Þriðjudagur 14.08.2012 - 13:29 - Lokað fyrir ummæli

Nei ESB, en hvað um EES?

Umræðan á Íslandi nær yfirleitt ekki lengra en til næstu kosninga.  Það hefur verið lengi ljóst að pólitískur stuðningur við ESB umsóknina er takmarkaður og lítt fallinn til atkvæðaveiða.  Það eru yfirgnæfandi líkur á að aðildarumsóknin endi í besta falli í langtímafrosti ef hún verður ekki send út á Sorpu eftir næstu kosningar.  En hvað þá?

Hver er afstaða þjóðarinnar til EES samningsins sem gerði útrásina, Icesave og hrunið mögulegt?  Því án EES eru litlar líkur á að Ísland hefði lent í þeim hremmingum sem enn er verið að glíma við.  Og ekki nóg með það, EES áskrift er og verður alltaf ólýðræðislegri en full ESB aðild, og líklega hafa Íslendingar ekki afsalað sér meira fullveldi með samningum við erlendar þjóðir síðan 1262.

Það er því ótrúlegt að EES samningurinn skuli ekki fá meiri umræðu.  Hver er framtíð hans eftir að ESB aðildarviðræðum verður slitið?  Flestir virðast halda að EES muni vara að eilífu og að ekki þurfi að hafa áhyggur af honum.  En er það örugg ályktun?  Varla.  Íslendingar ráða ekki einir för með EES.

Eins og flestir andstæðingar ESB benda réttilega á, er ESB í krísu og mikilla breytinga að vænta í framtíðinni á þeim bæ.  Ljóst er að þær breytingar mun ná til EES eins og annara hluta innan ESB.  Líklegt er að menn munu beina augum sínum að lýðræðishalla og kostnaði samfylgjandi samningnum.

Þeim spurningum sem verður varpað fram munu snúast um hvort ESB eigi að eiga aðila að samningum sem innihalda mikinn lýðræðishalla og hvort EES löndin séu að borga “eðlilegt” verð fyrir EES aðild?

Líklegt er að menn líti til tvíhliða samnings ESB við Sviss en eftir því sem ég kemst næst er kostnaður Sviss við tvíhliða samninginn mun hærri en sambærilegur EES kostnaður.  Þær raddir munu gerast háværari í Brussel sem spyrja hvers vegna EES löndin eigi að fá “afslátt” af aðgangi að ESB mörkuðum, sérstaklega á tímum þegar kostnaður við björgunaraðgerðir ESB hækkar og hækkar.

Það ætti því að vera nokkuð ljóst að ESB mun kalla á breytingar á meðlimsgjaldi EES áskriftar þegar Ísland slítur aðildarviðræðum.  Innan ESB munu menn draga þá ályktun, ef Ísland slítur aðildarviðræðum en vill halda í EES, að hækka megi gjaldið á EES ákskriftinni enda þurfi að tryggja að full ESB aðild sé alltaf mun fjárhagslega hagkvæmari en aukaaðild í gegnum tvíhliða samninga eða EES.

Að slíta ESB viðræðum verður því varla kostnaðarlaust fyrir Ísland.  En það er ekki bara áskriftargjaldið sem mun að öllum líkindum hækka, samningsstaða Íslands mun að sama skapi veikjast enda mun Brussel halda á góðum spilum á meðan Ísland segir nei við ESB en já við EES.  Nei, það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu mikilvæga máli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur