í upphafi hruns að tryggja allar íslenskar innistæður upp í rjáfur. Þar gengu stjórnvöld líklega alltof langt þegar þau gengu í fulla ábyrgð fyrir öllum innistæðum (ekkert þak) og standa síðan uppi með óréttlætið, að hafa tryggt innlendar innistæður en neita í nafni þjóðarinnar að greiða erlenda hlutann.
  Það er einfaldlega ekki hægt að laga þetta eftirá.

  En þá koma menn fram með þetta bull um eignaupptöku í nafni réttlætis. Það er nefnilega allt í lagi að taka eigur fólks svo framarlega að ég lendi ekki undir hnífnum sjálfur.

  Um þetta snýst þessi hringavitleysa.

  Andri Geir: Það er að sjálfssögðu rétt að eignaréttur er HLUTI af mannréttindum ALLRA, ekki sumra.

 • Steini Jóns

  Andri Geir:

  Ég vil einnig óska eftir að þú svarir spurningu Andrésar: Hvort kemur á undan, rétturinn til að fá vatn að drekka eða eignaréttur?

 • Steini,
  Stjórnvöld hafa alltaf tækifæri að taka eignir eignarnámi til að standa vörð um almannaheill. Sú aðgerð rúmast innan stjórnarskrárinnar enda komi fullar bætur fyrir.

 • Steini Jóns

  Andri, Þetta svarar ekki spurningunni!

  Hvort kemur á undan?

 • „“Eignarétturinn er hluti af mannréttindum, það er ekki hægt að slíta þetta í sundur.““
  Eignaréttur á peningum er ávísun á vinnu annara manna.
  Þannig er eignaréttur á peningum eiginlega bara réttur til að eiga þræl.
  Eignaréttur á húsi er réttur til að eiga dauðan hlut.

  Finnst þer Andri ekki vera neinn munur á þessu tvennu ?

 • Guðmundur,
  Stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmáli Evrópu gera ekki greinarmun á eignarflokkum. Upprunalega voru peningar ávísun á eignir, þe gull. Það er ekki hægt að segja að peningar séu aðeins ávísun á vinnu, þeir eru alveg eins ávísun á fastar eignir, þó búið sé að afleggja gullfótinn.

  Ef peningar eru settir neðar föstum eignum hrynur trú almennings á peningum, þá fara menn að vilja fá borgað í öðru, vöru og þjónustu og dollurum. Það eru mörg dæmi í veraldarsögunni þar sem peningar ríkis var ekki treyst vegna óvissu um eignarétt. Þar vilja menn fá borgað í dollurum.

  Ef þessi leið Ögmundar yrði farin á Íslandi myndi eftirspurn eftir dollaraseðlum og peningaskápum stóraukast.

 • Andir Geir,

  Þú hefur fullkomlega rétt fyrir þér. Harðir kommar og nokkrir anarkistar mögla – enda eignarréttur löngum verið þyrnir í þeirra holdi.

  Hitt er að Ögmundur snýr þessu mannréttindamáli á hvolf. Hann var reyndar réttu megin í málinu sjálfu – en misskilur algjörlega prinsíppið sem lá þar að baki.

  Að segja NEI við Icesave var einmitt til að virða séreignarrétt íslensks almennings – þ.e. ekki væri boðlegt að taka eignir af almenningi til að borga skuldir sem þeir stofnuðu ekki til.

  Að borga Icesave með eigum almennings hefði nefnilega verið brot á mannréttindum, a.m.k. anda þeira, þ.e. að ríkið þjóðnýti skuldir einkafyrirtækja og dreifi þeim eins og skítadreyfari yfir allan almenning.

  Blessaður kallinn Ögmundur snýr þessu á hvolf – og segir, í tengslum við NEI við Icesave, að það geti verið réttlætanlegt að brjóta mannréttindi á fólki ef greiðslur til bótaþega krefjast þess..!

  Hann var því á móti Icesave, með réttu – en misskilur eitthvað prínsíppið sem hann stóð með eins og klettur.

  Hann var að verja eignarréttinn – en alls ekki að fórna honum.

  Það mættu stjórnvöld á Írlandi, Grikklandi, Portúgal, Spáni og víðar velta fyrir sér þessi dægrin..

 • @ Andri
  „“Það eru mörg dæmi í veraldarsögunni þar sem peningar ríkis var ekki treyst vegna óvissu um eignarétt. Þar vilja menn fá borgað í dollurum.““

  Má þá ekki segja að dollar sé öruggari ávísun á vinnu þræls en íslensk króna og þess vegna sæikst þrælahaldarinn að sjálfsögðu frekar eftir dollar. : )

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur